Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 09:53:29 (2887)

1997-12-20 09:53:29# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[09:53]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. veit gjörla, þá voru lífeyrissjóðirnir settir á fót í kjarasamningum fyrir 1970 í því skyni að tryggja að launþegar ættu rétt á því að greiða í lífeyrissjóð. Í því frv. sem við erum væntanlega að lögfesta í dag eru allir skyldir til þess að vera í einhverjum lífeyrissjóði. Síðan er hægt að binda lífeyrissjóðsaðildina með kjarasamningi. Ef það er þannig að hv. þm. vinnur hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem afgreiðslumaður í herrafataverslun, þá ætti hann að sjálfsögðu rétt á því að greiða í Lífeyrissjóð verslunarmanna ef hann ynni samkvæmt kjarasamningi og fengi greidd laun samkvæmt honum eða (PHB: Ekki samkvæmt kjarasamningi.) eða byggði réttindi sín á honum. Ef hv. þm. Pétur H. Blöndal hefði gífurlegan áhuga á því að notfæra sér ekki rétt sinn til þess að greiða í Lífeyrissjóð verslunarmanna, þá hygg ég að hann og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gætu sjálfsagt með einhverjum ráðum komist hjá því. Ég hygg að Lífeyrissjóður verslunarmanna mundi ekki eltast við það að pína hv. þm. Pétur H. Blöndal til þess að greiða til sín ef hann vildi það ekki. En þar þarf ákveðið til að koma eins og hv. þm. veit.