Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 11:51:10 (2907)

1997-12-20 11:51:10# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[11:51]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu mjög lengi. Ég vil þó við lok hennar nota tækifærið til þess að segja fáein orð.

Ég held að málið sem við erum að ræða nú og afgreiða í dag væntanlega sem lög frá Alþingi sé eitt mikilvægasta mál þessa þings og jafnvel þó við horfum til lengri tíma. Þetta mál er mjög vandmeðfarið og viðkvæmt eins og kom fram strax í upphafi þegar unnið var að þessu máli og það var eðlilegt að á sínum tíma hafi því verið frestað eins og gerðist í vor, til þess að freista þess að ná víðtækri samstöðu um það. Hér er á ferðinni framtíðarmál og þó að það eigi sér langan aðdraganda, því að áratugum saman hafa menn reynt að samræma lífeyriskerfi landsmanna, þá horfir þetta mál til langrar framtíðar.

Eitt af því sem gerði það að verkum að hægt var að leggja fram frv. um skyldutryggingu lífeyrissjóða var að búið var að ná lausn í málefni Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það var líka gert í mikilli sátt við starfsmenn ríkisins. Nú er starfandi A-deild lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna og í þeirri deild eru nú líklega 8 þúsund manns, á ég von á, bæði þeir sem færðu sig á milli kerfa sem voru fjölmargir og eins allir nýir starfsmenn sem fara inn í A-deildina. Og innan örfárra ára verður lunginn af ríkisstarfsmönnum í A-deildinni en kerfið þar er sambærilegt við það kerfi sem er úti á markaðnum þótt munurinn sé auðvitað sá að réttindin breytast í almennu lífeyrissjóðunum en framlögin í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Það sem skiptir máli er að kerfin eru sambærileg en það voru þau ekki áður.

Það sem veldur því að okkur tekst nú að afgreiða frv. og lög á borð við þetta er áreiðanlega að nú um nokkurt skeið hefur ekki verið verðbólga hér á landi. Við slík skilyrði breytist landslagið og stjórnmálamenn geta litið miklu lengra fram í tímann en oftast áður. Við getum nú reynt að setja okkur í spor þeirra sem þurfa að starfa að löggjafarmálefnum eftir 10-- 40 ár. Við getum reiknað fram í tímann hvernig ástandið verður þá vegna þess að við höfum mjög góðar upplýsingar, t.d. um það hvernig aldurssamsetning þjóðarinnar verður á þeim tíma. Þetta er lykilatriði vegna þess að við vitum að þetta mál sem við erum að fást við hér í dag hefur úrslitaþýðingu fyrir þróun ríkisútgjalda í framtíðinni. Það skiptir ákaflega miklu máli hvernig við komum þessu fyrir þannig að fullorðið fólk geti lifað sómasamlegu lífi í okkar þjóðfélagi.

En það er annað sem kemur til sögunnar og það er að við höfum séð vandræði annarra þjóða, nágrannaþjóðanna, þjóðanna í Evrópu t.d. og við horfum á það í dag hvernig þær engjast sundur og saman vegna þess að þær tóku ekki á þessum málum. Við getum litið til Þýskalands þar sem atvinnureksturinn þarf að borga núna yfir 20% vegna þess að þeir voru með gegnumstreymiskerfi og að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast. Þetta hefur gert það að verkum að þýsk atvinnufyrirtæki eru í hreinum vandræðum.

Við getum horft til Ítalíu þar sem stjórnarkreppa er núna, m.a. vegna þess að erfiðlega gengur að fást við þessi mál. Við getum farið úr einu landinu í annað og fundið það út að það eru einmitt þessi mál sem þessar þjóðir eru að fást við vegna þess að aldurssamsetning þeirra er svipðuð og hún verður hjá okkur eftir 30--40 ár og við erum hér í dag að undirbúa okkur undir framtíðina kannski, ef það má orða það þannig, í þessu mjög svo mikilvæga máli. Þess vegna er mikilvægt að samkomulag náðist.

Ég held að það sé alveg óhætt að slá því föstu að það kerfi sem við búum við á almenna markaðnum er nokkuð gott. Það er ekki gallalaust en það er nokkuð gott. Við höfum verið að samræma þetta kerfi og smám saman tel ég að meira einstaklingsfrelsi verði í þessu lífeyrissjóðakerfi, fleiri möguleikar til langtímasparnaðar og ég tek undir það sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði að bráðabirgðaákvæðið er mikilvægt í þessari lagasetningu.

Framtíðarverkefnið verður síðan að samræma lífeyris\-sjóða- og lífeyrisbótakerfið. Frammi fyrir því verkefni stöndum við á næstu árum og það er mín skoðun að það skipti gífurlega miklu máli þegar um þessi mál er fjallað að við horfum til þess hvernig við viljum að eldra fólk búi í okkar þjóðfélagi og að við útbúum kerfi þar sem eldra fólk getur búið í okkar þjóðfélagi með fulla sjálfsvirðingu. Ég tel að það sé hægt með því að fólk á starfsævinni leggi til hliðar fjármuni sem nýtast því alla ævina þannig að fólk sé að taka af sínum fjármunum þegar það lifir frá degi til dags eftir að starfsævinni lýkur. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að þetta dregur úr þeirri áhættu sem annars er til staðar, að fólk þurfi að treysta á að ríkisvaldið og þeir sem fara með það á hverum tíma skammti því úr hnefa. Þetta er með öðrum orðum spurning um það hvort við viljum að hér séu sjálfstæðir einstaklingar með fulla sjálfsvirðingu sem geti starfað í okkar þjóðfélagi og lifað sínu eigin lífi eftir að starfsævinni lýkur. Þess vegna er þetta svona stórt mál.

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs við lok þessarar umræðu er sú að ég vildi fagna því sérstaklega hve víðtæk samstaða hefur náðst. Mjög margir hafa komið að þessu máli og okkur hefur tekist að samræma afar ólíka hagsmuni. Ég vil þó taka fram, sem ég geri nú afar sjaldan, að ástæða er til þess að nefna einn mann til sögunnar sérstaklega. Ég viðurkenni þó að það mætti nefna marga fleiri, en einn vil ég nefna sérstaklega. Ég held að á engan sé hallað þó það sé gert. Það er formaður efh.- og viðskn. Vilhjálmur Egilsson því ekki nokkur vafi er á því að hann hefur öðrum fremur unnið verk þannig að tekist hefur að ná þessu samkomulagi og sigla þessu máli í höfn. Eins og allir vita er hv. þm. Vilhjálmur Egilsson þeim gáfum gæddur að koma strax auga á kjarna málsins og greina kjarnann frá hisminu. En það er ekki nóg. Hann er líka ákaflega laginn við að samræma sjónarmið sem koma upp og ég tel að full ástæða sé til þess í þessu mjög svo mikilvæga máli --- ég veit að það er óvenjulegt --- að nefna nafn hans hér í þessari umræðu því að ég held að starf hans að undirbúningi málsins hafi skipt sköpum um það að þessi samstaða náðist.

Þetta vildi ég að kæmi hér fram, virðulegi forseti, við lok málsins um leið og ég þakka hv. nefnd fyrir nefndarstarfið og öllum öðrum sem komu að undirbúningi þessa máls.