Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 21:35:27 (2861)

1997-12-19 21:35:27# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, LB
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:35]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hér hefur margt verið sagt í dag og mikið rætt. Ég skil það vel að hæstv. fjmrh. sé orðinn þreyttur. En ég held, af því ég á við hann erindi, að rétt væri að kalla hann í salinn þótt hann sé orðinn þreyttur á öllum þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar í dag.

(Forseti (GÁS): Forseti verður við því.)

Virðulegi forseti. Fjárlög ríkisins eru greinargerð ríkisstjórnarinnar um tekjur og gjöld og í henni birtist stefna ríkisstjórnarinnar. Þar má helst finna þá stefnu sem hæstv. ríkisstjórn stendur fyrir og ég held að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hafi nú staðið undir merkjum hvað það varðar að það er alveg greinilegt og fjárlögin bera það með sér að hún muni ekki klikka á því að álögurnar verða nú helst á einstaklinga eins og venjulega þegar þessir flokkar eru í ríkisstjórn en fyrirtæki og aðrir lögaðilar sleppa betur en aðrir. Það er ekkert nýtt í þessu. Það er stefna þessara flokka og hefur verið gegnum tíðina og út af fyrir sig ekkert við því að segja. Þeir hafa ekkert farið dult með það. Við ræddum í dag dómsmálagjöldin sem eru að mínu viti hálfgerð háðung, þ.e. að verið sé að seilast í vasa þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu og hækka á þá gjöldin aðeins vegna þess að svo langt er síðan við hækkuðum síðast á þeim gjöldin. Eins má nefna fyrirhugaðan bílaskatt eða bensíngjald sem ætlunin er að leggja á á árinu svo ekki sé nú minnst á nefskattinn á símtæki sem leggja á á. Ég mun koma sérstaklega að því síðar.

Þó vil ég sérstaklega nefna það jákvæða litla atriði sem má finna í tillögum frá dómsmrn. þar sem lagðar eru fram 2,4 millj. til að rannsaka dóma og bera þá saman, einkanlega í líkamsárásar- og kynferðisbrotum og ég held að það sé mjög af hinu góða.

En það breytir því ekki, virðulegi forseti, að þau fjárlög sem við ræðum núna staðfesta það að ríkisstjórnin hefur misst tökin á stjórn fjármála ríkisins. Ég held í sjálfu sér að við þurfum ekkert sérstaklega að deila neitt um það. Allt of mörg kennileiti benda til þess. Það þarf eitthvað mikið að gerast ef þessar tölur eða áætlanir sem fjárlögin bera með sér standast þegar uppgjörið fer fram í lok ársins. Í þessu samhengi má benda á að efnahagsforsendur gera ráð fyrir 3,5% þenslu í hagkerfinu, 5,2% aukningu kaupmáttar, 3,4% viðskiptahalla af landsframleiðslu sem er, ef ég fer rétt með, sama prósentutala og í fyrra þrátt fyrir að landsframleiðsla hafi aukist. Hér er því um hærri fjárhæðir að ræða. Erlendar skuldir munu væntanlega aukast o.s.frv. þannig að öll kennileiti bera nú þess vætti að þrýstingur á verðbólgu, gengi og vexti mun vera verulegur þegar líður á árið. Það að ætla sér að skila ríkissjóði með 150 millj. kr. afgangi er náttúrlega bara hálfgerður barnaskapur í því ljósi að fyrirséð er að halli á sjúkrahúsunum er 1--2 milljarðar og það mun engin ríkisstjórn loka sjúkrahúsunum. Það kemur ekki til greina. Það mun ekki gerast. Við sjáum því í fjáraukalögunum þegar uppgjörið fer fram að þá kemur í ljós að þetta verður miklum mun hærra.

Það sem kannski vekur sérstaka athygli er sú hækkun sem orðið hefur á fjárlögunum milli 1. og 3. umr. sem eru tæpir 3 milljarðar. Það segir kannski meira en mörg orð um þá ríkisstjórn sem nú er og þann djöful sem hún hefur að draga, að vera ríkisstjórn sérhagsmuna. Og þegar á reynir og þessir sérhagsmunahópar veitast að henni þá hefur hún sýnt að hún hefur einfaldlega ekki styrk til að standa gegn því áreiti. Við sjáum í þeim fjárlagatillögum sem nú liggja fyrir og hafa hækkað um tæpa 3 milljarða frá því frv. kom fyrst fram, að hún einfaldlega stenst það ekki þegar þessir sérhagsmunahópar gera aðför í hirslur ríkissjóðs og vilja fá það sem þeim ber. Þetta er bara svona þegar þessir flokkar eru saman og kannski óskaplega lítið við því að segja því sagan ber þetta einfaldlega með sér.

Kannski er rétt að vorkenna hæstv. fjmrh. að þetta skuli vera niðurstaðan því þetta er alveg örugglega ekki í samræmi við hans vilja enda verður að segja það alveg eins og er að um þann tíma sem hann hefur verið í fjmrn. held ég að sagan muni fara nokkuð mjúkum höndum og það er alveg öruggt að sú niðurstaða sem hér birtist og ber skýr merki þess að ríkissjóður verður rekinn með halla er ekki í samræmi við hans vilja.

Ég held að þær áætlanir sem settar hafa verið fram um verðmæti á sölu þeirra eigna sem ætlunin er að selja séu nú út í vindinn og ef við tökum dæmi af verðbréfaþinginu þá yfirleitt hrynja í gengi þau fyrirtæki sem eru að ná einhverjum hagnaði með því að selja eignir eða eru með tap af reglulegum rekstri þannig að ef ríkissjóður hefði verið á verðbréfaþingi er alveg ljóst að gengi ríkissjóðs hefði fallið verulega þegar þessi fjárlög eru kynnt. Ég tala nú ekki um þegar niðurstaðan liggur fyrir. Enda hafa áætlanir um sölu eigna ríkissjóðs aldrei staðist og engin ástæða er til að ætla að þær muni standast núna. Þess utan eru lífeyrisskuldbindingar sem munu falla á ríkissjóð á þessu ári ekki allar færðar í bókhaldið þannig að hallinn verður enn meiri. Ég mun ekki skjóta á það hver sá halli verður en ekki kæmi mér á óvart þótt hann yrði 2--5 milljarðar. Ég held það kæmi ekki nokkrum manni á óvart.

Það sem er kannski það hættulega við það þegar þessir helmingaskiptaflokkar eru við völd og standast það ekki þegar sérhagsmunahóparnir krefjast þess að fá sitt, er að í þessu breytta umhverfi, í þessu frelsi með flutningi fjármagns og öðru sem hefur breyst og kannski að miklu leyti í tíð núverandi fjmrh., verðum við að laga okkar efnahagskerfi að því sem gerist annars staðar. Um leið og verðbólgan hér fer að fara yfir 4--6% erum við farin að skekkja samkeppnisstöðu iðnaðarins t.d. mjög mikið. (KÁ: En sjávarútvegurinn?) Við væntanlega skekkjum samkeppnisstöðu allra þannig að ég fæ ekki séð að nokkru máli skipti hvar borið sé niður.

Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs núna er aðallega af því tilefni að ég ætla að mæla fyrir brtt. sem er á þskj. 614. Hún hljóðar upp á það að framlag til Samkeppnisstofnunar verði aukið um 17,6 millj. enda held ég að Samkeppnisstofnun sé kannski sá eini her sem eitthvað hefur að gera í þá sérhagsmunahópa sem nú fara með völd. Það sýndi sig dálítið þegar stórfyrirtæki eins og það sem hefur ráðið ríkjum í flugrekstri. --- Virðulegi forseti. Það er dálítill kliður í salnum.

(Forseti (GÁS): Ég get tekið undir það með ræðumanni. Ég bið um hljóð í salinn.)

Það væri gott ef hægt væri að fá hv. 2. þm. Suðurl. til að hægja aðeins á sér í umræðunni.

[21:45]

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þessari tillögu enda held ég að eftir því sem Samkeppnisstofnun eflist muni nýting framleiðsluþáttar í samfélaginu batna og það sem ég var að nefna áðan sýnir kannski að samfélagið er smám saman að breytast því að stórfyrirtæki sem hafa notið mikilla sérhagsmuna gegnum tíðina eru skyndilega farin að þurfa að sækja rétt sinn til dómstóla en það hafa þau ekki þurft að gera í tíð þeirra ríkisstjórnarflokka sem nú sitja. Ég held að ef þessari tillögu væri veitt brautargengi væri hægt að bæta þar við 2--3 sérfræðingum og Samkeppnisstofnun gæti kannski farið að kanna til að mynda olíumarkaðinn og sitt lítið af hverju sem nauðsynlegt er að skoða frekar.

Virðulegi forseti. Meginerindi mitt í þessari umræðu núna er sá fjárlagaliður sem er á bls. 358 í frv. --- Virðulegi forseti. Það gengur svolítið illa að halda aftur af hv. 2. þm. Suðurl. Er ekki hv. þm. í forsætisnefnd?

(Forseti (GÁS): Mér sýnist kyrrð og friður núna þannig að hv. þm. getur haldið áfram ræðu sinni.)

Virðulegi forseti. Eins og ég var að nefna núna er það liður 325, Neyðarsímsvörun, sem er megintilefni þess að ég kem hér upp í kvöld. Ætlunin er ekki að rekja tilurð þessa fyrirtækis eða þá umræðu sem fram fór þegar það var einkavinavætt af núv. hæstv. dómsmrh. sem reyndar sér sér ekki fært að vera við umræðuna í kvöld. Í fjárlögunum segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Áætluð útgjöld næsta árs eru 52,7 millj. kr.`` --- Ég held að það séu 26,4 eftir breytingar. Ég sé að fjmrh. jánkar þessu. --- ,,Verður neyðarsímsvörunin fjármögnuð með gjaldtöku af símafyrirtækjum.``

Hér er um að ræða nefskatt upp á 26,4 millj. kr. Við megum ekki gleyma því, virðulegi forseti, að fjárlög eru fyrst og fremst greinargerð um tekjur og gjöld. Öðrum lögum verður ekki breytt með fjárlögum. Það er alveg klárt. Þetta er fyrst og fremst greinargerð um tekjur og gjöld. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir m.a. að engan skatt megi á leggja nema með lögum. Hér er augljóslega um að ræða nefskatt sem ætlunin er að leggja á og innheimta af símafyrirtækjum en í lögum um samræmda neyðarsímsvörun segir svo, með leyfi forseta, í 4. gr.:

,,Kostnaður við uppbyggingu og rekstur vaktstöðvar eða vaktstöðva að því marki sem hann er ekki greiddur af tekjum fyrir selda þjónustu skv. 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. þessarar greinar greiðist að hálfu af ríkissjóði og hálfu af sveitarfélögunum.``

Það er sem sagt lögákveðið hverjir skuli fjármagna rekstur neyðarsímsvörunarinnar. Þessum lögum verður ekki breytt með fjárlögum. Ég hef hvergi nokkurs staðar fundið að nokkur stoð sé fyrir því að leggja á þann nefskatt sem ætlunin er að leggja á í fjárlögum. Ég fæ því ekki betur séð en ríkissjóður muni ekki geta innheimt þennan nefskatt nema lagabreytingar komi til. (ÖJ: Ég vona að fjölmiðlar hlusti.) Ég get tekið undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni því vitaskuld er það valdníðsla ef menn ætla einfaldlega að leggja á skatta með þessum hætti. Það er valdníðsla, hrein og klár. (ÖS: Fjölmiðlarnir hlusta.) Það er gott til að vita að hv. þingmenn eru svo lánsamir að vera með ritstjóra í salnum svo við getum reiknað með því að fjölmiðlarnir séu á vettvangi. En það er alveg klárt, virðulegi forseti, að hvergi er að finna, a.m.k. ekki þar sem ég hef leitað, nokkra lagaheimild fyrir þessum skatti svo ég fæ ekki betur séð, nema gerð verði tilraun til að breyta lögum á síðasta degi þingsins, en að hæstv. fjmrh. verði að reikna með enn frekari halla upp á 26,4 millj. nema hann hlaupi til á morgun og reyni að keyra í gegn breytingar á lögum.

Þetta var nú fyrst og fremst, virðulegi forseti, tilefni þess að ég kvaddi mér hér hljóðs. Ég ætla ekki að rekja það sérstaklega að hv. þm. Ögmundur Jónasson bar hér upp fyrir nokkrum árum fyrirspurnir um kostnað við þessa símsvörun og hvað ríkissjóður mundi greiða. Þar kemur fram að á fyrstu þremur árunum átti ríkissjóður að greiða 102 eða 104 millj. en raunveruleg útgjöld samkvæmt fjárlögum og áætlunum fyrir árið 1998 eru 130 millj.

(Forseti (GÁS): Það er allt of mikill kliður í salnum.)

Þakka þér fyrir, virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að hæstv. fjmrh. upplýsi okkur þá um það, ef einhvers staðar er að finna heimild í þessu svo við séum ekki að vaða hér í villu og reyk, hvar þessa heimild sé að finna eða hvort hann ætli að keyra í gegn skattaálögur á þeim eina grunni að þær sé að finna í fjárlagafrv.