Ferill 249. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 525 – 249. mál.


Breytingartillaga



við frv. til l. um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Frá Pétri H. Blöndal og Gunnlaugi M. Sigmundssyni.



         Við 2. gr. Í stað orðanna „velur viðkomandi“ í 2. málsl. 2. mgr. komi: getur viðkomandi þó valið.

Greinargerð.


    Ákvæði 2. gr. frumvarpsins um lagaskyldu fólks til að greiða til ákveðinna lífeyrissjóða er meginatriði frumvarpsins. Þau ákvæði kveða á um hvort fólk hafi sjálfsákvörðunarrétt til að velja sér lífeyrissjóð eða ekki. Samkomulag hefur náðst um að því fólki, sem nýti sér kjarasamninga að einhverju leyti, jafnvel að mjög litlu leyti, sé ekki heimilt að velja sér lífeyrissjóð heldur verði það skyldað til að greiða iðgjald til lífeyrissjóðs þess stéttarfélags sem að kjarasamningnum stendur.
    Hins vegar er ekki ljóst af svörum viðmælenda efnahags- og viðskiptanefndar hvernig skilja beri þessi ákvæði 2. gr. Spurt var: Bæri afgreiðslumanni í verslun í Reykjavík, sem ekki er í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur né öðru stéttarfélagi og er með ráðningarsamning við verslunina, sem á engan hátt tekur mið af kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur, að greiða iðgjald til Lífeyrissjóðs verslunarmanna ef verslunin sem hann starfar hjá er ekki í neinum samtökum atvinnurekenda og búið væri að lögfesta ákvæði 2. gr.? Svörin voru ýmist já eða nei.
    Þessi breytingartillaga er lögð fram til þess að skerpa á þeim skilningi að áðurnefndum afgreiðslumanni, sem engin tengsl hefur við Verslunarmannafélag Reykjavíkur eða Lífeyris sjóð verslunarmanna og launagreiðandi hans engin tengsl við samtök atvinnurekenda, sé ekki skylt að greiða til Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Hann hefur sjálfsákvörðunarrétt um val á lífeyrissjóði.