Ferill 484. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


122. löggjafarþing 1997–1998.
Nr. 6/122.

Þingskjal 940  —  484. mál.


Þingsályktun

um rannsókn á refsingum við afbrotum.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að láta fara fram rannsókn á ákvörðun refsinga við afbrotum. Rannsóknin taki til eftirfarandi brotaflokka:
     a.      líkamsárása og annarra brota sem tengd eru að öðru leyti við vísvitandi ofbeldi,
     b.      kynferðisbrota,
     c.      fíkniefnabrota.
    Með rannsókninni skulu könnuð þau viðurlög sem dæmd hafa verið við þessum brotum og hvernig þau hafa þróast á undanförnum árum og áratugum. Skal rannsóknin einkum miða að því að leiða í ljós hvort unnt sé að sýna fram á að refsingar við fyrrgreindum brotum hafi þyngst eða séu nú vægari en áður. Rannsókn þessi skal taka til dóma Hæstaréttar og óáfrýjaðra héraðsdóma að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er til að mat verði lagt á viðurlög við þessum afbrotum og þróun þeirra.
    Eftir því sem unnt er skal rannsóknin framkvæmd þannig að til verði gagnagrunnur sem síðar væri hægt að bæta við upplýsingum og nota til frekari rannsókna.

Samþykkt á Alþingi 11. mars 1998.