Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 21:16:11 (2857)

1997-12-19 21:16:11# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:16]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. fór nú inn á hálar brautir. Hann fór að saka þann sem hér stendur um að ekkert væri að marka áætlun fjárlaga og niðurstöður. Nú stendur þannig á að á yfirstandandi ári og á síðasta ári urðu niðurstöðurnar mun betri en fjárlög gerðu ráð fyrir, bæði þessi ár. Það eru því engar líkur á því, ætli menn að marka út frá þessari reynslu, að útkoman þurfi að vera verri á næsta ári en niðurstöðutölurnar gefa til kynna. Auðvitað hafa stjórnarandstöðuþingmenn haldið því fram árum saman að niðurstaðan yrði verri. Sannleikurinn er sá að niðurstaðan hefur verið betri á tveimur síðustu árum vegna þess að áætlanirnar eru betri en oftast áður. Hv. þm. þarf því að temja sér áður en hann kemur í ræðustól og flytur ræðu eins og hann hafi einn höndlað sannleikann, að kynna sér málin, kynna sér söguna, kynna sér tölurnar sem liggja fyrir í öllum bókum, opinberar tölur, áður en hann fer að draga ályktanir sem hljóta að verða rangar.

Hv. þm. leyfði sér síðan að segja að sá sem hér stendur hefði gert sig sekan um að bera saman epli og appelsínur. Það er aldeilis rangt vegna þess að ég bar saman sambærilega hluti, annars vegar á rekstrargrunninum og hins vegar á greiðslugrunninum. Það var einu sinni sagt um merka menn eitthvað á þá leið að ,,af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá`` en ég heyri að hv. þm. þekkir ekki í sundur epli og appelsínur.