Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 21:13:42 (2856)

1997-12-19 21:13:42# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:13]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta hættir hæstv. fjmrh. oft til að gera. Að bera saman epli og appelsínu, að bera saman ríkisreikning sem sýnir niðurstöður af rekstri ársins á undan og fjárlagafrv. sem sýnir áætlun um rekstur. Það sem ég var að segja var að þegar borin verður saman ríkisreikningur ársins 1998 við fjárlög ársins 1998, þá áætla ég hreinlega að niðurstaða ríkisreiknings á árinu 1998 verði halli upp á 4 milljarða kr. Það er vissulega árangur. Nú skal ég staðfesta réttmæti orða hæstv. ráðherra. Niðurstaða ríkisreiknings undanfarinna ára hefur verið að sýna okkur halla upp á 8--12 milljarða kr. Og berum það nú saman við fjárlagafrumvörpin fyrir hvert ár um sig eins og frá þeim var gengið og sjái menn muninn sem þar er á. Ég er ekki að tala um slíka niðurstöðu fyrir árið 1998. Ég er ekki að tala um að hallinn á ríkissjóði 1998 verði af stærðinni 8--12 milljarðar kr. eins og hann hefur verið undanfarin ár. Ég er að spá því að hann verði um 4 milljarðar kr. þannig að hann verður vissulega minni en hann hefur verið að undanförnu og vissulega hefur árangur náðst. En það er ekki viðunandi, hæstv. fjmrh., í einhverju mesta góðæri sem íslenska þjóðin hefur lifað í tvo áratugi að skila ríkissjóði með 4 milljarða kr. halla. Hæstv. ráðherra veit það sjálfur að ef hann ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur og samkvæmur málflutningi síns flokks, ætti hann að skila fjárlögunum frá sér nú með a.m.k. þeim afgangi en ekki 0,09% afgangi á rekstrarreikningi sem er hlægilegt, fráleitt og honum og flokki hans til skammar.