Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 10:51:18 (2898)

1997-12-20 10:51:18# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, GMS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:51]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Það er aldeilis að hv. þm. Ágúst Einarsson er kominn í jólaskap. Það var ekkert nema gleðin og hátíðin sem lýsti úr orðum hans og væri nú betra að slík gleði og hátíð væri oftar uppi þegar menn starfa í efh.- og viðskn.

Það mál sem við höfum til umfjöllunar er frv. til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ég hef ýmsar athugasemdir við þetta mál en hluti af þeim snýst um málsmeðferðina, þ.e. hvernig staðið hefur verið að vinnslu þessa máls og hvernig Alþingi hefur komið að því. Mér finnst virðingu Alþingis vera stórlega misboðið þegar við skoðum hvernig unnið hefur verið að þessu máli.

Þegar þetta mál, sem samið er af einhverjum mönnum úti í bæ, kom inn í þingið var ljóst að það mátti engu breyta. Skilaboðin yfir í efh.- og viðskn. voru þau að ekkert mátti eiga við þetta frv., ekkert sem neinu máli skipti því að það mundi raska því samkomulagi sem gert hefði verið við menn úti í bæ. Mér finnst virðing Alþingis orðin lítil þegar hægt er að gera samkomulag úti í bæ og skipa síðan þingmeirihlutanum, 61 þingmanni væntanlega, að hlýða því sem einhverjir hagsmunaaðilar úti í bæ ákveða að skuli gilda fyrir þjóðina alla. Hvert er hlutverk Alþingis orðið í lagasetningunni þegar hægt er að semja um hvernig málum eigi að skipa á klíkufundum úti í bæ og flytja það svo hér í krafti meiri hluta sem væntanlega er upp á 61 þingmann?

Síðan bætir enn í þegar stórmáli eins og þessu er skotið inn á lokadegi þingsins fyrir jól, væntanlega til að koma í veg fyrir að það fái eðlilega umfjöllun í þingsal, skotið inn á laugardagsmorgni þegar allir vita að þingið er í tímaþröng að ljúka sínum málum eftir að menn hafa eytt klukkutíma eftir klukkutíma í að tala um lítilsverðari mál í liðinni viku.

Ég flyt brtt. við þetta frv. þó að ég standi að frv. í heild. Ég flyt þær með hv. þm. Pétri Blöndal. Það er líka íhugunarefni fyrir þetta þing og fyrir starfshætti þingsins að eini þingmaðurinn sem hefur einhverja menntun til að fjalla um málefni lífeyrissjóða, Pétur Blöndal tryggingastærðfræðingur, var ekki hafður með í ráðum þegar verið var að semja þetta lagafrv. Fyrir þá sem ekki vita, þá ætla ég að segja mönnum það að tryggingafræði og tryggingastærðfræði er einhver erfiðasta námsgrein sem hægt er að fara í gegnum. Þær eru ekki margar erfiðari og ég efast um að margir þingmenn af þessum 63 hefðu komist í gegnum það nám sem Pétur Blöndal hefur farið í gegnum sem tryggingastærðfræðingur. Ég leyfi mér að efast um það, með fullri virðingu fyrir hv. þingmönnum, að margir hefðu klárað það nám. Ég veit að þeir eru til en þeir eru ekki margir. Ef ekki er hægt að nota þekkingu slíkra manna sem hafa menntað sig til sérgreina sem verið er að fjalla um, þá finnst mér illa komið fyrir þjóðþingi Íslendinga. Þess vegna leyfi ég mér að hlusta meira á það sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur fram að færa í lífeyrissjóðsmálum en margur annar þingmaðurinn sem þó kemur oft upp í ræðustól og talar mikið og fjálglega en sveiflast síðan eftir því hvort málin varða ASÍ eða eitthvert annað afl í þjóðfélaginu.

Það hefur líka valdið mér vonbrigðum að sjá afstöðu sumra félaga minna sem á síðasta kjörtímabili fluttu frv. um lífeyrissjóði, góð frv. um frelsi í lífeyrissjóðamálum og um stjórnir lífeyrissjóða, að sjá þá ágætu félaga mína skipta um skoðun rétt eins og menn skipta um föt, eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Slík vinnubrögð finnst mér að hljóti að vera erfitt að ástunda og þau eru alla vega ekki trúverðug.

Við fengum ekki marga gesti í nefndina. Þeir sem komu tilheyrðu flestir klúbbnum sem stóð að því að semja frv. úti í bæ. En við fengum bréf og ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vitna til tveggja bréfa og fá að lesa upp úr þeim. Fyrra bréfið er frá Sambandi ísl. tryggingafélaga. Þar segir svo:

,,Frumvarpið hefur tekið breytingum frá því að afgreiðslu þess var frestað sl. vor. Er sumt til bóta en annað orkar tvímælis frá sjónarhóli þeirra sem vilja sjá raunverulega aukið valfrelsi í lífeyrismálum landsmanna. Verður ekki betur séð en frumvarpið geri skylduaðild að lífeyrissjóði enn afdráttarlausari en áður og skuli nú ríkisskattstjóraembættinu beitt til að fylgja þeirri kvöð aftir samanber 6. gr. frumvarpsins.

Samskipti einstaklinga og lífeyrissjóða eru einkaréttarlegs eðlis en ekki af opinberum toga. Af þeirri ástæðu er vafasamt hvort og þá í hvaða mæli stjórnvöld eigi beinlínis að hafa eftirlit með framkvæmd samskipta að þessu leyti.``

Þarna er ég, herra forseti, að vitna til bréfs frá Sambandi ísl. tryggingafélaga. Síðan langar mig að vitna til bréfs frá Verslunarráðinu þar sem segir, með leyfi herra forseta:

,,Það er stefna Verslunarráðs Íslands að valfrelsi og samkeppni eigi að gilda á sviði lífeyrismálanna sem og annars staðar í þjóðfélaginu. Verslunarráðið hefur ítrekað bent á að greina verði á milli skyldugreiðslna í lífeyrissjóði og skyldugreiðslna til ákveðinna lífeyrissjóða. Hið fyrrnefnda felur í sér að öllum verði gert skylt að leggja til hliðar til elliáranna og til þess að mæta ófyrirsjáanlegum áföllum án þess að verða sviptir þeim sjálfsögðu mannréttindum að fá að velja sér lífeyrissjóð. Jafnframt leiðir það til samkeppni á milli lífeyrissjóða sem hefur í för með sér að stjórnendur sjóðanna búa við virkt aðhald sjóðfélaga.``

Ég tel að það væri betur ef þessi sjónarmið sem koma fram í þessum tveimur bréfum hefðu verið höfð að leiðarljósi í umfjöllun um þetta mál í þinginu. Mér finnst forræðishyggjufólk og forræðishyggja á hinu háa Alþingi enn þá býsna sterk þó komið sé fram undir lok þessarar aldar. Ég minnist þess --- ég held að það hafi verið á árinu 1978 --- er ég var um tíma framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum. Þegar ég kom að því fyrirtæki hafði sá háttur viðgengist að laun þeirra sem þar störfuðu voru lögð inn á reikninga viðkomandi hjá hinu ágæta fyrirtæki kaupfélaginu í Króksfjarðarnesi. Ég tók að borga launin beint út til viðkomandi starfsmanna. Athugasemdir voru gerðar við þetta frá ágætisfólki sem stýrði þessu kaupfélagi. Það taldi að með þessu móti væri hætta á því að launþeginn kynni ekki fótum sínum forráð, hann mundi bara eyða sínum peningum. Það væri miklu betra að launin væru lögð inn á reikning í kaupfélaginu.

[11:00]

Það sýndi sig auðvitað að íbúar \mbox{Austur-Barðastrand}arsýslu kunnu vel að sjá fótum sínum forráð, þeir kunnu að fara með sitt kaup. Ég hef síðan séð þessa forræðishyggju og kallað hana með sjálfum mér ,,kaupfélags-syndrome``. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér blöskrar þegar ég verð þess áskynja að allt að því 61 þingmaður, a.m.k. 60 þingmenn eru haldnir þessu ,,kaupfélags-syndrome``. Ég ætla að vísu að undanskilja hæstv. forsrh. því að ég tel að með því frv. sem hann hefur nýverið lagt fram um eftirlitsstofnanir sýni að forræðishyggjan sé ekki ofarlega í hans huga.

Ég flyt ásamt hv. þm. Pétri Blöndal brtt. við 1. gr. frv. og tillaga okkar hljóðar svo:

,,Lífeyrissjóður er eign sjóðfélaga sinna. Innstæða eða réttindi samkvæmt samningi um tryggingarvernd eru eign rétthafa.``

Nú spyr ég: Er mögulegt að vera á móti því að ítreka það að lífeyrissjóðir séu eign sjóðfélaga sinna? Við fáum úr þessu skorið eftir hádegið. Þá fáum við að sjá hversu margir af 63 þingmönnum vilja segja þjóðinni að þeir telji að sá sparnaður einstaklinganna sé ekki þeirra eign. Það fáum við að sjá á eftir. Við fáum að sjá hvort t.d. hv. þm. Ögmundur Jónasson, fulltrúi borgarastéttarinnar, formaður BSRB, telur að sitt fólk eigi þessa sjóði eða hvort það séu stéttarfélögin og atvinnurekendur sem eigi þessa sjóði, fari með þetta vald og síðan af miskunn sinni útdeili þessum peningum til þeirra sem hafa lagt fram það fé. Við fáum að sjá þetta á eftir. Við fáum að sjá hvort hv. þm. Ágúst Einarsson, þingmaður Alþfl. núna, sem talaði mjög vel um þetta frv. áðan, er þeirrar skoðunar að alþýða þessa lands eigi þessa sjóði eða hvort Grandi eða einhver slík fyrirtæki eigi þá. Það kemur allt í ljós eftir hádegið og ég vona að almenningur í landinu fylgist vel með því hvernig þingmenn bregðast við þessari brtt. sem varðar það að ítreka að sjóðfélagar eiga lífeyrissjóðina.

Stóra málið hins vegar, eins og komið hefur fram í morgun, er 2. gr. í frv. Þar hefur komið fram að skilningur manna er sá að menn geti losnað undan skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóði með því að segja sig úr verkalýðsfélögum, með því að semja um það við sinn vinnuveitanda að gera við hann sérstakan kjarasamning. Nú er það ekkert mjög flókið fyrir einstaklinga að gera sérstaka kjarasamninga þannig að ég er alveg sannfærður um að það sem hér mun gerast á eftir er að öll minni fyrirtækin, fyrirtæki með 10, 15 og upp í 20 manns munu með tímanum gera sérstaka kjarasamninga við sitt starfsfólk þar sem hvergi verður vísað til ákvæða í stéttarfélögum. Þetta þýðir það að menn mega velja hvert peningar þeirra, lífeyrissparnaður rennur. Þó að ég sé því fylgjandi að menn eigi þetta val, þá er ég því ekki fylgjandi að brjóta niður verkalýðshreyfinguna með þessum hætti. Ég tel þetta lymskulegt bragð sem verkalýðshreyfingin hefur þarna fallið á, að láta narra sig út í þessa leið. Valfrelsið er gott en verkalýðshreyfingin á vissulega fullan rétt á sér og það á ekki að brjóta hana niður innan frá. Eftir sitja síðan stóru fyrirtækin sem nota þá kjarasamninga, stundum kallaðir hampiðjusamningar eða eitthvað slíkt, þ.e. láglaunafólkið sem verst er statt situr uppi með að eiga ekkert val en hinir eiga val. Þeir geta bjargað sér og þannig mun verkalýðshreyfingin með tímanum aðeins verða málsvari þeirra sem allra verst standa í þjóðfélaginu en ég tel að það sé af hinu slæma. Verkalýðshreyfingin á að geta sýnt breidd og við eigum ekki að brjóta hana niður með þessu móti. En úr því sem komið var, úr því að búið var að taka út valfrelsið þá er í sjálfu sér ekkert annað að gera en styðja þessa grein eins og hún stendur þarna, enda er vitnað til þess að þetta sé gert með fullu samþykki verkalýðshreyfingarinnar.

Í 6. gr. er mjög sérstakt ákvæði. Þar er ríkisskattstjóra falið að hafa með höndum eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til og hafi tryggingaskyldu ekki verið sinnt, þá ber ríkisskattstjóra að ákvarða iðgjald samkvæmt því sem nánar er síðan lýst í greininni. Herra forseti. Eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að velta yfir á þetta blessaða ríkisvald í útgjöldum? Eru engin takmörk fyrir því? Af hverju dettur engum í hug að ef menn eru að setja þá kvöð á ríkisvaldið að fylgjast vel með þessum þætti, þá eigi lífeyrissjóðirnir að greiða fyrir það? Af hverju er ekkert um það hér, ekki stafkrókur? Og ef menn eru komnir á þessa forræðishyggjuleið yfir höfuð, af hverju erum við þá að rétta launþeganum launaumslagið? Ríkisskattstjóri gæti tekið að sér að halda eftir afnotagjöldum fyrir útvarp og sjónvarp og ríkisskattstjóri gæti tekið að sér að halda eftir þessum föstu útgjöldum heimilanna eins og fasteignagjöldum og orkuveitunni, rafmagni og hita. Þetta væri í sjálfu sér miklu þægilegra fyrir okkur öll að vera ekkert að fara sjálf með okkar kaup heldur bara láta ríkisvaldið um þetta, láta ríkisskattstjóra um að sjá til þess að við borgum slíkar skuldir og í besta falli að senda okkur þessar krónur sem þá eru eftir þegar búið er að borga þessi föstu gjöld. Ef þetta er á annað borð stefnan sem menn almennt vilja fara að ríkið og ríkisstofnanir séu með nefið niðri í hvers manns koppi.

Það ber að geta þess sem gott er. Í 7. gr. frv. er jákvæð breyting. Þar er tekið á því með ákveðnum hætti hver skuli vera eindagi lífeyris- eða iðgjaldatímabils. Það hefur verið þannig að flestir lífeyrissjóðir hafa til þessa umgengist ákvæði um dráttarvexti og eindaga með nokkurt réttlæti í huga og hafa a.m.k. umgengist þetta með þokkalegri sanngirni. En það eru þó til lífeyrissjóðir sem hafa verið mjög miskunnarlausir í að beita dráttarvöxtum á launagreiðendur strax nánast á fyrsta degi frá gjalddaga en nú er tekið á þessu með jákvæðum hætti, að eindaginn er skilgreindur og það er af hinu góða.

Ég og hv. þm. Pétur Blöndal gerum brtt. við 18. gr. þar sem við leggjum til að reiknuð sé út hlutdeild sjóðfélaga í hreinni eign sjóðs til greiðslu lífeyris. Ég tel mjög gott að einstaklingurinn fái að vita hvað mikið er til í sjóðnum til að mæta lífsviðurværi viðkomandi sjóðfélaga þegar kemur að töku eftirlauna. Mér er algerlega óskiljanlegt af hverju ekki var hægt að fallast á það í efh.- og viðskn. að sjóðfélaginn fái að vita hver hlutdeild hans sé í hreinni eign til greiðslu lífeyris. Eina skýringin á því að ekki sé hægt að taka þetta inn er sú að það mátti ekki hreyfa við einu eða neinu vegna þess að klúbburinn hafði samið um þetta. Klúbbur atvinnurekenda og launþega sem setur upp fyrir okkur ... (Gripið fram í: Verkalýðs...) Verkalýðsrekendanna. Það er þessi klúbbur sem setur upp fyrir okkur árlega leiksýningu sem kemur í sjónvarpinu. Þar sjáum við þetta lið rölta um með kaffibolla og kleinu í hendinni, þungbúið á svip, láta sem svo að menn séu í hörkurifrildi að semja um kaup og kjör en þegar þeir síðan mæta saman fyrir þingnefndum þá er þetta eins og geirneglt lið, geirneglt í sömu afstöðunni þar sem þeir hafa samið um sjálfir úti í bæ, því skal þröngvað upp á alla alþýðu manna og upp á Alþingi. Þá gengur ekki hnífurinn á milli þrátt fyrir alla leiksýningu með kaffibolla og kleinum.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vék að ákvæði í 21. gr. frv. þar sem segir að að jafnaði skuli minnst 800 sjóðfélagar greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs reglulega í mánuði hverjum nema sjóðurinn tryggi áhættudreifingu vegna skuldbindinga sinna með öðrum hætti í samræmi við tryggingafræðilega athugun. Og þingmaðurinn spurði vegna bréfs sem þinginu barst frá Lífeyrissjóði Bolungarvíkur hvort þetta þýddi það að þar sem sá sjóður hefur ekki 800 sjóðfélaga, en stendur vel, mætti ekki starfa. En eins og formaður efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, gat um í svari við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson þá er óskipt ákvæði í 21. gr. sem segir að ef sjóðurinn tryggir áhættudreifingu með öðrum hætti og í samræmi við tryggingafræðilega athugun, þá getur þessi sjóður starfað þó að hann hafi ekki 800 sjóðfélaga. Þetta þýðir að vísu aukin útgjöld fyrir þennan sjóð og alveg ljóst að menn eru með þessu ákvæði að reyna að ýta lífeyrissjóðum saman í stærri heildir en engu að síður er það opið að hægt er að bjarga sér með því að kaupa tryggingu með því að leita yfir í frelsið, með því að leita til einkafyrirtækja sem munu veita þessa tryggingu. Þannig er þá komið að þeir lífeyrissjóðir sem þannig er ástatt um, þ.e. að þeir hafi ekki nógu marga sjóðfélaga, þurfa að leita á náðir tryggingafélaganna.

Við 29. gr. flytjum við, ég og hv. þm. Pétur Blöndal, brtt. 29. gr. er í VI. kafla og lýtur að rekstri og innra eftirliti lífeyrissjóða. Okkar brtt. lúta að því að undirstrika að félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum lífeyrissjóðs. Á þessu er ekkert tekið í frv. Menn eru að dásama það að loksins sé komið heildarfrv. til laga um skyldutryggingu lífeyrissjóða, um lífeyrissjóði í heild. Hvernig í ósköpunum er hægt að standa hér upp og tala fyrir þessu frv. og dásama það, eins og hv. þm. Ágúst Einarsson hefur gert, vitandi það að í frv. er ekki stafkrókur um hvernig eigi að kjósa stjórn í lífeyrissjóð, ekki stafkrókur um það hver fari með æðsta vald í málefnum lífeyrissjóðs. Ekki eitt orð. Ég veit ekki hvað mönnum þætti um hlutafélagalöggjöfina ef þar væri ekki tekið á því hvernig ætti að kjósa stjórn, hvernig tekið væri á atkvæðisrétti og ársfundum. Brtt. mín og hv. þm. Péturs Blöndals er svohljóðandi og ég held ég leyfi mér að lesa hana:

,,Félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum lífeyrissjóðs. Heimild til að sitja félagsfund hafa sjóðfélagar eða umboðsmenn þeirra. Stjórn lífeyrissjóðs boðar til félagsfund ar. Henni ber að boða félagsfund innan viku ef sjóðfélagar með 1/10 atkvæðavægis eða endurskoðendur sjóðsins krefjast þess skriflega og greina fundarefni. Til félagsfundar skal boðað með dagskrá í auglýsingu í fjölmiðlum með minnst fjögurra vikna og mest sjö vikna fyrirvara.

Atkvæðisréttur sjóðfélaga á félagsfundi fer eftir áunnum og framreiknuðum iðgjöldum þeirra eftir nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Sjóðfélagi getur veitt öðrum aðila skriflegt umboð til þess að fara með atkvæði sitt á félagsfundi. Slíkt umboð gildir aldrei lengur en tvö ár og það má afturkalla hvenær sem er.

Aðili sem ber beina ábyrgð á skuldbindingum lífeyrissjóðs eða ábyrgð á breytilegu iðgjaldi til hans skal þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. fara með meiri hluta atkvæða á félagsfundi sjóðsins og við stjórnarkjör skv. 5. mgr. samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins.

Ársfund skal halda árlega í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Í fundarboði skal auglýst eftir framboðum til stjórnar og gefa tveggja vikna framboðsfrest. Á ársfundi skal taka fyrir skýrslu stjórnar, ársreikninga, tryggingafræðilega úttekt, fjárfestingarstefnu, laun stjórnar og tillögu stjórnar um breytingar á samþykktum sjóðsins.

Stjórn sjóðsins skal kjósa með beinum hætti á aðalfundi eða með almennri leynilegri póstatkvæðagreiðslu fyrir aðalfund ef kosning á aðalfundi er óframkvæmanleg.``

[11:15]

Herra forseti. Þetta var brtt. hv. þm. Péturs H. Blöndals og mín við 29. gr. Ég ítreka það að ég skil ekki hvernig menn geta réttlætt það fyrir sér, jafnvel lærðir menn í rekstrarfræðum sem vita heilmikið um hlutafélög og hvernig ársfundir og stjórnir starfa, og ég vísa til hv. þm. Ágústs Einarssonar sem veit heilmikið um þessi mál, ég skil ekki hvernig slíkir menn geta mælt með því að þingið afgreiði lagabálk eins og þennan án þess að víkja einu orði að félagsfundi, að atkvæðisrétti, að ársfundi, að launum stjórnarmanna. Eina skýringin sem ég hef er sú að klúbburinn, atvinnurekenda- og verkalýðshreyfingaklúbburinn hefur bannað að nokkuð skuli átt við þetta, hann hefur bannað að Alþingi Íslendinga hreyfi við því sem honum er ekki þóknanlegt. Af hverju eru þeir að banna þetta? Þeir menn, klúbbaðilarnir, fara með stjórn þessara sjóða. Þeir skipta þessu bróðurlega á milli sín. Það eru þeir sem taka þau laun fyrir stjórnarsetuna sem ekki má fjalla um hér. Það eru þeir sem fara með þau völd og þeir vilja ekki missa þessi völd. Þeir vilja ekki missa þau völd sem launþegarnir eiga með réttu og kemur atvinnurekendum ekki við. Þessir menn vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera, en þingmennirnir sem greiða því atkvæði að afgreiða þennan lagabálk án þess að fjalla um slíka hluti, eru annaðhvort ekki sammála mér og hv. þm. Pétri Blöndal um að almenningur, launþegarnir, eigi þennan rétt eða þeir skilja ekki málið, það er annað hvort. Því miður kemur víst ekki fram í atkvæðagreiðslunni hjá þeim þingmönnum sem munu vafalaust fella brtt. mína og hv. þm. Péturs Blöndals á eftir hvort þetta er skilningsleysi eða vilji þeirra til að viðhalda völdum atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar. En ég er alveg sannfærður um að með tímanum mun það gerast að þau völd færast til þeirra sem eiga þessa sjóði. Það er aðeins verið að reyna að stöðva ferli sem verður ekki stöðvað og ég að vísu vona að það taki ekki allt of langan tíma.

Úr því að hæstv. fjmrh. er hér viðstaddur, þá er rétt að þakka fyrir það að í ákvæði til bráðabirgða segir að á árinu 2001 skuli fjmrh. láta gera skýrslu um þróun lífeyrismála í framhaldi af samþykkt laga þessara. Sérstaklega skal fjalla um hvernig lífeyrissjóðir hafa breytt samþykktum sínum og boðið sjóðfélögum upp á fleiri valmöguleika í sameiningu lífeyrisréttnda sinna, sbr. 4. gr., enda er það eitt af markmiðum laga þessara að auka valmöguleika sjóðfélaganna. Ég ítreka --- enda er það eitt af markmiðunum, segir hér, að auka valmöguleika sjóðfélaganna. Ef það er eitt af markmiðunum, af hverju er þá ekki hægt að gera það skýrar strax? Skýringin sem okkur er gefin er sú að það sé klúbbfélögunum ekki þóknanlegt, í Garðastrætinu og Grensásvegi, þeim ekki þóknanlegt. Og ég spyr: Var borgaralega klúbbnum, BSRB, boðin aðild að að þessum klúbbi? Ég man ekki hvort þeir voru með í þessari nefnd, ég efast um það þó að vissulega hafi þeir ekkert minni ástæðu til að vera þar en Grensásvegarklúbburinn. En ég sé ekki að þeir menn sem sömdu þetta frv. sem er til umfjöllunar núna, þeir hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem var formaður nefndarinnar, Baldur Guðlaugsson hrl., Geir Magnússon, forstjóri Olíufélagsins, Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, Steingrímur Arason, aðstoðarmaður fjmrh., Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ og Örn Gústafsson, viðskiptafræðingur og fyrrum starfsmaður VÍS eða Vátryggingafélags Íslands ... (Gripið fram í: Það er nú frjálst.) Það félag? (Gripið fram í.) Nei, það er ekki frjálst félag, það er í eigu ríkisfyrirtækisins Landsbankans og síðan þess anga af klúbbnum sem hefur fengið sitt fram hér með sérákvæðum sem er Samvinnulífeyrissjóðurinn. Og úr því að hv. þm. Ögmundur Jónasson spyr um hlut kaupfélagsveldisins, sem núna er orðið að hlutafélögum vítt og breitt um landið, í þessu, þá hef ég furðað mig á því af hverju þarf sérákvæði um lífeyrissjóð fyrir þá sem vinna hjá þessum félögum. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki af hverju sérlífeyrissjóð þarf fyrir þá sem vinna hjá fyrrum sambandsfélögum. Ég veit ekki hvort einhver getur útskýrt það fyrir mér. Ég veit ekki hvort hv. þm. og félagi minn Pétur H. Blöndal getur útskýrt það af hverju þarf sérsjóð fyrir þá sem afgreiða bensín hjá t.d. Esso, að þeir skuli vera í öðrum lífeyrissjóði en þeir sem afgreiða bensín hjá Shell eða Olís. En svona er nú þessi frumskógur, svona er nú þessi klúbbur. Hann skiptir þessu bróðurlega á milli sín með stuðningi fulltrúa alþýðunnar á þingi. Þeir sem hafa sjálfskipað sig sem fulltrúa alþýðunnar, það eru þeir þegar á reynir sem mest standa vörð um hagsmuni þeirra sem fara með völdin í þjóðfélaginu, klúbbsins, ASÍ/VSÍ. Það er nú bara svona sorglegt. Hv. þingmenn standa hér upp trekk í trekk í allan vetur og tala um málefni lítilmagnans í þjóðfélaginu. En þegar kemur að því raunverulega að láta alþýðu manna fá þau völd sem eiga sem fylgja því að fara með fé í lífeyrissjóðum, þá hlaupa þessir hv. þm. allir undir borð, passa sig að rugga nú ekki bátnum því stóri bróðir, klúbburinn, ASÍ/VSÍ hefur ákveðið annað.

Herra forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þær brtt. sem ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal flytjum verða ekki samþykktar. Ekki það að ég sé ekki sannfærður um ágæti þeirra heldur hitt að það er nú svo með meiri hluta oft og tíðum --- og ég leyfi mér að vitna til þess að við vorum um daginn að fjalla um þáltill. um Goethe-stofnun. Goethe hefur sagt mjög marga merka hluti. Þar með hefur hann tjáð sig um meiri hlutann og ég vil skora á þá þingmenn sem hafa aðstöðu til að þegar þeir koma heim fari þeir í bókaskápinn sinn og fletti upp á því sem Goethe segir um meiri hlutann. Ég ætla reyndar að hlífa þingheimi við að fara með hvað Goethe segir um meiri hlutann. Ef ég hefði farið með það hér þegar menn fjölluðu um þáltill. um Goethe-stofnun, þá hefðu menn talið þetta mjög merk ummæli Goethes og sýnt hversu djúpvitur sá ágæti maður var, en ef ég færi að fara með þau núna þá teldist það vafalaust móðgun við Alþingi og meirihlutaviljann á Alþingi. Það verður því að sýna þá visku í málinu að flytja ekki hvað Goethe sagði um meiri hlutann, en ég bið hvern og einn þingmann sem hefur látið geirnegla sig í þessu máli að fletta nú upp þegar þeir koma heim hvað Goethe segir um hvernig meiri hluti myndist. Í stuttu máli fjallar það um að það eru tiltölulega fáir sem vísa veginn en margir sem fylgja án þess að vita hvert þeir eru að fara.