Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 23:08:09 (2876)

1997-12-19 23:08:09# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[23:08]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við höfum verið að ræða frv. til fjárlaga við 3. umr. síðan klukkan rúmlega 2 í dag og nú er klukkan að ganga 12 þannig að við höfum verið að í rúma 9 klukkutíma að ræða hver forgangsröðunin er hjá ríkisstjórninni í því að verja því fé sem við eigum í sameiginlegum sjóði.

Ég get tekið undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur um það að mér var nokkuð brugðið í morgun þegar ég mætti til vinnu og sá hversu margir biðu eftir því að fá aðstoð fyrir utan hús Hjálpræðishersins í morgun. Það er umhugsunarefni þegar menn eru að ræða fjárlögin að í velferðarsamfélagi sé þetta stór hópur sem þarfnast aðstoðar rétt fyrir jólin. Auðvitað eru þeir mun fleiri því að víða er þröngt í búi. Það þekkja þeir sem vilja.

Ég get ekki orða bundist þó svo að ekki ætti að þurfa að ræða hér ástandið á sjúkrahúsunum. Menn ættu að þekkja það eftir alla umræðuna í dag og undanfarna daga, bæði umræðuna á þinginu og einnig umræðuna í samfélaginu og fjölmiðlum. En ég get því miður ekki orða bundist vegna þess neyðarkalls sem kom frá stjórnun sjúkrahúsanna til fulltrúa okkar í heilbr.- og trn. og til þingmanna síðustu daga. Menn muna ekki eftir verra útliti. Það mun bitna verulega á sjúklingum. Öllu mun seinka, biðlistar munu lengjast, óróleika og vanlíðan er farið að gæta hjá starfsfólki og hjá sjúklingum. Þetta eru skilaboðin sem við fáum frá stjórnendum sjúkrahúsanna. Þeir eru ráðþrota. Æ fleiri koma inn á sjúkrahúsin sem bráðasjúklingar, sem bráðatilvik, yfir 72% þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús og þeir eru mun dýrari sjúklingar sem koma inn sem bráðasjúklingar en hinir sem koma inn af biðlistanum. Þetta eru skilaboðin sem við höfum fengið undanfarið, herra forseti, og því miður hefur ekki verið brugðist við sem skyldi hjá stjórnvöldum. Reyndar fagna ég því að upplýsingar komu um það að 100 millj. koma til viðbótar til Sjúkrahúss Reykjavíkur til að geta hafið viðhald en það dugir alls ekki til. Það er rétt sem kom fram hjá fulltrúum stjórnenda sjúkrahúsanna. Óróleika, vanlíðunar og óvissu er farið að gæta hjá starfsfólki sjúkrahúsanna.

Við fengum orðsendingu eða bréf í dag frá Starfsmannaráði Sjúkrahúss Reykjavíkur. Það er orðið erfiðara hjá þeim, starfið er orðið þyngra en áður. Legurúmum hefur fækkað, segir í bréfinu. Það leiðir af sér að heilbrigðisstarfsmenn hafa skemmri tíma til að sinna hverjum og einum sjúklingi. Það hefur orðið til þess að á álagstímum vistast fleiri alvarlega veikir inni á göngum sjúkrahússins og það hefur einnig leitt af sér að fjöldi sjúklinga þarf að leggjast inn aftur innan sjö daga frá útskrift og sá fjöldi vex ár frá ári. Það kom fram í máli mínu við 2. umr. að 75 af hverjum 1.000 sjúklingum sem koma inn á ákveðnar deildir á sjúkrahúsunum eru komnir inn á sjúkrahús aftur innan átta daga. Er þetta ekki alvarlegt ástand, herra forseti?

Einnig hefur komið fram og kemur fram í bréfi frá Starfsmannaráði Sjúkrahúss Reykjavíkur að verði fjárhagsvandi sjúkrahússins ekki leystur strax muni það leiða til þess að sjúkrahúsið muni ekki geta valdið grundvallarhlutverki sínu að sinna sjúkum og slösuðum.

Ég minni á að á þessu sjúkrahúsi er eina slysadeildin á landinu og menn horfa fram á að þurfa að loka deildum. Þó svo menn loki deildum mun það ekki hafa þann sparnað í för með sér sem menn gætu gert ráð fyrir vegna þess að ekki er hægt að fækka starfsfólki sem því nemur.

Ég vil taka undir hvert einasta orð frá starfsmannaráði Sjúkrahúss Reykjavíkur og ég veit ekki hvað það hefur upp á sig að vera að ræða þetta eftir rúmlega níu tíma umræðu því að ég held að þessi skilaboð ættu að vera komin til skila til stjórnvalda. Ég treysti því að gripið verði til frekari fjárveitinga en þeirra sem eru til afgreiðslu því að ekki verður við þetta unað.

[23:15]

Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu, herra forseti, en ætla að mæla hér fyrir brtt. við fjárlögin sem ég flyt á þskj. 646 um aukafjárveitingu til Arnarholts, deildar 35 við Sjúkrahús Reykjavíkur. Eins og menn muna eflaust var deild 35 á Arnarholti lokað við niðurskurðinn haustið 1996. En henni hefur verið haldið opinni að hluta þar sem ekki var hægt að koma öllum þeim geðsjúku sem þar dvöldu í aðra vist. Þar hafa dvalið níu sjúklingar. Þeir hefðu lent á götunni ef deildinni hefði verið lokað. Þessi deild hefur verið rekin án fjárveitinga en reynt að fá aðstoð frá öðrum deildum en þannig er ekki hægt að gera til lengdar. Þó er vitað að nokkrir af þeim sem fluttir voru frá Arnarholti hafa beðið verulegan skaða af þeim flutningi. Mjög hefur verið þjarmað að geðsjúkum hér á landi og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er þjónustan við öryggismörk á geðdeildum, sérstaklega inni á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Ég legg því til að 8 millj. til viðbótar fari til Arnarholts þannig að það mögulegt sé að halda úti rekstri fyrir þessa níu sjúklinga sem þar dvelja. Hér er um að ræða lágmarksupphæð til að hægt sé að reka deild fyrir geðsjúka á Arnarholti. Ég hef því ákveðið að leggja fram þessa brtt. sem kemur til atkvæða á morgun.

Ég vil einnig minna á aðra tillögu sem lögð var fram við 2. umr. en kölluð aftur til 3. umr. Hún hljóðar upp á 5 millj. kr. viðbótarfjárveitingar til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Þetta eru 5 millj. sem vantar til þess að einhverfir og fatlaðir með Asperger-heilkenni geti fengið þá þjónustu sem þeir þurfa.

Fyrir nokkru síðan skoðaði nefnd stöðu þessara fötluðu einstaklinga sem áður fengu þjónustu í gegnum heilbrrn. en heyra nú undir félmrn. og komst hún að þeirri niðurstöðu að 10 millj. þyrfti að lágmarki til þess að þessi hópur fengi lágmarksþjónustu. Í fjárlagafrv. er aðeins gert ráð fyrir 5 millj. til þessa hóps. Þess vegna leggjum við til, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir og sú sem hér stendur, að þær 5 millj. sem upp á vantar komi til að tryggja þessum hóp þjónustu. Samkvæmt fjárveitingu þeirri sem er í fjárlögunum geta aðeins hinir yngstu og mest fötluðu fengið þjónustu. Aðrir munu ekki fá hana og hliðstæð þjónusta fyrir þá sem hafa Asperger-heilkenni. Það er auðvitað ekki viðunandi og þetta eru ekki háar upphæðir að fara fram til þess að hópurinn geti fengið lágmarksþjónustu hjá Greiningarstöðinni. Ég vona svo sannarlega að tillögurnar tvær, fyrir geðfatlaða á deild 35 á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og þá fötluðu sem ekki fá neina heildstæða þjónustu og munu ekki fá hana ef fjárlög verða afgreidd eins og nú er, fái náð fyrir augum meiri hluta fjárln.

Ég kvaðst, herra forseti, ekki verða með langt mál enda ekki ástæða til. Það er búið að gera góða grein fyrir ástandinu í heilbrigðismálum og ég gerði það einnig í fyrri ræðu minni við 2. umr. í löngu máli.

Ég get þó ekki orða bundist yfir þeim fréttum sem voru í útvarpinu í kvöld um að enn einu sinni eigi að hækka þjónustugjöld á sjúklinga. Ætlunin er að hækka hlut sjúklinga í lyfjakostnaði. Ég get ekki sætt mig við að enn einu sinni eigi að höggva í sama knérunn, sjúkra hér á landi og ég kalla eftir skýringum á því og rökum fyrir því að ekki er hægt að leita neitt annað en til sjúklinga að sækja fé í ríkissjóð á þessum góðæristímum. Er nokkur furða að ég spyrji?

Ég hefði eins getað haft hér langt mál um vegamálin. Ég sé að vegáætlun til langs tíma er komin á borðin og búið að dreifa henni. Ég leyfi mér að efast um að nokkur trúi góðri ætlan í þeirri vegáætlun miðað við það hvernig markaðir tekjustofnar til vegagerðar eru miskunnarlaust skornir niður hjá þessari ríkisstjórn. Til stóð að markaðir tekjustofnar til vegagerðar yrðu skornir niður um 1 milljarð og 64 millj., herra forseti, en nú er kominn hér 100 millj. kr. niðurskurður til viðbótar. Síðan kemur glansmynd, vegáætlun til langs tíma frá ríkisstjórninni. Hvers konar tvískinnungsháttur er þetta, herra forseti?