Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 20:33:47 (2852)

1997-12-19 20:33:47# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[20:33]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Að svo komnu máli er kannski ekki ástæða til þess að orðlengja þetta mikið meira. Ég endurtek að þetta hefur gefið miklu gleggri mynd af stöðu mála og ég fagna líka þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að hann sé til þess reiðubúinn eftir áramótin að taka saman stöðu þessara mála og skýrslu um það sem hugsanlega megi byggja á áliti þessa starfshóps eða þá annarra sérfræðinga sem um þessi mál véla því mitt áhyggjuefni er fyrst og síðast ekki að það eigi ekki vel að búa að starfsfólki utanríkisþjónustunnar eins og öðrum ríkisstarfsmönnum heldur hitt að hér er um slíkar upphæðir að tefla að við verðum að gaumgæfa eilítið og sjá fyrir okkur hvað þessar heimildir innifela. Og einnig hitt hvort hugsanlega séu önnur atriði, eins og raunar hefur komið hér upp á í samtali okkar hæstv. utanrrh., hugsanlega önnur verkefni sem standa utan heimilda sem menn verða að ráðast í. Þetta hleypur augljóslega á slíkum upphæðum, hundruðum millj. kr., að nauðsynlegt er fyrir þingheim, og þá segi ég ekki síst hv. þm. Jón Kristjánsson sem er að berjast í því þessa dagana að halda ríkissjóði á núllinu, að við gerum okkur grein fyrir því hvað er í pípunum sem hugsanlega geti skekkt þá mynd mjög verulega því að þó að fengist hafi happdrættisvinningur á síðasta ári með réttum milljarðs króna tekjuauka vegna söluhlutar íslenska ríkisins í Íslenskum aðalverktökum þá er ekki hægt að gera út á slíka happdrættisvinninga þannig að það er af þessum sökum sem ég held að umræðan sé mjög mikilvæg og hún hefur verið málefnaleg og fyrir það þakka ég.