Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 16:07:08 (2951)

1997-12-20 16:07:08# 122. lþ. 50.11 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[16:07]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir sömuleiðis mjög klént að hæstv. ríkisstjórn sem er búið að inna eftir þessu ítrekað á undanförnum sólarhringum hefur engin svör. Er það svo óskaplegt mál að ganga úr skugga um í fyrsta lagi hvort fullnægjandi lagastoð er fyrir hendi sem ég fullyrði að sé? Ríkisstjórninni er ekkert að vanbúnaði á grundvelli heimilda sem eru í lögunum um atvinnuleysistryggingar að gera þetta og í öðru lagi að gera upp við sig hvort hæstv. ríkisstjórn vill þetta og hefur þá pólitísku stefnu að atvinnulausir eigi að fá sambærilegar kjarabætur um þessi jól og aðrir. Það er pólitísk ákvörðun sem þarf að taka en það virðist ganga eitthvað illa og vera erfið fæðing hjá hæstv. ríkisstjórn og það verður að átelja það mjög harðlega.

Varðandi vegamálin er auðvitað svo að Vegasjóður hefur ætíð fengið að njóta aukinna bensíntekna þegar þær hafa komið til innan árs. Hér er verið á síðustu stundu fyrir áramót að uppreikna spá til þess að ná meiru í ríkissjóð. Varðandi sagnfræðina liggur fyrir að aðeins einu sinni fyrir daga þessarar ríkisstjórnar höfðu markaðar vegatekjur verið skertar með þeim hætti sem hér er verið að gera og þá óverulega, aðeins í eitt einasta skipti var það á erfiðleikaárunum 1988--1991. Þá gerðist það í eitt skipti og þá urðu sjálfstæðismenn, sem voru í stjórnarandstöðu, alveg spólandi vitlausir og héldu linnulausar ræður undir forustu þáv. hv. þm. Pálma Jónssonar frá Akri. En þeir bregðast öðruvísi við nú. Nú er verið í góðærinu miðju að slá algert Íslandsmet í þessum efnum. Skerðingin á mörkuðum vegatekjum er komin talsvert á annan milljarð. Þetta liggur svona fyrir, hæstv. fjmrh., og þýðir ekkert að neita því. Að skjóta sér á bak við niðurskorna vegáætlun frá því í fyrra sem var veruleg skerðing á framkvæmdum til vegamála, og öll samgöngunefnd kvittar fyrir það, er náttúrlega engin málsvörn. Þessi óhemjulega græðgi hæstv. fjmrh. er með ólíkindum. Við höfum lagt til tekjuöflun varðandi vandamál sjúkrahúsanna og stjórnin gæti vel stutt það.