Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 17:30:56 (2833)

1997-12-19 17:30:56# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, Frsm. minni hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[17:30]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er laukrétt sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl. að tekjugrundvöllur fjárlagafrv. er ótraustur að nokkru leyti. Enn fremur er líka rétt að útgjöld eru augljóslega vanmetin um háar fjárhæðir þannig að ljóst er að að óbreyttu stefnir í að fjárlög 1998 verða að ári komanda afgreidd með verulegum halla þegar gengið verður frá fjáraukalögum. Þetta er okkur í minni hluta fjárln. ljóst og því leggjum við til tekjuöflunartillögur af því að við viljum ekki stefna rekstri ríkissjóðs í tvísýnu og í hallarekstur í hásveiflu góðærisins.

Hitt vil ég líka fjalla aðeins um sem fram kom hjá hv. þm. um skipan stjórnar sjúkrahúsa. Auðvitað er ekki eðlilegt að ekki fari saman að sá sem fer með verkefnið og greiðir það ráði ekki framkvæmd mála. Það er óeðlilegt fyrirkomulag. Því er ég þeirrar skoðunar að heilbrrh. eigi að ráða því hverjir sitja í stjórnum sjúkrahúsa. Ég tel það eðlilegt fyrirkomulag og það telja fleiri en ég, þar á meðal hv. þm. Sturla Böðvarsson sem telur mjög eðlilegt fyrirkomulag að bankamálaráðherrann skipi allt bankaráð Landsbankans, allt bankaráð Búnaðarbankans og hann telur eðlilegt að samgrh. skipi alla stjórn Pósts og síma svo dæmi sé tekið og að iðnrh. skipi alla stjórn Landsvirkjunar. Þetta eru allt lagabreytingar sem gerðar hafa verið á kjörtímabilinu sem færa skipunarvaldið á stjórnum stofnana úr hendi Alþingis til fagráðherra. Ég vænti þess því að hv. þm. Sturla Böðvarsson sé mér sammála um þetta atriði.