Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 10:36:20 (2895)

1997-12-20 10:36:20# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:36]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það er mikið rétt að það komu fram einstaka raddir um að þessi túlkun á 2. gr. væri ekki eins og ég lýsti hér áðan, þetta ætti einungis að gilda um forstjórana, um yfirmennina. Það voru þessar einstöku raddir. Það var að vísu fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar sem hafði þessa skoðun. Ég er þessu alfarið andsnúinn, þ.e. að fólk sitji ekki við sama borð, að forstjórarnir búi við frelsi en launþeginn ekki. Það er algerlega andstætt minni hugsun og því sem ég trúi um frelsi einstaklingsins þannig að þessar einstöku raddir sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi að hafi komið fram á nefndarfundi, voru hjáróma því að ég efast um að það standist stjórnskipun okkar þjóðfélags að gera upp á milli forstjórans og launþegans með þessum hætti. Í mínum huga er þetta alveg tært. Ef menn ekki nota þá kjarasamninga sem verkalýðshreyfingin hefur gert við atvinnurekendur, ef menn gera sjálfir sinn samning, þá hafa þeir frelsi. Ef þeir hins vegar nota þessa samninga af því að þeir kjósa af einhverjum ástæðum að vera í stéttarfélagi, þá borga þeir, samkvæmt skilningi mínum og flestra sem komu á nefndarfundinn höfðu á 2. gr., í þann lífeyrissjóð sem tilheyrir viðkomandi grein en það hlýtur að vera grundvallaratriði að launþeginn og forstjórinn sitji við sama borð í þessum efnum.