Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 13:28:17 (2922)

1997-12-20 13:28:17# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, Frsm. 2. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:28]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Vitaskuld eru fleiri atriði sem hafa áhrif á verð en framboð og eftirspurn og reyndar miklu fleiri atriði en hv. þm. talaði um. Það er mjög flókið og skiptir kannski ekki öllu máli í þessari umræðu. Hins vegar vil ég ítreka að vinnubrögðin varðandi þetta mál eru slæm. Ég tel ekki neina hættu í rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja þó að þetta mál frestaðist. Mér finnst mjög slæmt, herra forseti, að kasta til höndum við löggjöf um svo mikilvægan þátt og flókinn. Í umræðunni hafa verið dregin upp fjölmörg álitamál sem menn hefðu þurft að skoða. Ég hef lýst mig reiðubúinn að standa að þessari lagasetningu þegar búið væri að gera hana þannig úr garði. Meginþátturinn er að þessi vinnubrögð eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Þau eru ámælisverð gagnvart löggjafanum. Þau eru ámælisvert gagnvart þeim sem eiga að vinna eftir löggjöfinni.

Hægt væri að hafa langt mál um efnisþætti frv. en ég geri það svo sem ekki í þessu andsvari. Ég hef farið yfir þá þætti en mér finnst aðalatriðið vera að án mikilla vandkvæða væri hægt að gefa þessu máli meiri tíma í þinginu þannig að allir hefðu góða tilfinningu við afgreiðslu þessa máls.