Ferill 92. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 685 – 92. mál.



Skýrsla



dómsmálaráðherra um rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



    Með beiðni (þskj. 92) ellefu þingmanna er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi sjálfstæða skýrslu um rannsókn sem fram fór í kjölfar umræðu á Alþingi um ásakanir á hendur lögreglu þess efnis að meintur fíkniefnasali starfaði í skjóli hennar. Var þess jafnframt farið á leit að ráðherra skilaði ítarlegri greinargerð og rökstuðningi um atriði sem talin voru upp í átta stafliðum.
    Í skýrslu þessari verður gerð grein fyrir aðdraganda málsins, niðurstöðum þeirrar rann sóknar sem efnt var til og aðgerðum sem gripið hefur verið til í kjölfarið. Þá verður svarað sér staklega þeim atriðum sem skýrslubeiðendur óska eftir ítarlegri greinargerð um og rökstuðn ingi við. Í skýrslunni er því óhjákvæmilega nokkuð um endurtekningar.

I.

    Með bréfi dómsmálaráðherra til ríkissaksóknara, dags. 19. mars 1997, var óskað eftir því að fram færi opinber rannsókn á samskiptum lögreglunnar í Reykjavík og Franklíns Kristins Steiner. Markmið þeirrar rannsóknar yrði að staðreyna sannleiksgildi fullyrðinga um að Franklín Steiner stundaði umfangsmikil fíkniefnaviðskipti, sem varði við refsilög, með vitund og samþykki lögreglunnar. Með því yrði sannreynt hvort lögreglumenn hafi, einn eða fleiri, gerst sekir um brot í opinberu starfi eða eftir atvikum gerst brotlegir við refsilög.
    Ríkissaksóknari svaraði þessu erindi með bréfi, dags. 20. mars 1997. Þar mælti ríkissak sóknari fyrir um opinbera rannsókn á fyrrgreindum sakarefnum með vísan til 1. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og var Rannsóknarlögreglu ríkisins falin sú rannsókn. Jafnframt lagði ríkissaksóknari til að skipaður yrði sérstakur rann sóknarlögreglustjóri til að annast stjórn þeirrar rannsóknar ásamt tilkvöddum aðstoðarmönn um, lögfræðingi og tveimur rannsóknarlögreglumönnum, með reynslu og þekkingu í rannsókn opinberra mála.
    Með bréfi, dags. 23. mars 1997, var Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður settur rannsóknar lögreglustjóri til að fara með rannsókn málsins, í samræmi við tilmæli ríkissaksóknara. Með bréfi ríkissaksóknara, dags. 1. apríl 1997, var Atla Gíslasyni jafnframt falin rannsókn á sakar efnum í tengslum við viðtal og frétt í Vikublaðinu, 11. tbl., 6. árg., 24. mars 1997.
    Settur rannsóknarlögreglustjóri skilaði niðurstöðum sínum til ríkissaksóknara með skýrslu, dags. 11. júní 1997. Skýrslunni og rannsóknargögnum er skipað í tólf kafla og fylgdu með skýrslunni tvær stórar skjalamöppur. Í bréfi setts rannsóknarlögreglustjóra til ríkissak sóknara, dags. 11. júní 1997, segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að skipulagi lögreglunnar í Reykjavík gagnvart ávana- og fíkniefnadeild, yfirstjórn og starfsháttum deildarinnar sé um margt ábótavant. Umsjón og eftirlit með störfum deildarinnar sé ófullnægjandi. Lögreglu fulltrúar deildarinnar, deildarlögfræðingar, aðstoðaryfirlögregluþjónar og yfirlögregluþjónar hafi ekki fylgt gildandi erindisbréfum og starfslýsingum í veigamiklum atriðum. Lögreglu stjóri virðist ekki hafa haft vitneskju eða yfirsýn yfir stöðu mála og ekki beitt sér fyrir nauðsynlegum úrbótum. Af ferilsskýrslu Franklíns K. Steiner megi sjá að fyrir hafi legið marg víslegar upplýsingar um mikil umsvif hans sem fíkniefnasala og fíkniefnaneytanda það tíma bil sem rannsóknin taki til, þ.e. frá ársbyrjun 1988 til ritunardags bréfsins. Mál hans hafi lítt verið rannsökuð eða ekki til hlítar. Tvö dæmi séu um rannsökuð mál, frá árinu 1988 og 1992, sem ekki hafi hlotið eðlilega framhaldsmeðferð. Þá eru í bréfinu rakin samskipti tveggja fyrrverandi lögreglufulltrúa í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík við Franklín Steiner, og segir í bréfinu að þeir hafi verið á tilgreindum tímabilum í upplýsinga- og trúnaðarsambandi við hann, að því er virðist án heimildar eða vitundar yfirstjórnar. Í bréfinu segir síðan að rannsóknarhópurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að fullyrðingar í grein í Vikublaðinu, um að lögreglumenn væru á launaskrá eiturlyfjasala, ættu ekki við rök að styðjast. Í niðurlagi bréfsins kemur fram að sú háttsemi, sem nánar sé lýst í skýrslu rannsókn arhópsins og snúi að rannsókn á samskiptum lögreglunnar í Reykjavík og Franklíns Steiner o.fl., kunni að varða við XIV. kafla og 173. gr. a og 173. gr. b almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 og við lög um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974. Er í þessu sambandi einnig vísað til III. kafla almennra hegningarlaga. Þá segir að fullyrðingar, sem birtust í Vikublaðinu, kunni að varða við XXV. kafla almennra hegningarlaga.
    Svo sem áður greinir afhenti settur rannsóknarlögreglustjóri ríkissaksóknara niðurstöður sínar 11. júní 1997, en dómsmálaráðuneytinu var afhent ljósrit af skýrslunni. Ríkissaksóknari sendi settum rannsóknarlögreglustjóra bréf, dags. 5. september 1997, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að ekki sé tilefni til aðgerða af hálfu ákæruvalds, og fékk ráðuneytið jafn framt afrit af því bréfi. Bréf ríkissaksóknara er svohljóðandi:
    „Ríkissaksóknara hefur borist skýrsla yðar, herra settur rannsóknarlögreglustjóri, ásamt rannsóknargögnum, sem fylgdu bréfi yðar, dagsettu 11. júní sl., varðandi það hvort lögreglumenn ávana- og fíkniefnadeildar við lögreglustjóraembættið í Reykja vík hafi, einn eða fleiri, gerst sekir um brot í opinberu starfi eða eftir atvikum gerst brotlegir við refsilög. Starfshópur hafði verið skipaður til að vinna að rannsókninni ásamt yður. Árétta ber að hlutverk ríkissaksóknara er hér sem í öðrum málum að ganga úr skugga um hvort það sem fram er komið við rannsóknina sé „nægilegt eða líklegt til sakfellis“, sbr. 112. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.
    Þar sem tilefni lögreglurannsóknar þessarar er mjög sérstakt þykir rétt að gera nokkra grein fyrir tildrögum hennar eins og þau koma fram í gögnum málsins.
    Aðaltilefnið virðist vera grein, sem birtist í marsmánuði sl. í 2. tbl. 14. árg. tíma ritsins Mannlíf, þar sem fullyrt var að Franklín K. Steiner stundaði stórfelld fíkni efnaviðskipti í skjóli fíkniefnalögreglunnar. Þegar eftir útkomu blaðsins fóru fram á Alþingi umræður utan dagskrár um starfsaðferðir fíkniefnalögreglunnar. Fyrir spyrjandi tók m.a. svo til orða:
    „ Hins vegar er full ástæða til þess að Alþingi krefjist þess að fram fari rannsókn á því hvort þessar fullyrðingar eru réttar, þar sem um er að ræða starfsheiður manna og ekki síður vegna þess að sagt er þannig frá starfsaðferðum fíkniefnalög reglunnar að útilokað er fyrir Alþingi að láta sem vind um eyru þjóta.
    Í framhaldi af þessum umræðum ritaði dómsmálaráðherra ríkissaksóknara bréf þann 19. mars sl. en þar segir:
    „ Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að beina því til yðar, herra ríkissaksóknari, að fram fari opinber rannsókn á samskiptum lögreglunnar í Reykjavík og Franklíns Kristins Steiner. Markmið þeirrar rannsóknar verði að staðreyna sannleiksgildi fullyrðingar um að Franklín Steiner stundi umfangsmikil fíkniefnaviðskipti sem varði við refsilög, með vitund og samþykki lögreglunnar. Með því verði sannreynt hvort lögreglumenn hafi, einn eða fleiri, gerst sekir um brot í opinberu starfi eða eftir atvikum gerst brotlegir við refsilög.

I.

    Lögreglurannsóknin er mjög rækileg. Hún tekur einkum yfir tímabilið frá ársbyrj un 1988 til dagsins í dag. Yfirheyrðir voru alls 48 manns. Við rannsóknina var lög reglufulltrúunum Arnari Jenssyni og Birni Halldórssyni, sem rannsóknin sýnist einkum hafa beinst að, svo og 29 núverandi og fyrrverandi lögreglumönnum og 8 yfirmönnum lögreglunnar, öllum ákveðin réttarstaða grunaðra manna. Þá voru 8 vitni yfirheyrð, bæði sakaráberar og vitni er tengdust einstökum atriðum málsins og einn grunaður til viðbótar.
    Í rannsókninni er fjallað um öflun upplýsinga, meðferð og vörslu fíkniefna, skipu lag, starfslýsingar og starfsskiptingar í ávana- og fíkniefnadeildinni. Þá var aflað gagna frá öðrum stofnunum og leitað var í skjalasafni og skrifstofum ávana- og fíkniefnadeildar svo sem tilefni þótti til.
    Ekki eru efni til að rekja hér í einstökum atriðum skýrslur þeirra sem yfirheyrðir voru, umfram þau tilvik er síðar verður sérstaklega vikið að. Í skýrslum lögreglu mannanna er sú almenna niðurstaða að þeir viti ekki til þess að Franklín Kristinn Steiner hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu eða afgreiðslu mála eða að þeir nefndu einstök dæmi um það. Handtökur og húsleitir hjá honum hafi farið fram með eðlileg um hætti. Þeir kváðust yfirleitt ekki hafa annað fyrir sér um meintar uppljóstranir Franklíns Kristins en orðróm eða orðasveim. Tveir fyrrverandi lögreglumenn hjá ávana- og fíkniefnadeild hafa talið að meint upplýsingasamband lögreglufulltrúanna og Franklíns Kristins hafi hindrað rannsóknir hjá honum. Engin sérstök dæmi eru þó nefnd þar um. Fram kom hjá þriðja lögreglumanninum, þótt hann tæki óbeint í sama streng, að Björn og Arnar hefðu oftar en einu sinni nefnt að ekki ætti að láta Franklín Kristin í friði.
    Svo er að sjá að ekki hafi verið full eining innan ávana- og fíkniefnadeildarinnar. Við skýrslutöku af lögfræðingi við embætti lögreglustjórans í Reykjavík varðandi ákveðið rannsóknarmál ræðir hann hiklaust um „höfuðóvini“ Björns Halldórssonar og „óvildarmenn“ hans. Eftir samhengi sínu verða þessi ummæli ekki öðruvísi skilin en svo að átt sé við menn innan lögreglunnar. Birni Halldórssyni virðist þetta ljóst og setur það í samband við að þeir hafi verið fluttir úr deildinni fyrir hans tilstilli. Kynni þetta að skýra þann óverulega mun sem er á milli framburða þeirra. Fyrrver andi deildarlögfræðingur ávana- og fíkniefnadeildar fann hjá sér hvöt, ekki aðspurð ur, við yfirheyrsluna, að taka fram og láta bóka sérstaklega að sér finnist „Björn Halldórsson hafa yfirburðaþekkingu á rannsóknum mála og vera afskaplega sam viskusamur maður.“
    Höfundur greinarinnar í Mannlífi var kvaddur til skýrslugjafar sem vitni. Upplýs ingar sínar kvað hann byggðar á mjög miklum fjölda trúnaðarsamtala við fólk, m.a. fólk sem stundar viðskipti með fíkniefni, menn úr fjölskyldu-, vina- og kunningja hópi Franklíns Kristins Steiner og við menn sem setið hafi með honum í fangelsi. Hann benti á og nafngreindi mann sem hann kvað lykilmann sinn í undirheiminum, sem hafi sína einkarannsókn á umsvifum Franklíns. Þá kvað hann annan lykilheim ildarmann sinn úr því sem hann kysi að kalla „kerfinu“. Hann kvað þetta vera embættismann sem hann vissi að gjörþekkti þessi mál, og hafi sá talið að menn væru „komnir langt út fyrir það sem lög leyfa“. Hann kvaðst ekki undir nokkrum kringum stæðum gefa upp nafn þessa manns vegna stöðu hans í kerfinu.
    Hinn nafngreindi lykilmaður, ásamt gæslufanga í hegningarhúsinu við Skóla vörðustíg, sem hlotið hefur dóma fyrir fíkniefnaviðskipti, voru yfirheyrðir. Fram burðir þeirra virðast gefa til kynna að undirrótin að andúð þeirra á Franklín Steiner sé reiptog milli aðila um fíkniefnamarkaðinn og að þeir telji Franklín hafa útvegað fíkniefnalögreglunni „fórnarlömb“ eins og það er orðað.
    Í umræðum utan dagskrár á Alþingi kom fram sakburður á hendur ávana- og fíkni efnadeildinni, sem þó var nokkuð óljós, um misbeitingu valds, jafnframt því að tekið var undir ásakanir í Mannlífsgreininni. Rannsóknarhópurinn leitaði til umræddra þingmanna um nánari skýringar og rökstuðning fyrir ásökununum. Í upplýsinga skýrslum lögreglumanna um þessi viðtöl kemur ekki fram neinn frekari rökstuðn ingur fyrir ásökununum þannig að á verði byggt. Renna þær því ekki stoðum undir lögreglurannsóknina.
    Lögreglurannsóknir í fíkniefnamálum eru að sumu leyti sérstaks eðlis. Þær hljóta samkvæmt eðli máls að vera mjög nærgöngular, fela í sér líkamsleitir, innvortis sem útvortis, tíðar húsleitir, leitir í bifreiðum og skyggningar. Söfnun upplýsinga um fíkniefnamarkaðinn er undirstöðuatriði ef árangur á að nást. Eðlilega kemur því til árekstra við einstaklinga og verður það ekki um flúið.
    Af öllum framangreindum rótum sýnist lögreglurannsókn þessi sprottin.

II.

    Í skýrslu yðar er gerð grein fyrir almennu skipulagi og vinnubrögðum í ávana- og fíkniefnadeild. Þau stjórnunarlegu atriði er þar greinir falla ekki undir verksvið emb ættis ríkissaksóknara og verður því ekki tekin afstaða til þeirra hér. Ekki verður talið að þar sé um refsiverð brot að ræða.
    Mál þetta snýst um uppljóstrun, hvort Franklín Kristinn Steiner hafi veitt ávana- og fíkniefnadeild upplýsingar um fíkniefnasala og þá sérstaklega hvort hann hafi fyrir þá sök fengið einhverja þá fyrirgreiðslu eða afgreiðslu sem deildinni var ekki heimilt að láta í té. Eins og áður segir hefur rannsóknin einkum beinst að lögreglu fulltrúunum Arnari Jenssyni og Birni Halldórssyni.
    Á grundvelli 1. mgr. 77. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, fylgir rannsóknargögnum greinargerð um rannsóknina, þar sem fram kemur samandregin lýsing á atriðum sem þér teljið ákæru geta beinst að. Verður að verulegu leyti við hana miðað hér á eftir varðandi einstök atriði.

Mál tengd Arnari Jenssyni.
    Arnar Jensson var í starfi lögreglufulltrúa hjá ávana- og fíkniefnadeild frá 1. janúar 1985 til 20. september 1990. Aðgerðir deildarinnar á tímabilinu 14. maí 1986 þar til Franklín K. Steiner fór í afplánun 5. maí 1990, sem lauk 8. júní 1991, voru a.m.k. 8 húsleitir, líkamsleitir og nálega stöðug upplýsingasöfnun um starfsemi hans. Sumar upplýsingarnar virðast án efa vera úr fíkniefnaheiminum. Afleiðingar tveggja þessara aðgerða voru að Franklín Kristinn hlaut tvo fangelsisdóma í Hæsta rétti og í héraði, samtals 29 mánuði.

„Furugrundarmálið“, mál nr. 62-157-88.
    Við rannsóknina kom fram mappa með máli merktu eins og að ofan greinir. Í möppunni er að finna afrit af framburðarskýrslum, úrskurðum, upplýsingaskýrslum o.fl., en skjöl virðist vanta í númeraröð gagnanna. Frumgögn málsins hafa ekki fund ist þrátt fyrir ítarlega leit. Athugun leiddi í ljós að málið mun aldrei hafa verið sent til framhaldsmeðferðar. Í sambandi við mál þetta var nafn Franklíns nefnt og hann handtekinn og gerð húsleit á heimili hans að Furugrund 77 í Kópavogi 15. febrúar 1988. Hann viðurkenndi við yfirheyrslu daginn eftir að eiga þau 134 g af hassi auk 4 g amfetamíns sem þar fundust. Ferill málsins er færður í kæruskrá og um afdrif þess er greint í henni að það hafi verið „sent fulltrúa 22.12.1988“. Arnar Jensson lögreglufulltrúi var erlendis u.þ.b. er málið var fullrannsakað. Sá sem færði kæru skrána kveðst hafa gengið frá málinu og sent það lögreglufulltrúa. Arnar synjar þvert fyrir að hafa lagt málið upp og kveðst ekki hafa hugmynd um hvað af frumritum þess hafi orðið og sagðist engar skýringar hafa á því að sakborningar í málinu hafi ekki hlotið refsingu. Hann segir það „alveg kristaltært að ég stakk þessu máli ekki undan“. Vísar hann í þessu sambandi til starfslýsingar, en samkvæmt henni sé það í verkahring deildarlögfræðings að taka ákvörðun um framhald máls að rannsókn lokinni.
    Ekki verður af rannsóknargögnum ráðið hver hafi orðið afdrif málsins. Væri hér um að ræða ásetningsbrot af hálfu lögreglufulltrúans, yfirmanns lögreglumannanna, hefur það líkurnar á móti sér að hann hefði skilið eftir ýmis gögn varðandi málið í fórum ávana- og fíkniefnadeildarinnar eins og raun er á hér. Þá sker áritunin frá 28.12.1988 ekki úr um það hvort málið hafi verið afhent lögreglufulltrúa eða lög lærðum fulltrúa við embættið.
    Með bréfi 12. júní sl. endursenduð þér lögreglustjóranum í Reykjavík afrit skjala málsins til ákvörðunar um framhald þess gagnvart sakborningum. Hinn 30. s.m. framsendi lögreglustjóri málið til ákvörðunar ríkissaksóknara, sem í dag hefur ákveðið að ekki verði gerðar kröfur um frekari aðgerðir á hendur sakborningum í málinu af hálfu ákværuvalds.
    Svo sem málavextir eru fram komnir í lögreglurannsókninni þykir ekki líklegt að ákæra gæti leitt til áfellisdóma.

Mál nr. 62-118-89 og mál nr. 62-124-90.
    Mál þessi eru sprottin af húsleitum á heimili Franklíns K. Steiner þann 28. júlí 1989 og 28. mars 1990. Tilefnið var það að hann var talinn hafa átt viðskipti með fíkniefni við þá er málum þessum tengdust. Ekkert er upplýst um að neitt hafi fundist eða bent til þeirra fíkniefnaviðskipta. Arnar heldur því fram að málin hafi verið eðli lega rannsökuð og fengið eðlilega meðferð. Ekki teljast efni til ákærugerðar af þess um tilefnum.

„Hegningarhússmálið“, mál nr. 63-27-90.
    Þetta mál er sprottið af því að 4. júní 1990 var Franklín tekinn með 2,6 g af hassi er hann var í vistun í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Arnar annaðist yfirheyrsl ur í málinu. Því lauk með agaviðurlögum fangelsisstjórnar.

    Niðurstaða af framanrituðu um ætluð brot Arnars er sú að enginn efni séu til út gáfu ákæru. Jafnvel þótt talið yrði hugsanlegt að fella einhver atvik undir ákvæði XIV. kafla almennra hegningarlaga, þá væru slík brot löngu fyrnd. Ekki verður séð hvaða tilgangi rannsóknin þjónaði í refsiréttarlegu skyni.
Mál tengd Birni Halldórssyni.
    Björn Halldórsson tók við starfi lögreglufulltrúa 14. september 1990 og hefur gegnt því síðan að undanskildu tímabilinu 1. september 1994 til 1. júní 1995. Frá 5. maí 1990 til 8. júlí 1991 afplánaði Franklín K. Steiner fangelsisrefsingu. Þá fékk hann reynslulausn til tveggja ára á 435 fangelsisdögum. Má ætla að hann hafi sýnt sérstaka varkárni vegna hennar. Stöðug upplýsingasöfnun sýnist hafa farið fram um hugsanlega fíkniefnastarfsemi Franklíns K. Steiner og þeirra aðila er álitnir voru tengjast honum. Telja má nokkuð víst að verulegur hluti upplýsinganna sé kominn fram vegna uppljóstrana frá samkeppnisaðilum Franklíns á fíkniefnamarkaðinum. Annað áðurgreindra vitna úr „undirheimunum“ hefur greint frá því að það sé „ekkert mál að taka á þessu máli, það þarf ekki annað en handtaka hann (FKS) þegar hann sé að fara að heiman frá sér, hann er oftast með efni á sér“. Vitnið taldi einnig að Franklín hefði ætíð nægar birgðir af fíkniefnum og væri meðal annars með efni heima hjá sér. Einnig taldi vitnið hann hafa þar talstöð sem hann gat notað til að hlusta á samskipti lögreglu í fjarskiptakerfinu. Ávana- og fíkniefnadeild hafa borist upplýsingar sem tilgreindar eru í rannsóknargögnum um vitni þetta, frá aðilum sem telja að það sé mjög virkur sölumaður á stórum skömmtum. Það muni líka höndla mikið með þýfi. Franklín muni hafi komið til þess að undanförnu. Það hafi komið við sögu brotamála. Um reynslu og viðhorf lögreglu í skýrslu hennar frá í mars 1989 segir að starfsmenn ávana- og fíkniefnadeildar hafi undanfarið reynt að afla eins mikilla upplýsinga um Franklín og ferðir hans og nokkur kostur var. Hann sé afar var um sig og borin von að unnt verði að hafa hendur í hári hans með hefðbundnum aðferðum. Hann berist ekki á svo grunsemdum valdi, eigi ekki peninga á banka reikningum, geri öll viðskipti sín undir fjögur augu og ávallt í reiðufé. Enn fremur segir í skýrslu rannsóknarlögreglumanns:
    „ Aðilar í fíkniefnaheiminum hér á landi sem og erlendis vinna eins og lögregla. Þeir safna upplýsingum um okkur og okkar vinnubrögð eins og við söfnum upp lýsingum um þá. Þeir skiptast á upplýsingum og vita nánast allt um okkur. Bifreiðar, vinnutíma, heimilisföng deildarmanna, fjölskyldur deildarmanna og fleira.
    Á tímanum frá því Franklín fékk reynslulausnina verður af gögnum rannsóknar innar ekki annað ráðið en stöðug eftirgrennslan og upplýsingasöfnun hafi verið í gangi varðandi ætlaða ólögmæta starfsemi hans með leitum og handtökum svo sem tilefni þóttu vera til af hálfu lögreglu. Hitt er svo annað mál að það er aðeins á færi rannsóknarmanna sjálfra að dæma á grundvelli þeirra heildarupplýsinga, sem fyrir hendi eru, hvenær tækifæri sé til aðgerða. Það var síðan 13. apríl 1996 að Franklín var handtekinn með fíkniefni, og lauk því máli svo í héraðsdómi að hann var dæmdur í fangelsi í 25 mánuði.

„Tunguvegsmálið“.
    Þann 15. apríl 1992 var Franklín handtekinn með fíkniefni af lögreglumönnum úr almennri deild lögreglunnar. Málið finnst ekki í kæruskrá ávana- og fíkniefna deildar og verður ekki séð hvort eða hvaða framhaldsmeðferð það hefur fengið. Hvorki finnast í málinu afrit né frumgögn önnur en húsleitarúrskurður og ljósrit efnaskrár nr. 3170. Hún sýnir kannabis 0,6 g og amfetamín 2,2 g og er dagsett 21. apríl 1992. Í eyðingarskrá, sem dagsett er 22. júní 1993, stendur „3170 EYÐING./. LAGT UPP. BH.“ Meðal rannsóknargagnanna eru þrjár eyðingarskrár, sem eru skýrslur og listar á nálægt 40 blaðsíðum. Númer sýnis er staðfest með upphafs stöfum lögreglumanns, deildarlögfræðings eða beggja. Eyðingin fer fram undir eftirliti Lyfjaeftirlits ríkisins. Lögreglumennirnir sem að handtökunni stóðu telja að skráin geti verið úr umræddu máli, segjast ekkert vita um framhald þess en reikna með því að málinu hefði verið lokið með lögreglustjórasátt þar sem ekki hafi verið um meira magn að ræða og sé það í samræmi við afgreiðslu svipaðra mála.
    Björn Halldórsson telur að mál af þessari stærðargráðu hefði farið í sektar meðferð. Hann kannaðist við skrána og taldi sig muna eftir handtökuskýrslu, hús leitarskýrslu og yfirheyrsluskýrslu í þessu máli. Áritunina (vélrituð) á eyðingar listann kvað hann benda til þess að hann hafi lagt málið upp en það sé ekki víst, það geti líka hafa verið með samþykki deildarlögfræðings.
    Eins og að framan greinir vantar flest gögn í málið til að fá viðhlítandi hugmynd um málavexti. Þykir því ekki unnt að staðhæfa að Björn hafi komið með ólögmætum hætti að málinu. Telst ákæra á hendur honum ekki líkleg til sakfellis.

„Kópavogsmálið“, mál nr. 37-1996-1136.
    Þetta varðar húsleit og handtöku Franklíns K. Steiner þann 13. apríl 1996 og eftir farandi héraðsdóm. Rannsókn virðist hafa verið lokið 30. apríl sama ár en málið hafi ekki verið framsent ríkissaksóknara fyrr en með bréfi dagsettu 9. október 1996. Lög reglufulltrúi gefur þá skýringu á þessum drætti að rannsókninni hafi ekki verið lokið þegar málið fór úr hans höndum og tilgreinir ástæður. Hvað sem því kann að líða er ljóst að dráttur sá er um ræðir gefur engin tilefni til refsiréttarlegra aðgerða.

III.

Mál varðandi reynslulausn og byssuleyfi.
    Að því er fundið að lögreglufulltrúarnir, Arnar og Björn, hafi gengið „erinda Franklíns K. Steiner“. Er í því sambandi nefnt að því er hinn fyrrnefnda varðar að hann hafi, ásamt yfirlögfræðingi í lögreglustjóraembættisins, borið fram tilmæli um að orðið yrði við óskum Franklíns um reynslulausn á helmingi dæmds refsitíma, þegar hann var í afplánun 1990–1991. Samkvæmt þágildandi reglugerð nr. 569/1988 um upphaf og lok fangavistar, annaðist Fangelsismálastofnun að fenginni umsögn fullnustunefndar, veitingu reynslulausnar, sbr. 3. og 4. gr. greindrar reglugerðar, sbr. 40. gr. alm. hgl. Að því er hinn síðarnefnda varðar er um að ræða meðmæli hans með umsókn Franklíns K. Steiner um skotvopnaleyfi á árinu 1994. Ekki er vitað til að þeir hafi fengið aðfinnslur yfirboðara sinna vegna framangreinds. Fjarri fer að um refsiverða háttsemi hafi verið að ræða og skiptir hér ekki máli hvernig menn kunna að líta á það að öðru leyti.

Greiðslur fyrir upplýsingar.
    Meðal rannsóknargagna er skrá yfir greiðslu fyrir upplýsingar frá því 30. apríl 1982 til 4. apríl 1997. Nema greiðslurnar á tímabilinu samtals 342.300 kr. Jafnframt fylgja skránni ljósrit fylgiskjala, sem öll eru árituð af yfirmanni hjá lögreglu og að jafnaði af lögreglustjóra. Hér má vísa til reglna um greiðslur til vitna hvort heldur þau mæta fyrir dómi eða lögreglu. Ekki er ástæða til að fjalla frekar um þetta atriði.

Önnur atriði.
    Sú regla hefur verið talin gilda að lögreglumönnum beri að hefja rannsókn af sjálfsdáðum liggi fyrir rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi og framkvæma hvað eina er horfir til glöggvunar á málavöxtum og lög leyfa. Lögreglumanni ber þannig að afla upplýsinga um brot og taka við upplýsingum sem fram eru bornar. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt þær kunni að vera veittar af afbrotamanni. Lög reglufulltrúarnir, Arnar og Björn, neituðu við lögreglurannsóknina að gefa upp nöfn þeirra er veitt höfðu þeim upplýsingar í trúnaði. Var þeim það bæði rétt og skylt, m.a. samkvæmt dómi Hæstaréttar 1985 bls. 1436 í fíkniefnamáli, þar sem vitni þótti eigi verða skyldað til að rjúfa slíkan trúnað en dómari mæti hins vegar hvort upplýs ingarnar gætu talist sönnunargögn gegn ákærða við úrlausn máls.
    Við lögreglurannsóknina athugast að eins og krafan um hana lá fyrir þá voru ekki efni til að boða lögregluliðið ásamt yfirmönnum þess, um 40 manns, og fá þeim réttarstöðu sakaðra manna, án þess að skýra fyrir hverjum og einum hvað hann hefði til saka unnið. Rétt hefði verið áður en til þess kom að kanna heimildir greinarinnar í Mannlífi og grundvöll þess sakaráburðar sem fram var fluttur við utandagskrárum ræðuna á Alþingi, svo ljóst væri hvort rökstuddur grunur væri fyrir hendi og uppfyllt væru skilyrði 1. mgr. 32. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.“
    Hinn 11. september 1997 barst ráðuneytinu bréf ríkissaksóknara, dagsett sama dag. Þar segir að embætti ríkissaksóknara vilji í framhaldi af afgreiðslu embættisins á lögreglurann sókn setts rannsóknarlögreglustjóra taka eftirfarandi fram:
    „Í skýrslu hans um rannsóknina, bls. 7–14, er fjallað almennt um skipulag ávana- og fíkniefnadeildar og niðurstaða dregin saman á bls. 14.
    Bréf setts rannsóknarlögreglustjóra samkvæmt 1. mgr. 77. gr. oml. er dagsett 11. júní sl., en þar segir svo:
    „ Rannsóknin leiðir í ljós að skipulagi lögreglunnar í Reykjavík gagnvart ávana- og fíkniefnadeild, yfirstjórn og starfsháttum deildarinnar er um margt ábótavant. Umsjón og eftirlit með störfum deildarinnar er ófullnægjandi. Lögreglufullrúar deildarinnar, deildarlögfræðingar, aðstoðaryfirlögregluþjónar og yfirlögreglu þjónar hafa ekki fylgt gildandi erindisbréfum og starfslýsingum í veigamiklum atrið um. Lögreglustjóri virðist ekki hafa haft vitneskju um eða yfirsýn yfir stöðu mála og ekki beitt sér fyrir nauðsynlegum úrbótum.
    Af þessari tilvitnun ásamt niðurstöðu kaflans um skipulag er ljóst að hann varðar almennt skipulag deildarinnar til skýringar á þeim meintu sakarefnum, sem síðar er um fjallað í skýrslunni. Vegna þessa þótti ákæra á grundvelli þeirra ágalla sem lýst er ekki líklega til sakfellingar. Er þá sérstaklega litið til XIV. kafla almennra hegn ingarlaga og fyrningarreglna, 81. gr., ef sök teldist vera fyrir hendi.
    Embætti ríkissaksóknara vill taka skýrt fram að utan verksviðs þess séu afskipti af skipulagi og stjórn einstakra lögreglustjóraembætta. Reglan í 2. málsl. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 74, 1974: „Hann (ríkissaksóknari) kveður á um rannsókn opinberra mála og hefur yfirstjórn hennar og eftirlit,“ var ekki tekin í lög nr. 19, 1991, sbr. einnig handbók um meðferð opinberra mála, gr. 3.1.4, um önnur verkefni ríkissaksóknara, bls. 158. Nú tekur 4. gr. lögreglulaga skýrlega af skarið um þetta, sbr. 5. gr. þeirra. Heimild ríkissaksóknara til að krefjast sérstakra rannsóknaraðgerða varðar aðeins „einstök mál“, sbr. 5. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 77. gr. oml.
    Með tilvísun til þess sem að framan er ritað telur embættið rétt og nauðsynlegt að kynna dómsmálaráðuneytinu þá ákvörðun sína að hefja ekki saksókn á grundvelli kaflans um skipulag ávana- og fíkniefnadeildar á bls. 7–14 í lögregluskýrslunni. Jafnframt eru ákvæði 26. gr. laganna um meðferð opinberra mála höfð í huga.“
    Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til dómsmálaráðuneytisins, dags. 17. september 1997, er komið á framfæri athugasemdum og upplýsingum í ljósi athugasemda, sem fram koma í rannsóknarskýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra um skipulag, stjórnun og boðleiðir innan og utan ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, þar sem skýrslan gefi ekki rétta mynd af rekstri deildarinnar á framangreindu tímabili. Athugasemdunum er komið á framfæri við ráðuneytið í formi bráðabirgðaskýrslu lögreglustjórans í Reykjavík til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Í bréfi lögreglustjóra segir jafnframt að hann muni fljótlega óska eftir því við ríkissaksóknara að fá afhent afrit allra gagna rannsóknarinnar, og í framhaldi af því muni lögreglustjóri taka saman endanlega skýrslu.
    Í kjölfar beiðni um skýrslu þessa var ríkissaksóknara ritað bréf, dags. 21. október 1997, þar sem m.a. var óskað eftir afstöðu hans til birtingar í heild eða að hluta á skýrslu setts rann sóknarlögreglustjóra. Ríkissaksóknari svaraði ráðuneytinu með bréfi dags. 5. nóvember 1997. Þar segir svo um þetta atriði:
    „Það hefur ekki tíðkast að gera lögreglurannsókn opinbera nema í þeim tilfellum ef til ákæru kemur og þá við þingfestingu hins opinbera máls. Nýju lögin um upp lýsingaskyldu stjórnvalda, nr. 50, 1996, breyta þessu ekki, heldur undanþiggja þær birtingu berum orðum í 1. mgr. 2. gr. Fréttamenn fjölmiðla hafa óskað eftir skýrsl unni til birtingar og skoðunar en því hefur verið synjað. Þykir engin heimild til að hverfa frá þeirri synjun þótt í hlut eigi alþingismenn.“

II.

    Verður nú vikið að þeim atriðum sem sérstaklega er óskað eftir að gerð verði grein fyrir í beiðni skýrslubeiðenda.

     a.      Hvað leiddi rannsóknin í ljós um stjórnskipulag lögreglunnar í Reykjavík og starfshætti fíkniefnadeildarinnar? Uppfyllti skipulag stofnunarinnar þær kröfur sem gera má til slíkrar stofnunar? Hefur ráðherra með einhverjum hætti brugðist við niðurstöu skýrsl unnar og þá hvernig?
     Í fyrrgreindu bréfi ríkissaksóknara, dags. 5. september 1997, til setts rannsóknarlögreglustjóra segir að í skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra sé gerð grein fyrir almennu skipulagi og vinnubrögðum í ávana- og fíkniefnadeild. Síðan segir: „Þau stjórnunarlegu atriði er þar greinir falla ekki undir verksvið embættis ríkissaksóknara og verður því ekki tekin afstaða til þeirra hér. Ekki verður talið að þar sé um refsiverð brot að ræða.“
     Í bréfi setts rannsóknarlögreglustjóra til ríkissaksóknara, dags. 11. júní 1997, segir um skipulag lögreglunnar í Reykjavík:
    „Rannsóknin leiðir í ljós að skipulagi lögreglunnar í Reykjavík gagnvart ávana- og fíkniefnadeild, yfirstjórn og starfsháttum deildarinnar er um margt ábótavant. Umsjón og eftirlit með störfum deildarinnar er ófullnægjandi. Lögreglufulltrúar deildarinnar, deildarlögfræðingar, aðstoðaryfirlögregluþjónar og yfirlögregluþjónar hafa ekki fylgt gildandi erindisbréfum og starfslýsingum í veigamiklum atriðum. Lögreglustjóri virðist ekki hafa haft vitneskju um eða yfirsýn yfir stöðu mála og ekki beitt sér fyrir nauðsynlegum úrbótum.“
    Svo sem þegar er rakið sá ríkissaksóknari ástæðu til að senda ráðuneytinu bréf, dags. 11. september 1997, þar sem framangreind ummæli í bréfi setts rannsóknarlögreglustjóra eru gerð að umtalsefni. Fram kom í því bréfi að hann taldi að ákæra á grundvelli þeirra ágalla sem að framan er lýst væri ekki líkleg til sakfellingar. Sagði jafnframt að það væri utan verksviðs embættis ríkissaksóknara að hafa afskipti af skipulagi og stjórn einstakra lögreglustjóra embætta. Lögreglustjórinn í Reykjavík ritaði ráðuneytinu bréf, dags. 17. september 1997, þar sem hann kom á framfæri athugasemdum og upplýsingum í ljósi athugasemda, sem fram koma í rannsóknarskýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra. Taldi lögreglustjórinn í Reykjavík að skýrslan gæfi ekki rétta mynd af rekstri ávana- og fíkniefnadeildar tímabilið 1988–97. Með bréfinu fylgdi bráðabirgðaskýrsla lögreglustjórans í Reykjavík vegna skipulagskafla rannsóknarskýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra. Í bréfi lögreglustjórans í Reykjavík segir síðan:
    „Ég mun fljótlega óska eftir því við ríkissaksóknara að hann afhendi mér afrit allra gagna rannsóknarinnar, og mun í framhaldi af því taka saman endanlega skýrslu. Það er miður að Atli Gíslason skyldi ekki gefa embættinu kost á að koma að athugasemdum við skýrsluna áður en hann sendi ríkissaksóknara hana en þannig hefði hún getað orðið réttari heimild um skipulagsmál embættisins. Þetta gerir það að verkum að þessi áfangaskýrsla mín þarf að vera allítarleg.“
    Skýrslubeiðendur spyrja hvort skipulag stofnunarinnar hafi uppfyllt þær kröfur sem gera megi til slíkrar stofnunar. Settur rannsóknarlögreglustjóri kemst ótvírætt að þeirri niðurstöðu að svo hafi ekki verið.
    Ljóst er að skýrsla setts rannsóknarlögreglustjóra bendir til þess að annmarkar hafi verið á skipulagi innan ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Rétt er að árétta það sem fram kemur í bréfi ríkissaksóknara til setts rannsóknarlögreglustjóra að hann telur að ekki sé um refsiverð brot að ræða að því er varðar atriði í skýrslunni er lúta að skipulagi og vinnubrögðum í ávana- og fíkniefnadeild. Um þetta atriði má einnig nefna að dómsmálaráð herra hefur á liðnum árum gert ýmsar athugasemdir við atriði í skipulagi lögreglunnar í Reykjavík, sem einnig tengjast heildarskipulagi löggæslu hér á landi. Leiddi það m.a. til endurskoðunar á lögreglulögum, en í framhaldi af þeirri endurskoðun voru samþykkt á Alþingi ný lögreglulög, nr. 90/1996. Róttækar breytingar voru einnig gerðar á skipulagi inn an lögreglunnar í Reykjavík, m.a. vegna gildistöku umræddra laga, 1. júlí 1997. Þær breyt ingar hafa leitt til þess að skipulagslega er stjórnun og ábyrgð yfirstjórnar lögreglunnar í Reykjavík nú með eðlilegum hætti. Þá má geta þess að sumarið 1996 átti dómsmálaráðherra fund með yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík þar sem ráðherra lagði sérstaka áherslu á virk ara eftirlit og stjórnun af hálfu yfirstjórnar gagnvart fíkniefnadeild lögreglunnar.

     b.      Leiddi rannsóknin í ljós að lögreglan sinnti ekki ábendingum um starfsemi meints fíkniefnasala og voru rannsóknir á hendur honum jafnítarlegar og efni stóðu til? Þótti settum rannsóknarlögreglustjóra ástæða til þess að frekari rannsókn færi fram?
    Í bréfi ríkissaksóknara til ráðuneytisins, dags. 5. nóvember 1997, segir svo um þetta:
    „Hér er eins og áður í engu skeytt um greinargerð ríkissaksóknara frá 5. september sl. Þar er þó gerð grein fyrir rannsóknaraðgerðum gagnvart hinum meinta fíkniefna sala bæði meðan Arnar Jensson var lögreglufulltrúi og eins á tíma Björns Halldórs sonar og er árangurs getið. Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir þeirri almennu skoðun lögreglumanna að þeir viti ekki til þess að meintur fíkniefnasali hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu eða afgreiðslu mála. Þeir kváðust heldur ekki hafa annað fyrir sér um uppljóstranir hans en orðróm eða orðsveim. Einstök dæmi gat enginn þeirra nefnt. Verulegur hluti þeirra skjala sem fyllir áðurgreindar skjalamöppur hefur að geyma upplýsingar sem ávana- og fíkniefnadeild hefur aflað varðandi þennan mann og viðskiptamenn hans. Enga einstaka ábendingu er að finna í skýrslu setts rann sóknarlögreglustjóra um að ekki hafi verið unnið úr upplýsingum eins og efni stóðu til. Um upplýsingar þessar er annars að segja að á stökum upplýsingum er sjaldnast hægt að byggja öðru vísi en meta þær allar saman heildstætt. Þær eru á öllum stigum um sönnunargildi og trúverðugleika allt niður í það að vera frambornar af ónafngreindri persónu í símsvara lögreglunnar. Hins vegar er ávana- og fíkniefna deildin nánast afvopnuð nýti hún sér ekki alla möguleika til öflunar upplýsinga.
    Settur rannsóknarlögreglustjóri bendir á að ástæða kunni að vera til að skoða pen ingaleg umsvif viðkomandi manns, en telur að tæpast gefi rannsóknarfyrirmæli tilefni til þess auk þess sem slík rannsókn mundi kalla á sérfræðiaðstoð, svo sem embættis skattrannsóknarstjóra eða löggiltra endurskoðenda. Framhaldsrannsókn kom til umræðu á meðan athugun fór fram hjá embættinu. Tæpast verður á það fallist að rannsóknarfyrirmælin hafi verið svo ófullnægjandi að rannsókn á fjármálum mannsins yrði ekki við komið eða þörf væri hinnar tilgreindu sérfræðiaðstoðar. Eng in líkindi eru á að hann hafi fært bókhald yfir fíkniefnaviðskipti sín. Í greinargerð inni frá 5. september sl. er lýst þeirri skoðun ávana- og fíkniefnalögreglu að hann sé afar var um sig og borin von að unnt verði að hafa hendur í hári hans með hefð bundnum aðferðum. Hann berist ekki á, eigi ekki peninga á bankareikningum, geri öll viðskipti undir fjögur augu og ávallt í reiðufé. Augljóst er að örðugt eða ómögu legt er að hafa upp á hugsanlegum sjóðum hans, hann getur átt þá í seðlum í bankahólfum eða annarri geymslu eða hvar sem vera skal í innlánsstofnunum á nöfn um annarra aðila.“
    Lögreglurannsókn setts rannsóknarlögreglustjóra er mjög rækileg. Yfirheyrðir voru ná lægt 40 núverandi og fyrrverandi lögreglumenn ásamt yfirmönnum lögreglunnar og var þess um aðilum öllum ákveðin réttarstaða grunaðra manna. Í rannsókninni er fjallað um öflun upp lýsinga, meðferð og vörslu fíkniefna, skipulag, starfslýsingar og starfsskiptingu í ávana- og fíkniefnadeildinni. Þá var aflað gagna frá öðrum stofnunum og leitað í skjalasafni á skrifstofu ávana- og fíkniefnadeildar svo sem tilefni þótti til. Skýrsla hins setta rannsóknarlögreglu stjóra er 33 bls. en henni fylgdu gögn í tveimur stórum skjalamöppum.
    Með hliðsjón af bréfum ríkissaksóknara, dags. 5. september og 5. nóvember 1997, verður hvorki séð að rannsóknin hafi leitt í ljós að lögregla hafi í ákveðnum tilvikum ekki sinnt ábendingum um starfsemi meints fíkniefnasala né að rannsóknir hafi í ákveðnum tilvikum ekki verið jafnítarlegar og efni stóðu til. Vísast í þessu sambandi sérstaklega til umfjöllunar í bréfi ríkissaksóknara til setts rannsóknarlögreglustjóra, dags. 5. september 1997. Varðandi frekari rannsókn benti settur rannsóknarlögreglustjóri á í skýrslu sinni að ástæða kynni að vera til að skoða peningaleg umsvif Franklíns Steiner. Ríkissaksóknari tók afstöðu til þeirrar athugasemdar svo sem áður greinir.

     c.      Hver var undanfari þess að ákvörðun var tekin um að dæmdum fíkniefnasala var veitt reynslulausn eftir hafa afplánað helming refsivistar? Hver tók þá ákvörðun og hvaða með ferð fékk málið í stjórnsýslunni? Hvaða almennar reglur gilda eða eftir hvaða sjón armiðum er farið þegar ákvörðun er tekin um reynslulausn sakborninga sem hafa afplánað helming fangelsisvistar? Samræmist umrædd ákvörðun þeim reglum?
    Með bréfi dags. 28. maí 1997 fór settur rannsóknarlögreglustjóri fram á það við dóms- og kirkjumálaráðuneytið að það skilaði skýrslu um meðferð á beiðni um reynslulausn sem Franklín Steiner setti fram 18. febúar 1991 og afgreidd var endanlega 4. júlí 1991. Í bréfi ráðuneytisins til setts rannsóknarlögreglustjóra, dags. 6. júní 1997, segir svo um meðferð málsins:
             „1.     Með bréfi mótteknu í Fangelsismálastofnun ríkisins 18. febrúar 1991 fer Franklín Kristinn fram á að honum verði veitt reynslulausn af helmingi refsingar sam kvæmt eftirgreindum refsingum:
                            —      9 mánaða fangelsi, að frádreginni 2 daga gæsluvarðhaldsvist, samkvæmt dómi sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum uppkveðnum 29. maí 1989.
                            —      20 mánaða fangelsi, að frádreginni 4 daga gæsluvarðhaldsvist, samkvæmt dómi Hæstaréttar uppkveðnum 8. júní 1989.
              2.     Fullnustumatsnefnd fjallaði um erindi Franklíns Kristins á fundi 1. mars 1991. Taldi nefndin ekki rök mæla með erindinu. Með vísan til 3. gr., sbr. 4. gr. reglu gerðar nr. 569/1988, sbr. 40. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, hafnaði Fangelsismálastofnun ríkisins framkominni beiðni með bréfi dags. 4. mars 1991.
              3.     Með bréfi dags. 9. apríl 1991 sendi Franklín Kristinn dómsmálaráðherra bréf þar sem hann „kærir“ til ráðherra ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins frá 4. mars 1991.
              4.     Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 28. júní 1991 til Fangelsismálastofnunar ríkisins er þess óskað að mál Franklín Kristins verði á ný lagt fyrir fullnustumatsnefnd til umsagnar.
              5.     Með bréfi Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 4. júlí 1991, er Franklín Kristni tilkynnt að fullnustumatsnefnd hafi fjallað um erindið á ný á fundi 28. júní 1991, þar sem lagt hafi verið til að erindið yrði samþykkt. Með vísan til 3. gr., sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 569/1988, sbr. 40. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, ákvað stofnunin að Franklín Kristni yrði veitt reynslulausn af helmingi frá og með 8. júní 1991.
                                 Svo sem að framan greinir bar það undir Fangelsismálastofnun ríkisins að veita reynslulausn, eftir umsögn fullnustumatsnefndar. Þegar fyrir lá erindi Franklíns Kristins um endurskoðun á ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins var sú ákvörðun tekin í dómsmálaráðuneytinu að leita eftir nýrri umsögn fulln ustumatsnefndar. Að henni fenginni tók Fangelsismálastofnun ríkisins um það ákvörðun að veita umbeðna reynslulausn. Kom þá ekki til þess að ráðuneytið fjallaði efnislega um málið sem stjórnvald á æðra stjórnsýslustigi. Að öðru leyti en hér hefur verið gerð grein fyrir liggja ekki fyrir í ráðuneytinu gögn um önnur afskipti ráðuneytisins af meðferð beiðni Franklíns Kristins um reynslulausn, frá 18. febrúar 1991.“
    Sú meðferð mála varðandi reynslulausn sem að framan er lýst heyrir nú sögunni til. Um sagnir fullnustumatsnefndar, sem starfaði samkvæmt reglugerð nr. 568/1988, voru ekki rök studdar sérstaklega meðan hún starfaði, en hún var lögð niður með reglugerð nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma. Umsögn nefndarinnar var hvorki andstæð lögum né venjubundinni framkvæmd hjá nefndinni á þessum tíma. Með fyrrgreindri reglugerð, sem sett var 28. janúar 1993, var ákveðið að fanga skyldi að jafnaði ekki veitt reynslulausn þegar liðinn er helmingur refsitímans, ef hann afplánar refsingu fyrir m.a. meiri háttar fíkniefnabrot eða hann hefur áður afplánað óskilorðsbundnar refsingar tvívegis eða oftar, nema sérstakar ástæður mæli með, þar með talið lengd refsingar, persónulegar aðstæður og framúrskarandi hegðun í refsivistinni.

     d.      Hver var rökstuðningur ríkissaksóknara fyrir því að ákæra ekki að lokinni rannsókn málsins?
    Í bréfi ríkissaksóknara, dags. 5. nóvember 1997, til ráðuneytisins segir svo um þetta atriði:
    „Svar við þessari spurningu er að finna í greinargerð ríkissaksóknara frá 5. september sem áður er vikið að. Rannsóknari lét fylgja skýrslu sinni bréf samkvæmt 1. mgr. 77. gr. oml. þar sem rakin voru út í hörgul þau atriði er kynnu að gefa tilefni til ákæru. Þessu var svarað lið fyrir lið í greinargerðinni og vísast til hennar.“
    Við þetta svar ríkissaksóknara er engu að bæta.

     e.      Fór lögregla fram á það við ríkissaksóknara eða dómsmálaráðherra að settar yrðu reglur sem farið yrði eftir þegar óhefðbundnar rannsóknaraðferðir væru nauðsynlegar? Voru þessar reglur gefnar út og þá hvenær?
    Lögregla hefur ekki farið formlega fram á það við dómsmálaráðuneytið að settar yrðu reglur um óhefðbundar rannsóknaraðferðir. Verkefnisstjórn dómsmálaráðherra vegna átaks í ávana- og fíkniefnamálum, sem skipuð var af dómsmálaráðherra snemma árs 1996, lagði til að dómsmálaráðherra léti í samvinnu við embætti ríkissaksóknara hefja undirbúning að samningu skýrra verklagsreglna um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir í ávana- og fíkniefna málum. Í þeirri vinnu yrði jafnframt kannað hvort skerpa þyrfti reglur um landsumboð ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík auk þess sem athugað yrði hvort æskilegt væri að setja reglur um heimild ávana- og fíkniefnadeildar til að greiða fyrir upplýsingar sem leiða til að upplýst eru stærri brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Athugun á óhefðbundnum rann sóknaraðferðum var einnig til skoðunar í vinnuhópi ráðuneytisins um samstarf tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli og ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík sem komið var á laggirnar árið 1996. Var þar m.a. safnað upplýsingum um reglur hvað þetta varðar í nágrannalöndum okkar. Dómsmálaráðherra fól síðan ríkislögreglustjóra, með bréfi dags. 29. júlí sl., að gera tillögur um slíkar reglur.
    Í bréfi ríkissaksóknara til ráðuneytisins frá 5. nóvember 1997 segir um þetta atriði:
    „Í málinu ræðir sums staðar um „óhefðbundnar rannsóknaraðferðir“ án þess að nánar sé tilgreint við hvað sé átt, sbr. e-lið. Þetta getur verið þægilegt orðalag bæði í ræðu og riti, ef menn vilja koma sér undan að skilgreina frekar við hvað sé átt. En hér mun helst átt við uppljóstrara og tálbeitur. Að því er best verður séð hefur ávana- og fíkniefnadeild stuðst við svipaðar reglur og notaðar eru í Skandinavíu og það sem íslenskir fræðimenn hafa um þetta ritað (próf. Jónatan Þórmundsson). Að því er uppljóstrara snertir er venjulega um að ræða prívat samband hans og lögreglumanns, sem háður er algerri þagnarskyldu um uppljóstrarann, sbr. Hrd. 1985 bls. 1436. En að notkun uppljóstrara var ekkert fundið í því máli. Sama er að segja um notkun tálbeitu, sem reyndi á í hæstaréttarmáli er snerist um stórt fíkniefnamál, sbr. Hrd. 1993 bls. 1081. Þar var heldur ekkert að notkun tálbeitu fundið. Hitt er svo annað mál að varkárni er þörf við notkun tálbeitu.
    Af þessu er alveg augljóst að notkun þessara svokölluðu óhefðbundnu rannsókna er fyllilega lögmæt. Nú mun vera í gangi vinna til undirbúnings reglna um þær og því ekki ástæða til að fjölyrða frekar um þær.“

     f.      Brást ráðherra á einhvern hátt við skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra og þá hvernig?
    Skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra var beint til ríkissaksóknara í samræmi við lög um meðferð opinberra mála sem tók ákvörðun um að aðhafast ekki frekari í málinu. Settur rann sóknarlögreglustjóri afhenti dómsmálaráðuneytinu afrit skýrslunnar og bréfs til ríkissak sóknara, dags. 11. júní 1997. Í bréfi ríkissaksóknara til ráðuneytisins, dags. 11. september 1997, er vísað til þess að það falli utan verksviðs ríkissaksóknara að hafa afskipti af stjórn einstakra lögreglustjóraembætta. Síðan segir svo:
    „Reglan í 2. málsl. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 74, 1974: „Hann (ríkissaksóknari) kveð ur á um rannsókn opinberra mála og hefur yfirstjórn hennar og eftirlit,“ var ekki tekin í lög nr. 19, 1991, sbr. einnig handbók um meðferð opinberra mála, gr. 3.1.4, um önnur verkefni ríkissaksóknara, bls. 158. Nú tekur 4. gr. lögreglulaga skýrlega af skarið um þetta, sbr. 5. gr. þeirra. Heimild ríkissaksóknara til að krefjast sérstakra rannsóknaraðgerða varðar aðeins „einstök mál“, sbr. 5. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 77. gr. oml.
    Með tilvísun til þess sem að framan er ritað telur embættið rétt og nauðsynlegt að kynna dómsmálaráðuneytinu þá ákvörðun sína að hefja ekki saksókn á grundvelli kaflans um skipulag ávana- og fíkniefnadeildar á bls. 7–14 í lögregluskýrslunni. Jafnframt eru ákvæði 26. gr. laganna um meðferð opinberra mála höfð í huga.“
    Að öðru leyti vísast til þess er getur hér að framan í a-lið, m.a. varðandi þær skipulags breytingar sem þegar hafði verið ráðist í hjá lögreglunni í Reykjavík fyrir þá rannsókn sem hér er til umfjöllunar.

     g.      Hvers vegna var ekki skipaður sérstakur saksóknari í þessu máli? Komu ekki vanhæfissjónarmið til skoðunar innan ráðuneytisins áður en sú ákvöðun var tekin að skipa ekki sérstakan ríkissaksóknara í málinu þar sem rannsóknin beindist að starfsháttum lögreglu við rannsóknir opinberra mála og ríkissaksóknari hefur stöðu sinnar vegna eftirlit með þeim? Hyggst ráðherra nýta sér heimildir 1. og 2. tölul. 26. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, með því að krefja ríkissaksóknara skýrslu um málið eða hyggst hann leggja til við forseta Íslands að ákvörðun ríkissaksóknara verði breytt og setja sérstakan saksóknara í málið?
    Þær reglur sem gilda um hæfi manna samkvæmt stjórnsýslulögum og lögum um meðferð opinberra mála lúta að því, þegar um yfirmann stofnunar er að ræða, að hann meti sjálfur hvort hann víki sæti, sbr. 2. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga. Það er því ekki undir veitingarvalds hafa að meta í einstökum tilvikum hvort viðkomandi embættismaður er vanhæfur til með ferðar tiltekins máls.
    Eins og að framan er rakið hófst rannsókn þessa máls með því að ríkissaksóknari mælti fyrir um að opinber rannsókn skyldi fara fram til að staðreyna sannleiksgildi fullyrðinga um að Franklín Steiner stundaði umfangsmikil fíkniefnaviðskipti, sem varði við refsilög, með vitund og samþykki lögreglunnar. Með því yrði sannreynt hvort lögreglumenn hafi, einn eða fleiri, gerst sekir um brot í opinberu starfi eða eftir atvikum gerst brotlegir við refsilög. Var þetta í samræmi við þær óskir sem dómsmálaráðherra setti fram í bréfi sínu til ríkissaksókn ara, þar sem óskað var eftir því að ríkissaksóknari beitti sér fyrir því að opinber rannsókn færi fram á framangreindum meintum sakarefnum. Rannsókn setts rannsóknarlögreglustjóra beindist ekki að ríkissaksóknara eða meðferð mála hjá embætti ríkissaksóknara. Ekkert bend ir því til þess að ríkissaksóknari hafi verið vanhæfur til að taka ákvörðun um framhald máls þessa á grundvelli skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra. Ríkissaksóknari er samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála æðsti handhafi ákæruvalds og er því stöðu sinnar vegna í tengslum við öll opinber mál. Það eitt leiðir hins vegar ekki til vanhæfis hans í þessu tilviki.
    Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að nýta sér heimild 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð opin berra mála, og krefja ríkissaksóknara skýrslu um málið. Hvað það varðar er til þess að líta að greinargerð ríkissaksóknara frá 5. september 1997, um að aðhafast ekki frekar í máli þessu, er ítarlega rökstudd. Í öðru lagi skilaði ríkissaksóknari ráðuneytinu sérstöku bréfi sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan og dagsett er 11. september 1997. Vísar hann þar sérstaklega í 26. gr. laga um meðferð opinberra mála.
    Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga um meðferð opinberra mála er það skilyrði að ákvörðun ríkissaksóknara um að fella mál niður sé lögum andstæð eða fjarstæð að öðru leyti til að unnt sé að leggja það til við forseta Íslands að ákvörðun ríkissaksóknara verði felld úr gildi. Fer því fjarri að öðru hvoru framangreindra skilyrða sé fullnægt.
    Í bréfi ríkissaksóknara til ráðuneytisins, dags. 5. nóvember 1997, segir um þetta atriði:
    „Í staflið g er spurt hvers vegna ekki hafi verið skipaður sérstakur saksóknari í þessu máli.
    Að því er þessa hlið málsins varðar skal tekið fram: Þegar sleppir umfjöllun rann sóknara um lögreglustjóraembættið (bls. 7–14 incl) þá beinist rannsóknin að þeim Arnari og Birni. Engum athugasemdum í skýrslum rannsóknara er beint gegn emb ætti ríkissaksóknara. Þótt lögreglumenn hafi verið hafðir fyrir sökum hefur það aldrei tíðkast að ríkissaksóknari víki sæti af því einu. Það var sérstaklega skoðað hvort einhver önnur atriði væru í málinu sem gætu valdið því að honum bæri að víkja sæti, en þau fyrirfundust ekki.
    Í setningu þeirri sem tilfærð er í bréfi ráðuneytisins og tekin er úr greinargerð með beiðninni er talað um ríkissaksóknara sem yfirmann rannsóknar opinberra mála og dómsmálaráðherra sem yfirmann lögreglunnar. Nokkuð er þetta óljóst orðalag. Ef til vill af ásettu ráði? Enginn vafi er á að lögregluliðið er undir yfirstjórn dómsmála ráðherra. Ríkissaksóknari hefur ekkert vald til að segja lögreglunni almennt fyrir verkum. Samkvæmt boðvaldi sínu sem ákærandi getur hann aðeins gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um „einstök mál“ og um „rannsókn máls“, sbr. 5. gr. 27. gr. oml. Frekari heimildir sýnast honum ekki fengnar.“

     h.      Greinir skýrsla setts rannsóknarlögreglustjóra frá rannsóknum lögreglunnar í Reykjavík sem ekki fengu eðlilega framhaldsmeðferð eftir rannsókn lögreglu? Ef svo er, hversu margar voru þær rannsóknir, hversu umfangsmikil mál var þar um að ræða og hyggst dómsmálaráðherra bregðast við þessum athugasemdum á einhvern hátt?
    Svo sem þegar hefur verið rakið er ekki að finna í skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra einstaka ábendingu um að ekki hafi verið unnið úr upplýsingum um fíkniefnasala. Í bréfi ríkissaksóknara, dags. 5. september 1997, sem rakið er í heild sinni hér að framan, er fjallað ítarlega um öll þau atriði sem settur rannsóknarlögreglustjóri taldi í greinargerð sinni að ákæra gæti beinst að. Vísast til þess sem þar segir, en til hægðarauka skal bent á að „Furu grundarmálið“, mál nr. 62-157-88, fékk ekki eðlilega framhaldsmeðferð og er ekki leitt í ljós í skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra hvernig á því stóð. Ríkissaksóknari kemst að þeirri niðurstöðu að svo sem málavextir séu fram komnir í lögreglurannsókninni þyki ekki líklegt að ákæra gæti leitt til áfellisdóms. Í „Tunguvegsmálinu“ vantar ýmis gögn og upplýsingar um framhaldsmeðferð þess. Segir ríkissaksóknari ekki unnt að staðhæfa að Björn Halldórsson hafi komið að málinu með ólögmætum hætti. Þótti ákæra gegn honum því ekki líkleg til sak fellis.
    Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur af sjálfsdáðum ákveðið að rannsaka hvort unnt sé að komast til botns í því hvers vegna framangreind mál fengu ekki viðhlítandi framhaldsmeð ferð. Niðurstaða ríkissaksóknara felur í sér að ekki eru líkur til þess að lögreglumenn hafi í þessum tilvikum gerst sekir um refsiverða háttsemi. Eru því ekki tilefni til frekari aðgerða hvað það atriði varðar.

III.


    Þær upplýsingar sem fram koma í skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra vekja að sjálfsögðu upp réttmætar spurningar um hvort skipulag og starfsemi ávana- og fíkniefna deildar lögreglunnar í Reykjavík hafi á umræddu tímabili verið í samræmi við þær kröfur sem eðlilegt er að gera til slíkrar deildar. Til þess verður hins vegar að líta nú að umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar til bóta á starfsháttum og skipulagi innan einstakra rannsóknar deilda hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, auk þess sem yfirstjórn lögreglunnar hefur verið endurskipulögð í grundvallaratriðum. Það er mat ráðuneytisins að þær breytingar sem nú hefur verið ráðist í og greint er frá hér að framan hafi leitt til þess að skipulagslega sé stjórnun og ábyrgð yfirstjórnar lögreglunnar í Reykjavík nú með eðlilegum hætti.