Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 13:51:44 (2927)

1997-12-20 13:51:44# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, StB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:51]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér við þessa umræðu að segja örfá orð um það frv. sem hér er til umfjöllunar, þ.e. um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem snýr fyrst og fremst að afskriftaheimildum varðandi veiðiheimildir. Ég hef lýst því opinberlega þannig að það á út af fyrir sig ekki að koma neinum á óvart að ég hef haft mjög miklar efasemdir um það að leyfa afskriftir á veiðiheimildum og vil undirstrika og ítreka þá afstöðu mína. En það sem fyrst og fremst hefur hrundið þessari umræðu allri af stað er eins og vitnað er til í greinargerð með frv. sá dómur sem féll á sínum tíma og vakti upp satt að segja mjög mikinn óróa um þessi mál öll. Þess vegna var alveg nauðsynlegt að taka af skarið með löggjöf um það hvernig bæri að fara með afskriftir og því ber að fagna þeim merka áfanga að þetta frv. skuli vera komið hér fram og verður vonandi að lögum.

Ég ætla út af fyrir sig ekki að fullyrða neitt um það hvaða áhrif heimildir til afskrifta á aflaheimildum hafa haft á verð á aflaheimildum sem hefur sveiflast eins og hv. þm. þekkja. En það kann vel að vera og er líklegra að mínu mati að aflaheimildir hafi hækkað vegna þess ástands sem verið hefur.

Þróunin í sjávarútvegi hefur sem betur fer verið mjög jákvæð hin síðustu missiri þó að á ýmsu hafi gengið og það sé mismunandi á milli greina í sjávarútvegi. Þess vegna er enn þá mikilvægara, og raunar þrátt fyrir það að þróunin sé jákvæð, að taka af allan vafa um svo mikilvægt atriði og skattlagningu í sjávarútveginum.

Með tilliti til þess sem er meginregla skattalaga, að til rekstrarkostnaðar skuli aðeins telja þann kostnað sem lagt er í vegna viðkomandi atvinnugreinar, þá er í fyllsta máta óeðlilegt að heimila afskriftir. Það er mín niðurstaða. Kostnaður við nýtingu auðlindar er auðvitað hjá útgerð og það er eðlilegt að hann sé færður til gjalda eins og eðlilegt er í rekstri. Hins vegar hefur meginkostnaðurinn sem felst í því að viðhalda auðlind, a.m.k. hingað til, aðallega verið á vegum ríkissjóðs, þ.e. rannsóknir og eftirlit og þvílíkir hlutir sem lúta að því að tryggja að nýtingin sé eðlileg. Það er svo aftur álitamál hver eigi í rauninni að greiða þá hluti og ætla ég ekki að fjalla um það.

Ég vil bara, herra forseti, undirstrika það og ítreka að ég fagna þessu frv. og styð það. Ég tel að nauðsynlegt hafi verið að taka á þessu máli vegna þess að stöðugleiki í þessari stærstu atvinnugrein þjóðarinnar er mjög mikilvægur. Hins vegar er eðlilegt að veita aðlögun eins og frv. gerir ráð fyrir og tel ég að það sé í fyllsta máta eðlilegt. En á þessum degi ætla ég ekki að hafa uppi lengri orðræður um þetta mál en lýsi stuðningi við frv.