Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 22:38:04 (2867)

1997-12-19 22:38:04# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[22:38]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 14. þm. Reykv. beindi til mín spurningu um meðferðarheimili í Skagafirði og tillögu sem varðar Barnaverndarstofu. Þessi tillaga hefur verið til athugunar í félmrn. og kom til okkar nokkuð seint í okkar vinnu við fjárlagafrv. Mér er alveg ljóst að þetta er fyrsta skref á langri leið í þessum málum og það er rétt sem hv. þm. sagði að talið var að fjárþörf í þessu væri um 90 millj. kr.

Þessi úrræði í Skagafirði eru ætluð fyrir unglinga frá 16--18 ára, en það er ljóst að ekki er um aukið framboð að ræða því að eftir því sem mér skilst, þá hefur verið lagt þar niður heimili nú nýverið þannig að þetta er til þess að mæta allra brýnustu verkefnum á þessu sviði. Vissulega þarf að þróa úrræði í þessum efnum betur með tilliti til hinnar nýju löggjafar, taka sér tíma í það.

Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni til Sjúkrahúss Reykjavíkur hér í umræðum áður en ég vil aðeins minnast á það samt varðandi launakjör lækna að ég tel að að ganga verði í það af alefli að reyna að ná samningum við þá sem út af standa í því efni. Í frv. er reiknað með 250 millj. til þess að mæta kjarasamningum sem nýlega hafa verið gerðir. Þeir hafa ekki allir verið samþykktir en það þarf að reyna að ljúka þessum málum.