Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 13:49:33 (2925)

1997-12-20 13:49:33# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:49]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. óttast að þetta frv., ef að lögum verður, negli niður núverandi kerfi í fiskveiðistjórnun og eignarhald á því kerfi. Það er rétt hjá hv. þm. að sérhver lagasetning frá Alþingi sem varðar kvótakerfið og ekki tekur á því að breyta eignarhaldinu, mun frekar en ekki festa það í sessi. Eftir á munu menn segja, þegar menn ætla að breyta kerfinu kannski eftir 10--20 ár: ,,Af hverju tók Alþingi ekki á þessu fyrr?`` Það er búið að setja mörg lög um þetta efni. Einnig mun tíminn vinna með þessu kerfi. En ég vil hugga hv. þm. með því að í frv. er mjög veigamikil brtt. frá efh.- og viðskn. Í frv. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þó skal heimilt að telja til rekstrarkostnaðar skv. 31. gr. verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður.``

Svona stendur þetta í frv., þ.e. það má gjaldfæra ef réttindi detta niður af einhverjum ástæðum, en ekki er sagt af hverjum. En efh.- og viðskn. bætti við: ,,... eða hlutfallslega ef þau eru skert verulega lögum samkvæmt.``

Ef þetta verður samþykkt er Alþingi að segja að búist sé við því í framtíðinni að sett verði lög á Alþingi sem skerði eignarhaldið á kvótanum.