Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 13:04:16 (2915)

1997-12-20 13:04:16# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, EKG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:04]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Áður en ég kem að málinu sjálfu held ég að fróðlegt væri að velta því upp að þegar það liggur fyrir að hv. 4. þm. Norðurl. e. er orðinn svona umsvifamikill í viðskiptalífinu, að þá hlýtur náttúrlega draga að því að hv. þm. muni að hasla sér völl í kaupum á tilteknum kaffihúsum við Hverfisgötuna þar sem hann er orðinn býsna kunnugur eins og allir vita.

Virðulegi forseti. Þó að þetta frv. sem við ræðum sé kannski ekki mikið að vöxtum þá er augljóst mál að það mun hafa mjög veruleg áhrif. Það mun hafa veruleg áhrif á umræðuna um fiskveiðistjórnarmálin og það mun líka hafa mjög veruleg áhrif á framkvæmd fiskveiðistjórnarlaganna. Í fyrsta lagi mun það væntanlega leiða til eitthvað meiri skattgreiðslna sjávarútvegsfyrirtækja til ríkisins. Það er hins vegar alveg rétt sem hér hefur komið fram að það er ekkert aðalatriði. Það er nánast aukaatiði sem fylgir með í kaupunum má kannski segja. Hins vegar er ljóst að það mun hafa einhver áhrif á skattgreiðslu sjávarútvegsfyrirtækja.

Það er líka ljóst að það mun hafa áhrif á skattalega meðferð söluhagnaðar í sjávarútvegi, en aðalatriðið er hver áhrifin muni verða á kvótaverðið sjálft sem ég held að sé nokkuð almenn skoðun að er allt of hátt og er farið að hafa í sjálfu sér mjög óæskileg áhrif á sjávarútveginn. Ég tel að þessi áhrif hafi m.a. leitt til þess að í kringum þessa atvinnugrein hefur verið ótrúlega mikil óvissa sem m.a. er farin að hafa áhrif á mat fjárfesta á hugsanlegum fjárfestingarkostum í sjávarútveginum. Það er farið að raska starfsumhverfi greinarinnar. Þetta segi ég alveg burt séð frá því hvaða skoðun menn annars hafa á fiskveiðistjórnarlögunum sjálfum, hvort menn eru talsmenn veiðileyfagjalds, sóknarstýringar, framseljanlegra aflakvóta eða einhvers annars. Ég held að menn hljóti að vera sammála um að gríðarlega mikilvægt er fyrir sjávarútveginn sjálfan, fyrir atvinnulífið, fyrir þjóðarbúið, að í atvinnugrein af þessu taginu sé almenn sátt um leikreglurnar og starfsskilyrðin sjálf, alveg burt séð frá skoðun manna á sjávarútvegsstefnunni sjálfri.

Út á hvað gengur þetta frv.? Ég held að það sé mikilvægt í fyrsta lagi að menn átti sig á því. Ég vil að gefnu tilefni vegna ræðu hv. 11. þm. Reykn. taka það fram að ég held að ég átti mig alveg á því út á hvað þetta frv. gengur og er þó stjórnarliði. Þetta frv. gengur fyrst og fremst út á það að afnema heimildir til afskrifta á aflaheimildum, á kvóta, og hefur þar með áhrif fyrst og fremst á því sviði. Hin stjórnskipulegu áhrif eru að mínu mati ekki þau sem hér hefur verið haldið fram af ýmsum og kom reyndar mjög fram í þeirri umræðu sem fór fram við 1. umr. þessa máls.

Nú getum við velt því fyrir okkur hvort það sé eðlilegt eða óeðlilegt að afnema þessar heimildir til afskrifta á kvóta, til afskrifta á aflaheimildum eða aflahlutdeild. Ég tel að það sé mjög eðlilegt að afnema þessa heimild einfaldlega vegna þess að við erum að ræða um endurnýjanlega auðlind. Það er í sjálfu sér mjög óeðlilegt að fyrirtæki í sjávarútvegi sem hafa rétt til að nýta hina endurnýjanlegu auðlind, hvort sem það er gert á grundvelli kvótakerfis, sóknarstýringar sem auðvitað væri þá líka ávísun á tiltekinn rétt til þess að nýta auðlindina, geti síðan skapað sér skattalegt hagræði sem felst í því að afskrifa þessa heimild í bókhaldi hjá sér.

Þá er komið að eftirfarandi spurningu: Hver eru líkleg áhrif þessa frv. á kvótaverðið sjálft? Í þessum efnum eru uppi mjög mörg álitamál og við sjáum að kvótaverðið hefur þróast með ýmsum hætti og kannski óvænt á margan hátt. Það liggur t.d. fyrir að kvótaverð í þorski hækkaði þrátt fyrir það að afkoma botnfiskveiða og vinnslu var erfið. Kvótaverð hækkaði þegar erfiðleikarnir voru miklir í þessari grein. Engu að síður held ég að við getum, ef við gefum okkur tilteknar forsendur, reynt að nálgast það dálítið hver séu líkleg áhrif þessarar lagasetningar á kvótaverðið í sjálfu sér. Hver er líklegastur til að geta keypt kvóta um þessar mundir? Kvótaverð er gríðarlega hátt. M.a. eftir að þetta frv. kom fram hefur kvótaverð í þorski hækkað og mér er sagt að það liggi nú mjög nálægt 700 krónum. Staðgreiðsluverð fyrir varanlegar aflaheimildir í þorski er 700 kr. Við sjáum að það eru ekki nema hin fjársterkustu fyrirtæki sem geta fjárfest í aflaheimildum sem svona eru verðlagðar. Og hver eru hin fjársterku fyrirtæki? Það eru auðvitað fyrirtækin sem skila góðum hagnaði og eru undir öllum eðlilegum kringumstæðum að gera upp með gróða sem hlýtur að lokum að leiða til þess að þetta eru fyrirtæki sem borga tekjuskatt. Að vísu hefur margoft verið bent á að það er ótrúlega lítið um að fyrirtæki í sjávarútvegi greiði tekjuskatt vegna þess að þau hafa skattaleg rekstrartöp sem þau hafa ekki náð að nýta að fullu. Hins vegar eru samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef ýmis fyrirtæki núna að komast á það rólið að þau eru að fullnýta þessi töp og möguleikarnir til þess að auka við þessi töp minnka auðvitað við samþykkt þessa frv. Við getum því sagt sem svo að það er ekkert óeðlileg forsenda að gefa sér að skoða sérstaklega áhrifin á kvótaverðið í ljósi þess að kaupendur séu fjársterkir aðilar í útgerð sem séu að sýna góða rekstrarlega afkomu og muni þess vegna vera í þeirri stöðu eða séu að komast í þá stöðu að þeir fari að borga tekjuskatt.

Stjórnendur slíks fyrirtækis sem í dag hefur verið að taka ákvörðun á grundvelli núgildandi laga um fyrningarheimildir aflahlutdeildar hljóta að spyrja sig núna eftir áramótin: ,,Hvernig ákvörðun tökum við sem tryggir það að við erum jafnvel eða illa settir við kvótakaup fyrir og eftir þessi lög? Hvaða verð getum við greitt fyrir aflahlutdeildina upp á það að vera ekki verr settir eftir þessa lagasetningu en við vorum fyrir hana?`` Ég hef skoðað þetta með sérfróðum mönnum og niðurstaðan virðist vera sú að ef fyrirtæki sem er í þeirri stöðu að greiða tekjuskatt í dag ætlar að vera jafnsett til kvótaviðskipta eftir þessa lagasetningu --- sem vonandi gerist nú á þessum sólarhring --- og það var fyrir, þá verður það að greiða 25% lægra verð fyrir aflahlutdeildina en það gerði fyrir þessa lagasetningu, 25% lægra. Ef það eru réttar tölur sem ég var hérna með áðan um að kvótaverðið í þorski t.d. á varanlegum heimildum sé um 700 kr. á kg, þá mundi það leiða að breyttu breytanda til þess miðað við þessar gefnu forsendur að kvótaverð ætti að fara niður í 525 kr.

Nú veit ég að mjög margir aðrir þættir koma inn í þetta mál. Það er ýmislegt annað sem togar í. Það er ýmislegt annað sem hefur áhrif á kvótaverðið, ýmsir huglægir þættir, hvernig menn t.d. meta framtíðarmöguleikana á afkomu í sjávarútveginum, hvernig menn meta hugsanlega aukningu á kvóta o.s.frv. Engu að síður er það svo að ef menn skoða þetta bara svona eins og ég nefndi hér áðan, þá sýnist mér, eftir að hafa látið skoða þetta af sérfróðum mönnum, að þetta séu hin raunveruleg áhrif þessarar lagasetningar á kvótaverðið sjálft. Þetta er mjög merkjanlegt og skiptir gríðarlega miklu máli. Og vegna þess að ég held, eins og ég rakti hér áðan, að það sé um það nokkuð almenn sátt í þjóðfélaginu, af velunnurum sjávarútvegsins a.m.k., að það sé mjög mikilvægt að kvótaverðið lækki.

Menn hafa dálítið velt því fyrir sér hvort ekki sé erfitt að framfylgja þessum lögum, hvort ekki sé erfitt að meta kvótaverðið sérstaklega og skipsverðið sérstaklega. Ég held að þetta þurfi ekki að vera praktískt mjög erfitt. Í þessu sambandi vil ég segja að við höfum mikla reynslu af því að meta þessa þætti. Þegar verið er að sameina fyrirtæki og kaupa fyrirtæki, þá er eru einmitt þessir þættir yfirleitt það fyrsta sem menn geta verðlagt mjög auðveldlega því þetta eru svo þekktar stærðir í viðskiptum.

Svo vil ég segja eitt að lokum: Ég held að það sé mjög mikilvægt að afgreiða þetta frv. núna. Það er ljóst að framlagning þess hefur þegar haft áhrif á kvótaverðið eins og ég nefndi. Það er a.m.k. skoðun þeirra sem starfa í greininni að frv. í sjálfu sér hafi haft einhver áhrif í þessum efnum. Við vitum að í þessari grein eins og öðrum er óvissan mjög óþægileg, mjög erfið. Þess vegna skiptir miklu máli að aflétta þessari óvissu og þegar fyrir liggur að stjfrv. hefur verið lagt fram þá skapar það auðvitað ný viðhorf. Við sáum þetta líka þegar fréttir bárust af samhljóða niðurstöðu sérstakrar stjórnskipaðrar nefndar sem var að fara yfir úreldingarmál í sjávarútveginum. Þá varð niðurstaðan sú að það hafði þegar áhrif á viðskipti manna með skipin. Ég tel því, virðulegi forseti, að það skipti máli að afgreiða þetta mál nú og tel að það yrði mjög til bóta fyrir starfsumhverfi sjávarútvegsins.