Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 558 – 55. mál.



Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1997.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nokkur mál hafa verið til umræðu í nefndinni fyrir 3. umræðu. Umfjöllun um þau mál er nú lokið í nefndinni og leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum við 2. gr. sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali, en þær nema alls 353,9 millj. kr. til lækkunar á gjaldahlið. Einstakar breytingartillögur eru skýrðar í athugasemdum með álitinu, auk þess sem fjallað verður um þær í framsögu. Einnig skal þess getið að í samræmi við endurskoðaða tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins er nú gert ráð fyrir í frumvarp inu að tekjur ríkissjóðs aukist um 854 millj. kr. frá fyrri áætlun og verði tæplega 131,8 milljarðar kr., sbr. breytingartillögu við 1. gr. frumvarpsins.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR

00 Æðsta stjórn ríkisins


201    Alþingi: Gerð er tillaga um að framlag til viðfangsefnisins 1.05 Alþjóðasamstarf þingmanna hækki um 2,5 millj. kr. vegna starfsemi skrifstofu Vestnorræna þingmanna ráðsins. Heildarkostnaður er 5 millj. kr. og greiða Grænlendingar og Færeyingar helming á móti Íslendingum.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti


426    Sýslumaðurinn á Seyðisfirði: Lagt er til að veita 1 millj. kr. vegna uppgjörs á kostnaði við búnað í tollstöð á Seyðisfirði. Á síðustu vikum byggingartíma hússins var ljóst að ekki hafði verið gert ráð fyrir lausum búnaði og ýmsum sérkröfum tollgæslunnar.

07 Félagsmálaráðuneyti


302    Ríkissáttasemjari: Lagt er til að hækka framlag til ríkissáttasemjara en útgjöld embættisins munu fara 5 millj. kr. umfram heimild fjárlaga á þessu ári. Skýrist það að hluta til af því að samningsaðilar hafa í sívaxandi mæli fengið aðstöðu til fundarhalda hjá embættinu þó svo að málum hafi ekki verið vísað til sáttameðferðar hjá því.
707    Málefni fatlaðra, Austurlandi: Gerð er tillaga um 1,6 millj. kr. aukafjárveitingu til svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Austurlandi. Í byrjun þessa árs var undirritaður samningur milli svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi og Ullarvinnslu frú Láru um verkstjórn og verndaða vinnuaðstöðu fyrir fatlaða á Seyðisfirði. Svæðisskrifstofan skuldbatt sig til að greiða 1,6 millj. kr. á þessu ári fyrir þá aðstöðu og er hér lögð til viðbótarfjárveiting til að standa undir þeim kostnaði.


09 Fjármálaráðuneyti


801    Ýmis lán ríkissjóðs, vextir: Lagt er til að heimild liðarins lækki um 480 millj. kr. Þegar áætlun um vaxtagreiðslur ríkissjóðs var endurmetin fyrir framlagningu frumvarpsins stóð enn þá yfir átak sem miðaði að því að innkalla ýmsa eldri flokka spariskírteina og fá eigendur þeirra til þess að skipta þeim í staðinn í svonefnda markflokka. Reiknað var með því að svipuð þróun yrði til ársloka og hafði verið frá því að endurskipulagning hófst snemma á árinu. Reyndin hefur hins vegar orðið sú að mun færri hafa nýtt sér tilboð um skiptikjör fyrir markflokka síðustu mánuði ársins en ætlað var.

10 Samgönguráðuneyti


211    Vegagerðin: Alls er lagt til að framlag til Vegagerðarinnar hækki um 116 millj. kr. og er það til samræmis við hækkun markaðra tekna til vegamála, sem áætlað er að falli til á þessu ári. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 10 millj. kr. viðbótarframlag til yfirstjórnar sem varið verði til kaupa og uppsetningar á upplýsingakerfi um þjóðvegi landsins sem ætlað er að þjóna áætlanagerð af ýmsum toga og upplýsingamiðlun til vegfarenda. Í öðru lagi er lagt til að veitt verði 16 millj. kr. aukafjárveiting til stuðnings við starfsemi sér leyfishafa þar sem reglur um endurgreiðslur á þungaskatti til sérleyfishafa voru þrengdar talsvert á árinu. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir 20 millj. kr. hækkun fjárheimildar til viðhalds sem ætlað er að mæta kostnaði við öryggisaðgerðir, einkum breikkun á brúnni á Laxá á Ólafsvíkurvegi. Að lokum er lögð til 70 millj. kr. hækkun fjárheimildar ferju og flóabáta og að hún renni til þess að greiða niður vexti og afborganir af eldri lánum til smíði á ferjum.

Alþingi, 15. des. 1997.



Jón Kristjánsson,


form., frsm.

Sturla Böðvarsson.     


Arnbjörg Sveinsdóttir.     



Árni Johnsen.     


Árni M. Mathiesen.     


Hjálmar Jónsson.     



Ísólfur Gylfi Pálmason.     


Fylgiskjal.


Greiðsluyfirlit ríkissjóðs.
(1. gr. fjáraukalagafrumvarps; að samþykktum breytingar-
tillögum meiri hluta fjárlaganefndar við 3. umr.)

          m.kr.
Tekjur
    Tekjuskattar          1.408,0
    Tryggingagjöld, launaskattar          610,0
    Eignarskattar          244,0
    Skattar á vörur og þjónustu          2.599,0
    Aðrar tekjur          696,0
Tekjur samtals           5.557,0

Gjöld
    Æðsta stjórn ríkisins          56,9
    Forsætisráðuneyti          92,0
    Menntamálaráðuneyti          161,7
    Utanríkisráðuneyti          492,6
    Landbúnaðarráðuneyti          229,8
    Dóms- og kirkjumálaráðuneyti          50,6
    Félagsmálaráðuneyti          255,1
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti          1.981,5
    Fjármálaráðuneyti          3.565,6
    Samgönguráðuneyti          384,3
    Iðnaðarráðuneyti          107,2
    Viðskiptaráðuneyti          52,8
    Hagstofa Íslands          4,2
    Umhverfisráðuneyti          95,2
Gjöld samtals           7.529,5
    Áætluð yfirfærsla heimilda til næsta árs          -1.134,0
Tekjur umfram gjöld           -838,5

Lánahreyfingar
    Veitt lán, nettó          3.495,0
     Hrein lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs           4.333,5
    Afborganir af teknum lánum          4.589,0
     Heildarlánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs           8.922,5
    Lántökur          8.900,0
Greiðslujöfnuður, sjóðsbreyting           -22,5