Ferill 68. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 68 – 68. mál.



Skýrsla



iðnaðar- og viðskiptaráðherra um framgang verkefna á sviði stóriðju.

(Lögð fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)


INNGANGUR
    Með skýrslu þessari er Alþingi gerð grein fyrir framgangi verkefna á sviði stóriðju sem Alþingi hefur veitt heimild fyrir á undanförnum tveimur árum. Um er að ræða þrenn lög. Í fyrsta lagi lög nr. 155/1995, um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse-Lonza Holding Ltd. um álbræðslu í Straumsvík. Í öðru lagi lög nr. 64 frá 27. maí 1997, um breyting á lögum nr. 18 11. maí 1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, og í þriðja lagi lög nr. 62 27. maí 1997, um heimild til samninga um álver á Grundartanga. Í lögum um raforkuver, nr. 60/1981, eins og þeim var breytt með lögum nr. 74/1990, eru jafnframt heimildir til virkjana og annarra framkvæmda í orkumálum sem nýttar hafa verið á síðustu mánuðum. Í skýrslunni er greint frá því hvernig þær heimildir, sem iðnaðarráðherra voru veittar með umræddum lögum, hafa verið nýttar við stækkun álversins í Straumsvík, stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og byggingu nýs álvers á Grundartanga.
    Í skýrslunni er enn fremur gerð stuttlega grein fyrir undirbúningi og framkvæmdum við iðjuverin á Grundartanga og orkumannvirki, áætlunum um verklok og fleiri þætti. Fram kvæmdum við stækkun álversins er að ljúka og er þriðji kerskálinn í álverinu í Straumsvík kominn í fullan rekstur. Þá er gerð grein fyrir þjóðhagslegum áhrifum umsaminna framkvæmda.
    Loks er gerð grein fyrir undirbúningi annarra verkefna sem eru á undirbúnings- eða umræðustigi á sviði orkufreks iðnaðar. Þessi verkefni eru á ólíku stigi allt frá könnun hugmyndar að verkefnum þar sem athuganir eru langt á veg komnar og unnt væri að taka ákvörðun um framkvæmdir á komandi vetri.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum, 6. október 1997.
Finnur Ingólfsson
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.



1. STAÐA UNDIRBÚNINGS OG FRAMKVÆMDA VEGNA IÐJUVERA
1.1. STÆKKUN ÁLVERS ÍSLENSKA ÁLFÉLAGSINS HF. Í STRAUMSVÍK
    Fimmti viðaukasamningur um stækkun álvers Íslenska álfélagsins hf. í Straumsvík var undirritaður 16. nóvember 1995 og öðlaðist lagagildi með samþykki Alþingis og staðfestingu forseta við birtingu 29. desember 1995.
    Framkvæmdir við stækkun álversins hófust snemma á sl. ári og hafa gengið betur en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Gangsetning kera hófst um þremur mánuðum fyrr og framkvæmdakostnaður er lægri en áætlanir. Gangsetningu kera í nýja kerskálanum er lokið og er áætlað að framkvæmdum við uppsetningu vélbúnaðar í stækkun steypuskála ljúki í lok október.
    Kostnaður við stækkunarframkvæmdir í Straumsvík, sem áætlaður var 250 milljónir svissneskra franka eða um 12 milljarðar kr. miðað við núverandi gengisskráningu, verður um 10% lægri eða um tæpir 11 milljarðar króna. Kostnaður við nýjan viðlegukant í Straumsvíkur höfn, að fjárhæð 4,8 milljónir svissneskra franka eða um 230 millj. kr. var einnig fjármagn aður af ÍSAL. Viðlegukanturinn er nú fullfrágenginn og kominn í notkun.
    Við stækkun verksmiðjunnar fjölgar starfsmönnum um 80 manns í framleiðslu- og þjónustudeildum.
    Framleiðsluaukning um 62.000 árstonn eykur útflutningstekjur félagsins um 110 millj. Bandaríkja dala eða 7,3 milljarða kr. á núverandi verðlagi. Af þessari fjárhæð má áætla að 44 milljónir dala, þ.e. um 3,1 milljarður kr. skili sér inn í þjóðarbúið.
    Á árinu 1998 er gert ráð fyrir að innflutningur á vegum félagsins nemi 405.000 tonnum og flutt verði út 180.000 tonn, sem auk áls innifelur skautleifar, gjall og aðrar aukaafurðir.
    Ef markaðsverð á áli helst svipað og nú, er gert ráð fyrir góðri afkomu félagsins á komandi árum.

1.2. ÁLVER NORÐURÁLS HF. Á GRUNDARTANGA
    Þann 7. ágúst sl. voru undirritaðir samningar um álver Norðuráls hf. á Grundartanga en lög nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, voru staðfest og birt 27. maí 1997.
    Framkvæmdir við álbræðslu Norðuráls hf. hófust um miðjan apríl sl., ganga þær vel og eru í samræmi við áætlun um að rekstur verksmiðjunnar hefjist í júní árið 1998. Lóðarfram kvæmdir eru á lokastigi og steypuvinna við kerskála hálfnuð. Hluti yfirbyggingar kerskálans er nú þegar kominn og hófust framkvæmdir við að reisa hana um miðjan septembermánuð. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við kerskálann ljúki í byrjun apríl 1998.
    Áætlað er að kostnaður við álverið verði um 180 milljónir Bandaríkja dala eða um 12,7 milljarða kr. Gerðir voru samningar við íslenska verktaka um lóðarundirbúning og byggingu kerskálans. Stærstu samningar um tækjabúnað eru annars vegar við ABB um afhendingu og uppsetningu rafbúnaðar og hreinsivirkis og við Alesa Alusuisse Engineering hins vegar um losunarbúnað og færibönd.
    Fjármögnun verkefnisins hefur einnig gengið vel. Hollenski bankinn ING Bank NV og franski bankinn Banque Paribas munu standa sameiginlega fyrir rúmlega 100 millj. Bandaríkja dala verkefnaláni til félagsins.
    Norðurál hf. hefur nýlega ráðið stjórnendur og hluta af starfsfólki fyrirtækisins. Skrifstofur verða í Reykjavík á meðan megináhersla er lögð á framkvæmdir og hönnunarvinnu í samstarfi við verkfræðistofurnar Hönnun hf., Rafhönnun hf. og VST hf. Gert er ráð fyrir að skrifstofur félagsins flytji til Grundartanga í byrjun næsta árs. Nú vinna 75 til 100 iðnaðar- og verkamenn á svæðinu. Gert er ráð fyrir að um 400 iðnaðar- og verkamenn verði við vinnu á svæðinu þegar þeir verða flestir á fyrsta ársfjórðungi 1998. Áætluð velta Norðuráls á fyrsta heila rekstrar árinu er um 100 millj. Bandaríkja dala eða um 7 milljarðar króna.
    Vinna á hafnarsvæðinu var hafin með greftri fyrir súrálstanka. Hafnarsjóður Grundar tangahafnar vinnur að lengingu hafnarbakkans vegna losunarbúnaðar og annarra mannvirkja. Áætlað er að hafnarframkvæmdum ljúki í júní 1998.
    Í fylgiskjölum I–IV með frumvarpi til laga um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, sem lagt var fyrir á 121. löggjafarþingi á 1363. þingskjali, var fyrirliggjandi drögum að samningum um álver á Grundartanga lýst ítarlega. Um er að ræða fjóra samninga. Í fyrsta lagi fjárfestingarsamning milli ríkisstjórnar Íslands, Norðuráls hf. og Columbia Ventures Corporation. Í öðru lagi lóðarsamning milli ríkisins og Norðuráls hf. Í þriðja lagi hafnarsamning milli ríkissjóðs og Norðuráls hf. Í fjórða lagi rafmagnssamning milli Landsvirkjunar og Norðuráls hf. Í umræðum um málið á þinginu og á fundum með iðnaðar nefnd þegar fjallað var um málið var gerð grein fyrir því að drög samninga kynnu að taka einhverjum breytingum.
    Í sumar hafa íslensku samningsaðilarnir yfirfarið samningana með fulltrúum Norðuráls hf. og Columbia Ventures, ásamt fjármála- og lögfræðiráðgjöfum þeirra og fulltrúum lána stofnananna, ING Bank NV og Banque Paribas. Bankarnir fóru fram á að gerðar yrðu fáeinar afmarkaðar breytingar á lóðarsamningi og drögum að fjárfestingarsamningi, hafnarsamningi og rafmagnssamningi sem áritaðir voru í desember og janúar sl. og lágu fyrir þegar frumvarpið um heimild til samninga um álbræðsluna var til afgreiðslu á Alþingi. Fyrst og fremst er um að ræða breytingar á orðalagi eða breytingar sem hafa engin eða óveruleg áhrif á efni samning anna. Þrjár þessara breytinganna varða þó efnisatriði í áðurnefndum fylgiskjölum með frum varpinu og er því rétt að gera sérstaklega grein fyrir þeim.
    Í fyrsta lagi er um að ræða tilnefningu gerðardómsmanna. Í árituðum drögum að samningum var miðað við að ef annar hvor aðili máls neitar að tilnefna gerðardómsmann af sinni hálfu eða ef gerðardómsmenn geta ekki komið sér saman um oddamann skyldi leita til héraðsdóms Reykjavíkur og hann beðinn um að tilnefna viðkomandi mann í dóminn. Í endanlegum samningum er hins vegar kveðið á um að í stað héraðsdóms Reykjavíkur tilnefni gerðardómsstofnun verslunarráðsins í Stokkhólmi í dóminn. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að í samningnum er eins og í árituðu samningsdrögunum tekið fram að oddamaðurinn skuli hvorki vera af sama þjóðerni og aðilar né heldur Columbia Ventures eða aðrir hluthafar í félaginu.
    Í öðru lagi breyttist dagsetning þess hvenær samningsaðilum er fyrst heimilt að óska eftir breytingum á samningnum á grundvelli sanngirnissjónarmiða, þ.e. að í stað 1. júní árið 2008 verður slíkt heimilt frá 1. júlí árið 2008.
    Í þriðja lagi lengist frestur sem lánveitendur fá til þess að inna af hendi greiðslur fyrir hönd félagsins vegna vangoldinnar lóðarleigu eða gjalda til hafnarsjóðs, eftir að viðkomandi samningi hefur verið sagt upp, úr 60 dögum í 90 daga, eða til sama tíma og uppsögnin ætti að taka gildi.
    Samningarnir voru undirritaðir 7. ágúst 1997 að viðstöddum fulltrúum lánastofnananna. Samhliða undirritun samninganna voru undirritaðir ýmsir hliðarsamningar og minnisblöð sem tengjast þeim, þar á meðal samningar milli ríkisins og viðkomandi sveitarfélaga annars vegar og hafnarsjóðs Grundartangahafnar hins vegar. Jafnframt var undirritaður rafmagns samningur milli Reykjavíkurborgar og Landsvirkjunar um sölu á rafmagni frá Nesjavöllum.
    Enn fremur voru undirritaðir svokallaðir beinir samningar milli íslensku samningsaðilanna, Columbia Ventures Corporation og fjármálastofnananna sem hafa tekið að sér að fjármagna hluta af framkvæmdum við álver Norðuráls. Þessir samningar miða að því að tryggja byggingu og rekstur álversins ef til þess kemur að grípa þurfi til framsalsákvæða samninganna. Í þeim eru meðal annars ákvæði um framsal réttinda og skyldna Norðuráls samkvæmt samningnum til lánastofnananna eða lögaðila sem hann tilnefnir, komi til þess að fjármálastofnanir gangi að tryggingu Columbia á lánasamningi. Áskilið er að lögaðilinn sé félag sem stofnað er í ríki innan OECD.
    Fjárfestingarsamningurinn, hafnarsamningurinn og rafmagnssamningurinn öðluðust gildi þann 15. ágúst sl. í framhaldi af undirritun samninga milli Norðuráls og áðurnefndra fjármála stofnana um fjármögnun verkefnisins. Viðaukasamningurinn við lóðasamninginn tók gildi við undirritun.

1.3. STÆKKUN ÍSLENSKA JÁRNBLENDIFÉLAGSINS HF.
    Þann 27. maí 1997 voru staðfest og birt lög nr. 64/1997, um breyting á lögum um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Stjórn Íslenska járnblendifélagsins hf. og eignaraðilar hafa hver um sig staðfest samkomulag það sem gert var 12. mars sl. Á aðalfundi 13. júní 1997 var lokið við þær breytingar sem gera þurfti í kjölfar samkomulagsins, m.a. á samþykktum félagsins og greiðslu Elkem vegna hlutafjáraukningar.
    Í framhaldi af ákvörðun stjórnar Íslenska járnblendifélagsins hf. á fundi sínum 12. mars sl. þess efnis að staðfesta samninga við Landsvirkjun um raforkukaup fyrir ofn 3 var verkefnis stjórn fyrir framkvæmdina skipuð í aprílmánuði. Verkefnisstjórnin hefur unnið samfellt að undirbúningi síðan.
    Ofn 3 verður fyrsti nýi ofninn sem Elkem tekur þátt í rekstri á um langt skeið. Nýr kísiljárn ofn hefur ekki verið tekinn í notkun hjá Elkem samsteypunni frá því að straumi var hleypt á síðari ofninn á Grundartanga 1980. Allmikil vinna hefur því farið í að taka saman reynslu af rekstri járnblendiofna og skilgreina hönnunarforsendur. Markmiðið er að nýr ofn nýti orku og hráefni eins vel og kostur er. Jafnframt er lögð höfuðáhersla á öruggi og stöðugleika í rekstri. Reiknað er með að ofn 3 verði stærsti og afkastamesti kísiljárnofn Elkem samsteypunnar en afköstin ráða verulegu um arðsemi framkvæmdarinnar.
    Kostnaðaráætlun fyrir ofn 3 var unnin árið 1995 og uppfærð árið 1996 og lögð þannig fyrir stjórn Járnblendifélagsins. Nú er unnið að lokaáætlun um verkið er felur í sér hönnun ofns og búnaðar auk endanlegra áætlana um kostnað, verktíma, mannaflaþörf og arðsemi. Stefnt er að því að leggja áætlunina fyrir stjórn Íslenska járnblendifélagsins 24. október nk.
    Endanleg hönnun og gerð útboðsgagna munu fara fram í beinu framhaldi af samþykkt stjórnar á lokaáætlun verksins og verða verkþættir og búnaður boðnir út á næstu mánuðum. Stefnt er að því að steypuvinna við undirstöður mannvirkja hefjist á fyrsta ársfjórðungi 1998.
    Áætlað er að starfsmenn á byggingarstað verði um 140 þegar mest er á síðari hluta næsta árs og fram á árið 1999. Útlit er fyrir að verulega verði farið að draga úr verkþunga við álver Norðuráls á Grundartanga þegar framkvæmdir við ofn 3 ná hámarki. Áætlun gerir ráð fyrir að ofn 3 skapi um 120 ársverk á framkvæmdatímanum en að fastráðnum starfsmönnum Járn blendifélagsins fjölgi um 30 þegar ofninn er kominn í rekstur.
    Rekstur félagsins gekk mjög vel á síðastliðnu ári en rekstrarmet var sett er verksmiðjan skilaði 72.476 tonnum reiknuðum sem 75% af kísiljárni. Þá var afkoma félagsins með því besta sem verið hefur frá upphafi, en hagnaður félagsins nam 611,7 millj. kr. Eigendum félagsins var greiddur út arður sem nam 364 millj. kr. og hefur svo mikill arður ekki verið áður greiddur út til eigenda í sögu félagsins. Fyrirsjáanlegt er að afkoma ársins 1997 verður einnig góð þótt ekki sé að vænta jafn mikils hagnaðar og árið 1996.
    Eftir að þriðji ofninn er að fullu kominn í rekstur munu rekstrartekjur félagsins aukast um tæpa tvo milljarða kr. og verða nærri 5,3 milljörðum kr. miðað við markaðsverð, sem er 15% lægra en verðið er nú.
    Unnið er að undirbúningi á skráningu Íslenska járnblendifélagsins hf. á Verðbréfaþingi Íslands og sölu íslenska ríkisins á 26,5 prósentum hlutafjár í félaginu í samræmi við 4. gr. laga nr. 64/1997, um breyting á lögum um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Gert er ráð fyrir að hlutabréfin verði boðin til sölu á almennum markaði í byrjun nóvember nk. og munu Landsbréf hf. annast útboð og sölu hlutabréfa ríkisins. Áætlað söluandvirði umrædds eignarhluta er um 900 millj. króna. Eftir þessa sölu mun ríkið eiga 12% hlutafjár í félaginu í stað 55% í upphafi árs.

2. ORKUÖFLUN
2.1. FRAMKVÆMDIR Á VEGUM LANDSVIRKJUNAR
    Hér á eftir verður í stuttu máli gerð grein fyrir helstu virkjunarframkvæmdum Lands virkjunar sem um þessar mundir miðast við að Landsvirkjun geti afhent orku til stækkunar álversins við Straumsvík á þessu ári, álvers Norðuráls á Grundartanga um mitt ár 1998 og til þriðja ofns Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga seint á árinu 1999 og mætt aukinni raforkuþörf hins almenna markaðar.

Hækkun Blöndustíflu.
    Á árinu 1996 var lokið við hækkun Blöndustíflu um fjóra metra og miðlun Blöndustöðvar þannig aukin úr 220 Gl í 400 Gl, sem jók orkuvinnslugetu stöðvarinnar um 160 GW-stundir á ári.

Aflaukning og endurnýjun Búrfellsstöðvar.
    Þann 4. desember 1991 veitti iðnaðarráðherra Landsvirkjun leyfi til að stækka Búrfellsvirkjun í allt að 310 MW afl ásamt tilheyrandi flutningslínum og aðveitustöðvum, sbr. 1. gr. laga um raforkuver, nr. 60/1981, og lög nr. 74/1990 sem breyttu þeim lögum.
    Með því að skipta um vatnshjól í aflvélum Búrfellsstöðvar, auka rennsli, bæta nýtni og endurnýja jafnframt hluta rafala, spenna og ýmsan annan búnað stöðvarinnar verður afl stöðvarinnar aukið um 60 MW. Eftir að 5. áfanga Kvíslaveitu er lokið og aflaukningu Búrfellsstöðvar eykst orkuvinnslugeta raforkukerfis Landsvirkjunar um 380 GW-stundir á ári.
    Vinna við framleiðslu nýrra vatnshjóla og annars búnaðar hófst á árinu 1996 en við framkvæmdir í virkjuninni seint á því ári. Fyrsta vélin var gangsett með nýju vatnshjóli í mars sl. og í haust verður lokið endurnýjun vatnshjóla í fjórum aflvélum af sex. Vorið 1998 verður metið með hliðsjón af ástandi í vatnsbúskapnum hvort hægt verður að taka upp fleiri vélar á því ári, en annars verður að bíða með að skipta um vatnshjól síðustu tveggja vélanna þar til rekstur Sultartangavirkjunar hefst. Við verkið hafa að jafnaði unnið um 25 manns.

Kvíslaveita, 5. áfangi.
    Með leyfi 4. desember 1991 heimilaði iðnaðarráðherra Landsvirkjun að ljúka 5. áfanga Kvíslaveitu.
    Framkvæmdir við 5. áfanga (lokaáfanga) Kvíslaveitu hófust vorið 1996. Eftir hlé sl. vetur var þeim fram haldið í vor og Þjórsá veitt með bráðabirgðastíflu um Kvíslaveitu til Þórisvatns í lok júlí 1997. Framkvæmdum lýkur í nóvember nk. Að jafnaði hafa unnið um 50 manns við þessar framkvæmdir. Aukning orkuvinnslugetunnar með tilkomu 5. áfangans er áætluð um 290 GW-stundir á ári.

Hágöngumiðlun.
    Þann 11. febrúar 1997 gaf iðnaðarráðherra út leyfi til Landsvirkjunar til að gera 385 Gl miðlun úr Syðri-Hágöngu, en áður hafði farið fram mat á umhverfisáhrifum miðlunarinnar.
    Vinna við gerð Hágöngumiðlunar hófst sl. vor. Áætlanir gera ráð fyrir að hægt verði að byrja að safna vatni í lónið um miðjan júlí árið 1998 og er stefnt að því að ljúka framkvæmdum að fullu í nóvember sama ár. Miðlunin mun auka orkuvinnslugetu raforkukerfisins um 200 GW-stundir á ári. Um 50–60 manns munu að jafnaði vinna við framkvæmdirnar.

Sultartangavirkjun.
    Iðnaðarráðherra gaf 12. mars sl. út virkjunarleyfi til Landsvirkjunar fyrir allt að 125 MW Sultartangavirkjun ásamt aðalorkuveitum, samanber 1. gr. laga um raforkuver, nr. 60/1981, eins og þeim var breytt með lögum nr. 74/1990. Áður en leyfið var veitt hafði farið fram mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.
    Gerðir hafa verið allir meiri háttar verksamningar um byggingarvinnu og um kaup og uppsetningu véla og rafbúnaðar vegna Sultartangavirkjunar. Byrjað var að grafa fyrir stöðvarhúsi og jöfnunarþró um miðjan apríl sl. og í kjölfarið fylgdi gröftur skurða og gerð jarðganga. Framkvæmdir voru komnar á góðan skrið og gengu samkvæmt áætlun síðla sumars 1997. Verktaki við vélar og rafbúnað hóf um mitt sumar undirbúning að hönnun og fram leiðslu búnaðar en uppsetning hans mun hefjast í byrjun næsta árs. Samið hefur verið um að fyrri vél virkjunarinnar verði tilbúin til rekstrar í október árið 1999 og seinni vélin í janúar árið 2000. Uppsett afl virkjunarinnar verður 120 MW í tveim aflvélum, 60 MW hvor. Með tilkomu hennar verður orkuaukning í raforkukerfi landsins um 880 GW-stundir á ári. Í september sl. unnu rúmlega 100 manns á byggingarstað en gera má ráð fyrir að þeir verði flestir um 350 á árinu 1999.

Lokið við Kröfluvirkjun.
    Á síðasta ári var tekin ákvörðum um að ljúka Kröfluvirkjun með uppsetningu á vél 2 og gufuöflun fyrir hana en með því móti eykst afl virkjunarinnar um 30 MW og orkuvinnslugetan um 240 GW-stundir á ári. Verkinu er skipt í tvo áfanga. Í fyrsta áfanga, sem ljúka á í þessum mánuði, verður aflað lágþrýstigufu fyrir virkjunina, lokið uppsetningu á vél 2 og öðrum búnaði og afl virkjunarinnar aukið um 15 MW. Áætlanir gerðu ráð fyrir að ljúka áfanganum í þessum mánuði en ákveðið hefur verið af hagkvæmnisástæðum að færa gangsetningu vélar 2 fram í miðjan nóvember 1997 og kemur slíkt ekki að sök vegna góðrar stöðu í vatnsbúskap Landsvirkjunar. Annar áfangi felst í öflun háþrýstigufu fyrir síðari 15 MW ásamt stækkun gufuveitu. Þessum áfanga á að verða lokið í september árið 1998. Á árinu 1996 var lokið borun tveggja lágþrýstihola er gefa samanlagt það gufumagn sem að var stefnt fyrir fyrri 15 MW áfangann. Lokið er borun tveggja háþrýstihola, en fyrirhugað er að bora tvær holur til viðbótar á þessu ári. Við verkið hafa mest unnið um 90 manns en að jafnaði um 50 – 60 manns.

Stækkun tengivirkis við Búrfellsstöð.
    Vegna tengingar 400 kV háspennulínu frá Sultartanga og lagningar 400 kV línu frá Búrfelli að Sandskeiði (Búrfellslínu 3A) þarf að stækka tengivirki Búrfellsstöðvar. Tilboð í rofabúnað fyrir tengivirkið voru opnuð í ágúst sl. en nýtt hús verður reist fyrir búnaðinn. Verkinu lýkur að mestu haustið 1998 en að fullu ári síðar með tengingu háspennulínu frá Sultartanga.

Þéttavirki og varnarbúnaður.
    Til aukningar á flutningsgetu raforkukerfisins á Suðvesturlandi hafa verið settir upp raðþéttar í Búrfellslínu 3A á Sandskeiði og samsíðaþéttar í aðveitustöðvunum á Geithálsi og í Hamranesi. Jafnframt hefur ýmis varnarbúnaður verið endurnýjaður í raforkukerfinu á svæðinu.

Stækkun tengivirkisins á Brennimel.
    Tengivirki á Brennimel verður stækkað vegna tengingar álvers Norðuráls á Grundartanga við raforkukerfi Landsvirkjunar með tveimur 220 kV háspennulínum. Tilboð í rofabúnað voru opnuð í ágúst sl. Framkvæmdir hefjast í október en verklok eru áætluð í byrjun apríl árið 1998.

Norðurálslínur 1 og 2.
    Þann 7. ágúst 1997 gaf iðnaðarráðherra út leyfi til Landsvirkjunar til að leggja tvær há spennulínur, Norðurálslínur 1 og 2. Línurnar verða 220 kV og tengja nýtt álver á Grundar tanga við raforkukerfið í tengivirki Landsvirkjunar á Brennimel. Tilboð í slóðagerð, jarðvinnu og undirstöður hafa verið opnuð og búið er að auglýsa útboð á efni. Hafist verður handa um að reisa möstur í byrjun næsta árs. Verklok eru áætluð í lok mars 1998.

Búrfellslína 3A.
    Þann 24. júlí 1991 gaf iðnaðarráðherra Landsvirkjun heimild til að reisa Búrfellslínu 3A. Línan verður 400 kV og liggur frá Búrfellsstöð að Lyklafelli við Sandskeið. Heildarlengd lín unnar er um 95 km. Framkvæmdir við slóðagerð eru hafnar ásamt framkvæmdum við undir stöður. Efni í sjálfa línuna ásamt gerð turna og strengingu leiðara hefur verið boðið út og verða tilboð opnuð í þessum mánuði. Gert er ráð fyrir að hafist verði handa um að reisa turna í apríl 1998 og að línan verði tilbúin í lok október 1998. Borist hafa tvær stjórnsýslukærur vegna afgreiðslu skipulagsstjóra ríkisins á framkvæmdinni sem eru til umfjöllunar í um hverfisráðuneyti.

2.2.    FRAMKVÆMDIR Á VEGUM HITAVEITU REYKJAVÍKUR VIÐ NESJAVALLAVIRKJUN
    Þann 16. júní sl. gaf iðnaðarráðherra út virkjunarleyfi til Hitaveitu Reykjavíkur til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu að Nesjavöllum með allt að 60 MW afli, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga um raforkuver, nr. 60/1981, eins og þeim var breytt með 2. gr. laga nr. 74/1990.
    Á Nesjavöllum standa yfir framkvæmdir við stækkun varmaorkuvers úr 150 MW (varma orka) í 200 MW (varmaorka) og byggingu raforkuvers með 2 x 30 MW afli. Samkvæmt fyrirliggjandi samningum á fyrri vélasamstæða raforkuversins um að hefja framleiðslu inn á net Landsvirkjunar 1. október árið 1998 og síðari vélarsamstæðan 1. janúar árið 1999. Á Nesjavöllum hafa verið boraðar 18 holur og fæst úr þeim næg orka fyrir orkuverið.
    Í apríl sl. voru undirritaðir samningar við japanska fyrirtækið Mitsubishi Corporation um meginvélbúnað raforkuversins. Samningurinn kveður á um að fyrri vélasamstæða virkjunar innar verði tilbúin 1. október 1998 og sú síðari 1. nóvember 1998. Samið hefur verið við GEC Alstohm í Sviss um kaup á háspennurofabúnaði og við Koncar í Króatíu um spenna.
    Í apríl var einnig gerður samningur við Ármannsfell hf. um byggingu stöðvarhúss. Samn ingurinn miðast við að vélasal verði lokið í lok febrúar 1998, annað rými frágengið mánuði síðar en endanlegum frágangi lokið 15. júlí 1999. Þetta verk er lítið eitt á eftir áætlun, en ekki það mikið að verktaki eigi ekki að geta lokið því á tilsettum tíma.
    Samningar hafa verið gerðir um lagningu safnæða frá borholum, stækkun skiljustöðvar og kaldavatnsdælustöðvar, smíði nýs geymis fyrir kalt vatn, lagningu skiljuvatnsaðveitu, breytingar í varmaorkuveri o.fl. Gengið hefur verið frá samningum um flest þau verk sem nauðsynleg eru vegna áformaðra framkvæmda.
    Lánsfé til framkvæmdanna hefur verið tryggt með samningum við Norræna fjárfestingar bankann (NIB) og Fjárfestingarbanka Evrópu (EIB).
    Undirbúningur og framkvæmdir eru nokkurn veginn samkvæmt áætlun. Ekki er á þessari stundu ástæða til að ætla annað en að staðið verði við samninga um afhendingu orku frá fyrri vélasamstæðunni 1. október 1998 og þeirri síðari 1. janúar 1999.
    Skipulagsstjóri ríkisins féllst 23. júlí 1997 á lagningu háspennulínu frá Nesjavöllum að Mosfellsdal eins og henni var lýst í frummatsskýrslu, sem og lagningu slóða með nokkrum skilyrðum. Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins hefur verið kærður til umhverfisráðuneytis og er kæran nú til umfjöllunar hjá því.

3. ÞJÓÐHAGSLEG ÁHRIF UMSAMINNA FRAMKVÆMDA
    Meðfylgjandi er tafla yfir fjárfestingar í iðjuverum og orkuframkvæmdum sem tengjast þeim og yfirlit yfir þjóðhagsleg áhrif þessara framkvæmda. Tekið skal fram að í meðfylgjandi töflu er gerð grein fyrir heildarfjárfestingu í iðjuverum og orkuframkvæmdum. Af 52 milljarða kr. heildarfjárfestingu eru um það bil 25 milljarðar kr. í orkuframkvæmdum en 27 milljarðar kr. í iðjuverum.

Framkvæmdir
ÍSAL
1996 – 1997
    Norðurál
1997 – 2000
Járnblendið
1998 – 2000
Samtals
Framlag til landsframleiðslu
- Í ma. kr. á ári 4,0 4,0 1,5 9,5
- Hlutfall      0,8% 0,8% 0,3% 0,019
Útflutningur     
- Í ma. kr. á ári 7,3 6,8 1,7 15,8
- Hlutfall af vöruútflutningi 1996 5,8% 5,4% 1,3% 0,125
Fjárfesting     
- Í ma. kr. á framkvæmdatíma 16 30 6 52
- Hlutfall af fjárfestingu 1996 19% 35% 7% 0,61
Mannafli
- Ársverk við framkvæmdir 750 1.300 300 2.350
- Frambúðarstörf 80 150 30 260

4. ÖNNUR STÓRIÐJUVERKEFNI Í UNDIRBÚNINGI
    Hér á eftir verður vikið að nokkrum verkefnum sem hafa verið til athugunar á vegum Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar, sveitarfélaga o.fl. Líklegt er að aðeins fáein þessara verkefna komi til framkvæmda á næstu tíu árum, auk stækkana á þeim stóriðjufyrirtækjum sem eru í rekstri eða á framkvæmdastigi.
    Þess skal getið að verkefnin eru ekki komin á það stig að fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum og því hafa verkefnin ekki komið til umfjöllunar hjá umhverfisyfirvöldum. Gengið er út frá því að nýtt verði besta fáanlega tækni „Best Available Technology“ (BAT) í nýjum stóriðjuverum sem verða reist á næstu árum.
    

4.1.    Á VEGUM MARKAÐSSKRIFSTOFU IÐNAÐARRÁÐUNEYTIS OG LANDSVIRKJUNAR (MIL)
Norsk Hydro.
    Nú stendur yfir sameiginleg athugun íslenskra stjórnvalda, Landsvirkjunar og MIL annars vegar og Hydro Aluminium Metals Product (HAMP) hins vegar á byggingu stórs álvers á Íslandi með norskri rafgreiningartækni.
    HAMP er hluti norska stórfyrirtækisins Norsk Hydro. Það framleiðir árlega 700.000 tonn af áli og er næst stærsti álframleiðandi í Evrópu og sá sjötti í röðinni í heiminum. Stjórnendur félagsins hafa lýst því yfir að það hyggist tvöfalda álframleiðslu sína fyrir árið 2005. HAMP er nú að kanna möguleika á byggingu álvera á nokkrum stöðum í heiminum, þar með talið á Íslandi.
    Hugmyndin um byggingu álvers í samvinnu við HAMP felst í stofnun tveggja sjálfstæðra fyrirtækja með mismunandi eignaraðild. Annað um álbræðsluna og hitt um verkefnafjár magnað orkufyrirtæki til að reisa og reka virkjun eða virkjanir fyrir álbræðsluna. Viðskipta hugmyndin gerir ráð fyrir að gerður verði orkusamningur til langs tíma með ákveðinni áhættu skiptingu.
    Álbræðslan yrði í meirihlutaeigu Hydro Aluminium og íslenskra fjárfesta, skráð á verð bréfaþingum á Íslandi og í Noregi og um reksturinn yrði gerður stjórnunarsamningur við Hydro, sem einnig mundi annast sölu afurða.
    Orkufyrirtækið yrði verkefnafjármagnað með blandaðri eignaraðild raforkufyrirtækja og langtímastofnanafjárfesta. Ríkið mundi ekki gangast í ábyrgð fyrir heildarskuldum orkufyrir tækisins eins og nú er raunin með Landsvirkjun og reksturinn yrði að standa undir endur greiðslu lána. Gert er ráð fyrir að gerður yrði stjórnunarsamningur við Landsvirkjun um að reka orkufyrirtækið.
    Framleiðslugeta álversins yrði í upphafi að minnsta kosti 200.000 tonn á ári. Álver hafa farið stækkandi á undanförnum árum og til þess að nýta hagkvæmni stærðarinnar verður að gera ráð fyrir að tvöfalda megi framleiðslugetu álversins að nokkrum árum liðnum. Á næstu mánuðum verða bornir saman eftirtaldir tveir kostir varðandi aðstæður til fjárfestinga. Annars vegar við Reyðarfjörð miðað við að það verði í næsta nágrenni við rafveitu og hins vegar á Keilisnesi nálægt stóru atvinnusvæði.
    Stefnt er að því að sameiginlegri hagkvæmniathugun á þessum kostum ljúki á fyrri hluta næsta árs og þá verði teknar ákvarðanir um hvort ganga eigi til samninga. Framkvæmdir gætu í fyrsta lagi hafist um aldamót og framleiðsla hæfist í fyrsta lagi á árunum 2002 til 2005.
    Sameiginleg heildarfjárfesting í álbræðslu og virkjunum er áætluð 106 milljarðar kr. en ársvelta álbræðslunnar er áætluð nærri 28 milljarðar króna. Starfsmannafjöldi álbræðslunnar yrði í kringum 560 manns.

Atlantsál.
    Frá því að samkomulag um að hefja að nýju viðræður við Atlantsálshópinn um álver á Keilisnesi var undirritað í mars 1996 hafa verið haldnir nokkrir fundir. Ákvarðanir um framhald verkefnisins hafa tafist, m.a. vegna óvissu um orkusölu til Norðuráls og Íslenska járnblendifélagsins þar til að gengið var frá samningum við fyrirtækin fyrr á þessu ári. Fyrir tækin sem standa að Atlantsálshópnum (Alumax, Hoogovens og Gränges) hafa samtímis verið endurskipulögð og eignaraðild þeirra hefur breyst og þau hafa því ekki verið tilbúin til að taka ákvörðun um svo mikla fjárfestingu sem álver á Keilisnesi yrði.
    Forsendur fyrir orkusölu hafa breyst umtalsvert eftir að orkusölusamningar hafa verið gerðir við ÍSAL, Norðurál og Íslenska járnblendifélagið. Raforkunni sem áður átti að selja Atlantsáli hefur nú að verulegu leyti verið ráðstafað í þessi verkefni. Landsvirkjun hefur að undanförnu skoðað nýja möguleika til að selja raforku til álvers á Keilisnesi miðað við mis munandi stærðir og mismunandi byggingarhraða og er ljóst að orkuverð yrði nú talsvert hærra en rætt var um árið 1991 þegar málinu var skotið á frest. Þessar niðurstöður hafa verið kynntar Atlantsálshópnum og er nú beðið viðbragða frá fyrirtækjunum þremur.
    Heildarfjárfesting miðað við 240.000 tonna álver Atlantsáls var áætluð um það bil 72 millj arðar kr. og ársvelta nálægt 32 milljörðum kr. Starfsmannafjöldi var áætlaður í kringum 600 manns.

Polyol.
    Nýlega var sett á fót verkefnisstjórn þriggja aðila, MIL, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Ískem til þess að vinna að frumhagkvæmniathugun á verksmiðju er framleiða mundi ýmis polyol-efni. Polyol er mjög stór flokkur fjölalkóhólefna sem nú er að langmestu leyti unnin úr jarðolíu. Í þessari verksmiðju yrðu polyol-efnin unnin úr lífrænni sterkju og sykurefnum og notuð á ýmsan hátt í matvælaframleiðslu, framleiðslu á snyrtivörum, plasti og í lyfjaiðnaði. Umhverfisáhrif við framleiðsluna eru minni en þegar efnin eru unnin úr jarðolíu. Við hana er notuð mikil gufa og nýtist jarðhiti því á hagkvæman hátt í framleiðsluferlinu.
    Verkefnið er unnið í samvinnu við bandaríska efnafyrirtækið International Polyol Chemi cals Inc., sem hefur yfir að ráða nauðsynlegri þekkingu á þessu sviði, auk þess að eiga fjölda einkaleyfa í þessum iðnaði. Markmið verkefnisins er að kanna hagkvæmni þess að reisa og reka polyol-verksmiðju á Íslandi og ef slík verksmiðja virðist hagkvæm að setja saman efni til kynningar meðal fjárfesta, hráefnissala og hugsanlegra samstarfsaðila á markaðssviði. Stefnt er að því að komast að niðurstöðu um hagkvæmni verkefnisins seint á næsta ári.
    Fjárfesting í slíkri verksmiðju er áætluð ríflega 7 milljarðar kr., en ársvelta er áætluð um 100 til 130 millj. Bandaríkja dala eða um 7 til 9 milljarðar kr. Starfsmenn í verksmiðjunni yrðu um 100 manns.

Slípiefni.
    Tvö erlend fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að kanna hagkvæmni slípiefnaverksmiðja hérlendis. Um er að ræða hörð og hitaþolin málmefni sem unnin eru ýmist með bræðslu á súráli eða með bræðslu á kvarssandi og kolefni við háan hita (kísilkarbíð). Efnin má nota með fjölbreyttum hætti í slípiefnaiðnaði og þar sem þörf er hitaþolinna efna. Iðnaðurinn er raforkufrekur og því gæti verið hagkvæmt að reisa slíka verksmiðju á Íslandi. Markaður fyrir afurðirnar er bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Tveir staðir hafa komið til álita fyrir staðsetningu slíkrar efna verksmiðju, Reyðarfjörður og Þorlákshöfn. Á næstu mánuðum skýrist væntanlega hvort áhugi er fyrir að ráðast í framkvæmdir.
    Fjárfesting í 25.000 tonna kísilkarbíð-verksmiðju er um 2 milljarðar kr. Ársvelta gæti numið einum milljarði kr. og starfsmannfjöldi um það bil 70 manns.

Endurskoðun áforma um kísilmálmvinnslu.
    Á vegum MIL er í samvinnu við orku- og stóriðjunefnd Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi verið að hefja endurskoðun á hagkvæmni þess að reisa kísilmálmbræðslu á Reyðarfirði. Fyrir níu árum voru áform um byggingu slíkrar verksmiðju lögð til hliðar eftir að markaðsverð á kísilmálmi lækkaði samhliða hækkun á verði aðfanga. Iðnaðurinn hefur gengið í gegnum miklar þrengingar og endurskipulagningu á undanförnum árum, en eftirspurn eftir kísilmálmi hefur nú aukist aftur. Var því talið rétt að skoða málið að nýju þó svo að ekki hafi verið byggð ný verksmiðja sl. 10 ár.
    Við endurskoðun á þessu verkefni verður stuðst við undirbúningsgögn um nánast fullhannaða verksmiðju sem unnið var að á vegum Kísilmálmvinnslunnar hf. á árunum 1984 til 1986. Lögð verður áhersla á að finna erlendan samstarfsaðila sem hefur reynslu í rekstri slíkra verksmiðja og þekkingu á markaðinum. Málið er skammt á veg komið og of snemmt að spá fyrir um árangur.
    Fjárfesting í 30.000 tonna kísilmálmbræðslu gæti numið nærri 7 milljörðum kr. Ársvelta slíkrar verksmiðju gæti numið um það bil 3 milljörðum kr. og starfsmenn um 70.

4.2. Á VEGUM SVEITARSTJÓRNA, VEITUFYRIRTÆKJA O.FL.
Pappírsverksmiðja.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær stofnuðu á síðasta ári Jarðgufufélagið til að kanna möguleika á nýtingu jarðhita við Trölladyngju eða Krísuvík til iðnaðarnota við Straumsvík. Gerður var samstarfssamningur milli Jarðgufufélagsins og bandaríska fyrirtækisins Southern Paper Corporation um könnun á hagkvæmni þess að reisa pappírsverksmiðju við Straumsvík. Verksvið félagsins skiptist í þrennt, þ.e. í fyrsta lagi undirbúning rannsóknaáætlunar fyrir Krísuvík/Trölladyngju, í öðru lagi könnun á forsendum til öflunar jarðgufu til stóriðnaðar sem afhent yrði í Straumsvík, og í þriðja lagi framkvæmd rannsóknaráætlunar og að kanna markaðsforsendur og annast markaðssetningu á jarðgufu.
    Mat breska ráðgjafarfyrirtækisins Ernst & Young á samkeppnisstöðu benti til að forsendur væru fyrir pappírsframleiðslu, en samkeppnisstaðan á hinn bóginn ekki sérstaklega sterk. Jafnframt kynnu aðrir þættir að vera ráðandi um áhuga erlendra fjárfesta.
    Gert er ráð fyrir að frekari ákvarðanir um framhald þessa verkefnis verði teknar síðar í haust.

Magnesíumverksmiðja.
    Íslenska magnesíumfélagið hf. undir forystu Hitaveitu Suðurnesja, hefur á undanförnum mánuðum ásamt ráðgjöfum sínum unnið að gerð hagkvæmniathugunar fyrir 50.000 tonna magnesíumverksmiðju sem staðsett yrði við Sandvík á Reykjanesi. Síðastliðið vor lá fyrir áfangaskýrsla um slíka verksmiðju ásamt kostnaðar- og rekstraráætlun. Stofnkostnaður verk smiðjunnar var þá áætlaður um 30 milljarðar kr. Hinir erlendu verktakar sem unnu að gerð skýrslunnar buðust til að reisa verksmiðjuna fyrir þetta verð og ábyrgjast þannig að kostnaðaráætlun stæðist. Ákveðið var að leita leiða til að lækka stofnkostnaðinn og ná fram meiri hagkvæmni til þess að auðveldara yrði að vekja áhuga erlenda fjárfesta og væntanlegra kaupenda að málminum. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu í árslok. Lokið var við skýrslu um mat á umhverfisáhrifum og hefur hún verið afhent viðkomandi yfirvöldum óformlega til yfirlestrar. Samtímis mati á umhverfisáhrifum hjá Skipulagi ríkisins verður sótt um starfsleyfi hjá Hollustuvernd ríkisins. Gengið hefur verið frá samningum milli landeigenda og Reykjanesbæjar um kaup á hæfilega stórri lóð fyrir verksmiðjuna við Sandvík nálægt Höfnum.
    Safnað hefur verið hlutafé að upphæð um 250 millj. króna sem varið hefur verið til verkfræðilegs undirbúnings og rannsókna, mats á umhverfisáhrifum og hagkvæmniathugunar. Samkomulag var nýlega gert við kanadíska fjármálafyrirtækið Nesbitt Burns, sem er í eigu Bank of Montreal, um að afla viðbótarhlutafjár til að ljúka undirbúningi að verksmiðjunni og síðar eigin fjár og láns til byggingar verksmiðjunnar. Vonir standa til að unnt verði að taka ákvörðun um byggingu verksmiðjunnar snemma á næsta ári.
    Ársvelta 50.000 tonna magnesíumverksmiðju gæti numið um 10 milljörðum kr. og starfs menn yrðu um 400.

Vetnisperoxíð.
    Að frumkvæði Reykjavíkurborgar var nýlega stofnað undirbúningsfélag að byggingu vetnisperoxíðverksmiðju hér á landi, m.a. með aðild MIL.
    Niðurstöður forathugunar benda til þess að hagkvæmt sé að reisa og reka 15.000 tonna vetnisperoxíðverksmiðju á Reykjavíkursvæðinu. Nú er unnið að því að kanna betur markaðsforsendur, leita að erlendum samstarfsaðila með markaðsaðgang og kanna nánar tæknilegar forsendur 15.000 tonna verksmiðju.
    Stofnkostnaður 15.000 tonna verksmiðju gæti numið um 3 milljörðum kr. Ársvelta gæti numið rúmlega einum milljarði króna og starfsmenn yrðu um 70.