Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 21:51:31 (2862)

1997-12-19 21:51:31# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:51]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. ræddi um neyðarsímsvörun. Ég vil upplýsa hann og aðra hv. þm. um að séð verður fyrir því að þessir fjármunir komist til skila þannig að hægt verði að reka Neyðarsímsvörun á næsta ári. (ÖJ: Til skila til hverra?) Ég vil einnig að það komi hér fram að ríkisstjórnin og sveitarfélögin gerðu með sér samning á sínum tíma þess efnis að ríkisvaldið tæki að sér að sjá um fjárframlög til þessa fyrirtækis. Það er ekki nauðsynlegt endilega að til komi sérstök skattheimta til að standa undir þessum kostnaði því til að mynda er hægt að hugsa sér að umsamin framlög komi frá fyrirtækjum sem veita símaþjónustu á landinu. Ég vil láta það koma fram hér alveg sérstaklega að hv. þm. þurfa ekki að óttast að Neyðarsímsvörun þurfi að búa við fjárskort á næsta ári. Fyrir því verður séð. (ÖJ: Það er verið að tala um aukna skattheimtu á almenning.) Ég heyri að hv. framíkallandi botnar ekkert í því um hvað þetta mál snýst. (ÖJ: Ég er hræddur um að framsögumaður geri það ekki heldur.)