Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 13:15:13 (2916)

1997-12-20 13:15:13# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:15]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Spurningin um hvaða áhrif frv. hefur á verð varanlegra veiðiheimilda er auðvitað eitt meginatriðum frv. Hvaða áhrif hefur það á verðlag veiðiheimilda og þá þróun sem verið hefur á undanförnum árum? Mun frv. stöðva hækkunina á verði veiðiheimildanna eða gera betur og stuðla að lækkun á verði í framtíðinni? Ég leyni því ekki að ég hef verið þeirrar skoðunar að banna ætti þessar afskriftir í því skyni að reyna að slá verðið niður. En til þess að árangur náist þarf bannið að vera fortakslaust og án undanþágu.

Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kemst ég að þeirri niðurstöðu að ólíklegt sé að varanleg áhrif þessa frv. á verðgildi varanlegra veiðiheimilda verði mjög mikil. Það rökstyð ég með því að þeir sem festa kaup á þeim veiðiheimildum eftir að frv. er orðið að lögum geta vænst þess eftir nokkur ár að geta gjaldfært kaupverðið eða kostnaðinn að fullu í rekstrarreikningum fyrirtækja sinna. Sérstaklega styrkir brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. þetta álit en hún kveður á um að þegar þeim lögum sem hafa áhrif á réttinn að einhverju leyti sé breytt, þá megi gjaldfæra þennan kostnað í hlutfalli við áhrif laganna.