Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 18:55:00 (2841)

1997-12-19 18:55:00# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[18:55]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm. sagði síðast að það er alveg ljóst að vandinn er hægari þegar hér er viðskiptahalli því að allir vita að hann er skattlagður og hárrétt sem hv. þm. sagði um þá hluti. En það breytir ekki hinu að þeir sem skoða af fullri sanngirni þær tölur sem liggja fyrir, komast að því að ef við færum upp til verðlags dagsins í dag, þá var hallinn á árinu 1988 14 milljarðar, milli 9 og 10 milljarðar 1989, lægri 1990, en milli 16 og 17 milljarðar á núgildandi verðlagi árið 1991 þannig að það er augljóst mál þegar þetta er skoðað á þennan hátt að árangur hefur verið að nást. Ekki má gleyma því að til þess að ná góðri afkomu nú þarf að taka tillit til þess að ríkissjóður er að greiða gífurlegan vaxtakostnað vegna uppsafnaðra skulda.

Aðalatriðið er, virðulegur forseti, að okkur er að takast það nú á næsta ári að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Skuldir ríkissjóðs voru á árinu 1996 51% af vergri landsframleiðslu. Talið er að í lok næsta árs verði þessar skuldir innan við 43% af vergri landsframleiðslu. Það er þetta sem skiptir máli að skoða og jafnvel hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem viðurkennir nú ekki alltaf staðreyndir og tekur ekki alltaf tiltali þegar við hann er talað, getur ekki annað en viðurkennt að árangurinn er góður. Og þó eflaust mætti segja að gott væri að skila meiri og meiri arfgangi, þá er staðan sú að árangurinn er viðunandi og það gerist þrátt fyrir að við séum að lækka skatta. En það verður að taka með í reikninginn að þegar hv. þm. var í ríkisstjórn hófst skattahækkunaralda og reið yfir þetta þjóðfélag.