Fjáröflun til vegagerðar

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 14:56:32 (2939)

1997-12-20 14:56:32# 122. lþ. 50.5 fundur 371. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# frv. 128/1997, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[14:56]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það mál sem nú hefst 2. umr. um er borið fram af meiri hluta efh.- og viðskn. og fór þess vegna ekki til nefndar milli 1. og 2. umr. Þess vegna er, herra forseti, ekkert nefndarálit.

Efnisatriði þessa frv. eru þau að fjölgað er í hópi þeirra bifreiða sem greiða þurfa sérstakt álag á þungaskatt jafnframt því sem álagið er lækkað úr 30% í 25%. Málið á hins vegar mjög sérkennilega forsögu.

Nú í ársbyrjun kærðu Frami, bandalag ísl. leigubílstjóra, Trausti, félag sendibílstjóra og Landssamband vörubifreiðarstjóra til samkeppnisráðs og óskuðu eftir úrskurði um hvort tilteknar málsgreinar í lögum um fjáröflun til vegagerðar stæðust samkeppnislög. Bifreiðar þær sem heyra undir fyrrgreind samtök þurfa að greiða 30% álag á þungaskatt. Þessi félög bentu á að nú sé fjöldinn allur af bifreiðum sem notaður er í atvinnuskyni í samkeppni við leigu- og sendibíla. Þessar bifreiðar aka ekki samkvæmt gjaldmæli og þurfa ekki að greiða þetta 30% álag. Samkeppnisráð fjallaði um þetta og niðurstaða þess var að hér væri um að ræða mismunun innan hóps atvinnubílstjóra og þetta 30% álag raskaði innbyrðis samkeppnisstöðu. Samkeppnisráð beindi því til fjmrh. að hann hlutaðist til um að leiðrétta stöðu mála, annaðhvort með breytingu á löggjöf eða með því að flýta gildistöku laga um olíugjald. Lögin um olíugjald koma ekki strax til framkvæmda og er reyndar á þessu stigi nokkuð óljóst um hvenær það verður. Hagsmunaaðilar í þessari grein hittu efh.- og viðskn. að máli og röktu málavexti fyrir nefndinni og nefndu auk þess aðra þætti sem tengjast hagsmunum atvinnubílstjóra. Hv. efh.- og viðskn. ákvað að taka á þessu máli því ekki var við það búið að nefndin sem ber ábyrgð á samkeppnislögum léti það átölulaust að samkeppnisreglur væru ekki virtar.

[15:00]

Herra forseti. Ég lagði mikla áherslu á að gripið yrði strax inn í þetta mál og ekki beðið eftir gildistöku olíugjaldsins. Hugmyndir mínar um leiðréttingu á þessu eru mjög einfaldar, þ.e. að fella niður 30% álagið. Um er að ræða 570 bíla, leigubíla, sendibíla, það eru minni bílar sem greiða 30% gjaldið og tekjur vegna þessa eru 21 millj. kr. á ári.

Meiri hluti efh.- og viðskn. féllst ekki á þessi rök en vildi hins vegar og leggur til í frv. að jöfnun samkeppnisskilyrða verði gerð þannig að lagt verði álag á þungaskatt á þær bifreiðar sem bera ekkert slíkt álag. Þetta eru vask-bifreiðar og bifreiðar í eigu lögaðila og eru taldar vera 364 talsins. Það á sem sagt, herra forseti, að auka skattlagningu á þeim til að mæta úrskurði samkeppnisráðs. Jafnframt er álagið haft 25% og skilar það í ríkissjóð tæplega 29 millj. kr. eða um 8 millj. umfram fyrra álag en þær 8 millj. voru notaðar til að lækka vörugjöld af rútum.

Augsýnilegt er að fjmrn. vill hvergi gefa eftir krónu varðandi atvinnubílstjóra og satt best að segja er það forkastanlegt, ekki síst þegar haft er í huga að innheimta þungaskatts hefur skilað mörg hundruð milljónum meira í ríkissjóð en áætlað var en eins og þingmenn vita var fyrirkomulagi við innheimtu þungaskatts breytt. Staða leigubílstjóra, sendibílstjóra og vörubílstjóra svo og rútubílstjóra er erfið. Þetta er atvinnugrein sem á undir högg að sækja og ætti það síst af öllu að vera vilji löggjafans að þrengja enn að þeirri starfsgrein.

Herra forseti. Mér finnst ólíðandi að þegar úrskurðað er af til þess bæru stjórnvaldi að samkeppnisstaða sé ójöfn skuli þetta vera jafnað þannig að leggja skatta á þá sem höfðu áður ívilnandi stöðu. Mér finnst fráleitt að taka ekki á málinu þannig að fella einfaldlega niður 30% álagið hjá þessum tæplega 600 bílum.

Hér er ekki um að ræða umtalsverðar fjárhæðir. Ríkissjóður hefði ekki farið á hausinn þó að farið væri að tillögunni. Eins og ég gat um eru tekjurnar 21 millj. en þungaskattsinnheimtan skilaði reyndar mörg hundruð millj. inn í ríkissjóð.

Meiri hluti efh.- og viðskn. féllst ekki á þetta sjónarmið og fimm af níu nefndarmönnum bera fram þetta frv., þ.e. hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, Valgerður Sverrisdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Pétur H. Blöndal og Einar Oddur Kristjánsson. Að frv. standa ekki auk mín þeir hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, Steingrímur J. Sigfússon og Gunnlaugur Sigmundsson.

Herra forseti. Ég hef borið fram við frv. fimmmenninganna brtt. við 1. gr. sem hljóðar svo:

Orðin ,,Af bifreiðum, sem ekið er gegn gjaldi samkvæmt löggiltum mælum, skal árgjaldið vera 30% hærra en að framan greinir`` í a-lið 4. gr. laganna falla brott. Þessi orð skulu kveða brott.``

Hér er kveðið á um að fella niður þetta sérstaka 30% álag. Þetta er einföld og skýr tillaga sem kemur væntanlega til atkvæða að lokinni umræðunni.

Álögur á atvinnubílstjóra hérlendis eru umtalsverðar og sjáum við það m.a. á aldri bifreiða í atvinnurekstri og á afkomu þeirra sem þar vinna að hér er ekki staðið nægjanlega vel að af hálfu löggjafans. Það er fráleitt að mínu mati að auka enn byrðar þessa hóps. Nær hefði verið að reyna að létta álögur hins opinbera á leigubíla, sendibíla, rútur og vörubíla og gera þannig kleift að skapa betri afkomu og menn ættu auðveldara með að endurnýja bifreiðar sínar. En menn vita að t.d. vörubílaflotinn er mjög gamall. Rútubílaflotinn er það gamall að hann er aðhlátursefni ferðamanna sem koma hingað og ekki rekum við öfluga og myndarlega ferðaþjónustu í framtíðinni með svo gömlum bílum.

Ótalið í þessu er slysatíðni vegna erfiðleika í greininni og aksturs bifreiða. Öll rök mæla því með því, herra forseti, að tekið verði myndarlega á málunum. Í þessu tilfelli er oftast um einyrkja að ræða sem ekki hafa á bak við sig sterk félög sem eru í harðri samkeppni. Þar má m.a. benda á að fjölmörg stórfyrirtæki hafa verið að seilast inn á markaðinn bæði í landflutningum, bifreiðaflutningum og á margvíslegu sviði sem hefur þrengt enn frekar að þessum smáu atvinnurekendum.

Það virðist vera, herra forseti, að smærri atvinnurekendur í landinu eigi ekki lengur pólitískt skjól nema ef vera skyldi hjá okkur jafnaðarmönnum. Einu sinni var sú tíð að Sjálfstfl. var talinn vera sérstök brynvörn smærri atvinnurekenda og einstaklingsframtaks í landinu en að mínu mati er það löngu liðin tíð. Það endurspeglast m.a. í frv. sem borið er fram af forustumönnum Sjálfstfl. og stutt af framsóknarmönnum. Þetta mál er þannig stærra en það lítur út fyrir að vera. Það tekur á um prinsipp um jöfnun á samkeppnisstöðu, hvort eigi að jafna það niður á við með ívilnun eða fara skattahækkunarleið gagnvart einstaklingum og atvinnulífi eins og meiri hlutinn leggur til og þetta lýsir einnig viðhorfi gagnvart mikilvægri atvinnugrein.

Ég vænti þess, herra forseti, að brtt. mín fái brautargengi í þinginu og vonast eftir að samstaða geti skapast um þá tillögu sem mundi stuðla að því að létta álögum. Við höfum á undanförnum missirum stigið nokkur skref og sum þeirra fyrir forgöngu efh.- og viðskn. Alþingis en oftast hafa fjmrn. og Sjálfstfl. sett í það krumlurnar og aukið gjöld annars staðar í bifreiðaumhverfinu til að hvergi tapist króna. Ósanngirni þess í ljósi bættrar innheimtu ríkissjóðs á þungaskatti og vegna hinna miklu tekna sem ríkissjóður hefur af samgöngum, m.a. bensíngjaldi, sýnir að þessi atvinnurekstur er nýttur til hins ýtrasta til að auka skatttekjur ríkisins. Mér finnst þetta vera ósanngjörn leið, herra forseti. Mér finnst vera illa komið fram við það fólk sem hefur ekki úr of miklu að spila í atvinnurekstri sínum og hefur velflest lagt allt sitt undir. Mér finnst ekki sæma okkur að veita leigubílstjórum, sendibílstjórum, rútubílstjórum og eigendum þeirra atvinnutækja þá jólakveðju sem felst í frv. fimmmenninganna. Meiri manndómur væri í því, herra forseti, að fara þá leið að styðja brtt. mína og fella niður þetta umdeilda álag á þungaskatti.