Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 16:11:19 (2953)

1997-12-20 16:11:19# 122. lþ. 50.11 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[16:11]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er að vísu rétt að meira vegafé hafi verið sett í framkvæmdir hér og jafnvel fé umfram það sem markaðar tekjur skiluðu á árunum milli 1991 og 1995. Að hluta til var þá flýtt framkvæmdum, svokölluðu framkvæmdaátaki en sá var ljóður á því ráði að það fé var allt tekið að láni og nú er Vegasjóður að endurgreiða það. Þá er komið að skuldadögunum og þá fækkar borðaklippingunum sem voru mikið aðhlátursefni manna þegar hæstv. samgrh. var að opna sömu vegina upp í þrisvar og sleit upp mörgum skærum á ári. Hann hélt svo margar hátíðir þegar hann var að vígja einstaka búta í þjóðvegakerfinu. (Gripið fram í.) Nú er minna um að vera.

Tekjuskiptin milli ríkissjóðs og Vegasjóðs eru nú um stundir ekki sambærileg við fyrri tíma vegna þess að því kerfi hefur verið gerbreytt eins og ég veit að hæstv. fjmrh. veit vel. Ríkissjóður hefur seilst æ lengra inn á þennan tekjustofn og það er svo komið að af 24 milljarða kr. skatttekjum af umferðinni fara aðeins tæpir 8 til vegamála og þeir tæpir 8 milljarðar eiga að standa undir öllum rekstrinum, allri þjónustunni, ferjukostnaðinum þannig að það hlutfall af skatttekjum af umferð á Íslandi sem fer í reynd til framkvæmda í vegamálum er sífellt að minnka. Það er óheillaþróun vegna þess að aukin umferð, fleiri bílar kalla á framkvæmdir. Það vita allir menn. Er ekki verið að tala um að það þurfi að tvöfalda Reykjanesbrautina? Mikill umferðarþungi kostar orðið brú á næstum hver einustu gatnamót hér í Reykjavík. Þar af leiðandi verður að láta umferðina njóta meira af þeim skatttekjum sem hún skilar og að skerða það sífellt með breytingum af þessu tagi leiðir til ófarnaðar. Það gengur ekki til lengdar fyrir landsmenn að hafa svona gráðugan fjmrh. og lélegan samgrh. Það verður að breyta þessu ella mun slysatíðni aukast og menn lenda í hreinum ógöngum með umferðina í landinu.