Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 10:37:47 (2896)

1997-12-20 10:37:47# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:37]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess skilnings sem kom fram hjá einstaka gesti hv. efh.- og viðskn., þá hef ég lesið þessa grein og aðrar greinar í frv. og ég hef hvergi getað séð nein rök fyrir því að forstjórar eða stjórnendur fyrirtækja geti valið sér lífeyrissjóð en aðrir launþegar ekki þannig að ég hef ekki getað fallist á þau rök að þetta gildi frekar en hv. þm. Og ég tel, eftir þá yfirlegu sem átti sér stað í efh.- og viðskn., að allir geti valið sér lífeyrissjóð ef þeir ekki eru í stéttarfélagi, ef atvinnurekandi þeirra er ekki í atvinnurekendafélagi og ef ráðningarsamningurinn vísar ekki til kjarasamnings einhvers stéttarfélags, þá geti menn valið. Þetta opnar náttúrlega á geysilega mikla möguleika, hv. þm. Ég vil benda á það. Og það er hárrétt að verkalýðshreyfingin kann nú loksins að fá samkeppni eftir 20--30 ára hvíld á rósabeðum þar sem skylduaðild er að stéttarfélögum. Menn senda bara lögfræðing út í bæ til að innheimta iðgjaldið. Það er orðið prósenta af launum. Þeir senda lögfræðing til að innheimta félagsgjaldið sömuleiðis og þetta er orðið ákaflega þægilegt líf. Þetta eru orðnir embættismenn hjá öllum stéttarfélögunum og það er mjög miður. Ég held að stéttarfélögin hafi mjög verðugt verkefni en þau eiga að starfa þannig að fólk vilji vera í þeim og það er mjög mikivægt. Ég held að þetta frv. leiði til þess. Þetta eykur samkeppni hjá stéttarfélögunum.