Ferill 149. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 513 – 149. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um rafræna eignarskráningu verðbréfa.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Axelsson og Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Íslenskum fjárfestum hf., Undirbúningsfélagi verðbréfa skráningar Íslands hf., Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneyti, Verslunarráði Íslands, Sam bandi íslenskra viðskiptabanka, Verðbréfaþingi Íslands, Samtökum verðbréfafyrirtækja og Lögmannafélagi Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til það nýmæli í íslenskri löggjöf að tekin verði upp rafræn eignar skráning verðbréfa. Frumvarpið er hugsað sem almenn rammalöggjöf um slíka starfsemi og gera ákvæði þess m.a. ráð fyrir að einungis þau fyrirtæki hljóti starfsleyfi sem uppfyllt geta lágmarksskilyrði laganna um stofnfé og ábyrgðarsjóð og skilyrði sem sett eru stjórnar mönnum. Í fumvarpinu er að finna víðtækar heimildir til að setja reglur og reglugerðir um framkvæmd og fyrirkomulag ýmissa þátta á verksviði verðbréfamiðstöðva en slíkt er talið nauðsynlegt þar sem um nýmæli er að ræða.
    Við umfjöllun nefndarinnar um málið var sérstaklega rætt ákvæði frumvarpsins um þagnarskyldu. Í 1. mgr. 14. gr. er vikið að því að verðbréfamiðstöð sé óheimilt að veita upp lýsingar um skráð réttindi, sbr. þó ákvæði 8., 11., 24., 25. og 31. gr. Undantekning frá meginreglu 1. mgr. kemur fram í 2. mgr. þar sem segir að verðbréfamiðstöð sé heimilt að veita upplýsingar í hagtöluskyni að fenginni umsögn tölvunefndar. Nefndin telur sýnt að ákvæði 1. mgr. beri að túlka þröngt og að aðrir aðilar en þeir sem sérstaklega eru nefndir í frumvarpinu hafi ekki heimild til að fá upplýsingar um skráð réttindi í verðbréfamiðstöð, nema að undangengnum dómsúrskurði. Þannig hafi yfirvöld, t.d. skattyfirvöld, ekki heimild til að krefjast upplýsinga um skráð réttindi í verðbréfamiðstöð. Þetta á hins vegar ekki að fela það í sér að staða skattyfirvalda til að sinna eftirlitshlutverki sínu breytist frá því sem nú er.
    Þá skoðaði nefndin sérstaklega ákvæði 28. og 29. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um hlutlæga bótaábyrgð verðbréfamiðstöðva og reikningsstofnana. Ákvæði um hlutlæga ábyrgð er undantekning frá meginreglu skaðabótaréttar um sök sem skilyrði bótaábyrgðar og er ákvæðið hér sett að danskri fyrirmynd. Rökin fyrir þessu fyrirkomulagi eru fyrst og fremst þau að aðilar verði að geta treyst því að það sem skráð er í verðbréfamiðstöð sé rétt. Þetta fyrirkomulag er talið nauðsynlegt til að tryggja traust almennings á hinu nýja kerfi. Að mati nefndarinnar er því meginatriði að skapa traust þegar í upphafi en hugsanlegt er að endurskoða reglurnar síðar í ljósi reynslunnar.
    Einnig kannaði nefndin hvort rök væru fyrir því að bæta við ákvæði um lögræðisskort í 19. gr. frumvarpsins sem mótbáru, líkt og gildir um meiri háttar nauðung og fölsun sam kvæmt ákvæðinu. Í því sambandi er bent á að ólögráða einstaklingar geta orðið reiknings eigendur í verðbréfamiðstöð þó svo að fjárráð þeirra séu í höndum annarra, t.d. foreldra. Á reikning ber að skrá eiganda og þann sem að lögum hefur ráðstöfunarréttinn. Hvað varðar þá einstaklinga sem sviptir hafa verið lögræði má geta þess að samkvæmt nýjum lögræðis lögum, nr. 71/1997, sem taka gildi 1. janúar 1998, skal skrá athugasemd um sviptingu fjár ræðis á viðskiptabréf ef hinn fjárræðissvipti er eigandi slíks bréfs. Sama gildir um viðskiptabréf sem lögráðamaður kann að kaupa síðar fyrir skjólstæðing sinn. Í athugasemdum með ákvæðinu er þess m.a. getið að yfirlögráðandi skuli skrá slíka athugasemd um fjárræðissviptingu á viðskiptabréf. Yfirlögráðandi skuli að jafnaði sjá til þess sjálfur að umrædd athugasemd verði skráð, en ef bréfið er í vörslu lánastofnana ætti tilkynning með tryggum hætti og beiðni um slíka skráningu að nægja. Að mati nefndarinnar er ekkert sem kemur í veg fyrir rafræna skráningu slíkrar athugasemdar þannig að slíkar upplýsingar liggi ætíð fyrir og því er ekki talið nauðsynlegt að lögræðisskortur sé talinn sem sérstök mótbára í ákvæðinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til breyting á skilgreiningu á eignarskráningu í 2. gr. frumvarpsins. Síðari hluti skilgreiningarinnar er felldur brott þar sem um efnisreglu er að ræða og hann tekinn upp í 2. mgr. 16. gr. Þá er að auki gerð sú breyting að mæla fyrir um að eignarskráning rafbréfs í verðbréfamiðstöð veiti skráðum eiganda hennar lögformlega heimild fyrir þeim réttindum sem hann er skráður eigandi að í stað þess að nota orðalagið lögformleg sönnun. Síðari breytingin er gerð þar sem það tíðkast almennt að tala um heimild en ekki sönnun í þessu sambandi.
     2.      Lagt er til að 2. mgr. 7. gr. verði felld brott en hún kveður á um að breytingar á stjórn verðbréfamiðstöðvar skuli tilkynna til bankaeftirlits Seðlabankans innan tveggja vikna frá því að breytingin er gerð. Ákvæðið á sér ekki hliðstæðu í lögum um íslenskan fjár magnsmarkað.
     3.      Lögð er til sú breyting á 8. gr. að vísun til endurskoðenda er færð til í upptalningu þeirra sem óheimilt er að skýra frá nokkru því sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu eða stöðu sinni samkvæmt um hagi reikningseiganda, verðbréfamiðstöðvarinnar og viðskiptamanna hennar án undangengins dómsúrskurðar. Breytingin er lögð til þar sem endurskoðandi fyrirtækis getur ekki talist til starfsmanna þess eins og ákvæðið gerir ráð fyrir. Einnig má benda á að í nýjum lögum um endurskoðendur, nr. 18/1997, er í 7. gr. að finna ákvæði um þagnarskyldu endurskoðenda.
     4.      Lögð er til sú breyting á 9. gr. að gert er ráð fyrir því að verði endurskoðandi var við slíka ágalla í rekstri verðbréfamiðstöðvar að reikningar verði ekki undirritaður án fyrir vara skuli hann gera stjórn verðbréfamiðstöðvar og bankaeftirliti viðvart. Breytingin lýtur að því að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að unnt sé að undirrita reikninga með fyrirvara.
     5.      Lagðar eru til tvær breytingar á 10. gr. Annars vegar er bætt við nýjum tölulið þannig að Lánasýsla ríkisins fái auk þeirra sem taldir eru upp í greininni heimild til milligöngu um eignarskráningu í verðbréfamiðstöð. Breyting þessi er lögð til þar sem tilgangur frumvarpsins er ekki að þrengja starfsheimildir fjármálafyrirtækja. Hins vegar er lagt til að heimild fyrirtækja í verðbréfaþjónustu skv. 3. tölul. verði ekki takmörkuð við fyrirtæki sem hafa heimildir til fjárvörslu. Með slíkri takmörkun er verið að skerða möguleika fyrirtækja sem einungis hafa heimild til miðlunar skv. 1. mgr. 9. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996.
     6.      Lagt er til að ákvæði 3. mgr. 11. gr. um aðgang verðbréfasjóða að upplýsingum um skráða eigendur hlutdeildarskírteina verði gert skýrara.
     7.      Lagt er til að ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 12. gr. verði breytt en þar segir að í reglugerð sem ráðherra setur sé heimilt að ákveða heimildir verðbréfamiðstöðvar til gjaldtöku fyrir umsýslu með rafbréf og skráningu í tengslum vð þau. Breytingin miðar að því að ein ungis verði heimilt í slíkri reglugerð að kveða á um heimildir verðbréfamiðstöðvar til að ákvarða fyrirkomulag gjaldtöku enda er að mati nefndarinnar óeðlilegt að ráðherra stjórni verðlagningu á þjónustu einkafyrirtækis.
     8.      Lögð er til breyting á orðalagi 2. mgr. 14. gr. sem kveður á um að verðbréfamiðstöð sé heimilt að veita upplýsingar í hagtöluskyni að fenginni heimild tölvunefndar.
     9.      Lagðar eru til tvær breytingar á 15. gr. Annars vegar er lagt til að orðið nettun verði fellt brott úr 1. mgr. sem segir að Seðlabanki Íslands taki við innlánum frá reiknings stofnunum sem aðild eiga að verðbréfamiðstöð og annist efndalok (nettun) viðskipta þeirra með rafbréf. Óeðlilegt þykir að kveða á um eina tiltekna aðferð í ákvæðinu við efndalok viðskipta, þ.e. nettun eða jöfnun greiðslna. Samtímabókun greiðslna kynni að vera öruggari og í betra samræmi við alþjóðlegar venjur. Hins vegar er lagt til að Verðbréfaþing Íslands eigi aðild að samráðsnefnd þeirri sem getið er um í greininni en hún er einnig skipuð fulltrúum verðbréfamiðstöðva og Seðlabankans. Þetta þykir eðlilegt þar sem sú lagaskylda hvílir á nefndinni að setja reglur um uppgjör viðskipta.
     10.      Lagt er til að 2. mgr. 16. gr. verði breytt í samræmi við breytingar sem raktar eru í 1. lið hér að framan.
     11.      Lagðar eru til tvær breytingar á 2. mgr. 20. gr. Annars vegar er lagt til að skýrt sé að verðbréfamiðstöð sé einungis heimilt að hafa milligöngu um millifærslu fjármuna og réttinda fyrir hönd útgefanda, að ósk hans, til þess sem hefur rétt til að taka við greiðslu samkvæmt skráningu í miðstöðinni. Hins vegar eru lagðar til orðalagsbreytingar á 3. málsl. Þá er lagt til að 34. gr. frumvarpsins verði 3. mgr. 20. gr. þar sem nefndin telur réttara að ákvæðið tilheyri IV. kafla frumvarpsins um réttaráhrif skráningar o.fl. en X. kafla þar sem eru ákvæði um gildistöku og ýmis önnur ákvæði.
     12.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 22., 31. og 32. gr.
     13.      Lagðar eru til tvær breytingar á 25. gr. Annars vegar er lögð til orðalagsbreyting á fyrri málslið 1. mgr. en hins vegar er lagt til að felld verði brott heimild síðari málsliðar 6. mgr. til að setja reglur um greiðslu kostnaðar fyrir meðferð kærumáls og um birtingu úrskurða sem úrskurðarnefnd fellir. Nefndin telur óeðlilegt að ráðherra setji reglur um greiðslu slíks kostnaðar og að það sé ekki í samræmi við það sem almennt tíðkast, sbr. t.d. mál sem farið er með fyrir Samkeppnisráð og áfrýjunarnefnd samkeppnismála.
     14.      Lögð er til sú breyting á 1. mgr. 27. gr. að fjögurra vikna frestur sá sem aðilar máls skv. 26. gr. hafa til að bera úrskurð úrskurðarnefndar skv. 25. gr. undir dómstóla hefjist við það tímamark er úrskurður hefur verið tilkynntur aðilum en ekki við uppkvaðningu hans.
     15.      Lagt er til að gerð verði orðalagsbreyting á 1. mgr. 29. gr. um skaðabótaábyrgð reikningsstofnunar og ákvæðið samræmt ákvæði 1. mgr. 28. gr. um skaðabótaábyrgð verð bréfamiðstöðvar.
     16.      Lagt er til að við 30. gr. verði bætt nýrri málsgrein þar sem kveðið verði á um að stefna megi verðbréfamiðstöð og reikningsstofnun, sbr. 28. og 29. gr., sameiginlega (in solid um) til greiðslu skaðabóta þegar ekki liggur ljóst fyrir hvor aðilanna ber ábyrgð á tjóni.
     17.      Lagt er til að 34. gr. verði felld brott, sbr. athugasemdir við 9. lið hér að framan.
     18.      Loks er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæðum til bráðabirgða I og II. Breytingarnar miða að því að skýrt komi fram að eigandi áþreifanlegs verðbréfs verði ekki skyldaður til að láta eignarskrá eignarréttindi sín yfir verðbréfi með rafrænum hætti heldur sé um valkost að ræða.
    Loks bendir nefndin á að ýmis dæmi í almennum athugasemdum með frumvarpinu, er varða starfsemi verðbréfamiðstöðva, virðast takmarkast við þrengri skýringu á ákvæðum frumvarpsins en efni standa til samkvæmt skýru orðalagi lagagreina þess.

Alþingi, 10. des. 1997.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.



Sólveig Pétursdóttir.



Pétur H. Blöndal.



Valgerður Sverrisdóttir.



Einar Oddur Kristjánsson.



Jón Baldvin Hannibalsson.



Steingrímur J. Sigfússon.