Ferill 287. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 898 – 287. mál.


Nefndarálit



um frv. til l. um sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hjörleif B. Kvaran borgarlögmann og Sesselju Árnadóttur frá félagsmálaráðuneyti.
    Í frumvarpinu er lagt til að sveitarfélögin Kjalarneshreppur í Kjósarsýslu og Reykjavíkur borg verði sameinuð. Sveitarfélög þessi eru hvort í sínu kjördæminu og skv. 110. gr. sveitar stjórnarlaga, nr. 8/1986, verður sameining sveitarfélaga yfir mörk kjördæma ekki ákveðin nema með lögum.
    Nefndin fékk til skoðunar sérfræðiálit frá embætti ríkislögmanns og Þorgeiri Örlygssyni prófessor. Niðurstaða þeirra var sú að alþingiskjördæmi séu sjálfstætt mörkuð í 31. gr. stjórn arskrárinnar óháð annarri umdæmisskiptingu landsins. Af því leiði að þeim mörkum verði ekki breytt með almennum lögum, heldur einungis með breytingu á stjórnarskránni sjálfri. Því sé eðlilegt að í frumvarpi þessu séu tekin af tvímæli um að sameining þessara tveggja sveitar félaga hafi ekki áhrif á gildandi kjördæmaskipan. Þá kom fram í máli borgarlögmanns að þess muni verða farið á leit við ríkisstjórnina að fyrir næstu alþingiskosningar verði flutt frumvarp til stjórnskipunarlaga um sameiningu Reykjavíkur og Kjalarneshrepps í eitt kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi.
    Í 2. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga segir að hafi sameining hlotið samþykki skuli sveitar stjórnir þær sem hlut eiga að máli taka ákvarðanir um fjárhagsmálefni sveitarfélaganna, fjölda fulltrúa í nýrri sveitarstjórn, nafn hins sameinaða sveitarfélags og önnur atriði. Ákvarðanir þessar skulu sendar félagsmálaráðuneyti sem ákveður hvenær sameining skuli fara fram. Skv. 112. gr. laganna skal ráðuneytið, þegar það hefur staðfest sameiningu, gefa út tilkynningu um hana sem birta skal í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðu neytinu hafa hreppsnefnd Kjalarneshrepps og borgarstjórn Reykjavíkur nú þegar tekið framangreindar ákvarðanir og sent ráðuneytinu. Í gögnum frá sveitarstjórnunum tveimur kemur fram að gert er ráð fyrir að kosið verði sameiginlega í sveitarfélögunum til borgar stjórnar í reglulegum sveitarstjórnarkosningum í maí 1998 og að sameining sveitarfélaganna taki gildi við upphaf næsta kjörtímabils í júní 1998. Nauðsynlegar ákvarðanir liggja því fyrir svo að félagsmálaráðuneytinu sé unnt að staðfesta sameiningu sveitarfélaganna að því frá töldu að ekki hefur verið samþykkt frumvarp til laga um sameininguna á grundvelli 110. gr. sveitarstjórnarlaga.
    Nefndin lítur svo á að frumvarpið geri ráð fyrir að félagsmálaráðuneytinu verði veitt heimild til að staðfesta samþykktir sveitarstjórnanna tveggja um sameininguna, þar á meðal um gildistöku sameiningarinnar, sbr. 2. mgr. 109. gr. og 112. gr. sveitarstjórnarlaga. Nefndin vekur athygli á því að gildistökuákvæði frumvarpsins vísar til þess að þá fyrst er lögin taka gildi hefur ráðuneytið heimild til að staðfesta samþykktir sveitarfélaganna um sameininguna.
    Í 3. mgr. 10. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að í Reykjavík nefnist sveitarstjórn borgarstjórn, framkvæmdastjóri sveitarfélags borgarstjóri og byggðarráð sveitarstjórnar borgarráð. Í skýringum með lögunum kemur fram að með orðhlutanum „borg“ sé lögð áhersla á sérstöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar og langstærsta sveitarfélags landsins . Sveitarfélagið heitir eftir sem áður Reykjavík eins og fram kemur í fyrrgreindum lögum.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi

BREYTINGUM:


1.      Við 1. gr. Í stað orðsins „Reykjavíkurborg“ komi: Reykjavík.
2.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur.

Alþingi, 5. mars 1998.



Kristín Ástgeirsdóttir,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.



Siv Friðleifsdóttir.




Kristján Pálsson.



Pétur H. Blöndal.



Magnús Stefánsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.


Ögmundur Jónasson.