Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 18:57:14 (2842)

1997-12-19 18:57:14# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[18:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við skulum nú ekkert fara út í svo barnalegar rökræður að metast um það hvor umgangist staðreyndir af meiri virðingu ég eða hæstv. ráðherra. Það er röksemdafærsla sem er erfitt að fá botn í held ég nema þá nefna dæmi. Hæstv. ráðherra nefndi árið 1988. Þegar ég fór í minn samanburð, þá sleppti ég árinu 1991. Er það ekki akkúrat eins og á að gera? Ég viðurkenndi það og sagði: Það er ekki rétt að taka það ár þegar ríkisstjórnarskipti verða því að eðli málsins samkvæmt er það ár aðallega á ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar sem er að fara frá. Hver bar aðallega ábyrgð á árinu 1988? Hverjir gerðu það? Hverjir réðu þá fyrir ríkisstjórn? Var það ekki hv. þm. Þorsteinn Pálsson, núv. hæstv. sjútvrh.? Það er eins og mig minni að einhver hafi verið iðnrh. í þeirri ríkisstjórn og reyndar auðvitað einhver fjmrh., hugsanlega verðandi sendiherra í Washington. Og þó að hallinn hafi þá orðið 14 milljarðar er það ekki eitthvað sem á að gjaldfæra sérstaklega í orðaskiptum okkar á minn reikning.

Varðandi það að ríkissjóður beri meiri vaxtakostnað og það séu uppsafnaðir erfiðleikar. Það er út af fyrir sig alveg rétt og það verður maður að viðurkenna. Þeim mun meiri og ríkari er ástæðan til að reyna að ná skuldunum niður. Það er alveg ljóst að við vorum komin fram á bjargbrúnina með skuldir ríkissjóðs á Íslandi og reyndar opinberar skuldir almennt, sveitarfélaganna margra líka. En hlutfallstölurnar, herra forseti, sem hæstv. fjmrh. nefndi eru líka varasamar. Þó að þetta hlutfall hafi lækkað talsvert sem hlutfall af landsframleiðslu, þá er það meiri mælikvarði á að landsframleiðslan hefur aukist verulega núna í góðærinu heldur en hitt að við höfum náð enn þá a.m.k. umtalsverðum árangri við raunlækkun þessara skulda. Við verðum að hafa í huga að landsframleiðslan getur lækkað á nýjan leik. Þá rýkur þetta hlutfall upp nema okkur takist að greiða þær niður að raungildi. Og það sem ég hef verið að benda á hér er fyrst og fremst að þar höfum við enn þá því miður náð takmörkuðum árangri.