Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 18:59:33 (2843)

1997-12-19 18:59:33# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, ÓE
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[18:59]

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 674 við fjárlagafrv. 1998. Að brtt. standa ásamt mér varaforsetar þingsins og formenn þingflokkanna. Í brtt. er lagt til að veittar verði 20 millj. kr. á fjárlögum næsta árs til að hefja framkvæmdir við fyrsta áfanga nýbyggingar Alþingis. Hér er um að ræða framkvæmdir við svonefndan þjónustuskála sem er fyrsti áfanginn í nýbyggingaráætlun Alþingis.

Ég þarf víst varla að minna hv. þingmenn á svo oft sem ég hef nefnt það á undanförnum árum að ég hef jafnan litið á það sem mikilvægt verkefni okkar alþingismanna að koma húsnæðismálum Alþingis í viðunandi horf. Vandinn hefur ekki síst verið fólginn í því að starfsemi Alþingis hefur verið dreift í mörg hús og hefur af því hlotist margvíslegt óhagræði og kostnaður sem ekki þarf að hafa mörg orð um.

Á vegum forsætisnefndar Alþingis hefur um nokkurt skeið verið unnið að athugun á því hvernig nýta megi Alþingisreitinn til nýbyggingar fyrir þingið og hefur nú verið gengið frá heildaráætlun um uppbyggingu reitsins. Áætlunin hefur verið unnin í samvinnu við formenn þingflokka sem eru jafnframt eru meðflutningsmenn að breytingartillögunni eins og ég gat um í upphafi.

Áætlunin um uppbyggingu Alþingisreitsins er forsenda tillögu að nýju deiliskipulagi sem borgaryfirvöld í Reykjavík hafa fjallað um á undanförnum mánuðum og er gert ráð fyrir að gengið verði frá formlegri staðfestingu hennar fljótlega á næsta ári. Hafa borgaryfirvöld verið jákvæð í afstöðu sinni til áætlunarinnar. Undirbúningsvinna við verkið á því að geta hafist fljótlega og er ekkert því til fyrirstöðu að fyrsta áfanga nýbyggingar verði hrundið í framkvæmd á næsta ári. Af því tilefni er farið fram á að veittar verði 20 millj. kr. til undirbúnings þessara framkvæmda. Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til að fara nánar út í einstaka þætti áætlunarinnar um uppbyggingu á Alþingisreit og vísa í því atriði til greinargerðarinnar sem þingmenn hafa fengið í hendur. Nokkur atriði vil ég þó draga fram sérstaklega.

Með áætluninni er áréttuð sú stefna að Alþingi hafi áfram starfsaðstöðu á Alþingisreitnum um fyrirsjáanlega framtíð þó að Alþingishúsið verði eftir sem áður þungamiðja þinghaldsins. Í því felst að nýbyggingar og núverandi húseignir Alþingis á reitnum munu leysa af hólmi allt húsnæði Alþingis utan reitsins, bæði eigin hús og leiguhúsnæði. Markmiðið er að starfsemi Alþingis á Alþingisreitnum verði ein samfelld heild þannig að innangengt verði úr Alþingishúsinu í aðrar byggingar á reitnum.

Mikilvægt er að með því að skipta verkinu niður í hóflega áfanga gefst svigrúm til að haga framkvæmdum á Alþingisreit með hliðsjón af þörfum og aðstæðum hverju sinni. Meginforsendur áætlunarinnar eru þessar:

1. Að byggður verði þjónustuskáli sem tengdur verði Alþingishúsinu og öðrum byggingum Alþingis á reitnum.

2. Að lokið verði endurbyggingu núverandi húsa á reitnum og ný hús byggð við Kirkjustræti, Tjarnargötu og Vonarstræti.

3. Að í kjallara undir reitnum verði bílastæði en það er nauðsynlegt til að uppfylla megi kröfur borgaryfirvalda um fjölda bílastæða.

Sá áfangi áætlunarinnar, sem lýtur að byggingu þjónustuskálans og tengingu hans við Alþingishúsið, er forgangsverkefni. Þetta kemur til af því að álagið á Alþingishúsið er orðið svo mikið að brýna nauðsyn ber til að flytja úr því alla þá starfsemi og þjónustu sem myndar ekki nánustu umgjörð um þinghaldið, svo sem mötuneyti, símavörslu og fleira. Einnig er ráðgert að fundaraðstaða þingflokka flytjist úr Alþingishúsinu þegar uppbyggingu við Kirkjustræti og Tjarnargötu er lokið.

Þjónustuskálinn mun í verulegum mæli taka við þeirri starfsemi og þjónustu sem flyst úr Alþingishúsinu auk þess að verða miðstöð fyrir upplýsingaþjónustu og almannatengsl. Með því vinnst að beina má umferðinni frá Alþingishúsinu og draga verulega úr umganginum sem nú er um húsið. Þá verður einnig unnt að bæta til muna aðgengi fatlaðra að þingsal í Alþingishúsinu en því er nú mjög ábótavant.

Á bak við þessar hugmyndir ríkir almennt það sjónarmið að Alþingishúsið fái notið sín áfram sem ein fallegasta og merkasta bygging landsins og geti gegnt sínu rétta hlutverki sem virðuleg umgjörð um löggjafarsamkomuna. Stefnt er að endurnýjun á innri gerð hússins til að laða fram eins og kostur er upprunalegt yfirbragð þess og sérkenni. Mikilsvert er að greið leið verði úr Alþingishúsinu í önnur hús Alþingis. Gert er ráð fyrir að innangengt verði úr Alþingishúsi í þjónustuskálann og þaðan í önnur hús þingsins.

Þjónustuskálinn verður tvær hæðir auk kjallara. Stærð hans er ráðgerð um 980 fermetrar, þar af verða um 700 fermetrar á 1. og 2. hæð. Stefnt er að því að framkvæmdir við skálann geti hafist haustið 1998 að lokinni undirbúningsvinnu og er ætlað að ljúka megi þessum áfanga fyrir haustið 1999 ef Alþingi ákveður svo. Áætlaður kostnaður við byggingu þjónustuskálans og niðurkeyrslu í bílakjallarann er um 250 millj. kr.

Í næsta áfanga yrði svo ráðist í endurbyggingu Skjaldbreiðar og síðan reist nýbygging vestan hennar út að horni Kirkjustrætis og Tjarnargötu. Í framhaldi af því væri byggt suður með Tjarnargötu og verkinu lokið með tengingu nýbyggingar við Vonarstræti 12. Samhliða þessu væri unnið við bílakjallarann eftir því sem verkinu miðaði áfram.

Fyrirliggjandi tillögur gera ráð fyrir að stærð endurbygginga og nýbygginga á Alþingisreitnum verði um 5.400 fermetrar auk 3.200 fermetra í kjallara. Þegar hefur verið lokið 1. áfanga, þ.e. endurbyggingu Kirkjustrætis 8b og 10 auk tengibyggingar milli húsanna, alls um 900 fermetrar. Þannig á eftir að endurbyggja um 500 fermetra og 4.000 fermetra í nýbyggingum auk kjallara.

Húsrými utan Alþingisreitsins er að flatarmáli um 2.630 fermetrar. Annars vegar eru þetta hús í eigu Alþingis, þ.e. Þórshamar og Skólabrú 2, hús sem verða væntanlega seld, og hins vegar leiguhúsnæði, Austurstræti 12 og 14 og Kirkjuhvoll sem hætt verður að leigja. Við það mundu sparast miklu peningar því að leigugreiðslur Alþingis nema nú alls um 15 millj. kr. á ári. Aukning húsnæðis verður því um 1.400 fermetrar og er mesti hluti aukningarinnar fólginn í byggingu þjónustuskálans.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vil geta þess að þær 20 millj. kr. sem farið er fram á að þessu sinni verða á sérstökum fjárlagalið til að undirstrika að fjárveitingum í framkvæmdirnar verður haldið aðgreindum frá öðrum kostnaði við rekstur Alþingis.