Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 20:00:33 (2849)

1997-12-19 20:00:33# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[20:00]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tel afar mikilvægt að fram fari málefnaleg umræða um utanríkisþjónustuna og þær þarfir sem menn standa frammi fyrir í sambandi við sendiráðin. En mér finnst það nú ekki vera mjög málefnalegt ef það er rétt eftir haft sem ég heyrði í fréttum af umræðum sem hér fóru fram fyrir nokkru síðan hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni þegar þeir voru að gagnrýna útgjöld til þessara sendiráða sem verið er að nefna og gera samanburð í sambandi við fjárfestingar í sjúkrahúsum og láta að því liggja að minni peningar fari í sjúkrahús vegna þess að formaður Framsfl. sé utanrrh. og hafi greinilega meiri áhuga á sendiráðum en sjúkrahúsum. Ég kalla þetta ekki málefnalega umræðu og ekki vera þingmönnum til mikils sóma. En látum það vera. Þeir verða að gera það upp við sjálfa sig hvernig þeir standa að málflutningi á Alþingi.

Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að fara yfir málefni sendiráðanna. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ástand sendiherrabústaðarins í Washington og ástand sendiherrabústaðarins í London er engin ný saga. Búið er að liggja fyrir í allmörg ár að ráðast þurfi í endurbætur í Washington og það er líka búið að liggja fyrir í mörg ár að leigusamningurinn um sendiherrabústaðinn í London rynni út. Það stóð að sjálfsögðu í samningnum þannig að það kom engum á óvart og búnar eru að vera heimildir í fjárlögum til margra ára um þessi mál.

Umræða var um það fyrir nokkrum árum að rétt væri að selja það sem eftir var af leigusamningnum í London og kaupa annað hús í staðinn. Búið var að finna hús í London sem þótti henta mjög vel en fallið var frá því í þáverandi ríkisstjórn að fara út í þessi kaup. Þá var fasteignamarkaður í London í lágmarki og verðlag tiltölulega lágt en nú vill svo illa til að fasteignaverð hefur hækkað þar til muna og því ekki jafnhagstætt að gera þar viðskipti. En við stöndum hins vegar frammi fyrir því að þessi leigusamningur er að renna út og ef við ætlum að halda áfram að reka sendiráð í London, og væntanlega eru allir Íslendingar sammála um að hjá því verði ekki komist m.a. vegna þess að þetta er okkar stærsta viðskiptaþjóð, þá getum við ekki horft fram á það að þetta sendiráð verði á götunni því að varla rekum við sendiráðið niðri á Piccadilly Circus, þar á götunni, og ekki hef ég nokkra trú á að hv. þm. hafi áhuga á því.

Þessi mál komu til umræðu í ríkisstjórninni fyrr á þessu ári og ákveðið var að reyna að stefna að því að koma þessu máli í höfn, m.a. af þeim sökum að það koma líka inn óvæntar tekjur á tekjuhlið fjáraukalaga sem eru eitthvað á milli 900--1.000 millj. sem hlutur ríkissjóðs í útgreiðslu frá Íslenskum aðalverktökum. Það þótti rétt að nota tækifærið og nota hluta af þessu fjármagni til þessara nauðsynlegu mála sem ekki yrði komist hjá að fara út í því þótt heimildir hafi verið á fjárlögum, þá eru takmörk fyrir því hvað rúmast innan þeirrar upphæðar sem ætluð er í 6. gr. fjárlaga því það er alveg ljóst að allar þær heimildir sem eru hér, þær fjárhæðir eru meiri sem samsvarar þeirri fjárhæð sem er ætluð til að koma til móts við 6. gr. fjárlaga, núna 7. gr.

Okkar menn eru búnir að leita mikið að húsnæði í London. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það hefði verið rétt að kaupa annað húsnæði. Það liggur hins vegar fyrir að ef kaupa ætti húsnæði sem þykir henta, þá yrði það allmiklu dýrara en að endurnýja leigusamninginn og gera við húseignina. Við komumst ekki hjá því að gera við húseignina jafnvel þótt við förum frá þessu húsi. Við erum skuldbundnir til þess að skila því í því ásigkomulagi sem við tókum við því þannig að það er mat bæði starfsmanna fjmrn. og utanrrn. að rétt sé að gera þetta svona og það verði þá athugað síðar hvort við seljum leigusamninginn þegar fram líða stundir sem gerður verður til 99 ára og kaupum annað húsnæði í staðinn. Þær upplýsingar sem við fáum frá þeim sem eru ráðgjafar í þessu máli eru að leigusamningurinn ætti að standa fyllilega fyrir sínu þannig að ef íslenska ríkið vill komast frá honum á síðari stigum, þá eigum við ekki að bera neinn skaða af því máli, síður en svo. Þetta varð því niðurstaðan jafnvel þó ég hafi verið áhugasamur um það að kaupa annað húsnæði og sé fullviss um að það hafi verið mistök á sínum tíma að selja ekki þennan leigusamning og kaupa það húsnæði sem þá hafði fundist. En það er oft hægt að vera vitur eftir á og ég ætla alls ekki að gagnrýna það. Ég er sammála hv. þm. að hér er um háar fjárhæðir að ræða, tölur sem við erum ekki vanir, því að það er alveg ljóst að fasteignaverð er mun hærra í stórborgum en við erum vanir.

Þá sný ég mér að húseigninni í Washington. Það liggur ljóst fyrir núna að húseignin í Washington hefur verið gölluð alla tíð. Þegar hún var keypt hafði burðarvirki í húsinu verið fjarlægt og það hefur verið að síga allan tímann. Þannig var komið að húsið var allt að síga. Ekki var hægt að loka hurðum og nagdýr áttu greiðan aðgang inn í sendiherrabústaðinn og höfðu búið þar um sig í allmiklum mæli og býst ég ekki við því að það teljist frambærilegt að fjöldi nagdýra sé stökkvandi milli gesta íslenska ríkisins sem þangað eru boðnir. Við stóðum því frammi fyrir því að húsið væri nánast ónýtt ef ekkert yrði að gert. Það var búið að athuga það alllengi að kaupa annað hús og menn höfðu ákveðið hús í huga sem var nokkru stærra. Ég er þeirrar skoðunar að þetta hús sé alveg nægilega stórt og það hús var dýrara en við gátum reiknað með að fá fyrir þann sendiherrabústað sem nú er verið að gera upp að viðbættum viðgerðarkostnaði.

Síðan hefur jafnframt komið í ljós að húsið var svo illa farið að við hefðum ekki getað selt það án þess að gera við það þannig að það var ekkert annað að gera að mínu mati en að ráðast í þessar endurbætur á húsinu því að það var óíbúðarhæft eins og það var. Ég hef ekki komið nýlega í sendiherrabústaðinn í London en mér er sagt af fólki sem þangað hefur komið undanfarið að það sé mjög illa farið og það hafi verið viðhaldslaust hús öll þessi ár. Ég er sannfærður um að við höfum vanrækt það oft og tíðum að halda þessum verðmætu eignum við og þá kemur að því að þetta verður miklu dýrara. Við eigum margar verðmætar eignir erlendis og ég veit að hv. þingmenn hafa komið í margar þessar eignir. Þær voru keyptar fyrr á árum af ýmsum framtakssömum og framsýnum mönnum. Þær eru mismunandi hentugar. Það er rétt. En það er ekki rétt að láta þessar eignir drabbast niður.

Ákvörðun var tekin um þessar tvær eignir og ætlað fyrir því í fjáraukalögum 1997 en ég bið hv. þm. að hafa það jafnframt í huga að það er m.a. gert í ljósi þess að þarna komu líka inn óvæntar tekjur og tækifærið var þá notað til þess að koma því í framkvæmd sem hafði verið í undirbúningi árum saman.

Að því er varðar sendiherrabústaðinn í París þá eru líka búin að vera lengi uppi áform um að selja það húsnæði sem var mjög óhentugt. Það má segja að sú íbúð hafi nánast verið einn veislusalur og var þannig að það hentaði mjög illa fyrir fólk að búa í svona litlum hliðarherbergjum frá þessum stóra og fallega sal sem ég veit að einhverjir hv. þm. hafa séð. Dregist hefur að selja þetta húsnæði vegna þess að fasteignamarkaðurinn í París hefur verið erfiður. Einhverjir möguleikar voru á að selja húsnæðið fyrir nokkrum árum en síðan hefur verið reynt að selja það og loks í sumar kom tilboð í húsið sem ekki þótti rétt að hafna. Það var því selt og umsvifalaust farið að leita að nýju húsnæði. Menn gerðu ráð fyrir því að geta fengið nýtt húsnæði fyrir e.t.v. eitthvað aðeins lægri fjárhæð en selt var fyrir. Til að byrja með var húsnæði leigt og menn gerðu sér vonir um að e.t.v. væri hægt að kaupa húsnæði í sama húsi sem reyndist ekki rétt og enn hefur ekki tekist að festa kaup á húsnæði. En stefnt hefur verið að því að reyna að ljúka því að kaupa húsnæði í samræmi við heimildir sem eru til þess og þær heimildir eru framlengdar í því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir í stað þess húsnæðis sem hefur verið selt. Ég geri ekki ráð fyrir því að þar verði kostnaðarauki en ég geri mér hins vegar ekki miklar vonir um að nýtt húsnæði sem keypt verður verði mikið ódýrara en það sem selt var jafnvel þó menn hafi verið að gera sér einhverjar hugmyndir um það um tíma.

Þá kem ég að sendiráðinu í Helsinki. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ekki var gert ráð fyrir því í fjárlögum ársins 1997 að opnað yrði sendiráð í Helsinki. Það er líka rétt að taka það fram að í sjálfu sér hefur ekki verið opnað þar sendiráð með sendiherra. Það hefur verið opnuð skrifstofa frá sendiráðinu í Stokkhólmi því að sendiherrann í Stokkhólmi er enn þá sendiherra í Helsinki. Þar er starfsmaður frá utanrrn. og ráðinn hefur verið finnskur staðarráðinn ritari. Hins vegar eru áætlanir um að sendiherra komi þar til starfa á næsta ári og gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. Þessi ákvörðun var m.a. tekin í tengslum við heimsókn forseta Íslands til Finnlands. Finnar höfðu rekið hér sendiráð í 15 ár og oft hefur verið farið í opinberar heimsóknir til Finnlands og gefið í skyn að til stæði að opna fljótlega sendiráð í Finnlandi. Það var mat ríkisstjórnarinnar að að taka þyrfti einhverja ákvörðun í þessu máli.

[20:15]

Ég lagði til að sú ákvörðun yrði tekin að opna skrifstofu frá sendiráðinu í Stokkhólmi en eftir umræður í ríkisstjórninni þótti mönnum rétt að ganga skrefið til fulls og samþykkja það í ríkisstjórninni, þ.e. fyrir sitt leyti, að stefna að opnun sendiráðs þar 1998. Auðvitað má gagnrýna þessa ákvörðun eins og allar aðrar ákvarðanir en hún var tekin. Það var leigt húsnæði í miðbæ Helsinki sem er bæði mjög hentugt og ódýrt en ekki hefur verið tekin ákvörðun um sendiherrabústað. Hins vegar er heimild í 7. gr. fjárlaga, hv. þm., þar sem gert er ráð fyrir því að kaupa bústað fyrir sendiherra í Helsinki, það er heimild til þess. En það hefur ekki verið ákveðið. Hafin er skoðun á því máli og skoðunin gengur út á það hvort hagkvæmara sé að leigja eða kaupa.

Yfirleitt hefur nú reynst hagkvæmara að kaupa eignir til lengri tíma litið en það er rétt að það kostar mikið fé og Helsinki er tiltölulega dýr borg. Það liggur engin niðurstaða fyrir því því máli. En heimildin er hér fyrir hendi og þingmenn munu greiða atkvæði um hana eins og aðrar heimildir í þessari grein.

Þá vil ég aðeins víkja að sendiráðinu í Þýskalandi. Það hefur legið lengi fyrir að til stendur að flytja stjórnarsetur Þýskalands frá Bonn til Berlínar og við Íslendingar erum að því leytinu til verr settir en margar aðrar þjóðir að flestar aðrar þjóðir áttu eignir í Austur-Berlín og geta því notað þær vegna þessara flutninga. Við erum ekki þannig staddir og við ákváðum að taka þátt í byggingu sameiginlegrar sendiráðsbyggingar í Berlín með hinum Norðurlöndunum sem er mjög dýr og mun dýrari en menn gerðu upphaflega ráð fyrir. En þá á eftir að finna bústað fyrir sendiherrann og mikil leit hefur staðið yfir að slíkum bústað en ekkert hentugt húsnæði hefur enn þá fundist. Hins vegar liggja fyrir loforð af hálfu Þjóðverja, þ.e. yfirvalda í Berlín, um að selja Íslendingum tiltekna lóð sem er dýr en hins vegar er verðið sem lofað var á sínum tíma langt undir markaðsverði í Berlín. Við höfum gengið eftir því að Berlínarborg standi við þetta loforð en þeir eru tregir til vegna þess að þeir geta fengið mun hærra verð fyrir lóðina núna þannig að það kemur til greina ef ekkert húsnæði finnst til kaupa í Berlín sem hentugt þykir til þessara starfa því það er mjög mikilvægt að sendiráðið fái þar gott húsnæði vegna mikilvægis samskipta Íslands og Þýskalands sem er næststærsta viðskiptaland okkar og það eru mikil samskipti milli Íslands og Þýskalands. Í þessu máli hefur ekki fengist niðurstaða en menn eru að leita þar að hagkvæmustu lausninni.

Að því er varðar hugsanlegt sendiráð í Japan þá er það rétt hjá hv. þm. að engar heimildir eru í þessu fjárlagafrv. til að kaupa húsnæði þar, enda alls ekki gert ráð fyrir því að opnað verði sendiráð í Japan á næsta ári og það er ekki gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. Það kemur til álita að mínu mati að gera það 1999 og þá verður að sjálfsögðu að leita til þess heimilda. Það er dýrt að reka sendiráð í Japan og við höfum reiknað með að rekstrarkostnaður verði um það bil 100 millj. kr. á slíku sendiráði. Þá er gert ráð fyrir að leigja húsnæði. Ef kaupa á húsnæði í Tókíó þá er það mjög kostnaðarsamt og við höfum alls ekki gert það upp við okkur hvernig staðið verður að því máli. Það er ekki komið nægilega langt til þess að fullyrða neitt um það og ég get að sjálfsögðu ekki fullyrt á þessu stigi hvort almennt verði opnað sendiráð í Japan á árinu 1999. Það er ákvörðun sem verður væntanlega tekin síðar.

Húsnæðismál okkar annars staðar eru í bærilegu lagi. Það vantar hins vegar víðar fjármagn til þess að halda þessum byggingum betur við. Það liggur fyrir. Húsnæðismálin að því er varðar sendiherrabústaðinn í Beijing í Kína eru ófullnægjandi og þar erum við með leiguhúsnæði. Það er alveg ljóst að menn hafa verið að velta þessum málum á undan sér og við erum að reyna að taka skipulega á þeim með hagsmuni íslenska ríkisins í huga og með það í huga að varðveita verðgildi þessara eigna og koma sendiráðunum í hagkvæmara húsnæði. Ég bið hv. þm. um að kynna sér þessi mál betur. Við erum alveg tilbúnir að fara yfir öll þessi mál með honum, með utanrmn. og öðrum þeim nefndum þingsins sem vilja kynna sér þau. En ég verð að biðja um að það sé gert málefnalega og menn séu ekki að reyna að slá sér upp á því að þarna sé eitthvert bruðl á ferðinni, þarna sé einhver flottræfilsháttur og ég veit ekki hvað. Ég tel að þarna eigi að leita hagkvæmustu leiða og að við eigum að kaupa og eiga hagkvæmt húsnæði. En við eigum að eiga gott húsnæði sem stendur fyrir sínu og er fullur sómi að fyrir okkur án þess að gengið sé út í öfgar. Ég tel að þannig hafi almennt verið staðið að málum.

Mistök hafa átt sér stað í þessum málum í gegnum tíðina og ekkert við því að segja. Það hafa átt sér stað mistök í húsnæðismálum ríkisins á fleiri stöðum en mér finnst það, hv. þm., ekki vera mjög smekklegt þegar farið er að bera þessi mál saman við okkar heilbrigðisstofnanir þó það sé alveg rétt að sumar þeirra eru viðhaldslausar og þurfa á því að halda að fá meira viðhald. Það er ekkert samband þarna á milli. Það er einfaldlega verið að reyna að taka skipulega á þessu og það er viðurkennt að menn hafa velt þessu á undan sér, kannski vegna þess að menn hafa ekki viljað tala um þetta eins og það er. Það má vel vera að menn hafi viljað forðast að ræða þessi mál á Alþingi eins og þau eru og hafi þótt hagkvæmara að velta þessu á undan sér og sópa þessu undir teppið. En það verður því miður ekki gert lengur. Ef við ætlum að reka sendiráð áfram í London og ef við ætlum að reka áfram sendiráð í Washington, þá er ekki hægt að bíða með þetta lengur. Það er einfaldlega það sem við erum að horfa framan í. En það er alveg rétt hjá hv. þm. að margt af þessu hefur legið fyrir árum saman og löngu áður en ég kom í þennan ráðherrastól, mörgum árum áður. Ég ætla ekkert að fara að spyrja aðra ráðherra um það, m.a. hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson sem hefur setið í ríkisstjórn og hefur áreiðanlega vitað um þessi mál að einhverju leyti meðan hann sat í ríkisstjórn, af hverju það var ekki gert. Ég þykist vita svarið. Það er vegna þess að menn geta ekki gert allt í einu og hafa ekki peninga til alls og eru oft og tíðum að reyna að fresta því sem menn telja síður mikilvægt til þess að taka mikilvægari mál fram fyrir. En það kemur oft að því að ekki er hægt að draga hlutina lengur.

Það er alveg sama með Leifsstöð sem hv. þm. talar oft um. Það var ekki komist hjá því að taka á skuldavanda Leifsstöðvar. Átti að velta honum á undan sér endalaust og átti ég sem utanrrh. að horfa upp á það að skuldirnar hækkuðu og hækkuðu eins og hefur gerst á undanförnum árum? Var það lausnin? Mér finnst það ekki vera lausn. Það var einhvern tíma kallað að pissa í skóinn sinn þegar ég var að alast upp og mér hafa aldrei fundist það vera góðir lífshættir að vera alltaf að pissa í skóinn sinn. Það er verið að taka á þessu máli og búið er að sýna fram á að hægt er að endurgreiða þessar skuldir og við höfum jafnframt tekið ákvörðun um það að ráðast í nauðsynlega stækkun þessarar stöðvar, ekki vegna þess að við viljum ekki byggja myndarlega upp úti á landi heldur vegna þess að ekki verður hjá því komist. Ef við ætlum að standa undir nafni sem ferðamannaland og fá fleiri ferðamenn til að koma inn í landið, þá verður aðalgestamóttakan að vera í lagi. Það þýðir ekki að vera að auglýsa Ísland sem ferðamannaland og hafa gestamóttökuna ekki í lagi. Hér er um mjög stórt atvinnumál að ræða á Suðurnesjum. Ég hélt satt best að segja að þingmaðurinn væri áhugasamur um það. (Gripið fram í.) En ég heyri það á honum að honum finnst svona heldur vitlaust að fara í þetta eins og allt annað heyrist mér sem utanrrn. gerir. Ég er ekki að biðjast undan því að um þetta sé rætt. Það ber að gera. Það er hægt að skila nákvæmri skýrslu til þingsins um öll þessi mál.

Nú er að störfum nefnd sem allir stjórnmálaflokkarnir eiga sæti í sem fjallar um viðfangsefni utanríkisþjónustunnar á næstu árum og hvernig eigi að taka á þeim málum. Þar hefur verið unnið ágætisstarf og þar eru allir fulltrúar áhugasamir um það og það er mikilvægt að góð sátt ríki um starfsemi íslenskrar utanríkisþjónustu og skipulag hennar til lengri tíma litið þannig að ekki þurfi að vera að hræra í því í hvert skipti sem hér kemur ný ríkisstjórn því ráðherrar koma og fara eins og þingmaðurinn benti réttilega á og verður ekki komist hjá því. En mikilvægt er að festa sé í starfsemi utanríkisþjónustunnar og hún geti þjónað öllum þeim ráðherrum sem þangað eiga eftir að koma í framtíðinni og að staðið sé þannig að málum að það geti staðið lengi sem þar er uppbyggt.