Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 18:17:46 (2838)

1997-12-19 18:17:46# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SJS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[18:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nú líður að lokum þessa þinghalds og afgreiðslu fjárlagafrv. Við okkur blasir að í því eru ekki fólgin þau tímamót sem ýmsir aðstandendur þess voru að boða hér á haustdögum. Þá var talað um að ríkisstjórnin hygðist nota góðærið til að afgreiða fjárlögin með myndarlegum tekjuafgangi, greiða niður skuldir og samt þótti ýmsum ekki nóg að gert. Helstu hugmyndafræðingar stjórnarstefnunnar í þjóðfélaginu eins og Verslunarráðið og önnur slík batterí sendu frá sér harðorðar og snöfurmannlegar ályktanir um það að þetta væri alls ekki ásættanlegt, að ríkissjóður yrði rekinn með svona eins og 1--1,5 milljarða afgangi á næsta ári. Þar yrði að gera mun betur og ekki dygði minna en 4--6 milljarðar í afgang ef vel ætti að vera. Annars yrði þensla, annars væru menn ekki að borga niður skuldir og sýndu ekki þau búhyggindi í góðærinu sem nauðsynleg væru.

Nú blasir við að frammi fyrir alþjóð lokar hæstv. ríkisstjórn fjárlögunum með stóru gati. Það er e.t.v. ekki rétt að segja að fjárlagafrv. nú sé gatasigti eins og stundum hefur verið heldur er nær að líkja því við eitthvert annað verkfæri í hverju miðju er eitt stórt gat og það gat er auðvitað aðallega á einum stað, þ.e. í heilbrigðismálunum. Þetta er óumdeilt. Þetta hefur ekki verið hrakið. Svo er komið í umræðunni, við 3. umr. fjárlaga eftir 2. umr. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og fleiri mál, að stjórnarliðar, ráðherrar og talsmenn ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum eins og hv. formaður fjárln., reyna ekki að bera á móti því að þetta sé staðreyndin, þetta sé niðurstaðan. Og hvort gatið er nákvæmlega upp á 1,5 milljarða eða 1.200 millj. að viðbættum uppsöfnuðum vanda á þessu ári, skiptir kannski ekki öllu máli, en stærðargráðan er þessi. Þá er nú tekjuafgangur sem samkvæmt áætlun núna og er upp á einhverjar 100 millj. plús/mínus kannski einhverja tugi miðað við breytingartillögur sem hér eru að koma fram undir lokin og væntanlega hafa stuðning frá formönnum þingflokka og allri forustu þingsins, þá er það ekki orðið mikið. Það er ekki orðið mikið miðað við milljarðinn eða tvo sem ríkisstjórnin sjálf ætlaði sér að hafa í afgang. Og enn þá minna er það miðað við hagspekingana hjá Verslunarráðinu sem vildu hafa marga milljarða í afgang af fjárlögum. Og hver er niðurstaðan? Hver er reynslan líkleg til að verða þegar á þessu ári, 1997, góðærisárinu mikla, tekst ekki einu sinni að reka ríkissjóð nema í besta falli á núllinu. Ástæðan fyrir því að ríkissjóður núna, miðað við fjáraukalög, stendur samkvæmt bókhaldinu til þess að verða kannski 150--170 millj. yfir núllið er einfaldlega sú að hundruð milljóna bíða í uppsöfnuðum vanda úti í þjóðfélaginu, úti hjá stofnunum, úti hjá sjúkrahúsunum sem eftir á að taka á þannig að í reynd er verið að reka ríkið og stofnanir þess með halla á árinu 1997.

Þetta mikla gat sem þarna er á ferðinni við sjúkrahúsin er einn ljótasti bletturinn á afgreiðslu þessara mála nú. En það er ekki bara gatið og fjárvöntunin sem slík sem er fyrir neðan allar hellur heldur eru það líka vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar og sú aðferðafræði að halda mönnum í keng og óvissu um sín mál. Ég ætla að nota þetta síðasta tækifæri, herra forseti, sem hugsanlega kann að verða í umræðum á Alþingi fyrir jólaleyfi til að mótmæla þessum vinnubrögðum einu sinni enn, þessari aðferðafræði, að þrengja að stofnunum, halda þeim í klemmu og setja síðan einhverja fjármuni í pott sem auðvitað eru engan veginn nógir og láta menn svo bítast um það eða koma skríðandi á knjánum og biðja um einhverjar ölmusur úr því.

Það er ógeðfellt svo ekki sé meira sagt sem er að gerast í heilbrigðismálunum hvað þetta snertir, hvað vinnubrögðin snertir, þ.e. að sjúkrastofnunum í landinu er att saman hverri gegn annarri. T.d. er öllum sjúkrahúsum á landsbyggðinni og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þar með töldu, ætlað að bítast um sama pottinn samkvæmt fjáraukalögum upp á 200 millj. Og á næsta ári er verið að gera hvað? Þá er búinn til pottur upp á 300 millj. eða svo sem að vísu er verið að stækka hér vegna þess að hluti af húsunum er að hrynja, eins og Sjúkrahús Reykjavíkur. Og þó að hann fari í 300 eða 325 millj. breytir það ekki því að um þetta eiga öll sjúkrahús í landinu að fljúgast á á næsta ári. Og vitað er að fjárvöntunin er hátt á annan milljarð. Svarið er víst að það á að leggja niður heilbrrn. eða a.m.k. taka allt vald af því og setja upp stýrinefnd sem er nýjasta fyrirbærið. Og eftir fréttum sem ég fékk í dag um það hvernig hún yrði mönnuð þá verð ég að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst það reginhneyksli. Í fyrsta lagi er alveg ljós að fjmrn. mun verða þar meira og minna allsráðandi og heilbrrn. verður þar eins og mús undir fjalaketti. Síðan koma inn í nefndina fulltrúar stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík, ef ég hef heyrt rétt, og það er í sjálfu sér fullkomlega eðlilegt. En þá er ekki eftir nema eitt sæti í nefndinni. Og hver sem í það verður valinn, þá er verið að segja með þessu að aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu munu ekki eiga aðild að þessari nefnd og þær eiga að sækja undir hana um sína hlutdeild í þessum allt of litla potti. Hvers konar aðstæður er verið að búa til fyrir forráðamenn og stjórnendur þessara stofnana? Það er verið að stilla upp málum þannig að þarna séu andstæðingar á ferð. Það er óhjákvæmileg afleiðing af þessum vinnubrögðum að þeir sem liggja utan nefndarinnar upplifi sig sem utan garðs og þeir verði að sækja á hina. Menn munu auðvitað upplifa fulltrúa stóru spítalanna sem fá menn inn í nefndina sem gæslumenn þeirra hagsmuna þar inni. Ég er ekki að segja að þeir eigi ekki að hafa aðild þar að og áhrif. En þessi uppstilling er algerlega óþolandi. Hvernig ætlar hv. þm. Jón Kristjánsson að ræða við þau í Sjúkrahúsinu í Neskaupstað og útskýra fyrir þeim hvernig þetta sé nú sanngjarnt og réttlátt í þeirra garð? Er við því að búast að fulltrúi fjmrn. sem verður örugglega embættismaður í Reykjavík, að fulltrúi heilbrrn. sem verður örugglega embættismaður í Reykjavík, að fulltrúi Sjúkrahúss Reykjavíkur sem verður að sjálfsögðu starfsmaður Sjúkrahúss Reykjavíkur og fulltrúi Landspítalans sem verður að sjálfsögðu einhver á Landspítalanum, hafi mikinn skilning á því eða líti á það sérstaklega sem sitt hlutverk að fara ofan í saumana á vandamálum heilsugæslu í afskekktum landsbyggðarhéruðum? Það verður meira ofurmennið sem verður fimmti maðurinn í nefndinni ef hann á að gæta allra þeirra hluta sem þar þarf að passa upp á.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur, eins og margoft hefur komið fram í þessari umræðu, mikla sérstöðu meðal sjúkrastofnana á landsbyggðinni og það væri miklu nær að það ætti sinn sjálfstæða fulltrúa í nefndinni og síðan kæmi fullgild aðild minni sjúkrahúsa á einhvern hátt til sögunnar á sjálfstæðum forsendum, t.d. tveir menn frá þeim.

Ef þessar fréttir sem ég heyrði eru réttar, herra forseti, um það hvernig þessi stýrinefnd eigi svo ofan í kaupið að vera samansett ---- og mér sýnist á höfuðhreyfingum hér í salnum að ég fari nærri um það --- þá er það algert hneyksli. Það er hneyksli í ljósi þeirra aðstæðna sem liggja fyrir í málaflokknum. Það er endanleg og fullkomin niðurlæging fyrir heilbrrn. sem ræður ekki neitt við neitt eins og komið hefur á daginn og virðist bæði þannig mannað og svo veikt stjórnsýslulega í öllu tilliti að það ráði bara ekki við neitt. Er þá lausnin sú að stofna nýtt heilbrrn. úti í bæ sem verður meira og minna undir stjórn fjmrh.? Það liggur alveg í hlutarins eðli. Þetta er komið í hinar megnustu ógöngur, herra forseti, og þessu er óhjákvæmilegt að mótmæla.

Ég ítreka enn og aftur að lokum óánægju mína með þessi vinnubrögð. Þau eru ófagleg í hæsta máta þegar fagráðuneytið er svipt sjálfstæði sínu með þessum hætti. Þau eru slæm frá sjónarhóli þingræðisins. Því að í raun og veru er þessari stýrinefnd úti í bæ framselt fjárveitingavald í stórum stíl með því að taka óskiptar stórar fjárhæðir og færa þær út í nefnd af þessu tagi. Ég veit ekki hvernig t.d. einstökum nefndarmönnum í fjárln. líður sem hafa verið að fara ofan í saumana á og liggja yfir skiptingu fjármuna niður í nokkur hundruð þús. kr. eða jafnvel tugi. Þar hefur verið unnin sundurliðuð vinna af þessu tagi. En svo allt í einu er fjárveitingavaldið hvað varðar efsta lagið í fjárveitingum til heilbrigðismála bara tekið á einu bretti og sett út úr Alþingi og út úr heilbrrn. til einhverrar stýrinefndar úti í bæ. Þetta eru vinnubrögð sem eru gjörsamlega út í hött, herra forseti.

Ég vil einnig nefna samgöngumálin og byggðamálin, herra forseti, hér við lokaafgreiðslu fjárlagafrv. Það tengist þá auðvitað heilbrigðismálunum og mörgu fleiru sem við höfum sérstaklega fjallað um. Í raun og veru er alveg með ólíkindum að við aðstæður eins og þær sem menn eru að glíma við í mörgum byggðarlögum vítt og breitt um landið í mikilli vörn og má segja lífsbaráttu fyrir framtíð og stöðu sinna byggðarlaga, sé sá stuðningur helstur sem menn verða varir við frá ríkisvaldinu og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með sjálfan Framsfl. innan borðs, þrengingar af þessu tagi varðandi starfrækslu undirstöðuþjónustu vítt og breitt um landið. Það er það sem mætir mönnum. Í fyrra var það framhaldsskólinn og sérstaklega litlu framhaldsskólarnir. Þá var þjarmað sérstaklega að þeim og margir þeirra hafa ekki fengið leiðréttingu sinna mála nema þá að litlu leyti. Nú eru það heilbrigðismálin. Nú er rjúkandi vandi í rekstri hverrar heilbrigðisstofnunarinnar á fætur annarri um allt land. Og þó að menn hafi verið uppteknir af vanda stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík sem er ærinn og tilefni eru til, þá mega menn heldur ekki gleyma því að við alveg sambærilegan vanda, a.m.k. hlutfallslega, er að glíma í fjölmörgum heilbrigðisstofnunum víða um landið. Ekki er öryggisleysið og óvissan minni en þar þar sem menn ofan í kaupið eru iðulega í hreinustu vandræðum með að fá yfir höfuð nokkurt starfsfólk til starfa af því að eitt af þessu niðurskurðarfári hefur gengið yfir starfskjörin. Búið er að afnema staðaruppbætur og skerða kjör t.d. lækna í einmenningshéruðum þannig að þeir eru margir hverjir á bak og burt, jafnvel menn sem voru rótgrónir og innfæddir starfandi í sínum heimabyggðum og höfðu um áratuga skeið, hafa í mótmælaskyni við þessi vinnubrögð yfirgefið sínar stöður. Ég þekki mörg slík dæmi. Þetta er þá framlag hæstv. ríkisstjórnar til byggðamálanna að einu ónefndu gleymdu og það eru samgöngumálin.

[18:30]

Herra forseti. Ég hélt að það væri brandari þegar ég sá nýjustu brtt. sem dreift hefur verið á borð þingmanna. Ég veit að þær eru margar og það er ekki víst að allir átti sig á þeim. En hér kemur brtt. frá ekki minni manni en hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmi Egilssyni, formanni efh.- og viðskn. Og hvað hefur hann helst til málanna að leggja núna í formi brtt. við lokfaafgreiðslu fjárlaganna? Að auka skerðinguna á vegafé um 100 millj. kr. Stela 100 millj. í viðbót af mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar. Það er jólaglaðningurinn, Þorláksmessugjöfin til þeirra á Norðurl. v. og annars staðar um landið frá þessum hv. þm. auðvitað studdum af öllu stjórnarliðinu eins og við er að búast. Þetta mun vera vegna þess, herra forseti, að menn lögðust í reikninga í Vegagerðinni og fjmrn. og fundu það út að hugsanlega mætti hafa einar 120 millj. í viðbót út úr hinum mörkuðu tekjum á næsta ári. (Gripið fram í: Hvaðan?) 120 millj. úr þungaskatti, bensíngjaldi og öðru slíku. Og hvað er þá gert við þessar 120 millj.? Jú, hæstv. fjmrh. tekur 100 og 20 eru svo settar í einhverjar endurgreiðslur á þungaskatti eða öðru slíku. Sem sagt, Vegasjóður fær ekki eina einustu krónu af þessum nýjasta tekjuauka sem nýjar spár um markaðar tekjur gefa, ekki eina einustu krónu. Hlutfallið er komið í fimm af hverjum sex sem hæstv. fjmrh. hirðir beint þannig að hæstv. samgrh. er gjörsamlega búinn að missa þetta út úr höndunum á sér. Hann fær enga einustu krónu af því sem bætist við. Það fer allt í ríkissjóð eða í einhver önnur verkefni sem ráðherrarnir ákveða. Þá finnst mér að það sé kominn tími til fyrir hæstv. samgrh. að segja af sér. Hann hefur ekkert að gera í þessu embætti lengur ef staða hans er orðin þannig að hann nær ekki að halda einni einustu krónu af því sem er að bætast við í vegatekjum. Hann ætti að fara að hugleiða það að fá sér eitthvað annað að gera. Það ganga sögur reyndar, herra forseti, um að það eigi eitthvað að reyna að fríska upp á ríkisstjórnina, a.m.k. að setja alla á vítamín og jafnvel skipta um einn og einn mann núna í nágrenni við áramótin og þá er spurning hvort ekki sé rétt að fara aðeins yfir það hvernig menn hafa verið að standa sig upp á síðkastið þegar farið verður að setja á aftökulistann.

Eina stofnun enn vil ég aðeins nefna og hún tengist einnig þessu með byggðamálin, góðærið og frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar og það er Háskólinn á Akureyri. Háskólinn á Akureyri fagnaði tíu ára afmæli á þessu ári við miklar vinsældir. Þar var margt stórmennið og glæsimennið og þar voru ráðherrar. Þeir komu að vísu ekki með miklar gjafir satt best að segja en þó góðan hug að menn töldu og allir luku lofsorði á það hversu myndarlega og vel þessi stofnun hefði staðið að verki, hversu glæsileg uppbygging hefði þarna orðið og hversu þetta væri nú stórmerkt fyrirbæri í íslenskun byggðamálum því þarna væru menn virkilega að gera eitthvað sem bryti á móti straumnum. Og til viðbótar voru mönnum kynnt á afmælisárinu áform háskólans við uppbyggingu á sinni nýju lóð á Sólborgarsvæðinu þar sem ég hef nú látið út úr mér að muni verða fallegasti háskóla-,,campus`` norðan Alpafjalla og er þá mikið sagt auðvitað fyrir þá sem hafa komið til Cambridge og víðar. En það blæs ekki nógu byrlega með þessa uppbyggingu þrátt fyrir að allir styðji hana í orði því ekki er ein króna sérmerkt í það verkefni á fjárlögunum og það er verið að gaufa við það mánuðum saman að þiggja tilboð Akureyrarkaupstaðar um að fjármagna að fullu byggingu rannsóknarbyggingar við skólann og það stendur bara á því að koma saman samningi um það mál. Þetta er alveg yfirgengilegt verð ég að segja. Hvað eru menn að gera? Hvers konar verkleysi er þetta og ræfildómur? (Gripið fram í: Hafa áhyggjur af byggð í landinu.) Og svo hafa menn áhyggjur af byggð landsins og halda dýrar og fínar ráðstefnur og gapa þar hver upp í annan um þennan mikla fólksflótta af landsbyggðinni. Er það nema von þegar það sem frá ríkisstjórninni kemur í öllu góðærinu er þetta, þ.e. þrengingar í rekstri undirstöðuþjónustunnar, það er niðurskurður á vegaféð og það er ekki einu sinni hægt að fá framgang flaggmála af því tagi sem uppbygging Háskólans á Akureyri hefur verið fyrir landsbyggðina. Og það hefur verið fyrir fleiri en Norðlendinga og Akureyringa. Menn hafa almennt staðið saman um það mál á allri landsbyggðinni að mikilvægt væri að sýna að svona starfsemi gæti byggst upp víðar en við Faxaflóann þrátt fyrir allar þær andstæður sem á móti því væru. Meira að segja gætu menn jafnvel byggt upp vísi að svona starfsemi í Vestmannaeyjum eins og kunnugt er og á Austurlandi og menn hafa verið að gera sér vonir um að þetta yrði frekar fordæmi fyrir aðra heldur en hitt. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta metnaðarleysi undrar mig.

Ég hef því leyft mér að flytja brtt., herra forseti, um að þetta verk, uppbygging Háskólans á Akureyri, fái þó a.m.k. nokkra tugi milljóna sérmerkta til nýframkvæmda þannig að enginn vafi leiki á um að þær framkvæmdir eigi að hefjast á næsta ári og þá er ég að tala um byggingarframkvæmdir á vegum háskólans sjálfs á Sólborgarsvæðinu til viðbótar því sem yrði gert á grundvelli samningsins við Akureyrarkaupstað. Mér er að vísu ljóst að fáeinar krónur eru hugsaðar í þetta af sérstökum óskiptum lið. Samkvæmt einhverri sundurliðun sem þar er sá ég þar nafn Háskólans á Akureyri. En það er auðvitað ekki það sama og að Alþingi undirstriki með slíkri afgreiðslu það sem ég legg til, að ætlunin sé að þarna hefjist byggingarframkvæmdir af fullum krafti og myndugleik strax á næsta ári.

Ég vil segja, herra forseti, að lokum að ég tek undir tekjutillögur minni hlutans. Ég tel skynsamlegt og ég tel það reyndar sérstaklega ábyrgt af minni hlutanum við þessar aðstæður og þrátt fyrir að breytingartillögur okkar við aukin framlög til ýmissa verkefna hafi verið felldar við 2. umr., að við höldum okkar striki og leggjum til þá viðbótartekjuöflun í ríkissjóð sem við höfum talað fyrir. Af hverjum gerum við það, herra forseti? Við gerum það vegna þess að við teljum skynsamlegt að nota góðærið til þess, ef svo vel vill til, að reka ríkissjóð með afgangi. En við teljum líka nauðsynlegt að ríkissjóður hafi borð fyrir báru vegna þeirra óumflýjanlegu útgjalda sem liggja fyrir og hann mun þurfa að standa straum af á næsta ári, t.d. gatið í heilbrigðismálunum.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að ein mestu mistök sem þessi ríkisstjórn hafi gert í efnahagsmálunum hafi verið hinar flötu og bráðræðislegu ákvarðanir sem teknar voru í fyrra um skattalækkanir. Ég segi það bæði vegna þess að mér er annt um þá velferðarþjónustu og þá samneyslu sem ríkissjóður þarf að standa straum af og ég hef alla tíð gert mér grein fyrir því að maður getur ekki lagt til aukningu framlaga til slíkra verkefna nema jafnframt fylgi tekjuöflun. Ég segi það líka vegna þess að ég tel það efnahagslega skynsamlegt við þessar aðstæður að taka frekar fé úr umferð og hvetja til sparnaðar og að leggja fyrir og greiða niður skuldir. Og ég tel það líka skynsamlegt vegna þess að það er sanngjarnt að atvinnulífið leggi núna eitthvað meira af mörkum, sérstaklega atvinnulífið og hátekjufólk í landinu. Þess vegna verkar hin flata tekjuskattslækkun með afnámi t.d. grunnlífeyrisbarnabóta og fullri tekjutengingu þeirra þannig, eðli málsins samkvæmt, að barnlaust hátekjufólk kemur best út úr þeirri aðgerð. Það liggur á borðinu og aðgerðir af því tagi tel ég ekki skynsamlegar.

Ég tel líka að það hafi verið vitleysa að endurvekja hið gamla uppsafnaða tap og leyfa fyrirtækjunum áfram að draga á það jafnvel tap frá því fyrir 1990 eins og ríkisstjórnin gerði. Það veldur því að mörg fyrirtæki sem hafa hvert einasta ár síðan verið í gróða borga ekki enn tekjuskatt. Það veldur m.a. því að fyrirtæki sem hafa alla tíð grætt peninga borga ekki tekjuskatt. Af hverju ekki? Af því að þau keyptu sér tap samkvæmt þeim rúmu reglum sem í gildi voru fyrir 1989--1990 og eiga það enn og hæstv. ríkisstjórn hefur af gjafmildi sinni, þrátt fyrir góða afkomu í atvinnulífinu, ákveðið að fyrirtækin skuli fá að halda áfram að nota þetta tap. Auðvitað ætti að fara yfir þessar reglur, endurskoða þær, þrengja þær og sjá til þess að gróðafyrirtækin í landinu fari að greiða tekjuskatt með eðlilegum hætti. Það væri sanngjarnt framlag þeirra núna til reksturs þjóðarbúsins. Þá væru þau þannig einnig að leggja sitt af mörkum og skila til baka þeim stuðningi sem atvinnulífið fékk í formi fyrirgreiðslu og skattalækkana á erfiðleikaárunum frá 1988 og fram undir 1993. Þetta væri fullkomlega eðlilegt og sanngjarnt.

Að síðustu, herra forseti. Ef nú væri aflað svona 2--3 milljarða í viðbót í ríkissjóð í tekjur á næsta ári, þá væri e.t.v. von til þess að hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, sem ég verð að segja að ég sakna pínulítið af því að hann hefur ekki verið hér undir minni ræðu --- en nú er alveg sérstaklega að því komið að ég ætla að kveðja hann hérna með nokkrum orðum.

(Forseti (StB): Hæstv. fjmrh. er í húsinu.)

Já, það væri nú ágætt ef hæstv. forseti léti þingsveina gera hæstv. ráðherra viðvart.

(Forseti (StB): Það verður gert.)

Við mundum telja okkur stórkostlega heiðruð sem hér erum ef hæstv. ráðherra vildi láta svo lítið að setjast hérna smástund í sæti sitt. Auk þess sé ég að skemmtileg bók eftir Þorstein Valdimarsson liggur á borði hæstv. ráðherra sem hann gæti þá gluggað í og hefur hann örugglega lesið margt verra en gangnavísur Þorsteins Valdimarssonar.

Herra forseti. Ég gerði það mér til gamans og auðvitað líka fyrir vin minn hæstv. fjmrh. að taka saman tölur um feril hans sem fjmrh. og ég ætla að enda á því, þegar hæstv. ráðherra kemur hér, að renna aðeins yfir þær. Því segi ég það að ef menn sameinuðust nú yfir það hér, stjórnarliðið þægi það tilboð stjórnarandstöðunnar að afla ríkissjóði viðbótartekna á næsta ári, þá væri e.t.v. von til þess að hæstv. fjmrh., þ.e. ef hann ílengist þá í embætti, lifði þann dag að hann ræki ríkissjóð án halla. En það hefur ekki gerst enn þá. Svo hroðalegt er nú það.

Ég ætla helst, herra forseti, að bíða með að rifja þessar tölur upp þangað til hæstv. ráðherra kemur því ég veit að það munu gleðja hann svo mikið að heyra þetta. Ég vil helst ekki svipta hann þeirri ánægju. Ég get þá sem best dundað við að leggja þetta saman á meðan því að ég hef ekki gert það nákvæmlega. Hallinn sem mér sýnist að hér sé á ferðinni er upp á miklar fjárhæðir, herra forseti, og ég veit að hæstv. fjmrh. skorast ekki undan því að ræða ríkisfjármál og allra síst frammistöðu sjálfs sín. En það hlýtur að vera hæstv. ráðherra nokkurt áhyggjuefni og nokkur vonbrigði svo ekki sé meira sagt að þurfa að horfast í augu við það hvernig nú horfir með búskapinn bæði á þessu ári og hinu næsta, að öll hin glæstu áform um að reka ríkissjóð með tekjuafgangi og miklum bravúr runnu út í sandinn. Það er nú ekki gott, herra forseti.

Nú er spurning hvort ég eigi að gera hlé á máli mínu, herra forseti. Eru einhverjar fregnir af fjmrh.? Auk þess finnst mér almennt séð ástæðulaust að halda þessari umræðu áfram. Ef enginn af hæstv. ráðherrum nennir að vera í þingsalnum, þá þurfum við ekkert að vera hér heldur.

(Forseti (StB): Forseti hefur ekki nýjar fregnir af hæstv. fjmrh. að öðru leyti en því að hann er í húsinu samkvæmt upplýsingum forseta og gengur í salinn þessa stund.)

Ég þakka það, herra forseti, og þakka hæstv. fjmrh. En að öðru leyti verð ég að segja alveg eins og er, herra forseti, þó að ég sé að verða pínulítið leiður á því að lenda æðioft í því hlutverki að vekja athygli á þessum staðreyndum, að mér finnst viðvera hæstv. ráðherra hér vera neðan við allar hellur. Mér finnst það neðan við allar hellur að við skulum vera að ræða hérna stærstu mál hvers þings, fjárlög og ráðstafanir í ríkisfjármálum heila og hálfa daga og það er ýmist einn eða enginn ráðherra viðstaddur og iðulega ekki sá ráðherra sem flytur málið. T.d. vorum við hér í allan gærdag án hæstv. forsrh. að ræða ráðstafanir í ríkisfjármálum sem er bandormur sem hæstv. forsrh. flytur. Við greiddum hér atkvæði um sama mál að báðum formönnum stjórnarflokkanna fjarstöddum og við höfum meira og minna verið að ræða um fjárlögin núna og hæstv. fjmrh. er hér í mýflugumynd. Þetta er ekki nógu gott. Þetta var ekki venja hér, herra forseti. Forsetar sáu til þess að hæstv. ráðherrar komust ekki upp með þetta. Sú var tíðin að mönnum var ekki hlíft, jafnvel þó þeir væru sofandi heima hjá sér í rúmi um miðjar nætur. Það man sá sem hér stendur mjög vel, að hafa verið vakinn upp að ganga klukkan þrjú að næturlagi eins og lífið lægi við. (ÁJ: Á síðustu öld.) Nei, það var á þessari öld, herra forseti. Það var á þessari öld. Ég veit að hv. þm. Árni Johnsen man langt aftur á síðustu öld, en það er allt önnur saga. Þá voru menn iðulega vaktir --- ég ætla að nota kurteislegt orðalag um það, herra forseti. Það var annað sem mér kom reyndar í hug --- og sóttir um miðja nótt til þess að hlusta hér á stjórnarandstæðinga, t.d. hæstv. núv. samgrh. Halldór Blöndal. Sá var nú ekki að hlífa því. Sá lét nú ekki bjóða sér það að ræða málin nema hæstv. ráðherrar væru viðstaddir. Það er ekki aðallega mín vegna, herra forseti, sem ég segi þetta heldur vegna hins að mér finnst Alþingi setja ofan við þetta. Mér finnst forsetar vera að láta undan þessari leti og þessu virðingarleysi ráðherranna með því að ganga ekki í lið með þingmönnum og sjá til þess að þokkalegur svipur sé á þessu þegar við erum hérna að ræða mál.

[18:45]

Þá að allra síðustu þetta, herra forseti. Ég gerði það mér til gamans að taka saman feril eða afrekaskrá hæstv. fjmrh., hvernig þessum metnaðarfulla manni og frjálshyggjumanni sem vill draga úr ríkisafskiptum og reka ríkissjóð eins og hvert annað gróðafyrirtæki væntanlega, hefur gengið að ná fram þeim markmiðum sínum. Að sjálfsögðu tek ég kosningaárið 1991 ekki með. (Gripið fram í: Nú?) Ég geri það ekki vegna þess að það er ekki að öllu leyti sanngjarnt og á ekki að gera. Við vitum öll að þeir ráðherrar sem taka við á miðju ári hafa takmarkað svigrúm til þess að hafa áhrif á gang ríkisfjármála á því ári. Og ég vek athygli á því að með þessu lækka ég auðvitað hallatöluna sem tilheyrir tímabili hæstv. núv. fmrh. verulega.

En við byrjum á árinu 1992 því að sannarlega bar hæstv. fjmrh. ábyrgð á þeim fjárlögum sem afgreidd voru hér í desember 1991. Þá reyndist hallinn á ríkissjóði því miður verða á 5. milljarð kr., 4.111 millj. Á árinu 1993 seig enn á ógæfuhliðina því þá varð hallinn 6.244. Á árinu 1994 þegar góðæri í raun og veru gekk í garð, þegar verulega fór að rofa til í okkar efnahagsmálum, þá varð þetta enn ljótara því þá varð hallinn 9.635. Á árinu 1995 var enn meira góðæri. Þá var verulega farið að rofa til. Þá var hallinn 7.436. Á árinu 1996 sem var annað hinna miklu uppsveiflugóðærisára sem við höfum verið að lifa og erum stödd á síðari helmingi núna, var hallinn 3.951, rétt tæpir 4 milljarðar. Það er eins og mig minnir að þá hafi átt að reka ríkissjóð með afgangi. Reyndar ætlaði hæstv. fjmrh. sér það flest árin. Nei, þá varð hallinn 3.951 millj.

Eins og þetta stendur núna á árinu 1997, þá er ríkissjóður rétt við núllið, höktir kannski eins og 100 eða 150 millj. yfir núllinu miðað við fjáraukalög og spár. En hvað er þá eftir? Þá er eftir uppsafnaður vandi úti í stofnununum sem ríkið verður að lokum að borga og sumt að koma til við uppgjörsaukafjárlög í mars á næsta ári upp á hundruð millj. kr. Það er alveg ljóst þannig að þá mun árið 1997 vera komið í halla eins og öll hin. Og hvernig lítur þá framtíðin út, þ.e. sjöunda árið, ef hæstv fjmrh. heldur þetta út? Jú, afgangurinn er kominn niður fyrir 100 millj. og það vita allir, það veit öll þjóðin, að það verður að loka fjárlögum með vöntun upp á 1,5 milljarða, a.m.k. í heilbrigðismálunum svo ekki lítur það vel út. Og sjöunda árið er að ganga í garð þar sem eiginlega er borin von að hæstv. fjmrh. sjái til sólar og nái þessu langþráða draumamarkmiði sínu, að reka ríkissjóð með afgangi. Ferillinn er því nú ekki glæstur.

Niðurstaðan er sú að hæstv. ráðherra er búinn að reka ríkissjóð í þessi sex ár með halla upp á 32--33 milljarða kr. Þetta er af stærðargráðunni 32--35 milljarðar kr. Ég veit ekki alveg hvort þessar tölur sem ég er hér með á blaði eru alveg allar á verðlagi hvers árs eða að hluta á verðlagi hvers árs. Mér er nær að halda það. En það er fljótgert að uppfæra það og stærðargráðan er þessi. Þetta er nú svona. Svo er von að menn séu kokhraustir. Reyndar hef ég tekið eftir því að hæstv. fjmrh. er daufur í dálkinn þessa dagana. Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að hann sé ekki ánægður með sinn afrakstur og honum finnist að ýmsir aðrir hafi kannski verið fullörlátir. En eins og kunnugt er að þó að hæstv. fjmrh. hafi mikil undirtök í samskiptum sínum við einstaka fagráðherra þá er einn honum æðri sem fær það stundum í sig að gera góðverk og þau eru stundum dýr, eins og hin mikla flata skattalækkun hæstv. ríkisstjórnar á síðasta ári og fleira þar mætti nefna.

Herra forseti. Ég taldi ástæðu til að gera okkur það til dundurs og upprifjunar og ánægju að rifja aðeins upp þessar staðreyndir úr ferli hæstv. fjmrh. og hvernig horfurnar eru fyrir hæstv. ráðherra á næsta ári, þ.e. ef hæstv. ráðherra heldur þetta út en að öðru leyti hugsa ég mér að hafa ekki fleiri orð um þetta og óska hæstv. fjmrh. gleðilegra jóla.