Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 13:02:43 (2914)

1997-12-20 13:02:43# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, Frsm. 2. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:02]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Við erum í sjálfu sér ekkert ósammála um það sem við erum að skiptast hér á skoðunum um. Við erum sammála um að hér er álitaefni og þetta er allt leysanlegt. Skattalög eru leysanleg. Um þessi viðskipti fer eftir 24. gr. laga um tekju- og eignarskatt eins og vitnað er til í greinargerðinni. Hins vegar þurfa fyrirmæli löggjafans við lögfestingu þessa máls að vera skýrari vegna sérstöðu málsins og það er það sem við hefðum gert. Við hefðum kannski útfært þetta betur, gefið skýrari fyrirmæli til skattyfirvalda hvernig eigi að meta og annað slíkt. Við hefðum reynt að útfæra frv., hvort sem hefði verið í greinargerð, í brtt. eða í framsögu. Það eru bara hefðbundin vönduð vinnubrögð að skilja ekki álitamálin eftir. Við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefðum gjarnan viljað leggja málinu þannig lið en við fáum það ekki. Það á að afgreiða þetta mál í dag. Það er ekki ætlast til þess að reynt sé að ganga frá þessu álitamáli sem er eitt af mörgum þannig að ekki verði nein vandkvæði á. Það er leysanlegt en við fáum ekkert ráðrúm til að leysa það og stjórnarmeirihlutinn hefur ekki lagt til neinar skýringar eða útfærslur á þessu eða öðrum atriðum. Þetta eru vinnubrögðin sem ég er að átelja hér, herra forseti.