Skaðabótalög

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 14:22:16 (2930)

1997-12-20 14:22:16# 122. lþ. 50.4 fundur 58. mál: #A skaðabótalög# (endurskoðun laganna) frv. 149/1997, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[14:22]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nefndaráliti og kom einnig fram hjá framsögumanni allshn., hv. formanni hennar, þá skrifa ég ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur undir nefndarálitið með fyrirvara og mun hér gera í stuttu máli grein fyrir hvers vegna.

Skaðabótalögin frá árinu 1993 hafa verið mjög umdeild m.a. vegna þess að almennt er talið að um of hafi verið tekið mið af hagsmunum tryggingafélaganna á kostnað þeirra sem verða fyrir slysum. Nýlega fengum við alþingismenn opið bréf frá einum þeirra lögmanna sem hafa verið að gagnrýna þessi lög á opinberum vettvangi. Sá lögmaður er Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, en ásamt honum hafa ýmsir lögfræðingar, þar á meðal Jón Steinar Gunnlaugsson, Atli Gíslason, Viðar Már Matthíasson og Sigurgeir Guðjónsson haft uppi töluverða gagnrýni á þessi lög á opinberum vettvangi. Í bréfi Vilhjálms Vilhjálmssonar er rakið mjög vel eitt dæmi sem sýnir sambærileg tilvik sem gerast rétt fyrir gildistöku skaðabótalaganna og eftir gildistökuna. Af virðingu við tíma þingsins ætla ég ekki að fara nákvæmlega út í þetta dæmi. En niðurstaðan er sú --- þetta eru nákvæmlega sambærileg tilvik --- að í öðru tilvikinu, þ.e. fyrir gildistöku skaðabótalaganna, þá kom í hlut viðkomandi einstaklings 6 millj. í miskabætur og skaðabætur vegna varanlegrar örorku en eftir gildistöku laganna voru bæturnar samanlagt um 2 millj. Þarna munar um 4 millj. hjá þessum tiltekna einstaklingi.

Bent er á að markmið laganna hafi alls ekki náðst og það sé mjög langt frá því að einstaklingar fái fullar bætur fyrir fjárhagstjón.

Nú er starfandi þriðja sérfræðinefndin um endurskoðun á skaðabótalögum. Fyrst starfaði ein sérfræðinefnd og hennar niðurstöður voru umdeildar. Þá var annað sérfræðiálit unnið af þeim Gesti Jónssyni hæstaréttarlögmanni og Gunnlaugi Claessen hæstaréttardómara sem þeir skiluðu haustið 1995 og drögum að frv. Það var mat tryggingafélaganna þá að frv. þeirra félaga sem ég nefndi hér áðan hefði í för með sér töluverða hækkun á iðgjöldum eða allt upp í 45% hækkun. Þetta var byggt á könnun á nokkrum málum sem þá voru upp gerð. Þetta varð til þess að allshn. flutti í apríl 1996 frv. sem tók á mjög afmörkuðum þáttum þessara mála þar sem margföldunarstuðlar voru hækkaðir úr 7,5 í 10 og bótaþröskuldur færðist úr 15% í 10%. Jafnframt lagði allshn. til að enn yrði skipuð þriggja manna nefnd sem skyldi fara yfir skaðabótalögin í heild sinni og átti hún að skila áliti sínu í tíma þannig að nýtt frv. væri komið í þingið fyrir 1. október 1997.

Þegar Alþingi kom saman í haust, þá lá fyrir það frv. sem hér er til umræðu, þ.e. beiðni um að ráðherra fái frest í eitt ár til þess að leggja fram nýtt frv. til skaðabótalaga. Ég lét þá, við 1. umr., í ljós mjög mikil vonbrigði yfir þessari beiðni þar sem hún virtist líkleg til þess að skapa enn meiri drátt á því að fólk fengi réttlátar bætur eftir slys. En ástæðan fyrir því að þessi beiðni kom fram var að sú nefnd sem nú er að endurskoða skaðabótalögin frá 1993 hefur ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um tjónakostnað bifreiðatrygginga þrátt fyrir beiðni þar um og biður því um lengri frest til að skila tillögum sínum um endurskoðuð skaðabótalög.

Virðulegi forseti. Þetta litla frv. virðist ekki vera mjög alvarlegt. Eingöngu er beðið um lengingu á fresti til að setja fram umbeðin lög, en miðað við forsögu málsins tel ég að hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða. Í umræðu í allshn. kom fram núna, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að sú nefnd sem nú er að vinna verkið telur sig geta lokið störfum á tiltölulega stuttum tíma, jafnvel 1--2 vikum ef tiltæk gögn liggja fyrir. Nú hefur komið í ljós að nefndinni hefur verið neitað um tiltæk gögn og í framhaldi af því hefur dómsmrh. fengið viðskrh. í lið með sér og þeirra á milli hafa átt sér stað bréfaskriftir sem vonandi leiða til þess að viðeigandi gögn fáist fram, þó ég taki fyllilega undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan um að orðalag bréfs hæstv. viðskrh. er ekki mjög nákvæmt og ég er ansi hrædd um að ekki sé alveg tryggt að út úr þessari athugun komi það sem ætlast er til.

Hugmyndin er að bera saman þau 921 mál vegna slysa sem áttu sér stað á seinni hluta árs 1993 og uppgjör á þeim við þau mál sem áttu sér stað á fyrri hluta árs áður en lögin tóku gildi og ég tel það eðlileg vinnubrögð ef hægt er að gera þetta.

[14:30]

Samkvæmt 3. gr. þess frv. sem samþykkt var í fyrra um endurskoðun á skaðabótalögunum segir að ráðherra skuli leggja fram frv. fyrir Alþingi eigi síðar en 1. október 1997. Það er ekki gert að skilyrði að hann taki mið af niðurstöðum þessarar nefndar. Aðeins eitt atriði af mörgum sem þessi nefnd átti að gera var að athuga hvort þetta hefði áhrif á iðgjöld. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið mjög eðlilegt að Alþingi afgreiddi frv. frá sér þannig vegna þess að það er auðvitað út í hött að hagsmunaaðilar úti í bæ geti ráðið því hvernig eða hvort lagasetning kemur fram hér á Alþingi og geti tafið það endalaust. Ég tel það því vera til bóta að í nefndaráliti meiri hluta allshn. er nefnt að helst eigi að fara í þessar lagabreytingar núna á vorþingi 1998, en ég er mjög hrædd um að þetta frestist fram á haust enda er dagsetningin í frestunarfrv. 1. október 1998. Ég get ekki stutt þá ráðstöfun. Ég tel að sá frestur sé of langur, og að með þessu fari þrýstingur af málinu og það sé hætta á því að með haustinu lendum við í sömu sporum og áður þegar hingað hafa komið inn endurskoðuð frumvörp. Ég skrifaði því undir nefndarálitið með fyrirvara og mun sitja hjá við afgreiðslu málsins. Ég tel reyndar að það hefði verið æskilegt að dagsetningin 1. mars eða 15. mars hefði staðið þarna inni og þá hefði ég getað stutt þetta úr því sem komið var. En fyrst ekki náðist samkomulag um það þá tel ég að þetta frv. sé óþarft og að ráðherra hafi haft tvo aðra kosti í stöðunni. Í fyrsta lagi hefði hann getað beðið nefndina að vinna áfram og setja allan þrýsting á að fá þau gögn sem tiltæk eru og þar með hefði þetta frv. getað komið hér inn í þingið sem fyrst, óháð því hvort þessi frestunarheimild væri samþykkt. Í öðru lagi hefði hann getað lagt fram frv. að endurskoðuðum skaðabótalögum án þess að sú athugun hefði átt sér stað því hann er ekki bundinn af þeirri athugun.

Þessi frestun er að mínu mati líkleg til þess að fólk þurfi að bíða óhóflega lengi eftir að ná fram réttlæti sínu og ég get ekki stutt hana. Ég mun því sitja hjá við afgreiðslu þessa máls og ég óttast mjög að hinn 1. október næsta haust hefjist umræðan enn og aftur og óskað verði eftir næsta sérfræðiáliti til þess að endurskoða enn einu sinni þessi alræmdu lög. Á meðan geta tryggingafélögin malað sitt gull og einstaklingar verða áfram að búa við það að fá ekki fullar bætur fyrir fjártjón sem hlýst af völdum líkamsmeiðsla.