Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 17:28:08 (2831)

1997-12-19 17:28:08# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[17:28]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er búið að skera Sjúkrahús Reykjavíkur nú þegar inn að beini og það er ekki hægt að standa hérna eins og jólasveinn í ræðustól og segja: Við verðum bara að leyfa okkur þann munað að ganga af þingi með þá sannfæringu í farteskinu að hægt sé að hagræða enn meira. Það er búið að hagræða þessum spítala núna síðustu 4--5 árin og það vita allir að ekki er hægt að hagræða þar meira. Það gildir um hv. þm. eins og aðra hv. stjórnarliða að það er orðið til skammar að eiga orðræður við þá um þessi mál. Þeir hafa aldrei reynt að hrekja það sem við höfum sagt um þann mikla vanda sem blasir við. Þeir tala endalaust um einhverja stýrinefnd og um einhverja nauðsynlega endurskipulagningu og þjónustusamninga en þeir hafa aldrei bent á hvernig hægt er að hagræða. Hv. þm. benti á skýrslu VSÓ. Það er algerlega út í hött hjá honum að gera það vegna þess að hann veit að þeirri vinnu sem þar er í gangi lýkur ekki fyrr en um mitt næsta ár og þá tekur við endurskipulagningin ef það verður niðurstaða um það þannig að ekki er um það að ræða að hægt verði að hagræða eitthvað á grundvelli þeirrar skýrslu fyrr en í fyrsta lagi undir lok næsta árs. Ég dreg af því þá ályktun, herra forseti, að það væri ekki hægt að spara neitt með því fyrr en þá kannski þarnæsta ár og hvernig eigum við þá að reka spítalana árið 1998?