Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 23:01:33 (2873)

1997-12-19 23:01:33# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[23:01]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. hafi misskilið verulega mikið af því sem ég var að segja. Þegar ég talaði um að höfða til höfuðborgarsvæðisins er það einfaldlega vegna þess að höfuðborgarsvæðið hefur ekki tekið þátt í því starfi sem hefur farið fram hingað til um borð í þessum skólaskipum nema að mjög óverulegu leyti. Þetta hefur fyrst og fremst nýst landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðið hefur ekki sýnt þessu neinn áhuga. Til þess að geta haldið úti svona rekstri er mjög brýnt að stærstu svæði landsins hafi áhuga á slíku starfi til þess að það geti þjónað tilgangi sínum og haldið velli svo að vel fari. Ég ítreka að það er ekki meiningin að þetta skip liggi í Reykjavíkurhöfn heldur er verið að hugsa um að þetta skip fari um allt land eftir áhuga skólafólks. Kostnaðurinn verður að sjálfsögðu meiri en við minni skipin, einfaldlega vegna þess að þarna er krafist miklu meira öryggis, miklu meiri sérþekkingar og miklu betri aðstöðu en hingað til hefur verið til staðar. Þarna er ekki talað um neina fjárfestingu því að einungis er um leigu að ræða. Það eru leigðir nákvæmlega þeir dagar sem farið er út með börn en ekki neinir legudagar í höfn þannig að við erum einungis að tala um virka daga á sjó með skólabörn sem geta þá nýtt sér þá kennslu sem þarna getur farið fram.

Ég mundi segja að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir ætti að fagna þessu frumkvæði sem ég held að sé mjög gagnlegt og þarft fyrir skólana og ekki síst fyrir landsbyggðina sem ég tel mikilvægt að fái stuðning höfuðborgarsvæðisins til reksturs slíkra verkefna.