Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 462 – 1. mál.



Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Störf nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins hafa verið hefðbundin. Nefndin hóf störf 22. september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Samstarf fjárlaganefndarmanna og sveitarstjórnarmanna hefur nú sem áður verið gott og sú yfirsýn, sem fundir nefndarinnar með sveitarstjórnarmönnum gefa, er mikilvæg fyrir nefndina við afgreiðslu fjárlaga. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem heyra undir málefnasvið þeirra. Nefndin óskaði með bréfi, dags. 20. október sl., eftir álitum fastanefnda þingsins um frumvarpið, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda, ásamt tillögum að skiptingu á safnliðum. Nefndirnar hafa skilað álitum og tillögum og fylgja þau nefndarálitinu sem fylgiskjöl eins og fyrir er mælt í þingsköpum.
    Eftir að frumvarp til fjárlaga hefur verið lagt fram á Alþingi eru fjölmargir aðilar, félög, samtök og stofnanir, sem telja sig eiga erindi við fjárlaganefnd og eru þá kallaðir fyrir nefndina forsvarsmenn ýmissa stofnana til viðræðna um starfsemi þeirra og fjárframlög.
    Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 45 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila. Auk þess hafa undirnefndir unnið að afgreiðslu einstakra mála flokka.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu allra fjárfestingarliða. Breytingartillögur þær, sem eru til umfjöllunar við 2. umræðu, nema samtals 1.567,1 millj. kr. til hækkunar á sundurliðun 2 í frumvarpinu.
    Meiri hluti nefndarinnar vill þakka fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar fjármálaráðuneytisins og einstök ráðuneyti hafa veitt henni upplýsingar og aðstoð.
    Það sem bíður 3. umræðu er afgreiðsla á tekjuhlið frumvarpsins, B- og C-hluti og 5., 6. og 7. gr. Auk þess bíða 3. umræðu ýmis viðfangsefni sem nefndin hefur enn til umfjöllunar.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR



00 Æðsta stjórn ríkisins


201    Alþingi: Alls er lagt til að framlag til Alþingis hækki um 27,1 m.kr. og verði 908,9 m.kr. Hækkunin skiptist á fimm viðfangsefni. Í fyrsta lagi er lagt til að alþingiskostnaður hækki um 4 m.kr. til að mæta auknum útgjöldum vegna funda þingmanna innan lands. Í öðru lagi er gerð tillaga um 5,7 m.kr. hækkun til viðfangsefnisins 1.03 Fastanefndir. Kröfur um sérfræðilega þjónustu við fastanefndir hafa aukist mikið og sama má segja um vinnslu og frágang þingskjala. Þingskjaladeild annast frágang og uppsetningu lagasafns á vefinn en sá kostnaður var áður greiddur af dóms- og kirkjumálaráðu neytinu. Í þriðja lagi er lögð til 9,9 m.kr. hækkun til almenns rekstrar þingsins og er breytingin þríþætt. Fyrirhugaðar eru skipulagsbreytingar í upplýsinga- og tæknimálum Alþingis. Sérhæfð þjónusta við þingmenn og þingnefndir verður aukin og einnig þjón usta við almenning. Áætluð útgjöld vegna þessa eru 2,9 m.kr. Fjárveiting til erlendra samskipta hækkar um 2 m.kr. og er fjárveitingunni ætlað að mæta ýmsum sérverkefnum sem forsætisnefnd ákvarðar. Einnig hækkar rekstrarfjárveiting um 5 m.kr., m.a. vegna aukins prentkostnaðar. Í fjórða lagi er lagt til að fjárveiting til reksturs fasteigna hækki um 2,5 m.kr. vegna viðbótarhúsnæðis í Austurstræti 12 og til að mæta leigukostnaði á geymsluhúsnæði í Faxaskála. Að lokum hækkar tækja- og búnaðarkostnaður um 5 m.kr. til endurnýjunar á þjónustustöð, netbúnaði og fleira fyrir tölvukerfið, m.a. í því skyni að bæta þjónustu við heimatölvur þingmanna.

01 Forsætisráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Gerð er tillaga um 14 m.kr. framlag til að kosta starf nefndar sem ætlað er að undirbúa hátíðahöld í tilefni þess að 1000 ár eru liðin frá því að Leifur Eiríksson fann Vínland. Nefndin mun starfa til ársloka 2000.
221    Byggðastofnun: Lagt er til að stofnað verði nýtt viðfangsefni til að standa undir kostnaði við atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni. Framlag til Byggðastofnunar hækkar alls um 12 m.kr. og færist hækkunin á nýja viðfangsefnið en fjárveiting til þess verður samtals 65 m.kr. Á móti lækkar framlag til viðfangsefnisins 6.01 Byggðastofnun um 53 m.kr.

02 Menntamálaráðuneyti


201    Háskóli Íslands: Alls er lagt til að framlag til Háskóla Íslands hækki um 50 m.kr. Þar af hækkar framlag til rannsóknarnáms um 35 m.kr. en framlag til ritakaupasjóðs um 15 m.kr.
210    Háskólinn á Akureyri: Rekstrarframlag til Háskólans á Akureyri er hækkað um 9 m.kr. og skiptist hækkunin á tvö viðfangsefni. Lagt er til að hækkað verði framlag til almenns rekstrar skólans og er tillagan tvíþætt. Annars vegar eru ætlaðar 3 m.kr. til að koma á fót nýrri námsbraut í upplýsingatækni til BS-prófs við rekstrardeild skólans. Í náminu verður lögð áhersla bæði á þátt vélbúnaðar og hugbúnaðar. Hins vegar er gert ráð fyrir 1 m.kr. til að standa straum af námskeiðskostnaði við endurmenntun grunnskólakennara sem starfa á landsbyggðinni. Gerð er tillaga um 5 m.kr. hækkun á viðfangsefni 1.02 Rannsóknastarfsemi til að efla rannsóknir og endurmenntun kennara við skólann.
211    Tækniskóli Íslands: Gerð er tillaga um að framlag verði aukið um 5 m.kr. vegna endurmenntunar kennara skólans.
221    Kennaraháskóli Íslands: Viðfangsefni 1.02 Rannsóknastarfsemi hækkar um 8 m.kr. Annars vegar er gerð tillaga um að framlag verði aukið um 5 m.kr. vegna rannsókna og endurmenntunar kennara við skólann. Hins vegar er lagt til að veita 3 m.kr. til verkefnis sem er í samvinnu upplýsingaþjónustu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og miðar að því að bæta nám og fræðslu hérlendis.
231    Rannsóknarráð Íslands: Liðurinn hækkar um 5 m.kr. Stefnt er að auknu vísindasamstarfi milli Íslands og Bandaríkjanna. Gert er ráð fyrir ráðstefnuhaldi og auknum sam skiptum þegar á næsta ári.
269    Háskóla- og vísindastofnanir, viðhald og stofnkostnaður: Lagt er til að framlag verði hækkað til stofnkostnaðar háskóla- og vísindastofnana um 15 m.kr. Fjárhæðin er ætluð Tækniskóla Íslands til endurnýjunar tölvubúnaðar. 299    Háskóla- og rannsóknastarfsemi: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar um 10 m.kr. vegna tveggja nýrra viðfangsefna. Lögð er til sérstök 8 m.kr. fjárveiting til undirbúnings námi á háskólastigi á Austurlandi. Fyrirhugað er að kanna möguleika á að koma á fót miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi og er fjárveitingin ætluð til undir búnings miðstöðvarinnar og til viðræðna við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri um framkvæmd málsins. Einnig er fjárveitingunni ætlað að undirbúa kaup á búnaði til kennslu með gagnvirku sjónvarpi. Lagt er til að stofnað verði nýtt viðfangsefni og er fjárveiting að fjárhæð 2 m.kr. ætluð til humarrannsókna á vegum rannsóknaseturs í Vestmannaeyjum.
318    Framhaldsskólar, stofnkostnaður: Alls er lagt til að framlag til fjárlagaliðarins hækki um 18 m.kr. Viðfangsefnið 6.40 Tæki og búnaður hækkar um 9 m.kr. og er tilefnið tví þætt. Annars vegar er lögð til 6 m.kr. tímabundin hækkun til Íþróttakennaraskóla Ís lands til kaupa á tölvubúnaði fyrir skólann. Hins vegar er gerð tillaga um 3 m.kr. tíma bundna hækkun vegna áframhaldandi uppbyggingar á tölvuveri Myndlista- og handíða skóla Íslands. Lagt er til að óskiptur byggingaframkvæmdaliður fjárlagaliðarins verði hækkaður. Sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti.
561    Myndlista- og handíðaskóli Íslands: Lagt er til að hækkað verði framlag til almennrar kennslu um 0,5 m.kr. vegna undirbúnings á hönnunarnámi við skólann. Námið verður skipulagt sem framhaldsnám fyrir þá nemendur sem hafa lokið námi af hönnunarbrautum iðnskólanna í Reykjavík og Hafnarfirði og annarra skóla sem bjóða upp á hliðstætt nám. Gerð er tillaga um að framsetning fjárlagaliðarins breytist á þann veg að þjónustutekjur lækki um 51 m.kr. en að fjármögnun hans með hlutdeild í ríkistekjum hækki um sömu fjárhæð. Breytt framsetning að þessu leyti þykir vera í betra samræmi við nýleg lög um fjárreiður ríkisins. Um er að ræða framlag Reykjavíkurborgar til reksturs skólans. Fjár veiting liðarins verður eftir sem áður óbreytt.
750    Skólar fyrir fatlaða: Í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um breytt verkaskipti er lagt til að 75 m.kr. framlag til dagvistar fatlaðra forskólabarna sem áformað var að greiða sveitarfélögum í samræmi við lög um málefni fatlaðra verði fellt niður. Í samkomulaginu felst m.a. að sveitarfélögin bera kostnað af þjónustunni frá ársbyrjun 1998.
884    Jöfnun á námskostnaði: Lagt er til að hækkað verði framlag til jöfnunar á námskostnaði þeirra sem sækja nám fjarri heimabyggð.
902    Þjóðminjasafn Íslands: Rekstrarframlag til safnsins hækkar um 13 m.kr. Alls eru ætlaðar 10 m.kr. til fornleifarannsókna við Stóruborg undir Eyjafjöllum, Reykholt í Borgarfirði og Neðri-Ás í Hjaltadal. Þjóðminjasafni er ætlað að ráðstafa fjárveitingunni eftir því hvernig verkinu miðar á þessum þremur stöðum. Að auki er gerð tillaga um 3 m.kr. hækkun til áframhaldandi viðgerða á torfbæ að Keldum í Rangárvallasýslu. Lögð er til 2 m.kr. fjárveiting til tölvuskráningarkerfis Þjóðminjasafnsins.
903    Þjóðskjalasafn Íslands: Framlag til almenns reksturs þjóðskjalasafnsins hækkar um 2 m.kr. og er ætlað til frágangs og forvörslu skinnhandrita. Handrit þessi hafa verið geymd í Safnahúsinu en vegna flutnings þeirra þaðan er nauðsynlegt að búa um hand ritin með fullnægjandi hætti, forverja og setja í viðunandi umbúðir. Lagt er til að fram lag til héraðsskjalasafna verði hækkað um 2 m.kr. í 7 m.kr.
905    Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn: Lagt er til að framlag til bókakaupa hækki um 15 m.kr. en þjónustutekjur hækka um sömu fjárhæð þannig að heildaráhrifin eru eng in. Breytingin er vegna hækkunar framlags til ritakaupasjóðs.
919    Söfn, ýmis framlög: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar um 8 m.kr. Lagt er til að veita 1 m.kr. til safns Sigurjóns Ólafssonar og verður framlag þá alls 5 m.kr. Hækkunin er í tilefni kostnaðar vegna 10 ára afmælis safnsins á næsta ári. Gerð er tillaga um nýtt viðfangsefni og að veittar verði 7 m.kr. til fornleifarannsókna og til endurgerðar bæjar Eiríks rauða að Eiríksstöðum í Haukadal ásamt nauðsynlegri aðstöðu fyrir ferðamenn, þ.e. bílastæða, hreinlætisaðstöðu og kynningarefnis á staðnum.
981    Kvikmyndasjóður: Lögð er til 2,1 m.kr. hækkun til Kvikmyndasjóðs og verður framlag á næsta ári 120 m.kr. sem er sambærilegt við fjárveitingu þessa árs. Framlag til Kvik myndasafnsins verður hækkað um 5 m.kr. tímabundið vegna framkvæmda við safnið. Í lok síðasta árs flutti safnið í gömlu Bæjarútgerðina í Hafnarfirði og er fjárveitingunni ætlað að standa undir kostnaði vegna flutningsins og aðstöðu fyrir starfsmenn safnsins.
982    Listir, framlög: Lagt er til að ríkissjóður veiti 5 m.kr. framlag vegna úrvinnslu og viðgerða á tónsmíðahandritum Jóns Leifs í fjárlögum 1998 og er þá gert ráð fyrir að 7 m.kr. verði veittar til viðbótar í fjárlögum 1999. Þann 1. maí 1999 verða liðin 100 ár frá fæðingu tónskáldsins og áformar Íslensk tónverkamiðstöð átak til að koma handritum hans í það form að þau verði aðgengileg til flutnings. Heildarkostnaður er áætlaður um 26,5 m.kr. og er lagt til að ríkissjóður kosti þá tvo fyrstu hluta verkefnisins sem taldir eru hvað brýnastir.
983    Ýmis fræðistörf: Lagt er til að óskiptur liður fjárlagaliðarins verði hækkaður. Sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti.
989    Ýmis íþróttamál: Framlag til liðarins hækkar alls um 14,9 m.kr. og skipist hækkunin á sjö viðfangsefni. Lagt er til að hækkað verði framlag til ÍSÍ um 0,7 m.kr. vegna aðildar Landssambands hestamanna að samtökunum. Lagt er til að veita Ólympíunefnd Íslands 3 m.kr. á næsta ári vegna vetrarólympíuleikanna í Nagano í Japan á næsta ári. Að beiðni Skáksambands Íslands leggur fjárlaganefnd til að millifærðar verði 2 m.kr. af launasjóði stórmeistara í skák til Skáksambands Íslands vegna leyfis eins stórmeistara. Gerð er tillaga um að veittar verði 7 m.kr. til Borgarbyggðar vegna landsmóts UMFÍ sem haldið var á þessu ári. Hér er um lokagreiðslu að ræða vegna stofnkostnaðar við íþrótta mannvirki samkvæmt sérstöku samkomulagi þar um. Framlag til Bridgesambandsins hækkar um 0,2 m.kr. og verður 3 m.kr. samanborið við 2 m.kr. á þessu ári. Að lokum er tekinn inn nýr liður, Skíðaskólinn í Kerlingarfjöllum, og verður framlag 4 m.kr. Skólinn er með sambærilegt framlag í fjárlögum þessa árs og var það einkum ætlað til greiðslu á skuld skólans við Framkvæmdasjóð. Fjárhagsstaða skíðaskólans er slæm og er framlagið ætlað til að greiða niður skuldir. Um er að ræða lokagreiðslu.
999    Ýmislegt: Framlag til viðfangsefnisins Snorrastofa hækkar um 0,6 m.kr. vegna kostnaðar við umhirðu Reykholtsstaðar og Snorragarðs.

03 Utanríkisráðuneyti


201    Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli: Lagt er til að tækja- og búnaðarliður verði hækkaður til að gera embættinu kleift að tengjast tölvukerfi sýslumannsembætta.
211    Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli: Í fjárlagafrumvarpi var gert ráð fyrir að 83,3 m.kr. tekjuafgangur Flugmálastjórnar rynni í ríkissjóð. Þar var skýrt frá því í greinargerð að unnið væri að því á vegum utanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis að endurskipu leggja fjármál Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Fríhafnarinnar. Að lokinni þessari at hugun er lagt til að ráðstöfun á tekjuafgangi Flugmálastjórnar til ríkissjóðs verði felld niður en honum verði þess í stað ráðstafað þannig að 28,8 m.kr. renni til greiðslu á eldri lífeyrisskuldbindingum Flugmálastjórnar við lífeyrissjóði og allt að 54,5 m.kr., eða 15% af áætluðum lendingartekjum, renni til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í B-hluta, m.a. sem gjald fyrir afnot af flughlöðum, tengivegum og til almenns reksturs stöðvarinnar. Það framlag er háð því að aðrar tekjur af lendingargjöldum dugi fyrir öðrum útgjöldum Flug málastjórnar.
221    Flugstöð Leifs Eiríkssonar: Lagt er til að framlag ríkissjóðs til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar verði fellt niður. Náðst hefur samkomulag milli utanríkisráðuneytis og fjár málaráðuneytis um fjármál Flugstöðvarinnar. Liður í því samkomulagi er að á árunum 1998 til og með 2001 renni allur rekstrarafgangur Fríhafnarinnar í ríkissjóð.
390    Þróunarsamvinnustofnun Íslands: Lagt er til að 5 m.kr. verði veittar til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands til að taka þátt í verkefni við bátasmíði í Malaví. Áformað er að kenna og koma af stað smíði plastbáta til veiða á Malavívatni.

04 Landbúnaðarráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Lagt er til að óskiptur liður fjárlagaliðarins verði hækkaður. Sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti. Að auki er lagt til að framlag til landþurrkunar verði 0,6 m.kr. samanborið við 0,5 m.kr. á þessu ári.
211    Rannsóknastofnun landbúnaðarins: Lagt er til að þjónustutekjur og gjöld RALA verði lækkuð um 15 m.kr. Í áætlun stofnunarinnar um þjónustutekjur var gert ráð fyrir 15 m.kr. tekjum frá Framleiðnisjóði líkt og er í fjárlögum ársins 1997. Á seinni stigum fjár lagagerðar 1998 var ákveðið að í stað þess að Framleiðnisjóður greiddi þessa fjármuni kæmi til 10 m.kr. beint framlag úr ríkissjóði. Hins vegar láðist að leiðrétta til lækkunar tekjur og gjöld stofnunarinnar.
222    Veiðimálastjóri: Lagt er til að veiðimálastjóra verði veitt 2,6 m.kr. tímabundið framlag sem verði sérstaklega ætlað til eftirlits og rannsókna á laxveiðum vegna hlunnindaveiða. Á undanförnum árum hefur laxveiði við innanverðan Breiðafjörð og Hvammsfjörð dreg ist mikið saman og er með þessari fjárveitingu gert ráð fyrir að hægt verði að rannsaka og greina þessa þróun. Að auki er lagt til að 2 m.kr. af launagreiðslum í rekstri hjá stofnuninni verði færðar sem tilfærslur þar sem þær verði veittar til einstaklinga sem vinna að veiðieftirliti á sjó sem verktakar.
261    Bændaskólinn á Hvanneyri: Lagt er til að þjónustutekjur verði lækkaðar um 5 m.kr. og verða þær þá svipað hlutfall af rekstrarkostnaði og þær hafa verið á undanförnum þrem ur árum.
283    Garðyrkjuskóli ríkisins: Launagjöld garðyrkjuskólans hækka um 2,5 m.kr. vegna starfs tilraunastjóra en verksvið hans er að hafa umsjón með og stýra rekstri tilrauna gróðurhúsa sem hafa verið í uppbyggingu við skólann.
341    Átak í landgræðslu og skógrækt: Lagt er til að 20 m.kr. verði færðar af þessum fjárlagalið yfir á nýjan lið, 04-343 Suðurlandsskógar. Er það gert í samræmi við tillögu verkefnisstjórnar átaks í landgræðslu og skógrækt, sbr. lög nr. 93/1997.
343    Suðurlandsskógar: Lagt er til að 20 m.kr. verði færðar á þennan fjárlagalið af fjárlagalið 04-341 Átak í landgræðslu og skógrækt. Er það gert í samræmi við tillögu verkefnis stjórnar átaks í landgræðslu og skógrækt. Suðurlandsskógar starfa samkvæmt lögum nr. 93/1997 og er hlutverk þeirra ræktun nytjaskóga og skjólbelta á Suðurlandi á sambæri legum grunni og Héraðsskógar hafa unnið á hingað til.

05 Sjávarútvegsráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Lagt er til að framlag til greiðslu á aðildargjöldum Íslands til Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC) lækki um 3,2 m.kr. þar eð ekki verður af hækkun sem áður var búist við og gert hafði verið ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti


303    Ríkislögreglustjóri: Lögð er til 20 m.kr. hækkun á fjárveitingu til ríkislögreglustjóra til að efla efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Embættið fer með rannsókn flókinna efnahagsbrota fyrir landið allt þar sem hagkvæmt er að slíkar sérhæfðar rannsóknir séu á einni hendi. Framlagið verður nýtt til að ráða fjóra sérhæfða starfsmenn auk þess sem kaupa þarf sérfræðiþjónustu o.fl.
325    Neyðarsímsvörun: Farið er fram á 26,4 m.kr. greiðslu úr ríkissjóði vegna samsvarandi lækkunar á hlutdeild í ríkistekjum. Í frumvarpi til fjárlaga var fyrirhugað að fjármagna starfsemi neyðarsímsvörunar að öllu leyti með gjaldtöku af símafyrirtækjum. Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar verður starfsemin einungis fjármögnuð að hálfu með gjaldtöku.
391    Húsnæði löggæslustofnana: Lagðar eru til 10 m.kr. til kaupa eða stofnframkvæmda við þrjár lögreglustöðvar; á Hólmavík, í Ólafsvík og á Blönduósi. Í 7. gr. frumvarps til fjár laga eru í greinum 7.11, 7.13 og 7.14 heimildir til að kaupa húsnæði fyrir þessar lög reglustöðvar og taka til þess nauðsynleg lán.
426    Sýslumaðurinn á Seyðisfirði: Lagt er til að störfum lögreglumanna á Fljótsdalshéraði fjölgi um eitt og er kostnaður áætlaður 3 m.kr.
501    Fangelsismálastofnun ríkisins: Lagt er til að viðfangsefnið lækki um 13 m.kr. vegna yfirtöku heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis á heilbrigðisþjónustu við fanga í sam ræmi við nýlegt samkomulag milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðueytis og Fangelsis málastofnunar sem öðlast gildi 1. janúar 1998. Á móti hækkar liðurinn 08-500 Heilsu gæslustöðvar, almennt um sömu fjárhæð.
701    Biskup Íslands: Við bætist nýr liður með 3 m.kr. framlagi sem ætlað er til viðgerða á Dómkirkjunni. Fjárveitingin verður nýtt til viðgerða á múr kirkjunnar.

07 Félagsmálaráðuneyti


700    Málefni fatlaðra: Lagt er til að viðfangsefnið lækki um 38,4 m.kr. og flytjist á þrjú umdæmi svæðisskrifstofa. Í fyrsta lagi flytjist 24,9 m.kr. til skrifstofu um málefni fatlaðra Reykjanesi á fjárlagalið 702-1.20, sambýli. Þar er gert ráð fyrir tveimur nýjum sam býlum á næsta ári, annað frá ársbyrjun en hitt frá miðju ári. Í öðru lagi flytjast 10,4 m.kr. til skrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi á fjárlagalið 703-1.20, sambýli Akra nesi. Rekstur þess hefst um mitt næsta ár. Loks flytjist 3,1 m.kr. til skrifstofu málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra á fjárlagalið 705-1.20, sambýli. Gert er ráð fyrir rekstri nýs sambýlis á Sauðárkróki frá miðju næsta ári.
702    Málefni fatlaðra, Reykjanesi: Fjárveiting til viðfangsefnisins 1.93 Ný sambýli hækkar um 24,9 m.kr. en á móti lækkar viðfangsefnið 700-1.93 Ný sambýli um sömu fjárhæð. Gert er ráð fyrir rekstri tveggja nýrra sambýla fyrir 10–12 einstaklinga og að annað þeirra starfi allt árið en hitt frá miðju ári. Lagt er til að framlag til vistheimila fyrir börn hækki um 11,3 m.kr. til lausnar á búsetu mjög fatlaðra barna.
703    Málefni fatlaðra, Vesturlandi: Lagt er til að framlag til viðfangsefnisins 1.20 Sambýli Akranes hækki um 15,4 m.kr. Af þeirri fjárhæð eru 5 m.kr. til lausnar á búsetu ein staklings þar til nýtt sambýli tekur til starfa á Akranesi í ágúst 1998. Fjárveiting að fjár hæð 10,4 m.kr. verði flutt af viðfangsefni 700-1.93 Ný sambýli. Gert er ráð fyrir rekstri nýs sambýlis fyrir 5–6 einstaklinga á Akranesi frá ágúst 1998.
705    Málefni fatlaðra, Norðurlandi vestra: Lagt er til viðfangsefnið 1.20 Sambýli hækki um 6,8 m.kr. Þar af eru 3,7 m.kr. til lausnar á búsetu tveggja einstaklinga. Framlag að fjár hæð 3,1 m.kr. verði flutt af viðfangsefni 700-1.93 Ný sambýli. Gert er ráð fyrir rekstri nýs sambýlis fyrir fimm einstaklinga á Sauðárkróki frá miðju ári 1998.
708    Málefni fatlaðra, Suðurlandi: Gerð er tillaga um að framlag til skrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi hækki um 2 m.kr. vegna sérstaks kostnaðar sem fellur til vegna erfiðra sjúkdómstilfella.
801    Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: Ríki og sveitarfélög hafa komist að samkomulagi um breytingar á verkaskiptum. Í því felst þrennt. Í fyrsta lagi að sveitarfélögin taka alfarið að sér framkvæmd húsaleigubótakerfisins og að það verði fjármagnað af þeim og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Heildarkostnaður við það er talinn nema 305 m.kr. Í öðru lagi taka sveitarfélögin að sér að greiða allan kostnað vegna fatlaðra barna í leikskólum frá 1. janúar 1998, samtals að fjárhæð 95 m.kr. Loks tekur ríkið yfir kostnað við vinnumiðl un í landinu, samtals að fjárhæð 120 m.kr. Til sveitarfélaga fara því verkefni sem kosta alls 400 m.kr. en ríkið tekur yfir verkefni fyrir 120 m.kr. Því þarf að bæta sveitarfélög unum upp 280 m.kr. og er lagt til að það verði gert með því að setja þá fjárhæð á þennan nýja lið. Hreinn útgjaldaauki ríkissjóðs verður þó ekki nema 70 m.kr. eftir að tekið hef ur verið tillit til þeirra 75 m.kr. sem veittar hafa verið til fatlaðra forskólabarna hjá menntamálaráðuneyti, þeirra 80 m.kr. sem átti að veita til verkaskipta og þess að skatt tekjur ríkisins aukast um 55 m.kr. vegna þess að heimilt verður að greiða húsaleigu bætur til þeirra sem leigja húsnæði í eigu sveitarfélaga og ríkis.
811    Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga: Í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um breytt verkaskipti er lagt til að 80 m.kr. framlag á þessum lið verði fellt niður. Í staðinn renni fjármunirnir til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til jöfnunar á húsaleigubótum frá og með 1. janúar 1998.
999    Félagsmál, ýmis starfsemi: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar alls um 4 m.kr. en nokkuð er um millifærslur innan liðarins. Lagt er til að viðfangsefnið 1.31 hækki um 10,1 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefnið 1.30 Sjómannastofur um 0,6 m.kr. og viðfangsefnið 1.90 Ýmis framlög um 9,5 m.kr. Sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti. Lagt er til að óskiptur liður fjárlagaliðarins hækki um 4 m.kr. og er hækkunin tímabundin styrkur til að standa straum af framkvæmdakostnaði við vinnuheimili sem samtökin Krossgötur reka.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


101    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Lögð er til 2 m.kr. hækkun á framlagi til aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins. Lög um réttindi sjúklinga tóku gildi 1. júní sl. Gert er ráð fyrir að fénu verði varið til útgáfu- og kynningarstarfsemi í tengsl um við nýju lögin. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1998 var fjárveitingin færð á fjár lagalið Tryggingastofnunar ríkisins, en nú hefur verið ákveðið að ráðuneytið annist kynninguna. Þegar útgáfu- og kynningarstarfi lýkur mun fjárveitingin verða nýtt til auk innar túlkaþjónustu í samræmi við lögin um réttindi sjúklinga.
201    Tryggingastofnun ríkisins: Lögð er til 2 m.kr. lækkun þessa viðfangsefnis þar sem kynning á lögum um réttindi sjúklinga verður á vegum aðalskrifstofu heilbrigðisráðu neytisins.
204    Lífeyristryggingar: Lögð er til 75 m.kr. hækkun á framlagi til lífeyristrygginga vegna tveggja vikna fæðingarorlofs feðra. Tryggingagjald hækkar um 0,04%, sem áætlað er að skili 100 m.kr., sem er nokkru meira en áætluð útgjöld næsta árs. Hlutdeild liðarins í ríkistekjum eykst sem þessu nemur.
206    Sjúkratryggingar: Lagt er til að viðfangsefnið 1.41 Sjúkraflutningar og ferðir innan lands lækki um 57 m.kr. Fyrirhugað er að ganga frá samningi við Rauða kross Íslands um útvegun, innkaup og rekstur sjúkrabifreiða. Áformað er að samkomulagið taki gildi 1. janúar 1998. Með samningnum falla niður greiðslur af liðnum 08-206 en þess í stað koma beinar greiðslur ráðuneytis til Rauða kross Íslands á liðnum 08-501, auk greiðslu þátttöku sjúklinga. Lögð er til 40,0 m.kr. lækkun þjónustutekna á viðfangsefni 1.95 Þjónustutekjur þar sem um er að ræða tekjur sem tengjast daggjaldastofnunum. Sam svarandi hækkun þjónustutekna er lögð til á liðnum 08-495 daggjaldastofnanir.
358    Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri: Lögð er til 5 m.kr. hækkun vegna fjölgunar bæklunaraðgerða hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Samsvarandi lækkun verður á fjárlagaliðnum 08-370 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Er þessi tilfærsla fjár í samræmi við fjármögnun á árinu 1997.
370    Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi: Viðfangsefni 1.01 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi lækkar um 35 m.kr. og er tilefnið þríþætt. Í fyrsta lagi er lögð er til 5 m.kr. lækkun, en samsvarandi hækkun kemur á fjárlagaliðinn 08-358 Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Er þessi tilfærsla fjár í samræmi við úthlutun á árinu 1997. Í öðru lagi er lögð til 10 m.kr. lækkun en um er að ræða lækkun framlags vegna tilfærslu fjár til St. Jósefsspítala, Hafnarfirði, vegna samnings um bæklunaraðgerðir. Í þriðja lagi er lögð til 20 m.kr. lækkun. Á undanförnum árum hefur um 20 m.kr. verið varið árlega til nýs tölvukerfis fyrir heilsugæslustöðvar. Þar sem samningar um verkefnið voru ófrágengnir við af greiðslu fjárlagafrumvarps fyrir árið 1998 var ákveðið að gera ráð fyrir fé til verk efnisins undir fjárlagaliðnum 08-370 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Nú hefur verið gengið frá samningum við fyrirtækið Gagnalind um smíðina og er lagt til að fjárveiting in verði flutt á fjárlagaliðinn 08-500-6.90 Heilsugæslustöðvar, almennt, tölvuvæðing. Lagt er til að hækkað verði framlag viðfangsefnisins 1.91 Þjónustusamningar við hjúkr unarheimili um 2 m.kr. til gerðar þjónustusamninga og eru þá alls til ráðstöfunar 22 m.kr. á næsta ári.
371    Ríkisspítalar: Lögð er til 25 m.kr. hækkun til Ríkisspítalanna í samræmi við samkomulag heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík sem gerir m.a. ráð fyrir að rekstur Kleifarvegsheimilisins flytjist frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur til Ríkis spítala. Að sama skapi er gerð tillaga um sömu lækkun fjárveitingar hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur.
375    Sjúkrahús Reykjavíkur: Lögð er til 25 m.kr. lækkun á rekstrargjöldum Sjúkrahúss Reykjavíkur þar sem samkomulag um rekstur sjúkrahúsanna í Reykjavík gerir ráð fyrir að rekstur Kleifarvegsheimilisins flytjist frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur til Ríkisspítala. Gerð er tillaga um sömu hækkun fjárveitingar hjá Ríkisspítölum.
379    Sjúkrahús, óskipt: Farið er fram á 300 m.kr. fjárveitingu á nýjum fjárlagalið sem ætlaður er til að auðvelda lausn á rekstrarvanda allra sjúkrahúsa á landinu. Lagt er til að stýrinefnd, sem fái til þess víðtækt umboð, verði falið að fjalla um málefni sjúkrahús anna. Að þessu starfi komi, auk heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra, fulltrúar með sérþekkingu á málefnum stærri og smærri sjúkrahúsa. Þau verkefni sem um er að ræða eru m.a. að skilgreina starfssvið einstakra heilbrigðisstofnana, semja við sérhverja þeirra um þá þjónustu sem skal veita, og um fjárframlög, styrkja stjórnun þeirra og bæta eftirlit og aðhald. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1997 er gert ráð fyrir 200 m.kr. framlagi til að mæta uppsöfnuðum rekstrarvanda sjúkrahúsanna á landsbyggðinni, en að auki er í því frumvarpi gert ráð fyrir 320 m.kr. framlögum til sjúkrahúsanna í Reykjavík í samræmi við samkomulag þar um.
381    Sjúkrahús og læknisbústaðir: Lögð er til 14 m.kr. hækkun á framlag til byggingar sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti.
399    Heilbrigðismál, ýmis starfsemi: Lagt er til að óskiptur liður fjárlagaliðarins hækki. Sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti. Lagt er til að heiti liðarins 1.58 Vistun áfengis- og vímuefnasjúklinga verði breytt í Krýsuvíkurskóli. Framlag verður hið sama og skól inn fær í fjárlögum þessa árs, eða 16,4 m.kr., og er það óbreytt frá frumvarpi.
400    St. Jósefsspítali, Hafnarfirði: Lögð er til 10 m.kr. hækkun til St. Jósefsspítala, Hafnarfirði, vegna samkomulags við Sjúkrahús Reykjavíkur um fjölgun bæklunaraðgerða. Á móti er framlag á fjárlagalið 08-370 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi lækkað.
430    Sjálfsbjörg, hjúkrunar- og endurhæfingarstofnun: Lagt er til að framlag til Sjálfsbjargar hækki um 3 m.kr. til úrbóta á brunavörnum í húseign þeirra í Hátúni 12. Ágallar á brunavörnum byggingarinnar eru brot á gildandi byggingarreglugerð og reglugerð um brunavarnir og brunamál. Heildarkostnaður er áætlaður 35 m.kr. og þar af er hlutur Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, rúmlega 12 m.kr.
495    Daggjaldastofnanir: Lögð er til 12 m.kr. tímabundin hækkun til óskipts liðar daggjaldastofnana og er hækkunin ætluð til að auðvelda gerð þjónustusamninga við þær stofnanir sem reknar eru með halla. Lagt er til að þjónustutekjur hækki um 40 m.kr. en þar er um að ræða tekjur daggjaldastofnana sem færðar eru á fjárlagalið sjúkratrygginga í frum varpinu og lækkar hann að sama skapi.
500    Heilsugæslustöðvar, almennt: Lagt er til að viðfangsefnið 1.10 Heilsugæslustöðvar, almennt hækki um 13 m.kr. vegna yfirtöku heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis á heilbrigðisþjónustu við fanga í samræmi við nýlegt samkomulag milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Fangelsismálastofnunar sem öðlast gildi 1. janúar 1998. Á móti lækkar liðurinn 06-501 Fangelsismálastofnun ríkisins um sömu fjárhæð. Lögð er til 20 m.kr. hækkun til nýs tölvukerfis fyrir heilsugæslustöðvar. Hingað til hefur sama fjárveiting verið greidd af rekstrarhagræðingarlið heilbrigðisráðuneytisins. Þar sem gerður hefur verið samningur við fyrirtækið Gagnalind um verkið er lagt til að fjár veiting til þess verði millifærð á fjárlagaliðinn 08-500-6.90 Heilsugæslustöðvar, al mennt, tölvuvæðing.
501    Sjúkraflutningar: Lagt er til að viðfangsefnið 1.11 Sjúkraflutningar hækki um 26 m.kr. Fyrirhugað er að gera samning við Rauða kross Íslands um útvegun, innkaup og rekstur sjúkrabifreiða. Með samningnum falla niður greiðslur af liðnum 08-206 en þess í stað koma beinar greiðslur ráðuneytis til Rauða kross Íslands á liðnum 08-501, auk greiðslu þátttöku sjúklinga. Lagt er til að viðfangsefnið 1.12 Útvegun og rekstur sjúkrabifreiða hækki um 31 m.kr. Fyrirhugað er að ganga frá samningi við Rauða kross Íslands um út vegun, innkaup og rekstur sjúkrabifreiða sem taka mun gildi 1. janúar 1998. Með samn ingnum falla niður jafnháar greiðslur af liðnum 08-206.
621    Forvarnasjóður: Gerð er tillaga um að fjármögnun liðarins breytist á þann veg að greiðsla úr ríkissjóði lækki um 55 m.kr. en hlutdeild hans í ríkistekjum hækki um sömu fjárhæð. Breytt framsetning að þessu leyti þykir vera í betra samræmi við nýleg lög um fjárreiður ríkisins. Um er að ræða hlutdeild í áfengisgjaldi sem innheimt er á grundvelli laga. Fjárveiting liðarins verður eftir sem áður óbreytt.

09 Fjármálaráðuneyti


261    Ríkistollstjóri: Gerð er tillaga um 1,5 m.kr. hækkun fjárveitingar til embættisins. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1998 er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til liðarins 09-995 Skýrsluvélakostnaður í kjölfar taxtahækkana hjá Skýrr hf. Hins vegar láðist að gera ráð fyrir sambærilegum hækkunum vegna tollakerfa ríkisins.
402    Fasteignamat ríkisins: Lagt er til að framlag til stofnkostnaðar hjá stofnuninni hækki um 5 m.kr. þar sem tekjur hennar af sölu upplýsinga hafa rýrnað og standa ekki lengur undir viðhaldi og endurbótum á skráningar- og matskerfum.
481    Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum: Gert er ráð fyrir að heimild samkvæmt liðnum hækki um 80 m.kr. sem ráðstafað verði til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköp unar í atvinnulífinu á svæðum sem ekki njóta góðs af uppbyggingu stóriðju.
973    Tapaðar kröfur og tjónabætur: Lagt er til að fjármögnun liðarins breytist á þann veg að greiðsla úr ríkissjóði lækki um 190 m.kr. Er það gert til leiðréttingar á framsetningu frumvarpsins þar sem ekki er gert ráð fyrir að komi til greiðsluhreyfingar á viðfangs efninu 6.11 Tapaðar kröfur. Fjárveiting liðarins verður eftir sem áður óbreytt.
981    Ýmsar fasteignir ríkissjóðs: Lagt er til að stofnkostnaðarframlag til Stjórnaráðsbygginga hækki um 15 m.kr. vegna endurbóta á brunavörnum og öryggismálum Arnarhvols. Talið er að heildarkostnaður verksins verði um 70–90 m.kr. samkvæmt skýrslu um öryggismál Stjórnarráðsbygginga á Arnarhvoli og að framkvæmdir fari fram á þremur árum. Gert er ráð fyrir að Rekstrarfélag Arnarhvols leggi til 7 m.kr. á ári. Gerð er til laga um 35 m.kr. viðbótarframlag á þessum lið til kaupa á nýju húsnæði fyrir Skattstofu Suðurlands á Hellu. Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir 5 m.kr. fjárveitingu til þess að mæta kostnaði við flutning skattstofunnar miðað við að söluandvirði eldra húsnæðis mundi nægja til kaupa á nýrri fasteign. Frekari fjárheimilda er þörf til þess að hægt verði að festa kaup á því húsnæði sem síðan hefur orðið fyrir valinu.
995    Skýrsluvélakostnaður: Lagt er til að fjárveiting liðarins hækki um 25 m.kr. til þess að standa straum af kostnaði við breytingar á landskerfum og öðrum tölvukerfum ríkis stofnana hjá Skýrr hf. vegna aldamótaársins 2000. Fyrirhugað er að ríkisstofnanir gangi sameiginlega til samninga við fyrirtækið um greiningu, breytingar og prófanir á tölvukerfunum. Áætlað er að kostnaðurinn geti numið um 50–60 m.kr. alls á næstu tveimur árum.
999    Ýmislegt: Fjárveiting til kjaranefndar hækkar um 7,5 m.kr. til að mæta auknum verkefnum frá því sem verið hefur. Fyrirhugað er að ráða starfsmann til nefndarinnar og að hún fái skrifstofuaðstöðu með tækjabúnaði.

10 Samgönguráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Lagt er til að framlag til vetrarsamgangna og vöruflutninga hækki. Sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti. Gerð er tillaga um að hækka tímabundið framlag til Slysavarnafélags Íslands um 3,5 m.kr. á næsta ári vegna 70 ára afmælis Slysavarna félagsins. Í tilefni þess er m.a. fyrirhugað að setja á fót sýningu er verður helguð slysa varna- og björgunarstarfi á Íslandi í 70 ár. Þá er hækkunin einnig vegna stuðnings fé lagsins við björgunarstöðvar á Vestfjörðum. Lagt er til að viðfangsefni 1.29 Almanna varna- og björgunarskóli á Gufuskálum hækki um 10 m.kr. Verið er að ganga frá samningi við Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörgu um nýtingu á flestum húseignum á Gufuskálum. Samtökin ætla sér að byggja upp og reka þar þjálfunar- og fræðslu miðstöð í björgunarmálum. Í fjárlögum ársins 1997 er veittur 5 m.kr. styrkur til upp byggingar á staðnum og í frumvarpi til fjárlaga 1998 er gert ráð fyrir jafnháu framlagi, sem og árið 1999. Hækkunin er ætluð sem rekstrarstyrkur og í fyrirhuguðu samkomulagi felst vilyrði fyrir jafnháum rekstrarstyrk í fimm ár.
211    Vegagerðin: Í frumvarpi til fjárlaga 1998 er sundurliðun á fjármögnun stofnunarinnar ranglega sett fram. Lán til Vegagerðarinnar nemur 400 m.kr. en endurgreiðslur eldri lána nema 210 m.kr. Því greiðast 190 m.kr. til viðbótar við þær 350 m.kr. sem nú er gert ráð fyrir úr ríkissjóði. Viðskiptahreyfingar lækka því um 190 m.kr. Gert er ráð fyrir að fjárveiting liðarins og hlutdeild í ríkistekjum hækki um 151 m.kr. Er það í samræmi við tillögu til þingsályktunar um vegáætlun sem lögð hefur verið fyrir ríkisstjórn en þar er miðað við að markaðir tekjustofnar vegáætlunar hækki um 3,5% þann 1. júní 1998.
335    Siglingastofnun Íslands: Gerð er tillaga um að framlag til viðfangsefnis 6.72 Hafnamannvirki (fjármagnskostnaður), Sandgerði lækki um 10 m.kr. og viðfangsefni 6.70 Hafnamannvirki hækki um sömu fjárhæð. Lagt er til að framlag til lendingarbóta verði hækkað. Sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti.

11 Iðnaðarráðuneyti


299    Iðja og iðnaður, framlög: Lagt er til að framlag til Staðlaráðs hækki um 3,8 m.kr. og komi sú fjárhæð sem fast framlag til viðbótar tekjum ráðsins af staðlaráðsgjaldi, 18,8 m.kr.

12 Viðskiptaráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Á árinu 1997 var gert ráð fyrir að komið yrði á gjaldi fyrir áfrýjun á úrskurðum Samkeppnisstofnunar. Það gekk ekki eftir. Þjónustutekjur þessar eru einnig áætlaðar í fjárlagafrumvarpi 1998. Því er lagt til að þjónustutekjur vegna þessa verði felldar niður og fjárveiting hækki um 2,1 m.kr.
302    Löggildingarstofa: Í greinargerð fjárlagafrumvarps 1998 var skýrt frá því að framlag til Löggildingarstofu væri í endurskoðun hjá ráðuneytum fjármála og viðskipta og yrðu endurskoðaðar tölur lagðar fram fyrir lok afgreiðslu fjárlaga. Sú endurskoðun leiðir í ljós að rétt þykir að hækka þjónustutekjur í 17 m.kr. og lækka almenn rekstrargjöld um 6,4 m.kr., en þar er um að ræða þá hagræðingu sem felst í því að Rafmagnseftirlit ríkisins var sameinað Löggildingarstofu.

13 Hagstofa Íslands


101    Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa: Lagt er til að framlag til yfirstjórnar Hagstofunnar hækki um 10 m.kr. Þar af eru 5 m.kr. til endurnýjunar á tölvukerfi Hagstofu Íslands vegna þjóðskrár og fyrirtækjaskrár og aðrar 5 m.kr. til að standa undir kostnaði við öfl un tölulegra upplýsinga um skóla- og menningarmál og úrvinnslu þeirra í tengslum við hagskýrslugerð samkvæmt samningi milli menntamálaráðuneytisins og Hagstofunnar. Gerð er tillaga um að framsetning liðarins breytist á þann veg að þjónustutekjur lækki um 48 m.kr. en að fjármögnun hans með hlutdeild í ríkistekjum hækki um sömu fjárhæð. Breytt framsetning að þessu leyti þykir vera í betra samræmi við nýleg lög um fjárreiður ríkisins. Um er að ræða afnotagjöld af þjóðskrá og fyrirtækjaskrá sem innheimt eru á grundvelli laga. Fjárveiting liðarins verður eftir sem áður óbreytt.

14 Umhverfisráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Alls hækkar framlag um 15,9 m.kr. Gerð er tillaga um að hækka viðfangsefnið 1.23 Ýmis umhverfisverkefni um 5,6 m.kr. Af þeirri fjárhæð eru 3,6 m.kr. tímabundin fjárveiting vegna aðalfundar framkvæmdanefndar Óslóar-Parísarsamnings ins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins gegn mengun sem verður haldinn á Íslandi á fyrri hluta ársins 1998. Nefndin fjallar um aðgerðir til að draga úr mengun hafsins en gert er ráð fyrir að þátttakendur á fundinum verði um 40. Gerð er tillaga um 3,8 m.kr. hækkun fjárveitingar til rannsókna á botndýrum á Íslandsmiðum og er fjárveiting á næsta ári þá sambærileg við fjárveitingu þessa árs. Rannsóknaverkefnið var formlega sett á laggirnar 1992 og markmið þess er að fá heildstætt yfirlit yfir megindrætti í útbreiðslu botnlægra tegunda. Lagt er til að framlag til rannsóknastöðvar að Kvískerjum hækki um 4 m.kr. Fyrirhugað er að ráðast í byggingu húsnæðis fyrir rannsóknastöð að Kvískerjum sem verði undir yfirstjórn Háskóla Íslands. Áætlað er að kostnaður við byggingu verði um 20 m.kr. og er gert ráð fyrir að ríkið veiti sem nemur 2/ 3 hlutum kostnaðarins á næstu þremur árum. Lagt er til að framlag til náttúrugripasafns í Vestmannaeyjum verði hækkað um 1 m.kr. og verður framlag á næsta ári þá 3 m.kr. Með hækkuninni verður unnt að efla safnið, stækka það og auka fjölbreytni, svo og að kaupa tæki sem nýtast munu til rannsókna sérfræðinga á sjávarlífi og fisktegundum við Ísland. Að lokum er gerð tillaga um að framlag til Náttúruverndarráðs verði hækkað um 1,5 m.kr. Hlutverk ráðsins er að vera umhverfisráðherra til ráðgjafar um náttúruvernd og veita Náttúruvernd ríkisins faglega ráðgjöf. Auk þess er ráðinu ætlað að stuðla að almennri náttúruvernd og fjalla um hvaðeina sem lýtur að náttúruvernd á Íslandi.
205    Náttúruvernd ríkisins: Lagt er til að launagjöld Náttúruverndar ríkisins hækki um 2 m.kr. sem gerir stofnuninni kleift að ráða starfsmann á sviði útivistar og fræðslu. Starfs manninum er m.a. ætlað að hrinda af stað átaki í fræðslu og kynningu á náttúruvernd og umhverfismálum almennt.
221    Hollustuvernd ríkisins: Lagt er til að Hollustuvernd ríkisins verði veitt tímabundin fjárveiting að fjárhæð 10 m.kr. til að standa undir kostnaði við staðfestingu Íslands á loftgæðatilskipun ESB. Gert er ráð fyrir að um 5 m.kr. verði nýttar til tækja- og bún aðarkaupa en um 5 m.kr. til mælinga og reksturs á fyrsta ári. Sá tími verður nýttur til undirbúnings gjaldskrár en fyrirhugað er að sveitastjórnir standi undir rekstrarkostnaði mælitækjanna.
301    Skipulagsstofnun: Fjárveiting liðarins er hækkuð um 3,5 m.kr. Samkvæmt lögum um skipulags- og byggingarmál, sem taka gildi 1. janúar 1998, skal umhverfisráðherra skipa úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Við samþykkt laganna var talið að sparn aður við að leggja af skipulagsstjórn ríkisins mundi vega upp á móti kostnaðarauka vegna úrskurðarnefndarinnar. Nú liggur fyrir að nefndin þurfi að ráða starfsmann í fullt starf til að sinna þessum verkefnum.
310    Landmælingar Íslands: Lagt er til að veita 12 m.kr. til kaupa á tækjum til að stofnunin geti hafið úrvinnslu á GPS-mælingum í tengslum við evrópskt mælinganet og lokið frá gangi við jarðstöð á Hornafirði. Samtals er um að ræða 20 m.kr. kostnað en í fjárlaga frumvarpi er gert ráð fyrir 8 m.kr. fjárveitingu.
401     Náttúrufræðistofnun Íslands: Lagt er til að framlag til viðfangsefnisins 1.02 Setur í Reykjavík hækki um 4 m.kr. Þar af eru 2,5 m.kr. til mælinga á frjókornum í andrúms lofti. Verkefnið hófst á þessu ári og hefur verið tryggt fjármagn til þess en með tíma bundinni hækkun er gert ráð fyrir að hægt verði að ljúka verkefninu á næsta ári. Lögð er til 1,5 m.kr. til að greiða hugbúnaðarleyfi fyrir landupplýsingakerfi. Stofnunin hafði svokallað háskólaleyfi til að nota forritið í vísindalegum tilgangi án endurgjalds í nokkur ár. Með tilkomu breyttrar notkunar þarf stofnunin nú að greiða fyrir afnotin. Heildarkostnaður er 5,2 m.kr. sem skiptist þannig að 1,5 m.kr. kemur til greiðslu á þessu ári, 1,7 m.kr. á næsta ári og 2 m.kr. á árinu 1999. Gerð var samsvarandi breytingar tillaga við 2. umræðu fjáraukalaga fyrir árið 1997.
403    Náttúrustofur: Lögð er til tímabundin 1 m.kr. hækkun til náttúrustofu Bolungarvíkur vegna rannsókna á lífríki Hornstranda. Gerð er tillaga um að veita 2 m.kr. til að koma á fót náttúrustofu Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Árlegur rekstrarkostnaður náttúru stofa er á næsta ári áætlaður 4,7 m.kr. og með þessari fjárveitingu er hægt að hefja starf semi náttúrustofu Sauðárkróks á síðari hluta næsta árs.
410    Veðurstofa Íslands: Lagt er til að þjónustutekjur Veðurstofunnar lækki um 5 m.kr. en það nemur um 15% af heildaráætlun þjónustutekna í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár. Undanfarið hefur stofnuninni ekki tekist að afla þeirra tekna sem gert hefur verið ráð fyrir en með þessari lækkun á þjónustutekjukröfu er gert ráð fyrir að breyting verði þar á.

    Lagt er til að framlög til stofnana hækki um 117,2 m.kr. vegna endurmats á launalið í kjölfar kjarasamninga við stéttarfélög sem undirritaðir hafa verið eftir að frumvarpið var lagt fram. Sundurliðun fjárhæðarinnar á stofnanir verði samkvæmt sérstöku yfirliti.

Alþingi, 11. des. 1997.


                             

Jón Kristjánsson,


form., frsm.


Sturla Böðvarsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.



Árni Johnsen.



Árni M. Mathiesen.



Hjálmar Jónsson.



Ísólfur Gylfi Pálmason.




Fylgiskjal I.

Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 20. október 1997. Á fund nefndarinnar kom frá forsætisráðuneyti Guðmundur Árnason skrif stofustjóri og frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti komu Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, Sólmundur Már Jónsson deildarstjóri, Benedikt Bogason skrifstofustjóri og Þórhallur Ólafs son, aðstoðarmaður ráðherra. Þá komu einnig á fund nefndarinnar frá embætti lögreglu stjórans í Reykjavík Böðvar Bragason lögreglustjóri, Haraldur Johannessen varalögreglu stjóri, Stefán Hirst skrifstofustjóri og Þröstur Eyvinds lögreglufulltrúi auk Boga Nilssonar ríkislögreglustjóra.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun á framlagi til forsætisráðuneytis milli ára sem nemur 40 millj. kr. Er þar aðallega um að ræða framlag til aðalskrifstofu ráðuneytisins vegna aukinna verkefna og framlag vegna þátttöku Íslands í heimssýningunni í Lissabon á næsta ári. Á móti lækka framlög til norrænu ráðherranefndarinnar og Byggðastofnunar. Rekstrar útgjöld dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hækka nokkuð á árinu. Ber þar helst að nefna að útgjöld Landhelgisgæslunnar aukast um 20 millj. kr. til samræmis við raunverulegt umfang stofnunarinnar og leigugreiðslur sýslumannsembætta hækka um 11 millj. kr. Þá aukast út gjöld kirkjunnar nokkuð, m.a. vegna setningar nýrra laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.
    Á fundum sínum ræddi nefndin sérstaklega um fjárveitingar til vímuvarna, en þær eru nær óbreyttar á milli ára. Áfram er gert ráð fyrir 35 millj. kr. fjárveitingu til átaks í löggæslu vegna fíkniefnamála. Er fjárveiting þessi liður í átaki í ávana- og fíkniefnavörnum sem ríkisstjórnin samþykkti í kjölfar skýrslu verkefnisstjórnar í ávana- og fíkniefnavörnum. Sama fjárhæð var veitt til verkefnisins á síðasta ári og gert er ráð fyrir að um sambærilega fjár veitingu verði að ræða á árinu 1999.
    Þá óskaði nefndin frekari gagna frá forsætisráðuneyti um kostnað ríkisins af þátttöku í heimssýningunni í Lissabon á næsta ári og var þátttaka ríkisins rædd nokkuð, en Íslendingar tóku ekki þátt í síðustu heimssýningu sem haldin var í Sevilla.
    Nefndin kannaði sérstaklega fjárveitingar til embættis lögreglustjórans í Reykjavík og kallaði eftir upplýsingum um starfsemi þess. Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir 7% hækkun á útgjöldum embættisins milli ára og er hækkunina aðallega að rekja til skipulags breytinga vegna nýrra lögreglulaga. Á móti er fjárveiting til embættisins lækkuð um 30 millj. kr. en á móti kemur að í 7. gr. frumvarpsins er heimild til að ráðstafa allt að 30 millj. kr. vegna bættrar sektarinnheimtu til embættisins. Þannig er lagt til það nýmæli að embætti lögreglustjórans í Reykjavík fái bættan hluta af þeim mikla kostnaði sem leiðir af skipu lagsbreytingum og auknu vinnuframlagi sem nauðsynlegt er til þess að bæta innheimtu árangur embættisins. Nefndin aflaði sér ítarlegra gagna um sektarinnheimtu embættisins og ræddi við stjórnendur þess. Í ljósi skipulagsbreytinga og þess að um áramót verður tekið í notkun samræmt innheimtukerfi sekta hjá öllum embættum á landinu verður að telja líklegt að innheimtuhlutfall sekta batni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlög til löggæslumála almennt hækki þó nokkuð frá fjárlögum ársins 1997 og er sú hækkun nauðsynleg að mati meiri hluta nefndarinnar.
    Hjálmar Jónsson skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    Jón Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. nóv. 1997.

Sólveig Pétursdóttir, form.
Valgerður Sverrisdóttir.
Árni R. Árnason.
Hjálmar Jónsson, með fyrirvara.
Kristján Pálsson.


Fylgiskjal II.

Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Minni hlutinn gerir athugasemdir við mikinn kostnað forsætisráðuneytisins vegna heims sýningarinnar í Lissabon, en framlag ríkissjóðs til þess verkefnis nemur í heild 60 millj. kr., en kostnaður atvinnulífsins aðeins 15 millj. kr. af 75 millj. kr. heildarkostnaði við þátttöku Íslands í sýningunni.
    Minni hlutinn telur ekki verjandi að notendur standi straum af kostnaði við Neyðarlínuna, ekki síst í ljósi þeirra miklu hækkana sem orðið hafa á gjaldskrá Pósts og síma.
    Vímuefnavarnir eiga að hafa forgang að mati minni hlutans og er því óviðunandi að fjár magn til svo mikilvægs málaflokks sé nær óbreytt milli ára í ljósi vaxandi ofbeldis og fíkni efnaneyslu.
    Jafnframt fellst minni hlutinn ekki á að skornar séu niður um 30 millj. kr. fjárveitingar til lögreglustjórans í Reykjavík og embættinu sé ætlað að ná þeim tekjum með bættri innheimtu sekta þannig að afkoma embættisins ráðist af hörku lögreglunnar við að innheimta sektir. Samtals eru nú til innheimtu hjá embættinu dómsektir, viðurlagaákvarðanir, sáttir, umferðar mál og sakarkostnaður í 5.352 málum að fjárhæð tæplega 292 millj. kr. Ekki er vitað hvernig þessi fjárhæð skiptist milli brotaflokka, en innheimtuhlutfall sekta er um 20–25%. Mikil brotalöm virðist vera á innheimtunni, en minni hlutinn telur að endurskoða þurfi hana frá grunni og beita skilvirkari innheimtuúrræðum en áður. Fram kom á fundi allsherjarnefndar að innheimtuhlutfallið annars staðar á Norðurlöndum er yfir 90%, en þar annast lögreglan ekki innheimtu, enda á það ekki að vera í verkahring hennar.
    Minni hlutinn mótmælir einnig þeim miklu hækkunum, sem fyrirhugaðar eru á dóms málagjöldum eða um tæpar 99 millj. kr., sem bitna með fullum þunga á heimilum sem eru í miklum fjárhagserfiðleikum. Yfirlit um hækkun dómsmálagjalda er birt sem fylgiskjal.
    Minni hlutinn vekur athygli á því að fram hefur komið í umfjöllun nefndarinnar um frum varp til laga um dómstóla, sem taka gildi á næsta ári, að biðlaun eru vanáætluð. Dómarafull trúar hafa bent á að flestir dómarafulltrúar, 12 að tölu, munu hætta störfum. Biðlaunakostn aður af þeim sökum yrði allt að 30 millj. kr. en ekki 0,6–1,3 millj. kr. á mann eins og fram kemur í umsögn fjármálaráðherra um frumvarpið.

Alþingi, 26. nóv. 1997.



Jóhanna Sigurðardóttir.
Guðrún Helgadóttir.
Guðný Guðbjörnsdóttir.


Fylgiskjal III.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Félagsmálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaga nefndar frá 20. október 1997.
    Nefndin fékk á sinn fund Húnboga Þorsteinsson, Árna Gunnarsson og Björn Arnar Magn ússon frá félagsmálaráðuneyti. Þá komu á fund Gissur Pétursson og Sigurður Pétur Sig mundsson frá Vinnumálastofnun og gerði Sigurður Pétur jafnframt grein fyrir Atvinnuleysis tryggingasjóði, frá Húsnæðisstofnun ríkisins komu Sigurður E. Guðmundsson, Percy Stef ánsson og Hilmar Þórisson, Eyjólfur Sæmundsson frá Vinnueftirliti ríkisins, Húnbogi Þor steinsson, Elín Pálsdóttir og Hermann Sæmundsson frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Ásgeir Sigurgestsson og Stefán Hreiðarsson frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Bragi Guð brandsson frá Barnaverndarstofu. Þá fór nefndin í vettvangsferð í Barnaverndarstofu.
    Á árinu 1998 er gert ráð fyrir að útlán Byggingarsjóðs verkamanna til byggingar félags legra íbúða nemi 2.450 millj. kr. samanborið við 2.320 millj. kr. í ár. Lánsheimildir miðast við 170 nýjar íbúðir í stað 180 á þessu ári. Langtímalán sjóðsins nema 5.280 millj. kr. og er gert ráð fyrir lántöku vegna þessa bæði hjá sveitarfélögum og Byggingarsjóði ríkisins. Áætl að er að 4.900 millj. kr. verði aflað með sölu húsnæðisbréfa. Afborganir af þessum lánum eru áætlaðar 2.600 millj. kr. og aukast um 186 millj. kr. milli ára. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að fram hefur komið að verði ekki gripið til ráðstafana stefnir í þrot sjóðsins.
    Hvað varðar málefni barna og ungmenna bendir meiri hlutinn á að fram hafi komið í máli gesta að í frumvarpinu sé ekki gert ráð fyrir hugsanlegri aukningu kostnaðar vegna hækkunar sjálfræðisaldurs. Meðferðarþörf aldurshópsins 14–15 ára er um 30 rými af þeim 40 sem til eru. Vandamál aldurshópsins 16–18 ára eru að öllum líkindum meiri og alvarlegri en á móti kemur að aðrar stofnanir, svo sem fangelsi og SÁÁ, koma hér að máli. Í máli fulltrúa Barna verndarstofu kom fram að hugsanlega þyrfti að fjölga meðferðarrýmum um 30 þegar áhrif breytinganna eru komin fram af fullum þunga.
    Arnbjörg Sveinsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. nóv. 1997.

Siv Friðleifsdóttir.
Einar K. Guðfinnsson.
Kristján Pálsson.
Pétur H. Blöndal.
Magnús Stefánsson.


Fylgiskjal IV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Minni hluti félagsmálanefndar gerir eftirfarandi athugasemdir við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1998:
    Enn á ný eru tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra skertar. Samkvæmt lögum er erfðafjár skattur ætlaður til framkvæmda í þágu fatlaðra. Þær tekjur eru áætlaðar 420 millj. kr. á næsta ári. Samkvæmt frumvarpinu fær framkvæmdasjóðurinn í sinn hlut 205 millj. kr. þannig að ríkið tekur í sinn hlut 215 millj. kr. Ríkisstjórnin hefur uppi áform um að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaganna. Ef það á að takast sómasamlega þurfa málefni fatlaðra að vera í góðu lagi, nema meiningin sé að leggja auknar byrðar á sveitarfélögin. Í Reykjavík og á Reykjanesi eru langir biðlistar eftir sambýlum og því ljóst að mikil þörf er fyrir fram kvæmdafé eigi að takast að stytta biðlistana. Það er ólíðandi að framkvæmdarvaldið skuli ár eftir ár skerða eyrnamerkt fé. Þá er miklu nær að breyta lögunum í stað þess að hunsa þau með þessum hætti.
    Minni hluti félagsmálanefndar vill enn einu sinni vekja athygli á þeirri alvarlegu þróun sem nú á sér stað varðandi félagslega húsnæðiskerfið. Enn eru bein framlög ríkisins til bygg ingar félagslegra íbúða skorin niður og hefur orðið verulegur samdráttur hvað varðar fjölgun íbúða. Gert er ráð fyrir að nýjum lánum til kaupa á húsnæði fækki úr 180 í 170. Því er borið við að eftirspurn eftir félagslegu húsnæði fari þverrandi, en það á aðeins við um dreifbýlið þar sem víða var farið of geyst í byggingu félagslegra íbúða. Á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólkið er flest og mest er um láglaunafólk, aldraða og öryrkja – sem mest þurfa á félagslegri aðstoð að halda – er eftirspurnin miklu meiri en hægt er að sinna. Minni hlutinn mótmælir þessum niðurskurði og bendir á að halda þarf áfram uppbyggingu félagslega húsnæðis kerfisins og stórauka framboð á leiguhúsnæði. Þá er staða Byggingarsjóðs verkamanna mikið áhyggjuefni en Ríkisendurskoðun hefur bent á að hann stefni í þrot verði ekki gripið til aðgerða. Enn bólar ekkert á aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Þá vill minni hluti félagsmálanefndar vekja athygli á því hve framlög til jafnréttismála eru skammarlega lág. Sá málaflokkur ætti að fá forgang á málefnaskrá ríkisstjórnarinnar í ljósi yfirlýsinga og jafnréttisáætlunar sem er í gildi, en því miður virðist áhuginn vægast sagt takmarkaður.
    Á síðasta þingi gagnrýndi minni hlutinn harðlega að atvinnusjóður kvenna var settur undir Atvinnuleysistryggingasjóð. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1998 er engan veginn hægt að sjá hvað sjóðnum er ætlað, en upplýst var á fundi nefndarinnar að sem fyrr eru 20 millj. kr. áætlaðar til styrktar atvinnusköpun kvenna. Jafnframt kom fram að dregið hefur úr umsókn um í sjóðinn og einnig að fyrirhugað er að endurskoða reglur hans í ljósi breyttra aðstæðna. Minni hlutinn tekur undir að sjóðurinn er mikilvægur og ætti auðvitað að fá mun meira fé. Í Evrópu og Bandaríkjunum hafa konur verið mikilvirkar við stofnun nýrra fyrirtækja og átt hvað mestan þátt í auknum hagvexti þessara ríkja. Slíkt hefur ekki gerst hér nema að litlu leyti og því brýnt að kanna hvað veldur og hvernig ríki og sveitarfélög geta komið til að stoðar með lánum og styrkjum. Jafnframt ítrekar minni hlutinn þá skoðun sína að nýsköpun í atvinnulífi og starfsmenntun fyrir atvinnulífið eru atvinnu- og menntamál, en ekki hluti af atvinnuleysisvanda þjóðarinnar. Á síðasta þingi var ákveðið að færa Starfsmenntasjóð at vinnulífsins undir Atvinnuleysistryggingasjóð og fær hann sömu upphæð til ráðstöfunar og á þessu fjárlagaári. Alls staðar í kringum okkur er verið að auka framlög til starfsmenntunar og hvers kyns endurmenntunar, ekki síst vegna þeirra miklu breytinga sem fram undan eru í atvinnulífinu. Störfum mun fækka í flestum framleiðslugreinum og þau verða æ sérhæfðari meðan störfum fjölgar í þjónustu- og hátækniiðnaði. Enn á ný mótmælir minni hluti félags málanefndar því hvernig ríkisstjórnin blandar saman óskyldum málum. Starfsmenntun at vinnulífsins á að þjóna framtíðinni og þörfum einstaklinganna en ekki að vera eitthvert skammtímaúrræði vegna þess atvinnuleysis sem við er að stríða. Því er spáð að á næstu öld verði vinnandi fólk að vera reiðubúið og eigi að fá tækifæri til að endurmennta sig til allt að þriggja starfa á starfsævinni. Afar mikilvægt er að íslenskt menntakerfi og aðilar vinnu markaðarins lagi sig að þessari nýju þörf til þess að fólk geti búið sig í tíma undir þær miklu breytingar sem fram undan eru, breytingar sem kalla á aukinn sveigjanleika. Atvinnuleysið kallar á sérstakar og sérhæfðar lausnir sem fela í sér endurmenntun og félagslegan stuðning. Almenn menntun eða sérhæfð í þágu atvinnugreina er annað en ekki síður mikilvægt mál sem kallar á stóraukin framlög eigi íslenskt atvinnulíf ekki að dragast aftur úr því sem tíðkast meðal þeirra þjóða sem við berum okkur saman við.
    Loks vill minni hlutinn minna á málefni barna og unglinga. Á síðasta þingi var samþykkt lagabreyting þess efnis að sjálfræðisaldur verði miðaður við 18 ár. Sú breyting kallar á aukið fjármagn til málefna barna og unglinga á næstu árum. Það þarf sérstök meðferðarúrræði fyrir aldurshópinn 16–18 ára sem oft og tíðum er mjög erfiður, en þau eru ekki til staðar nú. Ekki verður séð að neitt tillit sé tekið til þessarar breytingar í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1998, en afar brýnt er að bæta þar úr.

Alþingi, 24. nóv. 1997.

Kristín Ástgeirsdóttir, form.
Rannveig Guðmundsdóttir.
Ögmundur Jónasson.



Fylgiskjal V.

Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.


                   
    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjár lagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 20. október 1997.
    Nefndin fékk á sinn fund Guðmund G. Þórarinsson, Vigdísi Magnúsdóttur, Þorvald Veig ar Guðmundsson og Önnu Lilju Gunnarsdóttur frá Ríkisspítölum, Jóhannes Gunnarsson, Magnús Skúlason og Ernu Einarsdóttur frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Björn Ástmundsson frá Landssambandi sjúkrahúsa og Kristján G. Guðmundsson, Guðmund Einarsson og Helgu Þor bergsdóttur frá Landssamtökum heilsugæslustöðva. Einnig fékk nefndin send gögn frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.
    Nefndin er sammála um að vekja athygli fjárlaganefndar á eftirtöldum atriðum:
    Hjá fulltrúum Ríkisspítalanna kom fram að fjárskorti hefði verið mætt á undanförnum árum með hagræðingu. Bentu þeir á að áætlaður fjárskortur á þessu ári væri 155 millj. kr. þrátt fyrir auknar fjárveitingar nú í haust. Einnig vöktu þeir athygli á því að sjúklingum hefði fjölgað um 15% frá árinu 1990 til 1995 og að hlutfall bráðasjúklinga hefði hækkað úr rúmlega 50% í yfir 70% á sama tíma. Þá áætluðu þeir að fyrir árið 1998 vantaði um 490 millj. kr. miðað við að reksturinn yrði sambærilegur við árið 1997. Fram kom í máli full trúanna að biðlistar hefðu lengst. Með hliðsjón af þessu töldu þeir óhjákvæmilegt að stjórn völd tækju ákvörðun um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu.
    Fulltrúar Sjúkrahúss Reykjavíkur vöktu athygli á að starfsemi þess væri nú þegar mjög aðþrengd vegna takmarkaðra fjárveitinga og að þeirra mati væri sjúkrahúsinu ómögulegt að veita þá þjónustu sem stjórnvöld ætlast til með þeim fjárveitingum sem ráðgerðar væru í fjár lagafrumvarpi fyrir árið 1998. Bent var á að þrátt fyrir samkomulag um aukafjárveitingar í ágúst sl. væri halli á rekstri sjúkrahússins á þessu ári um 150 millj. kr. Til rekstrarins á næsta ári vantar Sjúkrahús Reykjavíkur á bilinu 400–500 millj. kr. ef tekið er mið af áætlaðri rekstrarniðurstöðu þessa árs. Þá var sömuleiðis vakin athygli á að þörf á viðhaldi hússins í Fossvogi væri orðin mikil. Af því tilefni var vísað til skýrslu þar sem fram kemur að kostn aður við fyrirsjáanlegar utanhússviðgerðir eykst um 3–5% á ári fyrir hvert ár sem dregst að hefja framkvæmdir. Auk þessa var vakin athygli á því að fjárframlög til tækjakaupa hefðu síðastliðin ár verið of lítil og dygðu ekki til að eðlileg endurnýjun og þróun gæti átt sér stað. Fulltrúarnir töldu brýnt að stjórnvöld færu að huga að forgangsröðun í heilbrigðisþjón ustunni.
    Fram kom í gögnum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri að halli þessa árs og þess síðasta yrði um 84 millj. kr. Til að veita sambærilega þjónustu og mæta aukinni þjónustuþörf sjúkra hússins á næsta ári er talið að hækka þurfi fjárveitingar til þess um 120–150 millj. kr. Þar sem ekki er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til sjúkrahússins í fjárlagafrumvarpinu töldu þeir óhjákvæmilegt að draga úr þjónustu eða fella niður einstaka þætti starfseminnar.
    Að mati forsvarsmanna þriggja stærstu sjúkrahúsa landsins vantar þau rúman milljarð króna. Er því beint til fjárlaganefndar að skoða það mál sérstaklega.
    Í máli forsvarsmanna Landssamtaka heilsugæslustöðva kom fram að heilsugæslan væri rekin með nokkrum halla en það vandamál væri ekki alvarlegt. Þeir lögðu áherslu á nokkur atriði þar sem þörf væri á samtals um 100 millj. kr. viðbótarframlagi, meðal annars til að ljúka byggingu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, í Keflavík og á Akureyri, til bif reiðakaupa og tölvukaupa heilsugæslustöðva, og framlagi til tilraunaverkefnis í fjarlækn ingum.

Alþingi, 25. nóv. 1997.



Össur Skarphéðinsson,     form.


Siv Friðleifsdóttir.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.


Guðni Ágústsson.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Sólveig Pétursdóttir.


Margrét Frímannsdóttir.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.





Fylgiskjal VI.

Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá iðnaðarnefnd.



    Iðnaðarnefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar mál efnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefnd ar frá 20. október 1997.
    Nefndin fékk á sinn fund frá iðnaðarráðuneyti Halldór J. Kristjánsson ráðuneytisstjóra og Kristmund Halldórsson deildarstjóra og frá Rafmagnsveitum ríkisins komu Kristján Jónsson forstjóri og Eiríkur Briem fjármálastjóri. Þá fór nefndin í vettvangsferð til Orku stofnunar.
    Í máli fulltrúa Orkustofnunar kom fram að fjárveitingar til hennar hafa lækkað undanfarin ár þótt umsvif í orkumálum fari vaxandi á nýjan leik og horfur séu á að þau aukist enn. Stofnunin vill breyta áherslum í orkurannsóknum og telur því nauðsynlegt að fé verði veitt til nýrra verkefna og til ráðningar auðlindahagfræðings. Nefndin minnir á mikilvægi þeirra verkefna sem Orkustofnun vinnur að. Eftir endurskipulagningu stofnunarinnar er rannsókna þjónusta hennar nú rekin sem hver annar samkeppnisrekstur með aðskilinn fjárhag frá öðrum þáttum starfseminnar og leggur nefndin áherslu á að við ákvörðun fjárveitinga til Orku stofnunar sé litið til þessa.
    Í máli fulltrúa Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik) kom fram að Rarik kaupir raforku af Landsvirkjun og greiðir fyrir hana um 50% hærra verð en langtímajaðarkostnaður Lands virkjunar er metinn á. Á næstu árum eru horfur á að Hitaveita Suðurnesja og Reykjavíkur borg framleiði raforku í nýjum virkjunum. Þetta leiðir til þess miðað við óbreytta stöðu að fyrirtækið verður enn frekar háð verðlagningu Landsvirkjunar. Um næstu áramót mun Lands virkjun hækka gjaldskrá sína um 1,7%. Slíkt hið sama mun Rarik þurfa að gera en á sama tíma stefnir Rafmagnsveita Reykjavíkur að lækkun gjaldskrár um 2%. Því er ljóst að Rarik verður að lækka kostnað við orkuöflun verulega ef unnt á að vera að halda orkuverði niðri á landsbyggðinni. Þá hefur, í úttekt sem gerð var á vegum Hagvangs og Viðskiptafræðistofn unar Háskólans, sjónum verið beint að félagslegum þætti í rekstri og framkvæmdum Rariks sem skýrist m.a. af þjónustuskyldu fyrirtækisins við strjálbýl svæði. Verkefni tengd þessu eru þess eðlis að þau geta ekki borið uppi eðlilega ávöxtunarkröfu af því fjármagni sem í þeim þarf að binda. Í dag eru framlög til þessa þáttar endurgreiðsla 65% af arðgreiðslum þeim sem fyrirtækið greiðir í ríkissjóð og er það vegna endurnýjunar dreifikerfa í sveitum. Fulltrúar Rariks telja þetta ekki nægilegt og benda á mikilvægi þess að viðurkenning verði fengin á tilvist þessara verkefna þannig að markaður verði varanlegur tekjustofn fyrir þau, einnig að sett verði upp reikniregla til að meta stærð félagslegs þáttar í einstökum verk efnum. Nefndin vekur athygli á þessum atriðum er tengjast starfsemi Rariks og minnir á mikilvægi jöfnunar orkukostnaðar í landinu.
    Að öðru leyti gerir nefndin ekki athugasemdir við fjárlagafrumvarpið að þessu sinni.

Alþingi, 26. nóv. 1997.

Stefán Guðmundsson, form.
Guðjón Guðmundsson.
Sighvatur Björgvinsson.
Sigríður A. Þórðardóttir.
Svavar Gestsson.
Pétur H. Blöndal.
Hjálmar Árnason.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Árni R. Árnason.




Fylgiskjal VII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá landbúnaðarnefnd.



    Landbúnaðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarps ins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.
    Nefndin fékk á sinn fund Ingimar Jóhannsson og Guðmund Sigþórsson frá landbúnaðar ráðuneyti og skýrðu þeir þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá komu til fundar Sigurgeir Þorgeirsson og Ari Teitsson frá Bændasamtökum Íslands.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að áfram verði unnið að sérstöku átaki í framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Til átaksins var stofnað með lögum nr. 27/1995, um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna af urða, en skv. 4. gr. laganna skal ríkissjóður leggja átaksverkefninu til 25 millj. kr. á ári í fjárlögum árin 1996–99. Í fjárlagafrumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að framlag til þessa verkefnis verði helmingi lægra í ár en á síðasta ári eða 12,5 millj. kr. Í samræmi við það er síðan að finna ákvæði í 6. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir þessari skerðingu. Bændasamtökin lýstu sig andvíg þessum niðurskurði og tekur nefndin undir þá skoðun.
    Þá er í frumvarpinu lögð til hækkun á framlagi til Bændasamtakanna. Hækkun milli ára skýrist af því að lagt er til að þær 89 millj. kr. sem verja skal til uppkaupa á fullvirðisrétti eða markaðsaðgerða samkvæmt núgildandi búvörusamningi verði veittar til jarðræktarfram laga og fleiri verkefna. Nefndin vekur athygli á því að verið er að taka einhliða upp samning við sauðfjárbændur og nota fjármuni sem þeim eru ætlaðir samkvæmt samningnum til að leysa önnur uppsöfnuð vandamál og getur nefndin ekki tekið undir slíkt. Þá er þess að geta að nefndin hefur í álitum sínum til fjárlaganefndar á síðustu árum ítrekað bent á nauðsyn þess að gera jarðræktarframlög upp en nefndin getur ekki stutt að það sé gert með framan greindum hætti.
    Við meðferð nefndarinnar á frumvarpinu óskaði hún m.a. eftir samantekt frá landbúnaðar ráðuneytinu um ýmis framlög og sjóði í þágu landbúnaðarins, en vegna breyttrar framsetn ingar frumvarpsins bætast við nýir fjárlagaliðir í A-hluta frumvarpsins, t.d. Framleiðsluráð landbúnaðarins, Landgræðslusjóður, Búnaðarsjóður, Lánasjóður landbúnaðarins o.fl., og fylgir samantektin áliti þessu.

Alþingi, 19. nóv. 1997.

Guðni Ágústsson, form.
Egill Jónsson.
Magnús Stefánsson.
Guðjón Guðmundsson.
Hjálmar Jónsson, með fyrirvara.
Árni M. Mathiesen, með fyrirvara.
Ágúst Einarsson, með fyrirvara.
Lúðvík Bergvinsson, með fyrirvara.
Sigríður Jóhannesdóttir, með fyrirvara.



Fylgiskjal VIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Menntamálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar mál efnasviði, sbr. 2. mgr. 25.gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefnd ar frá 20. október 1997.
    Nefndin fékk á sinn fund frá menntamálaráðuneyti Örlyg Geirsson skrifstofustjóra, Gísla Magnússon deildarstjóra og Hermann Jóhannesson deildarstjóra og frá fjármálaráðuneyti Leif Eysteinsson deildarstjóra. Frá Háskólanum á Akureyri komu Þorsteinn Gunnarsson rektor og Ólafur Búi Gunnlaugsson framkvæmdastjóri og frá stúdentaráði Háskóla Íslands þau Haraldur Guðni Eiðsson formaður og Katrín Júlíusdóttir háskólaráðsfulltrúi. Þá komu á fund nefndarinnar frá Háskóla Íslands Páll Skúlason rektor, Gunnlaugur H. Jónsson fjár málastjóri, Jón Torfi Jónasson prófessor og Þórður Kristinsson kennslustjóri, frá Kennara háskóla Íslands þeir Ólafur Proppé rektor og Guðmundur Ragnarsson fjármálastjóri, Markús Örn Antonsson framkvæmdastjóri og Hörður Vilhjálmsson fjármálastjóri frá Ríkisútvarpinu, Vilhjálmur Lúðvíksson framkvæmdastjóri frá Rannsóknarráði Íslands, Einar Guðmundsson forstöðumaður og Helga J. Sigurðardóttir fjármálastjóri frá Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, Runólfur Birgir Leifsson framkvæmdastjóri frá Sinfóníuhljómsveit Íslands og úr stjórn hljómsveitarinnar þeir Hörður Sigurgestsson og Jón Þórarinsson og að lokum Ingi björg Ásgeirsdóttir útgáfustjóri og Tryggvi Jakobsson deildarstjóri frá Námsgagnastofnun.
    Þeir fjárlagaliðir sem snúa að menntamálum voru ræddir ítarlega á fundum nefndarinnar. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að í samræmi við ákvæði framhaldsskólalaga hefur menntamálaráðuneytið í samvinnu við framhaldsskóla unnið að gerð reiknilíkans til að reikna út kennslu- og rekstrarútgjöld framhaldsskóla og áformar ráðuneytið að gera á næstu vikum samning til þriggja ára við skólana um skólastarfið og fjárframlög til þess. Sam bærileg vinna hefur einnig farið fram milli Háskóla Íslands og mennta- og fjármála ráðuneytis. Reglur þessar miða að því að áætla kostnað við rekstur skólanna á svipaðan hátt og gert er í nágrannalöndum með hliðsjón af íslenskum aðstæðum. Endanleg framlög vegna kennslu verða byggð á upplýsingum skólanna um prófþátttöku nemenda í stað áætlaðs fjölda innritaðra nemenda auk þess sem áföngum er gefið mismikið vægi eftir tegund náms. Áætlað er að gengið verði frá samningi við Háskóla Íslands í næsta mánuði og samningum við aðra háskóla á næsta ári. Meiri hlutinn bendir sérstaklega á mikilvægi þess að vel takist til við þessa vinnu svo að hún skili þeim árangri sem til er ætlast. Þannig verða ákvarðanir um fjárframlög til skólanna byggðar á traustari grunni en áður og starfsemi skólanna styrkt. Augljóst er að stóraukin áhersla er lögð á menntun um allan heim og brýnt að við höldum vöku okkar í þeim efnum.
    Á vegum Rannsóknarráðs Íslands hafa verið auglýstir námsstyrkir, þ.e. fyrirtækja- og stofnanastyrkir til rannsóknartengds framhaldsnáms í samvinnu við Rannsóknarnámssjóð og Rannsóknarráð Íslands. Þessir styrkir eru ætlaðir til að efla samvinnu í rannsóknum og þróun milli fyrirtækja, stofnana og háskóla. Meiri hlutinn telur að hér sé um að ræða mjög jákvætt samstarf aðila vinnumarkaðarins og háskólasamfélagsins.
    Á síðasta vetri voru birtar niðurstöður TIMSS-rannsóknarinnar sem er viðamikil fjölþjóð leg rannsókn á námshögum og námsskilyrðum nemenda í stærðfræði og náttúrufræði í grunn- og framhaldsskólum. Fyrstu niðurstöður ollu vonbrigðum með námsárangur íslenskra nem enda samanborið við jafnaldra þeirra í öðrum löndum. Meiri hlutinn telur brýnt að Rann sóknastofnun uppeldis- og menntamála verði gert kleift að vinna frekar úr niðurstöðum rannsóknarinnar svo að unnt verði að greina rætur vandans og koma með tillögur til úrbóta.
    Meiri hluti nefndarinnar bendir á að í kjölfar flutnings grunnskólans til sveitarfélaga og endurskoðunar aðalnámskrár, sem lýkur á næsta ári, þurfi að huga sérstaklega að náms efnisgerð og framtíðarskipan þeirra mála.
    Arnbjörg Sveinsdóttir og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 24. nóv. 1997.

Sigríður A. Þórðardóttir, form.
Hjálmar Árnason.
Tómas Ingi Olrich.
Arnþrúður Karlsdóttir.

Fylgiskjal IX.

Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Minni hluti nefndarinnar telur ástæðu til að ítreka við fjárlaganefnd nokkur þeirra atriða sem fram komu vegna þess hve alvarleg þau eru.
    Almennt telur minni hlutinn að allt of litlu fjármagni sé varið til mennta- og menningar mála. Hér hefur lengi verið haldið úti skólakerfi fyrir mun minna fé en tíðkast í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Staðan í skólunum, hvort sem litið er til þjónustu við nemendur, atvinnulífsins eða launakjara kennara, stenst engan veginn samanburð enda sýnir samanburður á þeim fjármunum sem ríkin verja til menntamála, svo sem síðasta matsskýrsla OECD, með óyggjandi hætti hvar við erum stödd. Ef íslensk stjórnvöld bregðast ekki við með því að stórauka fjármagn til menntamála er alvarleg ástæða til að óttast um samkeppnis hæfni Íslands á komandi árum. Fjárveitingar til háskólastigsins koma verst út í samanburði við önnur lönd í skýrslu OECD. Minni hlutinn bendir á að með frumvarpi til laga um háskóla megi búast við vaxandi kröfum um fjárveitingar til allra skóla á háskólastigi þar sem þróun erlendis bendir til að þeir háskólar sem verst eru settir hvað snertir rannsóknir og aðstöðu geri smám saman svipaðar kröfur og þeir sem besta aðstöðu hafa.
    Háskóli Íslands hefur mikla sérstöðu meðal íslenskra háskóla og ástæða er til að hafa áhyggjur af fjárveitingum til hans. Minni hlutinn vill því mælast til þess að tekið verði tillit til beiðni Háskóla Íslands um viðbótarfjárveitingu sem nemi 6% launaliða, auk 131 millj. kr. til eftirfarandi liða: Rannsóknastarfsemi (15 millj. kr.), rekstur fasteigna (4 millj. kr.), kennslu- og vísindadeildir (45 millj. kr.), alþjóðaskrifstofa háskólastigsins (4 millj. kr.), rannsóknarnám (43 millj. kr.) og ritakaupasjóður (20 millj. kr.). Sérstaklega þykir ástæða til að vekja athygli á að ef ekki er hækkuð fjárveiting til bóka- og tímaritakaupa mun reynast nauðsynlegt að skera þau kaup niður um 30%.
    Háskólinn á Akureyri og Kennaraháskóli Íslands biðja einnig um viðbótarfé og tekur minni hlutinn undir þær beiðnir en bendir jafnframt á að þeir skólar eru að fara fram á að sitja við sama borð og Háskóli Íslands varðandi rannsóknarprófessora og möguleika til að kennarar komist í kennsluleyfi.
    Fulltrúar menntamálaráðuneytis greindu frá því sem nú er unnið að í samningum við fram haldsskólana. Þar er um nokkur nýmæli að ræða. Áhrifa nýrra laga er farið að gæta og bæði er verið að þróa reiknilíkan vegna fjárveitinga til kennslu og reksturs skólanna og gera til raun með fjármögnun viðhalds í gegnum leigugreiðslur og úthlutun úr einum potti. Minni hlutinn vill ítreka að reglur um úthlutun fjármagns til skólanna, þótt góðar séu, leysa ekki þann vanda sem stafar af ónógu fjármagni til framhaldsskólanna. Sá vandi verður heldur ekki leystur með álagningu fallskatts eða öðrum skólagjöldum. Því er ástæða til að skoða fjár veitingu til framhaldsskólanna með tilliti til þess að verið er að framkvæma ný lög.
    Varðandi grunnskólastigið bendir minni hlutinn á alvarlega stöðu námsgagnagerðar fyrir þetta skólastig. Árið 1991 var framlag til námsgagnagerðar á nemanda 6.408 kr. en var á þessu ári komið niður í 5.060 kr. á nemanda. Á sama tíma eru gerðar meiri kröfur um ný og betri námsgögn og námsefnisformið er að breytast vegna mikilvægis upplýsingatækni og ís lensks kennsluhugbúnaðar. Samkvæmt tillögum menntamálaráðuneytis (Í krafti upplýsinga, 1996) er Námsgagnastofnun ætlað lykilhlutverk á þessu sviði og er nauðsynlegt að tryggja fjármagn til þess. Stofnunin telur sig vanta um 40 millj. kr. til að geta sinnt nauðsynlegri endurnýjun námsefnis í náttúrufræðigreinum, undirbúningi endurnýjunar námsefnis vegna nýrrar námskrár og til kynningar.
    Þá er afar brýnt að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála verði gert kleift að vinna úr þeim gögnum sem fyrir liggja úr rannsóknum á íslensku skólakerfi. Það er marklaust að vera með upphrópanir um gæði skólanna ef ekki fást fjármunir til að þær rannsóknarniður stöður sem fyrir liggja nýtist til að bæta skólastarfið. Viðbótarfjármagn sem nemur 4–5 millj. kr. mundi skipta sköpum. Slík viðbótarfjárveiting mundi sýna vilja þingsins til að bæta skólastarfið í landinu.
    Sjálfstæði þjóðar er undir því komið að menning fái að þroskast og dafna. Þá bendir ýmis legt til þess að fólk meti búsetuskilyrði ekki hvað síst með tilliti til þeirra möguleika sem gefast til þátttöku í menningu og listum, eða til að njóta þeirra. Fjármunum sem fara til menningarmála er því varið til að treysta sjálfstæði þjóðarinnar og búsetu í landinu. Með þetta í huga ber að líta á fjárveitingar til menningarmála.

Alþingi, 26. nóv. 1997.



Guðný Guðbjörnsdóttir.
Svanfríður Jónasdóttir.
Svavar Gestsson.




Fylgiskjal X.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá samgöngunefnd.



    Samgöngunefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 20. október 1997.
    Nefndin fékk á sinn fund Jón Birgi Jónsson ráðuneytisstjóra og Auði Eyvinds frá sam gönguráðuneyti og skýrðu þau þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá komu á fund nefndarinnar Þorgeir Pálsson og Sigrún Traustadóttir frá Flugmálastjórn, Magnús Oddsson ferðamálastjóri frá Ferðamálaráði, Sigurbergur Björnsson og Jón Leví Hilmarsson frá Siglingastofnun Íslands og Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri og Hannes Sigurðsson frá Vegagerðinni.
    Í máli fulltrúa Vegagerðarinnar kom fram að gert er ráð fyrir lækkuðum framlögum til vegamála þar sem ríkið mun fá auknar greiðslur úr vegasjóði sem alls nema 1.064 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þar með myndast inneign Vegagerðarinnar hjá ríkissjóði að fjárhæð rúmar 800 millj. kr. í árslok 1998. Heildarframlag til vegamála verður því 7.524 millj. kr. Hér er um að ræða lækkun frá gildandi vegáætlun sem gerði ráð fyrir 7.684 millj. kr. framlagi. Ljóst er að þessi skerðing mun hafa í för með sér um 6% lækkun fjárveitinga til nýframkvæmda frá vegáætlun þeirri sem samþykkt var í vor. Á það var bent í áliti samgöngunefndar við afgreiðslu fjárlaga síðasta árs að lækkun fjárveitinga til nýframkvæmda næmi 18–19%. Ljóst má vera að enn frekari skerðing mun hafa veruleg áhrif á framkvæmdir í vegamálum og hlýtur að leiða til frestunar á ýmsum brýnum verkefnum um land allt. Samgöngunefnd lýsir óánægju sinni með þessa niðurstöðu.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að verulegu fé, eða 190 millj. kr., verði varið af flugmálaáætlun til reksturs Flugmálastjórnar, enn fremur að 60 millj. kr. fari til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þetta mun óhjákvæmilega draga úr framkvæmdagetu á flug völlum og samkvæmt fyrirliggjandi tillögu að flugmálaáætlun mun það einkum bitna á áformuðum framkvæmdum á Reykjavíkurflugvelli. Sama tillaga gerir ráð fyrir því að framlög af flugmálaáætlun til reksturs Flugmálastjórnar lækki um 90 millj. kr. á tveimur árum sem þannig mun auka framkvæmdafé að nýju. Í máli fulltrúa Flugmálastjórnar komu fram áhyggjur af þeirri tekjuaukningu sem gert er ráð fyrir að verði hjá Flugmálastjórn á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þar er gert ráð fyrir að tekjur hækki um 6,2–6,9% sem þeir töldu í hærra lagi.
    
Í máli fulltrúa Siglingastofnunar Íslands kom fram að gert væri ráð fyrir að framlög til hafnamála yrðu í samræmi við hafnaáætlun. Samgöngunefnd telur þetta mikilvægt vegna gildis stefnumörkunar í samgöngumálum þegar til lengri tíma er litið.
    Heildarframlög til ferðamála eru samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 136,8 millj. kr. og er þar um að ræða aukningu frá því í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1997. Ítrekuð er sú ábending sem fram kom í áliti samgöngunefndar með fjárlagafrumvarpi síðasta árs að mikilvægt sé að verja áfram fé til rannsókna og þróunarstarfsemi í ferðamálum og úrbóta í umhverfismálum, t.d. á fjölsóttum ferðamannastöðum. Það er álit samgöngunefndar að forsenda fyrir aukinni sókn í ferðamálum sé að þeim málum verði vel sinnt.
    Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. nóv. 1997.



Einar K. Guðfinnsson, form.
Magnús Stefánsson.
Stefán Guðmundsson.
Egill Jónsson.
Guðmundur Árni Stefánsson.
Ragnar Arnalds.
Ásta R. Jóhannesdóttir.
Kristján Pálsson.



Fylgiskjal XI.

Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (05 Sjávarútvegsráðuneyti)

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Sjávarútvegsnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis og bréf fjárlaganefndar frá 20. október 1997. Nefndin fékk á sinn fund frá sjávarútvegsráðu neyti Árna Kolbeinsson ráðuneytisstjóra, Kristján Skarphéðinsson og Dórótheu Jóhannsdóttur. Þá komu á fund hennar Jakob Jakobsson og Vignir Thoroddsen frá Hafrann sóknastofnun, Þórður Ásgeirsson og Atli Atlason frá Fiskistofu, Hjörleifur Einarsson og Jón Heiðar Ríkharðsson frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hjörtur Björnsson og Sigþór Karlsson frá skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna.
    Í máli fulltrúa Hafrannsóknastofnunar kom fram að fjármuni skorti til nokkurra brýnna verkefna sem ekki væri gert ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga. Var þar bent á stofnerfðarann sóknir á karfa, stofnmælingu botnfiska að hausti og tækjakaup. Stofnunin fór fram á 10,3 millj. kr. fjárveitingu í stofnerfðarannsóknirnar, 39,5 millj. kr. í stofnmælingar botnfiska að haustlagi (haustrall) og 12,7 millj. kr. í kaup á tækjum og búnaði en fékk ekki. Sjávarútvegs nefnd er hlynnt þessum verkefnum og telur mikilvægt að veitt verði fé til þeirra. Þá tekur nefndin undir með Hafrannsóknastofnun, sjávarútvegsráðuneyti o.fl. að brýnt er fyrir Íslend inga að halda úti eins öflugu rannsóknastarfi á fiskstofnum og lífríki hafsins og nokkur kostur er.
    Fulltrúar Fiskistofu gerðu nefndinni grein fyrir þeirri frestun sem orðið hefur á stofnun svokallaðra ytri landamærastöðva ESB og þeim áhrifum sem það hefur á fjárhag stofnun arinnar. Í máli fulltrúanna kom fram að brýnasta verkefni Fiskistofu nú væri að auka sjóeftir lit, sérstaklega eftirlit með veiðum og vinnslu frystitogara. Sjávarútvegsnefnd tekur undir það að brýnt sé að efla þetta eftirlit auk þess sem þörf sé á að endurskoða aðferðir í því sambandi. Nefndin leggur til að fjárveitingar til þessa verkefnis verði auknar, jafnvel sér merkt. Rétt er að taka fram að aukin útgjöld af eftirliti á þessu sviði lenda ekki nema að litlu leyti á Fiskistofu, heldur að mestu leyti á útgerðinni sjálfri.
    Fulltrúar Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins gerðu grein fyrir helstu verkefnum stofnun arinnar og bentu á verkefni sem stofnunin vildi geta sinnt betur. Var þar helst um að ræða verkefni á sviði umhverfismála og upplýsingamiðlunar. Stefnt er að því að koma upp gagna banka um helstu eiginleika fisks sem hráefnis. Slíkt gæti orðið til þess að auka mjög virðis auka í sjávarútvegi. Þá töldu þeir nauðsynlegt að styðja vel við útibú stofnunarinnar á lands byggðinni því að þau hefðu skilað góðu starfi.
    Fulltrúar skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna gerðu grein fyrir verkefnum skrif stofunnar. Ástæða þess að skrifstofan væri undir sjávarútvegsráðuneyti væri fyrst og fremst söguleg en rannsóknastofnanir tengdar sjávarútvegi hafi verið viðamestar þegar atvinnu málaráðuneytinu var skipt upp á sínum tíma. Skrifstofan sér um allt bókhald, launaútreikn inga, innheimtur o.fl. því tengt fyrir allar rannsóknastofnanir atvinnuveganna, auk þess sem hún rekur mötuneyti að Keldnaholti og sér um viðhald hússins þar. Með því næst mikil hagræðing og sparnaður. Hins vegar var bent á að skrifstofan hefði verið nokkuð afskipt undanfarin ár varðandi fjárveitingar. Nú er verið að endurnýja tölvubúnað en svigrúm til þess væri takmarkað þar sem heildarframlög til reksturs eru 37,2 millj. kr. Óskuðu fulltrúarnir því eftir 2–3 millj. kr. viðbótarfjárveitingu. Sjávarútvegsnefnd tekur undir þessa ósk þeirra og beinir því til fjárlaganefndar að hækka framlög til skrifstofunnar sem þessu nemur.
    Loks vill sjávarútvegsnefnd ítreka ábendingu sína frá því í áliti með fjárlagafrumvarpi síðastu tveggja ára að fjárlagaliðinn 141 Lúðueldi á Reykjanesi væri réttara að nefna t.d. „Tilraunastöðvar Hafrannsóknastofnunarinnar á Stað“ þar sem að sú starfsemi sem nú fer þar fram er alls ekki bundin við lúðueldi. Þá vill nefndin koma þeirri ábendingu Hafrann sóknastofnunar á framfæri að liðinn 139 Annar skiparekstur væri réttara að nefna „Stofn mæling botnfiska“. Þá skal vakin athygli á því að liðurinn 144 Rannsókn á þorskklaki hefur aldrei verið sérliður í fjárlagafrumvarpi og sú fjárhæð sem þar kemur fram er einungis sú viðbótarfjárhæð sem farið var fram á í fjárveitingabeiðnum Hafrannsóknastofnunar en ekki sú fjárhæð sem veitt er til verkefnisins í heild; hún fellur undir liðinn 101 Almennur rekstur.

Alþingi, 25. nóv. 1997.



Steingrímur J. Sigfússon,     form.


Árni R. Árnason.


Stefán Guðmundsson.


Vilhjálmur Egilsson.


Guðmundur Hallvarðsson.


Hjálmar Árnason.


Einar Oddur Kristjánsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Sighvatur Björgvinsson.






Fylgiskjal XII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 20. október 1997.
    Nefndin fékk til viðræðna við sig frá umhverfisráðuneyti Þórð H. Ólafsson skrifstofu stjóra og Sigurð Á. Þráinsson deildarstjóra, Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ásbjörn Dagbjartsson veiðistjóra, frá Náttúruvernd ríkisins Aðal heiði Jóhannsdóttur forstjóra og úr stjórn stofnunarinnar þau Sigmund Guðbjarnason for mann, Ásu L. Aradóttur og Einar Sveinbjörnsson. Þá komu til fundar við nefndina Páll Her steinsson prófessor og frá Náttúruverndarráði Ólöf Guðný Valdimarsdóttir og Gísli Már Gíslason.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstrargjöld umhverfisráðuneytisins hækki um u.þ.b. 180 millj.kr. frá fjárlögum þessa árs. Má að mestu rekja hækkunina til nokkurra nýrra fjárlagaliða. Þannig eru útgjöld til spilliefnasjóðs tæpar 96 millj.kr., en á móti renna samsvar andi tekjur í ríkissjóð. Þá heyrir Brunamálastofnun nú undir umhverfisráðuneyti en bruna varnagjald stendur undir rekstri stofnunarinnar. Tvær nýjar stofnanir bætast við, annars vegar Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, sbr. lög nr. 81/1997, og hins vegar skrifstofa um vernd gróður- og dýraríkis á norðlægum slóðum, CAFF. Á móti kemur að nokkrar tíma bundnar fjárveitingar falla niður og að gerð er almenn krafa um hagræðingu í rekstri og stofnkostnaði til stofnana ráðuneytisins.
    Meiri hluti umhverfisnefndar tekur undir þá almennu kröfu sem gerð er til ráðuneytanna um hagræðingu í rekstri og stofnkostnaði, en bendir jafnframt á að viðhorf almennings hefur breyst mjög undanfarin ár og heimsbyggðinni er æ ljósari sú staðreynd að það verður að sporna við sívaxandi mengun og afleiðingum hennar. Íslendingar mega ekki vera eftirbátar annarra þjóða í þessum efnum. Það kostar mikla fjármuni að sporna við eða hafa hömlur á menguninni og því verður að gera ráð fyrir auknum kostnaði við umsjón og eftirlit.
    Nefndin óskaði sérstaklega eftir upplýsingum frá umhverfisráðuneyti um málefni Holl ustuverndar ríkisins, Rannsóknastöðina á Kvískerjum, Náttúruvernd ríkisins og Náttúru verndarráð auk þess sem farið var yfir einstaka liði frumvarpsins og fengnar frekari upp lýsingar frá ráðuneytinu um þá liði sem ekki er fjallað sérstaklega um í greinargerð með frumvarpinu.
    Á fundum sínum fjallaði nefndin sérstaklega um hlut ríkisins í kostnaði við eyðingu refa, en fjárframlög til sveitarfélaga voru lækkuð umtalsvert síðasta ár. Aflaði nefndin gagna um málið og fékk á sinn fund gesti til viðræðna. Telur meiri hlutinn að enn liggi ekki fyrir nægi legar upplýsingar til að hægt sé að leggja mat á stöðu málsins. Meiri hlutanum er kunnugt um mikla óánægju með þær breytingar sem gerðar voru á fjárlögum fyrir árið 1997 varðandi greiðslu ríkisins til sveitarfélaga vegna eyðingar refa og hafa nefndinni borist ályktanir þar að lútandi. Í athugasemdum hafa m.a. komið fram tillögur um að greidd verði ákveðin fjár hæð fyrir unninn ref, hvort sem um er að ræða fullorðið dýr eða yrðling.
    Meiri hluti nefndarinnar telur rétt að taka þessar tillögur til frekari skoðunar þegar ítar legri upplýsingar liggja fyrir og árið hefur verið gert upp. Hins vegar mælir meiri hlutinn með því að í einstökum tilvikum verði sveitarstjórnum gert kleift að sækja um sérstaka að stoð til að leysa aðkallandi vandamál.
    Vegna sérstakra óska um auknar fjárveitingar mælir meiri hlutinn með því að skoðaðar verði sérstaklega beiðnir Náttúruverndar ríkisins, Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ráðs, Rannsóknastöðvarinnar á Kvískerjum, Kirkjubæjarstofu og Félags um verndun hálendis Austurlands.
    Árni M. Mathiesen skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    Arnþrúður Karlsdóttir og Tómas Ingi Olrich voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. nóv. 1997.

Gísli S. Einarsson.
Kristján Pálsson.
Ísólfur Gylfi Pálmason.
Lára Margrét Ragnarsdóttir.
Árni M. Mathiesen, með fyrirvara.
Kristín Halldórsdóttir, með fyrirvara.

                   



Fylgiskjal XIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Undirritaður, sem skipar minni hluta umhverfisnefndar, vekur athygli á afar alvarlegri stöðu sem er að skapast í umhverfismálum hérlendis, m.a. vegna allsendis ónógra fjárveit inga árum saman til stofnana og verkefna á vegum umhverfisráðuneytis. Sá vandi sem af þessu hlýst hleður utan á sig og niðurstaðan birtist í versnandi ástandi umhverfismála hér á landi á mörgum sviðum. Í fjárlagafrumvarpi er engin tilraun gerð til að varpa ljósi á stöðu eða fjárþörf umhverfismála hérlendis. Þarf ekki að leita lengra en til Noregs til góðra fyrir mynda um undirbúning fjárlagagerðar á þessu sviði þar sem að jafnaði fylgir sérstök „græn bók“ með fjárlagafrumvarpi. Eru þar og í greinargerð með norska fjárlagafrumvarpinu dregnar fram fjárveitingar og tillögur vegna næsta árs til umhverfismála óháð því hvaða ráðuneyti fer með og fjármagnar einstaka þætti. Er þetta borið saman við stefnu og áherslur stjórnvalda og fæst þannig sæmileg heildarmynd sem sýnir hvert stefnir um málaflokkinn af hálfu stjórnvalda og fjárveitingavalds.
    Enga slíka viðleitni er að finna í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1998. Er þar raunar um augljósa afturför að ræða frá frumvörpum síðustu ára og var þó ekki úr háum söðli að detta. Greinargerð með frumvarpinu að því er varðar umhverfisráðuneytið er í brotum og einskis samræmis gætt. Hlaupið er yfir stórar stofnanir án þess að nokkuð sé um þær fjallað, Hollustuverndar ríkisins t.d. í engu getið í greinargerð! Ekki er hirt um að gefa heildstæðan samanburð á framlögum milli ára.
    Af hálfu umhverfisnefndar var leitast við að afla upplýsinga frá umhverfisráðuneyti og stofnunum þess til að fylla í eyðurnar. Það tókst þó ekki nema að nokkru leyti á þeim skamma tíma sem nefndin hafði til að fjalla um frumvarpið. Yfirsýn umhverfisráðuneytis yfir málefni stofnana þess, fjárveitingar sem annað, virðist enn lakari en áður og er m.a. borið við breyttri tilhögun við fjárlagagerð og auknu sjálfræði stofnana um ráðstöfun fjármagns.
    Á sama tíma og stjórnvöld víða erlendis gera sér ljósari en áður þá staðreynd að sporna verður við sívaxandi mengun og annarri umhverfisvá er flest látið reka á reiðanum hérlendis. Við þessar aðstæður ætti umhverfisnefnd Alþingis að setja fram skýrar kröfur um úrbætur og aukið fjármagn þar sem þörfin er brýnust. Meiri hluti nefndarinnar kaus ekki að standa þannig að máli heldur setur fram álit sem lítið gagn er að fyrir málaflokkinn og fjárlaga nefnd.
    Undirritaður kemst ekki hjá því að vekja athygli á hversu óheppilegt það er fyrir vinnulag fagnefnda, sem að tillögum forsætisnefndar er nú ætlað aukið hlutverk með skiptingu svo nefndra safnliða, að í nefndunum skuli sitja fulltrúar sem jafnframt eiga sæti í fjárlaganefnd þingsins. Ljóst er að þingsköp hamla ekki slíkri tilhögun, en ástæða væri til að breyta þeim og tryggja að þeir sem í fjárlaganefnd sitja hverju sinni skuli ekki kosnir í aðrar fastanefndir þingsins. Væri slíkt eflaust einnig til bóta fyrir vinnu og verklag fjárlaganefndar.
    Hér fara á eftir nokkrar beinar tillögur og ábendingar er snerta einstaka liði fjárlagafrum varpsins að því er umhverfisráðuneytið varðar.

1.      Hollustuvernd ríkisins.
    Málefni þessarar mikilvægu stofnunar eru komin í ramman hnút. Ráðuneytið sem um tíma skaut sér á bak við væntanlegar úttektir og greiningu á vanda stofnunarinnar virðist hafa gefist upp við að halda málum hennar í horfinu hvað þá meira. Ekkert er gert með þær faglegu úttektir sem ráðuneytið hefur látið vinna á þessu kjörtímabili. Nægir þar að nefna niðurstöðu Skipulags og stjórnunar ehf. um mannaflaþörf þar sem „alger lágmarksþörf“ til aukningar var talin 20,5 stöðugildi til að stofnunin geti staðið undir þeirri starfsemi sem lög, reglur og samningar við erlend ríki gera ráð fyrir. Þær skyldur, sem EES-samningurinn leggur á stofnunina, eru fleiri en tölu verði á komið og listi yfir vanrækslusyndir og klögumál frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) lengist stöðugt. Hækkun á framlagi til Hollustverndar um 100 millj. kr. umfram fjárlagafrumvarp væri vísbending um pólitískan vilja til að stöðva undanhaldið.

2.      Náttúruvernd ríkisins.
    
Þótt staða Náttúruverndar ríkisins sé ekki í jafnhrikalegu horfi og Hollustuverndar ríkisins skortir mikið á að stofnunin geti sinnt lögboðnum skyldum. Þegar slíkt ástand varir árum saman verða afleiðingarnar stöðugt verri. Þetta birtist m.a. í vanrækslu á uppbyggingu og viðhaldi aðstöðu á friðlýstum svæðum. Dæmi um þetta er þjóðgarðurinn í Skaftafelli sem eitt sinn þótti til fyrirmyndar. Með vísun í framkomin erindi stjórnar Náttúruverndar ríkisins og augljósa þörf telur minni hlutinn að hækka beri framlag til stofnunarinnar um 25 millj. kr.

3.      Náttúruverndarráð.
    Ráðið er nú að reyna að móta starfsemi sína samkvæmt nýjum lögum um náttúruvernd. Þar eru því lagðar fjölmargar skyldur á herðar og er tillaga um fjárveitingu, 2,5 millj. kr., í engu samræmi við þær. Með vísan í greinargerð frá Náttúruverndarráði er lagt til að veittar verði til viðbótar 3 millj. kr. þannig að heildarfjárveiting til ráðsins verði 5,5 millj. kr.

4.      Landmælingar Íslands.
     Stofnunin hefur lengi verið í fjársvelti og kortagerð í landinu hlotið af því mikinn skaða. Snertir það almennar upplýsingar, rannsóknir og skipulagsvinnu. Hér er lagt til að orðið verði við óskum stofnunarinnar um 15 millj. kr. viðbótarframlag á fjárlögum 1998.

5.      Náttúrugripasöfn.
    
Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1998 er Náttúrugripasafnið í Vestmannaeyjum eitt safna utan Reykjavíkur styrkt með sérstöku framlagi. Engin skýr rök komu frá umhverfisráðuneyti fyrir þessari tilhögun. Undirritaður efast ekki um að umrætt safn sé vel að stuðningi komið, en í þessum efnum verður að gera kröfu um jafnræði í stuðningi af hálfu ríkisins til slíkra stofnana sem reknar eru af sveitarfélögum eða öðrum. Því er lagt til að stofnaður verði safn liður, 5 millj. kr., sem úthlutað verði af ráðuneyti að höfðu samráði við fjárlaganefnd eftir að forstöðumönnum náttúrugripasafna hefur gefist færi á að sækja um framlög.

6.      Rannsóknastöðin á Kvískerjum.
    Málefni þetta hefur lent í útideyfu eftir allsérstætt upphaf. Því er lagt til að veittar verði 5 millj. kr. til viðbótar til verkefnisins á fjárlögum 1998.

7.      Kirkjubæjarstofa.
    Þar er um merka uppbyggingu á fræðslu- og rannsóknasetri að ræða og mælir minni hlutinn með því að orðið verði við óskum stjórnar stofunnar um fjárveitingu á fjárlögum 1998.

8.      Félag um verndun hálendis Austurlands.
    Mælt er með því að orðið verði við beiðni stjórnar félagsins um styrk að upphæð 1 millj. kr. á fjárlögum 1998. Undirritaður mælti með því við umfjöllun um safnlið í umhverfisnefnd að þessi fjárveiting yrði tekin af safnlið ráðuneytisins. Meiri hluti nefndarinnar féllst ekki á að skipta liðnum og því er hér gerð tillaga um sérmerkta fjárveitingu í þetta verkefni.

Alþingi, 30. nóv. 1997.



Hjörleifur Guttormsson.     




Fylgiskjal XIV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá utanríkismálanefnd.



    Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa og bréf fjárlaganefndar frá 20. október 1997. Nefndin fékk á sinn fund Stefán Hauk Jóhannesson, skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu.
    Eins og fram kom í áliti til fjárlaganefndar í fyrra telur utanríkismálanefnd mikilvægt að málefni utanríkisþjónustunnar séu til stöðugrar endurskoðunar í ljósi síbreytileika aðstæðna og með það fyrir augum að nýta takmarkaðan mannafla og fjármagn sem best.
    Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að utanríkisráðuneytið er þungamiðja utanríkis þjónustunnar og það verður að geta tryggt sendiráðunum þann stuðning sem þörf er á. Jafn framt verður ráðuneytið að geta annast eðlilega þjónustu við önnur ráðuneyti, t.d. við gerð alþjóðasamninga. Nauðsynlegt er að huga að eðlilegri uppbyggingu aðalskrifstofu ráðu neytisins um leið og starfsemi þjónustunnar er aukin erlendis. Ella er hætta á að ekki verði hægt að sinna mikilvægum alþjóðahagsmunum Íslendinga.
    Hluti af nútímasamskiptum er tölvutenging milli fjarlægra staða. Geta bætt fjarskipti og samskipti um tölvur án efa lækkað kostnað ef rétt er að staðið. Utanríkisráðuneytið hefur unnið að uppsetningu tölvukerfis fyrir málaskrá og nýtt til þess fjármuni sem ætlaðir voru til hagræðingar á þessu ári. Kostnaður við að koma þessu kerfi á í sendiráðum er verulegur en ekki er tryggð fjárveiting til verksins á næsta ári. Utanríkismálanefnd leggur áherslu á að eins góð tækni og völ er á sé notuð til samskipta milli ráðuneytis og sendiráða og telur að með því megi ná fram hagræðingu.
     Einn þáttur utanríkisþjónustunnar er rekstur fasteigna á erlendri grundu. Ástæða er til að ætla að ekki sé nægilega skipulega að viðhaldi þeirra staðið og að of litlum fjármunum sé varið til þessa þáttar. Það getur aftur leitt til umfangsmikilla endurbóta á þeim seinna meir eða lægra endursöluverðs. Nefndin beinir því til fjárlaganefndar að kanna sérstaklega þetta atriði, en í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að 11,9 millj. kr. renni til viðhalds fasteigna erlendis. Mikilvægt er að marka stefnu um hvenær eigi að fjárfesta í húsnæði fyrir starfs menn á erlendri grund og hvenær sé réttara að leigja það.
    Nefndarmenn benda á mikilvægi þróunarsamvinnu og vekja sérstaka athygli á því að unnið er að bátasmíðaverkefni í Malaví. Hefur ekki verið tryggt að 5 millj. kr. framlag sem Íslendingum ber að greiða á næsta ári verði innt af hendi. Hætta er því á að verkefnið, sem þegar er hafið, stöðvist.
    Að öðru leyti sér utanríkismálanefnd ekki ástæðu til að gera athugasemdir við frumvarpið að þessu sinni.

Alþingi, 19. nóv. 1997.



Geir H. Haarde, form.
Össur Skarphéðinsson.
Siv Friðleifsdóttir.
Svavar Gestsson, með fyrirvara.
Lára Margrét Ragnarsdóttir.
Árni R. Árnason.
Gunnlaugur M. Sigmundsson.
Tómas Ingi Olrich.
Kristín Ástgeirsdóttir, með fyrirvara.