Ferill 567. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 959 – 567. mál.



Skýrsla



um norrænt samstarf frá febrúar 1996 til desember 1997.

1. Inngangur.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík var skýrslan „Nýir tímar í norrænni samvinnu“ lögð fram og samþykkt. Með skýrslunni var ákveðið að endurnýja bæri samstarfið og aðlaga það nútímanum og einnig að gera það hagkvæmara og markvissara. Nauðsynlegt væri að hleypa nýju lífi í starfshættina og laga þá að nýjum aðstæðum sem sköpuðust í kjölfar þjóðar atkvæðagreiðslnanna í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð um aðild að ESB.
    Á undanförnum tveimur árum hefur farið fram mikið starf í Norðurlandaráði í samræmi við þá stefnu sem fram kemur í skýrslunni. Nú er norrænu samstarfi framtíðarinnar beint að þremur meginsviðum, samvinnu innan Norðurlanda, milli Norðurlanda og Evrópu/ESB/ EES og samvinnu Norðurlanda og grannsvæða þeirra.
    Nefndaskipan í Norðurlandaráði var breytt á þann hátt að fagnefndirnar voru lagðar niður frá og með áramótum 1995/1996 og í stað þeirra stofnaðar þrjár stórar nefndir byggðar á fyrrgreindum meginsviðum, þ.e. Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og grannsvæðanefnd. Forsætisnefnd var stækkuð og auk þess stofnuð eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs. Flokkasam starf var aukið og forustuhlutverk Norðurlandaráðs eflt. Ráðið heldur nú eitt árlegt þing í stað tveggja áður þar sem almennar umræður fara fram en reglubundið þing er nú haldið að hausti og formennska og embættistími miðast við almanaksár. Þemaráðstefnur eru haldnar í þeim tilgangi að fjalla sérstaklega um mál sem snerta eitt eða fleiri af þremur megin viðfangsefnum norrænnar samvinnu. Einnig hefur samstarf og samráð við önnur alþjóðaþingmannasamtök, einkum evrópsk, verið eflt og aukið samstarf við fagnefndir nor rænu þjóðþinganna. Í byrjun ársins gengu í gildi nýjar starfsreglur Norðurlandaráðs sem miða að því að einfalda þær reglur sem gilda um starfið og gera þær nútímalegri. Finnland hefur haft formennskuna með höndum á starfsárinu en forseti þingsins var Olof Salmén frá Álandseyjum. Berit Brørby Larsen frá Noregi tók við forsetastóli um áramótin 1997–98.
    Eftir að þessar viðamiklu breytingar hafa gengið í gildi og smám saman komist í fram kvæmd hefur starfsemi Norðurlandaráðs á árinu einkennst í auknum mæli af pólitísku starfi. Fagnefndirnar hafa skipulagt starfsemi sína og raðað málum í forgangsröð. Nefndirnar hafa skipað vinnuhópa til að starfa að ákveðnum málefnum og hafa vinnuhópar einnig verið stofnaðir með aðilum úr tveimur eða fleiri nefndum. Forsætisnefnd hefur í auknum mæli einbeitt sér að undirbúningi norrænu fjárlaganna og fjallað um ýmis pólitísk málefni, einkum öryggis- og varnarmál.
    Þau pólitísku málefni sem notið hafa mestrar athygli á starfsárinu auk almennra norrænna málefna eru, Evrópupólitíkin og öryggismál. Stefna norrænu ESB-landanna á ríkjaráðstefnu bandalagsins var til umfjöllunar og öryggismál voru bæði tekin fyrir á þemaráðstefnu og í forsætisnefnd ráðsins. Grannsvæðanefndin jók samskipti sín við grannsvæði Rússlands og Norðurlandanefndin starfaði mikið að menningarmálum en sérstök þemaráðstefna var haldin um þau á árinu.

2. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
    Í byrjun árs 1997 sátu eftirtaldir þingmenn í Norðurlandaráði: Geir H. Haarde, Guð mundur Árni Stefánsson, Valgerður Sverrisdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sturla Böðvarsson og Siv Friðleifsdóttir. Varamenn í Norðurlandaráði voru: Arn björg Sveinsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Guðni Ágústsson, Árni Johnsen, Bryndís Hlöðversdóttir, Árni M. Mathiesen og Ísólfur Gylfi Pálmason. Þann 17. maí kaus Alþingi sömu þingmenn til setu í Norðurlandaráði að undanskildum Guðmundi Árna Stefánssyni. Í hans stað var kosin Rannveig Guðmundsdóttir en Guðmundur Árni er nú varamaður hennar. Sigríður Jóhannesdóttir varð varamaður í stað Bryndísar Hlöðversdóttur.
    Breytingar á Helsinkisáttmálunum árið 1996 og samþykktir Norðurlandaráðs sem gengu í gildi í byrjun árs 1997 kveða á um að flokkahóparnir í Norðurlandaráði skuli framvegis til nefna fulltrúa landanna í trúnaðarstöður. Á þingi ráðsins í Kaupmannahöfn var fulltrúum Íslandsdeildar skipað í eftirfarandi nefndir: Valgerður Sverrisdóttir, Geir H. Haarde og Guð mundur Árni Stefánsson sátu í forsætisnefnd. Rannveig Guðmundsdóttir kom í stað Guð mundar Árna Stefánssonar í forsætisnefnd þegar hún tók sæti í Íslandsdeildinni. Siv Friðleifsdóttir sat í Evrópunefnd og var hún annar tveggja varaformanna. Sigríður A. Þórðar dóttir og Steingrímur J. Sigfússon sátu í Norðurlandanefnd og Sturla Böðvarsson í grann svæðanefnd Norðurlandaráðs. Sigríður A. Þórðardóttir átti einnig sæti í eftirlitsnefnd ráðs ins.
    Íslandsdeild skipti með sér verkum á fundi sínum 30. maí. Valgerður Sverrisdóttir var endurkjörin formaður og Steingrímur J. Sigfússon var kjörinn varaformaður.
    Geir H. Haarde var endurkjörinn formaður flokkahóps hægrimanna árið 1997.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs hélt sex fundi á starfsárinu. Helst var fjallað um komandi þing og stærri þemaráðstefnur, en einnig rætt um starfsemi nefnda ráðsins og skipulag al mennt.
    Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og norrænn samstarfsráðherra, bauð Íslandsdeild inni til fundar þar sem skipst var á almennum upplýsingum um norrænt samstarf.
    Sumarfundir allra nefnda Norðurlandaráðs voru haldnir á Grand Hótel Reykjavík í lok júní. Íslandsdeildin sá um alla skipulagningu þeirra.
    Norrænir fréttamannastyrkir voru á árinu veittir fjórum íslenskum fréttamönnum. Saman lagt var styrkupphæðin 70 þúsund danskar krónur. Íslandsdeild ákvað að eftirgreindir frétta menn hlytu styrki: Elín Hirst, Árni Snævarr, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Helgi H. Bjarna son.
    Skrifstofa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs er nú hluti af alþjóðasviði Alþingis. Starfs menn alþjóðasviðs eru nú fjórir en Elín Flygenring hefur verið ritari og forstöðumaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs frá árinu 1994. Auðunn Atlason alþjóðaritari hefur aðstoðað við ritarastörf auk Kristínar Ólafsdóttur deildarsérfræðings.

3. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
3.1 Forsætisnefnd.
    Forsetaskipti fara nú fram um áramót og í byrjun árs 1997 tók Olof Salmén frá Álands eyjum, sem fulltrúi Finnlands, við forsetastóli af dananum Knud Enggaard.
    Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum flokkahópanna sem kosnir eru af þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir Norðurlandanna og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Forsætisnefnd hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við þing ráðsins og milli þinga, en hún hefur einnig með höndum erlend samskipti og utanríkis- og varnarmál, auk þess að fjalla um hin norrænu fjárlög. Forsætisnefnd fjallar einnig um þær tillögur sem til hennar er beint. Hún hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Skrifstofa ráðsins fluttist frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar á árinu 1996 og er nú stað sett í sömu byggingu og norræna ráðherranefndin.
    Á starfsárinu hafa af Íslands hálfu setið í forsætisnefnd alþingismennirnir Valgerður Sverrisdóttir frá flokkahópi miðjumanna, Geir H. Haarde frá flokkahópi hægrimanna og Guðmundur Árni Stefánsson (fram til maí 1997) frá flokkahópi jafnaðarmanna en Rannveig Guðmundsdóttir kom í hans stað.
    Forsætisnefnd hélt tíu fundi á árinu. Í tengslum við þing ráðsins hélt forsætisnefnd einnig fund með norrænu forsætisráðherrunum. Aðalumræðuefnið þar var grannsvæðasamstarfið og norræna samstarfið innan ESB. Forsætisnefnd hitti einnig samstarfsráðherrana til að ræða norrænu fjárlögin, þing ráðsins, grannsvæðastefnu ráðherranefndarinnar og ESB-samstarfið.
    Norrænu fjárlagatillögurnar fyrir árið 1998 hljóða upp á 695,9 milljónir danskra króna. Þetta er skerðing á fjárlögum um 6,7 milljónir danskra króna í samanburði við árið 1997. Tillaga ráðherranefndarinnar var lögð fram í ráðinu í ágústmánuði og var fjallað um hana í ráðinu eftir að fagnefndirnar höfðu rætt um tillögurnar. Lokaumfjöllun og afgreiðsla var á þingi ráðsins (sjá fylgiskjal). Eftir ráðstefnu ráðsins í ágúst í Helsinki (sjá kafla 5.2) hélt forsætisnefnd áfram umfjöllun sinni um öryggismál. Tvær þingmannatillögur sem lagðar voru fram á árinu 1996 voru til umfjöllunar, önnur tillagan var frá flokkahópi vinstri sósíalista og hin frá flokkahópi hægrimanna. Forsætisnefnd fjallaði einnig um þingmanna tillögu um öryggismál sem lögð var fram af miðjuhópnum. Til að komast að niðurstöðu um þessar tillögur var sérstakur vinnuhópur stofnaður í nefndinni. Í tilmælum nefndarinnar, sem samþykkt voru, var því haldið fram að þróun varnarmála á eftirstríðsárunum hefði breyst mikið innan Norðurlandanna. Hugtakið varnarmál hefði einnig fengið nýja merkingu. Í greinargerð með tilmælunum er fjallað um þróun varnarmála á Norðurlöndunum og á grann svæðum þeirra auk umhverfissjónarmiða í varnarmálasamstarfinu. Einnig er fjallað um mál efni er snerta Norðurlönd og tengjast þróuninni í NATO. Forsætisnefnd ályktaði í þá veru að hvert land fyrir sig hafi rétt til þess, án þrýstings frá öðrum, að ákveða eigin varnarmála stefnu. Þennan rétt verði að virða af öllum ríkjum. Öll ríki beri ábyrgð á sinni stefnu og á því að styrkja stöðu varnarmála í Evrópu. Æskilegast væri að eitt skipulag væri ráðandi um öryggismál í Evrópu án tillits til landamæra. Lögð var áhersla á að Rússland tæki þátt í evrópska og evró-atlantíska samstarfinu með tilliti til öryggis- og varnarmála Norðurlanda í framtíðinni. Forsætisnefnd taldi að aukið norrænt samstarf um varnar- og öryggismál væri nauðsynlegt og æskilegt með tilliti til langrar samvinnu Norðurlandanna.
    Forsætisnefnd fjallaði einnig um tvær aðrar þingmannatillögur á árinu (sjá fylgiskjal).
    Þingmannanefnd um norðurskautsmálefnin hélt áfram störfum sínum á árinu. Formaður þeirrar nefndar er Geir H. Haarde alþingismaður en Norðurlandaráð á þrjá fulltrúa í nefnd inni. Auk þess eiga þar sæti fulltrúar frá Kanada, Rússlandi, Bandaríkjunum og Evrópuþing inu, svo og fulltrúar frumbyggja.
    Eftir að heimskautsráðið var stofnað í september 1996 hefur þingmannanefndin átt áheyrnaraðild að störfum ráðsins. Nefndin hefur með ötulu starfi unnið að því að styrkja stöðu ráðsins og auka pólitískan áhuga fyrir heimskautssamstarfi. Á árinu hefur nefndin í samstarfi við Rússland hafið undirbúning að næstu þingmannaráðstefnu sem haldin verður í Salekhard í Rússlandi 23.–24. apríl 1998.
    Það er hlutverk forsætisnefndar að sjá um tengsl við aðrar alþjóðastofnanir, svo og svæði og lönd sem liggja að Norðurlöndum. Þingmenn Eystrasaltsríkjanna fengu styrki á árinu til að kynna sér þingræði og starfsemi hins opinbera á Norðurlöndum. Norðurlandaráð var þátttakandi í 6. þingmannaráðstefnu Eystrasaltslandanna sem haldin var í Gdansk. Höfuðmálefni ráðstefnunnar voru framtíð samstarfsins og öryggismál, auk þess hvernig vinna megi gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Í apríl heimsóttu fulltrúar forsætisnefndar þingið í Rússlandi og Evrópuþingið í nóvember. Fulltrúar forsætisnefndar þáðu einnig boð um að vera viðstaddir 40 ára afmæli Benelúx-þingsins.
    Forsætisnefnd stofnaði árið 1996 vinnunefnd til að endurskoða upplýsingastefnu ráðsins og ráðherranefndarinnar. Formaður hennar var Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður. Nefndin hélt áfram að endurskipuleggja upplýsingastefnu Norðurlandaráðs á árinu og lagði einkum áherslu á þrjú svið: Nýtt blað sem kom í stað „Nordisk Kontakt“ og heitir „Politik i Norden“, vikulegt fréttabréf í formi símbréfs og heimasíðu á alnetinu sem veitir upplýs ingar um norrænt samstarf. Stöðugt samstarf er við ráðherranefnd Norðurlandaráðs um upp lýsingastefnuna og hefur samvinnan aukist eftir flutning skrifstofu Norðurlandaráðs í sama húsnæði og skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar hefur aðsetur í.

3.2 Norðurlandanefnd.
    Fulltrúar Íslands í Norðurlandanefnd á starfsárinu voru Sigríður A. Þórðardóttir og Stein grímur J. Sigfússon.
    Norðurlandanefnd gerði vinnuáætlun fyrir starfsárið og ákvað að sérstaklega yrði unnið að eftirfarandi málefnum: menningarmálum, menntun og rannsóknum, félagslegum réttind um, jafnrétti, svæðasamstarfi, borgarlegum réttindum og frjálsum flutningi fólks á milli svæða. Málefni Norðurlandanefnda eru fyrst og fremst hin sígildu norrænu samstarfsmálefni. Ákveðið var að einbeita sér einkum að þemaráðstefnunni um norræna menningu gagnvart alþjóðavæðingu, norrænum velferðarmálefnum, útlendingahatri og kynþáttafordómum, flóttamannapólitík, kvikmynda- og fjölmiðlamálefni, símenntun og fullorðinsmenntun, gras rótarsamstarfi, norrænu tungumálasamstarfi, átaki gegn kynferðislegri misnotkun á börnum og tengslum við félagasamtök. Tveir stórir vinnuhópar voru starfandi í nefndinni á árinu, annars vegar vinnuhópur um kvikmyndir og fjölmiðla, en í honum átti Sigríður A. Þórðar dóttir sæti, og hins vegar vinnuhópur um velferðarmálefni þar sem Steingrímur J. Sigfússon tók þátt. Vinnuhópur um kvikmyndir og fjölmiðla lagði fram fimm þingmannatillögur eftir að starfi hans lauk en velferðarhópurinn lagði fram skriflega greinargerð í lok starfsins.
    Nefndin hélt sjö fundi á árinu. Auk þess hittust vinnuhópar og formenn nefndarinnar all oft. Nefndin átti fund með menningarmálaráðherrum tvisvar á árinu og einnig fund með stjórn norræna menningarmálasjóðsins.
    Í tengslum við sumarfundi Norðurlandaráðs í Reykjavík í júní 1997 hélt nefndin áheyrnar fund um tungumálasamstarf með áherslu á vestnorræn tungumál.

3.3 Evrópunefndin.
    Fulltrúi Íslands í Evrópunefndinni var Siv Friðleifsdóttir sem var annar tveggja varaformanna nefndarinnar.
    Eins og nafnið gefur til kynna er það hlutverk nefndarinnar að sinna samstarfi Norður landa og ESB/EES/EFTA. Evrópunefndin hélt áfram umfjöllun sinni um stefnu norrænu ESB-landanna í Evrópumálum. Í febrúar hélt nefndin ráðstefnu sem var eins konar framhald þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um Evrópumál sem haldin var árið 1996 vegna ríkjaráð stefnu ESB. Nefndin hefur á árinu fjallað mikið um störf Evrópunefnda norrænu þjóðþing anna og annarra nefnda sem fjalla um þau mál. Í júní fór nefndin í sérstaka kynnisferð til Brussel þar sem haldnir voru fundir með fulltrúum Evrópuþingsins og fulltrúum fram kvæmdastjórnar ESB.
    Nefndin hefur einkum einbeitt sér að neytendamálum á árinu og vinnuhópur um neyt endamál var stofnsettur á sumarfundi nefndarinnar.
    Nefndin kom saman sex sinnum á árinu. Vinnuhópurinn um neytendamál hélt þrjá fundi á árinu. Um tillögur sem vísað var til nefndarinnar vísast til fylgiskjals.

3.4 Grannsvæðanefndin.
    Íslenskur fulltrúi í grannsvæðanefndinni á starfsárinu var Sturla Böðvarsson.
    Í vinnuáætlun sinni fyrir starfsárið ákvað grannsvæðanefndin að einbeita sér að samskipt um og samvinnu við Eystrasaltslöndin og heimskautssvæðin en einnig var ákveðið að efla samstarf við grannsvæði Rússlands. Því var ákveðið að sumarfundur nefndarinnar yrði hald inn í Murmansk þar sem nefndin kynnti sér ástand mála, einkum efnahagsmál og stjórnmál á svæðinu. Sérstök áhersla var lögð á að kynna sér ástand umhverfismála.
    Nefndin setti á stofn tvo vinnuhópa, annars vegar um málefni barna á grannsvæðum Norðurlanda og hins vegar um umhverfisfjárfestingu hvað varðar orkumál. Þessir vinnuhópar héldu nokkra fundi á árinu.
    Nefndin hélt ráðstefnu í maí um umhverfisfjárfestingu í þeim tilgangi að koma á auknu samstarfi milli ólíkra fjárfesta. Fulltrúar nefndarinnar sátu þing Eystrasaltslandaráðsins og tóku þátt í Eystrasaltsráðstefnunni auk ýmissa ráðstefna og málfunda.
    Nefndin átti fund með umhverfisráðherrum, orkuráðherrum og félagsmálaráðherrum í tengslum við þing Norðurlandaráðs.
    Nefndin hélt sex fundi á árinu. Um störf nefndarinnar að tillögum sem vísað var til hennar vísast til fylgiskjals.

3.5 Eftirlitsnefnd.
    Fulltrúi Íslands í eftirlitsnefndinni var Sigríður A. Þórðardóttir.
    Í nefndinni situr einn fulltrúi frá hverju landi og aðalverkefni hennar er að fylgjast með og endurskoða starfsemi norrænu ráðherranefndarinnar auk Norðurlandaráðs. Nefndin ber einnig ábyrgð á stjórnskipulegum málefnum.
    Nefndin lét gera sérstaka úttekt undir yfirskriftinni „Norræn forgangsverkefni — athugun á þremur málaflokkum“, þ.e. norræna tungumálasamstarfinu, samstarfi varðandi börn og unglinga og „norrænni nytsemd“. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ráðherranefndin þyrfti að standa betur að framkvæmd á tilmælum Norðurlandaráðs og bæta upplýsingastarf sitt.
    Nefndin hefur einnig eftirlit með starfsemi norrænna stofnana. Á árinu fór nefndin yfir starfsemi Norræna hússins í Færeyjum og skrifstofu NORA. Eftirlitsnefndin hefur þar að auki fjallað um endurskoðunarskýrslur um ráðherranefndina.
    Nefndin hélt sex fundi á árinu. Um nefndartillöguna, sem lögð var fram á árinu, vísast til fylgiskjals.

4. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru nú þrenns konar, bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962 og eru þau veitt fyrir bókmenntaverk sem ritað hefur verið á einu Norðurlandamálanna. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á bókmenntum á tungumálum norrænu þjóðanna. Bókmennta verðlaun Norðurlandaráðs árið 1997 hlaut danski rithöfundurinn Dorrit Willumsen fyrir skáldsöguna „Bang“ sem fjallar um Herman Bang.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965 og fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Síðan 1990 hafa verðlaunin verið veitt á ári hverju og eru þau veitt annað árið til tónskálda og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 1997 hlaut íslenska söngkonan Björk Guðmundsdóttir fyrir persónu lega tjáningu og norræna samkennd.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 voru samþykkt tilmæli um að Norður landaráð skyldi veita náttúru- og umhverfisverðlaun á hverju ári. Verðlaunin á að veita aðila sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða til hóps fólks, samtaka, fjölmiðla, fyrirtækja eða stofnana sem hefur í störfum sínum tekist að sýna nátt úrunni tillitsemi á aðdáunarverðan hátt. Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn á þingi ráðsins í Kuopio í nóvember 1995. Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1997 hlaut „Institut for produktudvikling“ fyrir að vera leiðandi aðili í þróun náttúruvænnar vöru.
    Verðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund dönskum krónum.

5. Þemaráðstefnur Norðurlandaráðs.
5.1 Menningarmálaráðstefna Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð hélt menningarmálaráðstefnu sína undir heitinu „Norræn menning gagn vart alþjóðavæðingu“ 3.–4. mars í Ósló. Tilgangurinn var fyrst og fremst að fjalla um áhrif alþjóðavæðingar á norræna menningu og reyna að sýna fram á hlutverk menningar í hinu norræna samfélagi. Í ráðstefnunni tóku þátt þingmenn, ráðherrar, fræðimenn og fulltrúar grasrótarhreyfinga auk starfsmanna menningarstofnana og listamanna.
    Forsætisráðherra Noregs, Thorbjörn Jagland, setti ráðstefnuna og ræddi um mikilvægi þess að Norðurlönd tækju þátt í alþjóðavæðingunni samtímis því sem hin norræna samkennd væri vernduð. Aðrir gestir og frummælendur voru meðal annars framkvæmdastjóri UNESCO, Fredrico Major, og fyrrverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir. Vigdís hélt erindi um mikilvægi þess að vernda norræna menningu og hættuna á því að Norðurlanda þjóðirnar týnist í alþjóðavæðingunni. Hún minnti á hinn sameiginlega bakgrunn þjóðanna og lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þess að auka tungumálaskilninginn.
    Þátttakendur á ráðstefnunni voru um 400.

5.2 Öryggismálaráðstefna Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð stóð fyrir ráðstefnu um öryggismál á Norðurlöndum og nærsvæðum (Säkerhet i Norden och Nordens närområden) dagana 25. og 26. ágúst, í Helsinki. Ráð stefnan, sem haldin í finnska þinginu, var nýlunda þar eð þetta var í fyrsta skipti sem örygg ismál eru rædd markvisst á vegum Norðurlandaráðs. Ráðstefnan þótti vera tákn um það að öryggismál væru komin á dagskrá norrænnar samvinnu.
    Nokkrir helstu stjórnmálamenn Norðurlanda tóku þátt í ráðstefnunni og fluttu þar ávörp. Þeirra á meðal voru Paavo Lipponen, forsætisráðherra Finnlands, Tarja Halonen, utanríkis ráðherra Finnlands, Hans Hækkerup, varnarmálaráðherra Danmerkur, Björn von Sydow, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, Björn Tore Godal, þáverandi utanríkisráðherra Noregs, Alexander Avdeev, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, og Halldór Ásgrímsson utanríkis ráðherra. Þá ávörpuðu fulltrúar NATO og VES ráðstefnuna, auk fulltrúa frá Eystrasalts ríkjunum þremur og Póllandi. Þá ávörpuðu fulltrúar flokkahópanna í Norðurlandaráði ráðstefnuna og þingmenn tóku þátt í almennum umræðum.
    Lífleg umræða fór fram á ráðstefnunni um áherslur norrænu ríkjanna í öryggismálum, en Svíar og Finnar standa sem kunnugt er utan NATO og hafa fylgt hefðbundinni hlutleysis stefnu. Öryggismál Eystrasaltslandanna voru áberandi í umræðum og voru þingmenn Norðurlandaráðs og ráðherrar norrænu ríkjanna einróma í að styðja sjálfsákvörðunarrétt Eystrasaltsríkjanna í öryggismálum, þar með talið inngöngubeiðni þeirra í NATO. Hins vegar flutti aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands ræðu þar sem hann lýsti þeirri skoðun rússneskra stjórnvalda að NATO væri rangur vettvangur fyrir evrópskt samstarf í öryggis málum, hinn rétti vettvangur væri Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE. Þá voru um hverfismál ofarlega á baugi og greinilegt að hið útvíkkaða öryggismálahugtak, þ.e. sú hugsun að félags- og umhverfismál séu hluti af öryggismálum, var áberandi.
    Í umræðunum á ráðstefnunni var Geir H. Haarde talsmaður flokkahóps hægrimanna í Norðurlandaráði. Geir benti í ræðu sinni á að Rússland hefur nú, á grundvelli samstarfs samnings síns, nánari formleg tengsl við NATO en Svíþjóð og Finnland. Hann sagði að NATO-aðild mundi auðvelda Svíþjóð og Finnlandi að eiga hlut að ákvarðanatöku og bera víðtækari ábyrgð á öryggi í norðri. Annað mikilvægt atriði væri að gengju Svíþjóð og Finn land í NATO yrði auðveldara að verja landamæri Eystrasaltsríkjanna. Þetta sagði Geir geta orðið mikilvæg rök þegar hugsanleg aðild Eystrasaltsríkjanna að NATO yrði tekin til afgreiðslu á Bandaríkjaþingi. Steingrímur J. Sigfússon talaði fyrir hönd flokkahóps vinstri manna. Í ræðu sinni fagnaði Steingrímur ráðstefnunni, en hugmyndin að henni er uppruna lega komin frá flokkahópi vinstrimanna. Hann lagði áherslu á þátt félags- og umhverfismála í öryggismálum og mælti fyrir hugmyndinni um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Þá gerði Steingrímur að umtalsefni þær fjárhæðir sem ríki eyða árlega í vígbúnað og varnir og hvatti til að þessum fjárhæðum yrði frekar varið til efnahagsaðstoðar við ríki Mið- og Austur-Evrópu.
    Í lok ráðstefnunnar samþykkti forsætisnefnd Norðurlandaráðs ályktun þar sem hvatt er til aukins samstarfs Norðurlanda í öryggismálum. Þá má geta þess að ráðstefnuna bar upp á sama tíma og opinbera heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, til Finnlands. Á seinni degi ráðstefnunnar heiðruðu forsetahjónin ráðstefnugesti með nærveru sinni í finnska þinginu og var þeim fagnað með lófataki.

6. 49. þing Norðurlandaráðs.
    49. þing Norðurlandaráðs var haldið í Helsinki 10.–13. nóvember 1997. Um tilmæli, umsagnir og ákvarðanir um innri málefni sem samþykkt voru á þinginu vísast til fylgiskjals.
    Á þinginu voru bæði almennar stjórnmálaumræður og sérstakar umræður um utanríkis- og varnarmál.
    Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, flutti inngangsræðu almennu stjórnmála umræðunnar, en Svíþjóð fer með formennsku í ráðherranefndinni árið 1998. Í erindi sínu greindi Persson frá áætlunum Svía á næsta starfsári. Einkum var lögð áhersla á tvö málefni, þ.e. aukna atvinnu fyrir alla og áætlun um að Norðurlönd og grannsvæði þeirra verði skil greind sem umhverfisvæn svæði. Ætlunin er að þessi tvö málefni skipi stóran sess í samstarfi ríkisstjórnanna og að unnið verði að þeim í öllum málaflokkum. Í umhverfismálum vill Svíþjóð vinna að því að samhæfa stefnu og skipulagningu Norðurlandanna í orkumálum. Einnig vilja Svíar auka tungumálasamstarf Norðurlandanna, þróa velferðarkerfið og auka samvinnu við grasrótarhreyfingar.
    Knut Vollebæk, utanríkisráðherra Noregs, talaði fyrir hönd utanríkisráðherranna og gerði grein fyrir utanríkismálum. Þar hélt hann því fram að samstarfsmálefni í Evrópu væru í aðal hlutverki í norrænu samstarfi utanríkisráðherra. Hann taldi það ánægjulegt að norrænu ESB-löndin fengu brautargengi fyrir hugmyndir sínar á Amsterdam-fundinum um atvinnumál, umhverfismál og opna upplýsingastefnu. Einnig var ákveðið á Amsterdam-fundinum að Schengen-samstarfið skyldi verða framkvæmt innan ESB. Hann talaði um mikilvægi þess að Schengen-samstarfið yrði framkvæmt þannig að norræna vegabréfasamstarfið gæti haldið áfram. Norðurlönd munu í framtíðinni stefna að því að hafa samstarf við Rússland um öryggismál. Norræn sjónarmið ættu einnig að sjást greinilega í samvinnu Sameinuðu þjóð anna en norrænu utanríkisráðherrarnir hafa undirstrikað mikilvægi þess að endurskoða starf Sameinuðu þjóðanna.
    Norrænu varnarmálaráðherrarnir lögðu í fyrsta sinn fram skýrslu á þinginu. Hún var flutt af norska varnarmálaráðherranum, Dag Jostein Fjervold. Líta má á skýrsluna sem stórt skref í þá átt að þróa starf Norðurlandaráðs svo að það fjalli um alla mikilvæga þætti samfélags ins. Aðalatriðið í norræna samstarfinu á varnarmálasviðinu er friðargæsla. Í samvinnu varnarmálaráðherranna er einnig fjallað um hermálaþróun í Norður-Evrópu, þróun hervarna á Norðurlöndum auk NATO-samstarfsins. Nú starfa löndin saman í beinum friðargæsluverk efnum í Bosníu og Makedóníu.
    Fyrir utan ráðherratillöguna um fjárlögin fyrir 1998 fjallaði þingið einnig um margar ráðherra-, nefnda- og þingmannatillögur (sjá fylgiskjal). Á þinginu var í annað sinn beinn fyrirspurnartími þar sem samstarfsráðherrar Norðurlanda sátu fyrir svörum.

Alþingi, 11. mars 1998.



Valgerður Sverrisdóttir,


form.


Steingrímur J. Sigfússon,


varaform.


Geir H. Haarde.




Sigríður A. Þórðardóttir.



Siv Friðleifsdóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.



Sturla Böðvarsson.





Fylgiskjal.


Tilmæli, umsagnir og ákvarðanir um innri málefni
samþykkt á 49. þingi Norðurlandaráðs.

(Helsinki, 10.–13. nóvember 1997.)


Tilmæli:

Nr. 1/1997.


Fjárlög norrænnar samvinnu 1998 (C 1; C2; B 165/p).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún fylgi eftir umbótaferlinu „Nýir tímar í norrænni samvinnu“ eins og Norðurlandaráð hefur tilgreint í greinargerðum B 151/b og B 161/p,
     að hún ljúki hið fyrsta vinnu við tillögu um áætlun á sviði rannsókna og sendi hana Norðurlandaráði til umfjöllunar,
     að hún með sparnaði, t.d. á sviði „fjárhags og atvinnulífs“, leitist við að afla u.þ.b. 10 milljóna danskra króna til góða fyrir samstarfsverkefni varðandi grannsvæði Norður landa, einkum með áherslu á þau málefni sem snerta lýðræði, menningu, menntun og frjáls félagasamtök, þjóðfélagsleg málefni sem einkum tengjast aðstæðum barna og ung menna, svo og á samstarf í umhverfismálum,
     að hún í tillögum að fjárlögum fyrir 1999 geri grein fyrir hvernig unnt megi verða að lækka eða færa fjárveitingar til Norræna iðnaðarsjóðsins (NI), Norrænu stofunarinnar um málefni Asíu (NIAS), Norrænu stofnunarinnar um fræðilega eðlisfræði (NORDITA) Norrænu sjóréttarstofnunarinnar (NIS) og Norrænu eldfajallastöðvarinnar (NORDVOLC), úr norrænu fjárlögunum, hugsanlega þannig að annars konar fjármögnun komi í staðinn, svo og að útskýra forsendur og afleiðingar sem slíkt kynni að valda,
     að hún í starfi sínu að tillögum að fjárlögum fyrir árið 1999 — einkum innan þess svigrúms sem skapast — leggi megináherslu á eftirfarandi svið:
              aukið framlag til Norræna menningarsjóðsins,
              málefni barna og ungmenna,
              samstarf á sviði hinna ýmsu menningarhópa og gegn mismunun og misrétti,
              menningarsamvinnu almennings, lýðmenntun og fullorðinsfræðslu,
              kvikmyndir og fjölmiðla, svo og aðra tungumálasamvinnu,
              samfélagið og borgarana á öld upplýsingatækni,
              framlög til grannsvæða Norðurlanda,
              sjálfbæra þróun á Norðurlöndum og grannsvæðum þeirra, þar með talið norðurskautssvæðið,
              matvæli og neytendamál.

Ályktun þingsins um breytingar á fjárlögum fyrir árið 1998 (sbr. tillögu ráðherranefndarinnar 25. júní 1997):
              Fjárlagaliðurinn Önnur samvinna á sviði efnahagsmála (4.6.1) lækki um 422.000 danskar krónur í 1.224.000 danskar krónur, þ.e. sömu fjárhæð eins og fyrir árið 1997. Í fjárlögum fyrir 1998 er ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu vegna samstarfs um stefnu í byggingar- og húsnæðismálum.
              Fjárlagaliðurinn Norræna stofnunin á Grænlandi (1.7.4) hækki um 89.000 danskar krónur í 3.939.000 danskar krónur, þ.e. sömu fjárhæð og fyrir 1997.
              Fjárlagaliðurinn Matvæli (5.3) hækki um 1.000.000 danskar krónur í samtals 4.145.000 danskar krónur.
              Fjárlagaliðurinn Neytendur (5.4) hækki um 189.000 danskar krónur í samtals 5.508.000 danskar krónur, þ.e. sömu fjárhæð og fyrir 1997.
              Hækkun fjárveitinga til liðanna Matvæli og neytendamál samkvæmt framansögðu verði fjármögnuð með því að lækka fjárveitingar til Rannsóknaverkefnisins Norður lönd og Evrópa (2.3.1.3) um 1.189.000 danskar krónur, þ.e. í 6.811.000 danskar krónur fyrir 1998.
              Lagt er til að fjárlagaliðurinn „Upplýsingastarfsemi“ (7.1.5) verði 2.600.000 danskar krónur, þ.e. 2.000.000 dönskum krónum lægri en samkvæmt tillögu ráðherranefndarinnar.
              Lagt er til að þessari fjárhæð, 2.000.000 dönskum krónum, verði varið til sérstaks fjárlagaliðar, „Upplýsingastarfsemi utan Norðurlanda“.
              Í varasjóð ráðherranefndarinnar (7.1.10) verði að auki lagðar 333.000 danskar krónur, þ.e. tillögurnar hljóða upp á samtals 7.333.000 danskar krónur.
     Að ársskýrsla ráðherranefndarinnar fyrir 1996, C1, svo og greinargerð ráðherranefndarinnar um norrænt samstarf, C2, verði lögð til hliðar.
     Að hvað varðar frágang fjárlaganna skuli enn á ný vísað til fyrri fyrirmæla og ákvarðana með ósk um að sérstakt tillit verði tekið til ályktunar ráðsins á 47. þingi þess varð andi tillögu fjárlaganefndar (C2; B151/b) undir liðum 1 og 3.
     Að öðru leyti að samþykkja það sem forsætisnefndin tilgreinir í þessari greinargerð.

Nr. 2/1997.


Öryggismálastefna (A 1123/p, A 1137/p, A 1148/p).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
     að þær leggi mikli áherslu á öryggismál í norrænu samstarfi,
     að við það sé miðað að hvert ríki hafi rétt til þess án utanaðkomandi þrýstings að ákveða sína eigin stefnu í öryggismálum, og að hið sama gildi að sjálfsögðu einnig um Eistland, Lettland, Litháen og Pólland, að öll ríki verði að virða þennan rétt, svo og að öll ríkin beri einnig ábyrgð á því að tryggja eigið öryggi í því skyni að auka öryggi allra Evrópuríkja; takmarkið er öryggisreglur fyrir öll ríki Evrópu án markalína,
     að þær vinni að sameiginlegu norrænu eftirliti í umhverfismálum, svo og að þær taki virkan þátt í því starfi sem þegar er hafið í því skyni að gera sér grein fyrir hættunni sem vofir yfir umhverfinu á norðurskautssvæðinu,
     að þær gangi úr skugga um hve langt hefur miðað í virku samstarfi gegn kjarnorkumengun í Norðvestur-Rússlandi, svo og að þær starfi með virkum hætti að því að afla alþjóðlegrar þátttöku í því skyni að takast á við vandamál af völdum kjarnorkumengunar í þar, og vinna að því að fá Evrópusambandið til að taka aukinn þátt í þessu starfi á sviði stjórnmála og efnahagsmála,
     að þær taki virkan þátt í pólitísku samráði og aðgerðum á sviði friðargæslu, í þágu friðar og á sviði mannúðarmála innan Ráðstefnu um öryggi og samvinnu Evrópuríkja (RÖSE), samvinnunefndar Evrópu- og Atlantshafsríkja og Samvinnu um frið og vinni saman að því að stuðla að því að öll grannríki Norðurlanda taki virkan þátt í þessum samstarfsstofnunum,
     að þær örvi til víðtækra og almennra umræðna á Norðurlöndum um öryggismál í ljósi þeirra nýju öryggis- og samstarfsstofnana sem nú eru í þróun.

Nr. 3/1997.


NORD-LEX gagnagrunnurinn (A 1142/p).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún komi á fót í samvinnu við Norðurlandaráð sameiginlegum gagnagrunni samkvæmt því sem fram kemur í þingmannatillögunni A 1142/p.

Nr. 4/1997.


Internet og Evrópumál (A 1151/p).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún stofni til eftir þörfum vettvangs í tengslum við hina norrænu heimasíðu á internetinu um stjórnmál sem á döfinni eru á Norðurlöndum,
     að árleg greinargerð ráðherranefndarinnar um starf hennar innan einstakra geira Evrópumála verði látin fylgja ársskýrslu hennar.

Nr. 5/1997.


Skýrsla um framkvæmd tilmæla (A 1165/k).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún bæti uppsetningu, vinnureglur og form skýrslna um þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið á grundvelli tilmæla, samþykkta eða annarra sjónarmiða Norðurlandaráðs og stuðli þar með að því að mynda meiri tengsl milli markmiða tilmælanna og aðgerða ráðsins.

Nr. 6/1997.


Reikningsskil í umhverfismálum, orka og umhverfisskattar (A 1164/när).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
     að þær stofni til norrænna reikningsskila á sviði umhverfismála varðandi orku sem verði síðan tæki til þess að ná jákvæðum árangri í umhverfismálum með hámarksnýtingu á orkulindum ríkjanna í þeim tilgangi að draga úr losun efna sem skaða umhverfið,
     að þær leggi aukna áherslu á endurnýjanlegar orkulindir og styðji við skipti yfir í sjálfbærar orkulindir, m.a. með því að kanna ráðstafanir til að draga úr niðurgreiðslum og reglum sem ýta undir notkun mengandi orkulinda sem endurnýjast ekki, svo og
     að þær flýti fyrir athugun á möguleikum til þess að stofna til samræmds umhverfisskattakerfis á Norðurlöndum sem hafi það að markmiði að draga úr útblæstri koltví sýrings.

Nr. 7/1997.


Aðgerðir Barnahjálparsjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNICEF)


í þágu barna og mæðra á grannsvæðum Norðurlanda (A 1163/när).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
     að þær stuðli að því að Barnahjálparsjóður Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) leiti nýrra leiða til gera virkara starf sitt í því skyni að auka aðgerðir á grannsvæðum Norðurlanda og styðja ríkin í að byggja upp og stuðla að aðgerðum á eftirtöldum sviðum: félagslegum aðgerðum í þágu barna, heilsugæslu barna og mæðra, upplýsingagjöf varðandi bólu setningu og aðgerðir til að auka brjóstagjöf (BFHI).

Nr. 8/1997.
Börn á grannsvæðum Norðurlanda (A 1163/när).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún leggi fram yfirlitsskýrslu á þinginu 1998 um það að hve miklu leyti tví- og marghliða aðstoð Norðurlanda í þágu grannsvæðanna stuðli að félagslegri þróun og veki athygli á því með hvaða hætti hún komi börnum (einnig með tilliti til kynferðis) til góða og leggi fram tillögur um hvernig unnt væri að auka og samræma aðgerðir meðal Norðurlanda,
     að hún semji á árinu 1998 þverfaglega áætlun í þágu barna og ungmenna á grannsvæðum þar sem
              lögð sé áhersla á aðgerðir á sviði félags- og heilbrigðismála,
              barnamenningu sé beitt sem tæki til að koma í veg fyrir að börn lendi utangarðs í þjóðfélaginu,
              árangur af reynslu manna á Norðurlöndum, í Eystrasaltsríkjunum og í Rússlandi og myndun tengsla á sviði málefna barna milli stjórnvalda, stofnana og frjálsra félaga samtaka skipti höfuðmáli,
              þeir möguleikar sem norrænu upplýsingaskrifstofurnar veita eru nýttir,
              reglum um styrki ráðherranefndarinnar handa embættismönnuum sé augljóslega beitt í þágu málefna barna,
              hvatt sé til sameiginlegra aðgerða stjórnvalda, stofnana og frjálsra félagasamtaka í vinabæjum á Norðurlöndum og grannsvæðum.

Tilm. 9/1997.


Samnorræn vottun á skógum (A 1152/när).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún semji meginreglur um forsendur fyrir og möguleika á samnorrænni vottun á skógum þegar orðið getur af stofnun slíks kerfis.

Tilm. 10/1997.
Rannsóknaverkefni í tengslum við hið norræna
velferðarkerfi     (A 1126/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún stofni til rannsóknaverkefnis 1998–99 í því skyni að móta forsendur fyrir frumkvæði að því að forðast félagslega útskúfun.

Nr. 11/1997.
    Nordplus-mini (A 1153/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún í áætlunum sínum um fjárlagaárið 1999 ráðstafi fjármunum til að stofna til sérstaks stuðnings við grunnskólanema (7–16 ára) á fimm ára tímabili 1999–2003, Nord plus-mini,
     að hún kanni möguleika á frekari fjármögnun verkefnisins á árinu 1998 í samráði við samnorræna aðila og aðila í hverju landi,
     að hún kanni skilyrðin fyrir því að veita grannsvæðum aðgang að verkefninu,
     að hún stofni til víðtækrar samvinnu um stofnun og framkvæmd verkefnisins við sveitarfélög, skóla kennara og nemendur, norrænu félögin og frjáls félagasamtök sem málið snertir,
     að hún sjái til þess að börnum og ungmennum gefist næg tækifæri til að taka þátt í stofnun og framkvæmd verkefnisins.

Nr. 12/1997.


Réttindi barna og ungmenna við flutning innan


Norðurlanda (A 1160/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún sjái til þess að staðið verði við samninginn um samstarf framhaldsskóla þegar um er að ræða gagnkvæma viðurkenningu á slíkri menntun.

Nr. 13/1997.


Réttindi barna og ungmenna við flutning


innan Norðurlanda (A 1160/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina og ríkisstjórnir Norðurlanda:
     að þær stofni til samstarfs og samráðs um dagvistarstofnanir og fyrirkomulag barnagæslu í því skyni að koma á fót samnorrænum dagvistarmarkaði.

Nr. 14/1997.


Framkvæmdaáætlun um karlmenn og jafnrétti (B 169/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún samþykki framkvæmdaáætlun um karlmenn og jafnrétti.

Nr. 15/1997.


Viðurkenning á nýjum og/eða óvenjulegum


menntabrautum     (A 1162/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún geri eins fljótt og unnt er ráðstafanir til að afla óvenjulegum menntabrautum viðurkenningar,
     að hún kanni möguleikana á því að afla nýjum menntabrautum gagnkvæmrar viðurkenningar á Norðurlöndum.

Nr. 16/1997.
Framkvæmdaáætlun um norrænt löggjafarsamstarf
á sviði dómsmála 1997–98 (B 168/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún samþykki framkvæmdaáætlun um norrænt löggjafarsamstarf á sviði dómsmála 1997–98.

Nr. 17/1997.


Erfðatækni og klónun (A 1161/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún stofni til löggjafarsamstarfs á sviði erfðatækni og klónunar í því skyni að stuðla að samræmdri löggjöf á þessu sviði.

Nr. 18/1997.


Stefna í málefnum flóttamanna á Norðurlöndum


og í Evrópu (A 1134/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
     að þær stuðli að mótun mannúðlegrar og heildrænnar stefnu í málefnum flóttamanna á Norðurlöndum og í Evrópu,
     að þær stuðli að stofnun evrópskra reglna sem byggðar eru á sanngjarnri dreifingu ábyrgðar milli EES-ríkjanna til verndar þeim einstaklingum/hópum sem gerst hafa flóttamenn vegna vopnaðra átaka eða mannréttindabrota og falla ekki undir flótta mannasáttmála Sameinuðu þjóðanna; í reglunum skal gera ráð fyrir forvörnum og leggja áherslu á aðstoð á grannsvæðum,
     að þær stuðli að því á alþjóðavettvangi (innan Evrópusambandsins, Evrópuráðsins og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna) að varðandi öll styrjaldarátök náist samstaða um það hvenær flóttamenn, sem af tilviljun setjast að á tilteknum stað, teljist hafa öðlast fasta búsetu,
     að þær stuðli með virkum hætti að frekari samræmingu reglugerða og venja varðandi grið flóttamanna í því skyni að ná fram betri dreifingu ábyrgðar á flóttamönnum á Norðurlöndum.

Nr. 19/1997.


Sáttmáli Evrópuráðsins um staðbundin tungumál og


tungumál minnihlutahópa (A 1150/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórn Svíþjóðar:
     að hún undirriti sáttmála Evrópuráðsins um staðbundin tungumál og tungumál minnihlutahópa og tryggi meðal annars finnskri tungu stöðu minnihlutatungumáls.

Nr. 20/1997.


Aukin samvinna í sjónvarpsmálum (A 1138/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
     að þær veiti fé til að styrkja víðtækari norræna samvinnu á sviði sjónvarps í því skyni að gera þjóðunum kleift að horfa á sjónvarp nágrannaþjóða og auki verulega stuðning við sameiginlega norræna framleiðslu efnis,
     að þær með tengslum sínum við ríkisreknar sjónvarpsstöðvar og norræna dreifingaraðila og sjónvarpsstöðvar styðji við framtak í að finna sameiginlegar norrænar — eða í hverju landi — tæknilegar lausnir sem nýst geta alls staðar á Norðurlöndum.

Nr. 21/1997.
Ríkisreknar sjónvarpsstöðvar (A 1138/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún sjái til þess að yfirlýsingum menningarmálaráðherranna um ríkisreknar stöðvar 13. júní 1997 verði fylgt eftir.

Tilm. 22/1997.
Fjölmiðlaáætlun Evrópusambandsins, MEDIA III (A 1156/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
     að þær sjái til þess í yfirstandandi viðræðum um mótun MEDIA III-áætlunarinnar að hún nái einnig til sérþarfa fámennra ríkjaog lítilla málsvæða, svo og að áætlunin nái betur til barna og ungmenna en fyrri áætlun.
    

Tilm. 23/1997.
Stuðningsaðgerðir við framleiðslu margmiðlunarefnis (A 1156/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún kanni grundvöll þess að Norðurlönd stofni til stuðningsaðgerða við framleiðslu margmiðlunarefnis þar sem miðað sé við menningargeirann; stuðningsaðgerðir geta verið margþættar og kunna að vera fólgnar í ráðgjöf og upplýsingum til ýmissa aðila bæði um hið norræna og alþjóðlega margmiðlunarsvið.

Nr. 24/1997.


Stuðningur við mótun stefnu í listsköpun til


dreifingar á geisladiski (A 1157/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
     að þær bregðist við þeirri samkeppni á Norðurlöndum sem er ráðandi í útgáfu geisladiska með því að leysa úr læðingi sköpunarþrá og leggi áherslu á innihald slíkra diska með því að auka stuðning við listsköpun, svo og með því að örva ungmenni til list sköpunar.

Nr. 25/1997.
Framleiðsla tölvugeisladiska (A 1157/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún kanni möguleikana á því að norræn almenningsbókasöfn dreifi norrænum tölvugeisladiskum á sömu kjörum og þau dreifa bókum,
     að hún í samráði við menntageirann kanni möguleikana á framleiðslu fræðandi leikja í menntunarskyni,
     að hún hafi áfram frumkvæði að því að framleiða tölvugeisladiska með norrænu efni.

Nr. 26/1997.
Samnorrænt menningarefni á internetinu (A 1158/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún kanni möguleikana á því að koma samnorrænu menningarefni inn á internetið sem byggist á því menningarefni sem er þegar fyrir hendi á menningarneti hvers ríkis, svo og á fenginni reynslu,
     að hún sjái til þess að ráðherranefndin hafi tök á því að koma sér upp virkri heimasíðu.

Nr. 27/1997.
    Listrænar og menningarlegar áherslur á internetinu (A 1158/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
     að þær leggi aukna áherslu á Norðurlönd og norræna menningu með því að ðauka úrval listræns og menningarlegs efnis á internetinu.

Nr. 28/1997.
Frumkvæði á sviði kvikmynda og fjölmiðla (A 1159/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
     að þær efli enn stuðning við framleiðslu kvikmynda á Norðurlöndum í því skyni að auka gæði og eftirspurn eftir slíku efni í nágrannalöndunum,
     að þær leggi aukna áherslu á samframleiðslu norrænna kvikmynda og sjónvarpsmynda,
     að þær stuðli að setningu reglna um dreifingu norræna kvikmynda sem eru ekki framleiddar í hagnaðarskyni þar sem áhersla sé lögð á að bæta skilyrði til sýningar norrænna kvikmynda á stöðum utan höfuðborganna,
     að þær á vettvangi Evrópusambandsins beini athygli að sérstöðu Norðurlanda og móti forsendur sem tryggi að framkvæmdir á vettvangi Evrópu séu einnig aðlagaðar sér þörfum fámennra ríkja og lítilla málsvæða,
     að þær í samstarfi við sjónvarpsstöðvar og kvikmyndaiðnaðinn kanni möguleikana á að stofna til norrænna kvikmyndaverðlauna.

Nr. 29/1997.
Reglur um gagnkvæm kennara- og nemendaskipti milli norrænna kvikmyndastofnana ásamt frumkvæði á vettvangi
norrænna kvikmynda (A 1159/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún kanni möguleikana á því að koma á fót gagnkvæmum kennara- og nemendaskiptum milli norrænna kvikmyndastofnana í því skyni að skiptast á reynslu og þekkingu sem er að finna í hinum einstöku ríkjum og í kvikmyndastofnunum hinna einstöku ríkja á þessu sviði,
     að hún í starfi sínu að þeim verkefnum sem menningarmálaráðherrarnir ákváðu þann 13. júní 1997 að unnið skuli að gefi sérstakan gaum að aðgerðum sem
              tryggja tilvist óháðra norrænna framleiðslufyrirtækja og örva sköpun á sviði kvikmynda,
              stuðla að auknum gæðum í framleiðslu norrænna kvikmynda og fjölmiðlaefnis,
              stuðla að öflugu norrænu samstarfi, m.a. í því skyni að skapa góð skilyrði fyrir framleiðslu norrænna kvikmynda og fjölmiðlaefnis,
              stuðla að því til langframa að ná því markmiði að skapa markað fyrir kvikmyndir sem er stærri en heimamarkaðurinn,
              tryggja að sérstökum forsendum Norðurlanda hvað varðar lítinn markað, fámennar þjóðir og lítil málsvæði verði gert hátt undir höfði í evrópsku tilliti,
              stuðla að lausnum á höfundarréttarmálum á sviði fjölmiðlaefnis, svo og að gera ráðstafanir til þess að draga úr vandamálum sem upp kunna að koma varðandi þróun stafrænna myndmiðla.

Nr. 30/1997.
Starf innan einstakra geira Evrópumála
(A 1149/euro).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
     að hún viðhaldi þeirri venju sem tekin var upp 1997 að senda árlega frá sér áfangaskýrslu um tiltekin málefni á vettvangi Evrópu þannig að tekið sé tillit til framan greindra atriða svo að unnt sé að fjalla um hana á þinginu.

Nr. 31/1997.
    Framkvæmdaáætlun um öryggi matvæla (B 167/euro).

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
     að þær samþykki framkvæmdaáætlun til að fylgja eftir ákvörðunum leiðtogafundarins um öryggi matvæla,
     að þær leggi fyrir Norðurlandaráð þær framkvæmdaáætlanir eða aðrar áætlanir sem samdar verða samkvæmt framkvæmdaáætluninni þar sem tekið sé tillit til athugasemda Norðurlandaráðs.

Nr. 32/1997.
    Öryggi matvæla (A 1155/euro).

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
     þær efli norrænt samstarf um að tryggja öryggi á matvælamarkaðnum með því að stuðla að hertum reglum á þessu svið á vettvangi Evrópusambandsins og Alþjóðavið skiptastofnunarinnar,
     þær auki norrænt samstarf með því að semja reglur um áhættumat á matvælum á vísindalegum grundvelli, þannig að unnt sé að nota slíkar reglur í vísindanefndum Evrópusambandsins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem taka ákvarðanir um löggjöf á í matvælageiranum,
     þær auki fjárframlög til norrænu ráðherranefndarinnar á þessu sviði á komandi árum.


Umsagnir:

Nr. 1/1997.
Skýrsla Ríkisendurskoðunar um starfsemi
norrænu ráðherranefndarinnar 1996 (C 3/k).

    

    Norðurlandaráð beinir þeim athugasemdum til norrænu ráðherranefndarinnar:
     að hún geri nú þegar ráðstafanir til að bæta úr þeim ágöllum í stjórn norræna ráðherranefndarinnar sem Ríkisendurskoðun hefur gagnrýnt og að Norðurlandaráð fái að stað aldri upplýsingar um þær ráðstafanir sem gripið verður til,
     hún geri án tafar ráðstafanir til að bæta úr þeim ágöllum á fjárhagslegri stjórnun og fjárveitingum og að gerðar verði strangari og samræmdari kröfur um fjárhagsleg málefni stofnananna.

Nr. 2/1997.
Skýrsla Norræna menningarsjóðsins, þar með talin
endurskoðunarskýrsla fyrir 1996 (C 5/k).

    Norðurlandaráð beinir þeim athugasemdum til norrænu ráðherranefndarinnar:
     að hún ásamt stjórn sjóðsins grípi til ráðstafana vegna þeirra ágalla sem endurskoðendur hafa vakið athygli á varðandi fjármálastjórn sjóðsins og fari þannig að tilmælum endurskoðenda um aukið eftirlit með fjárveitingum.


Ákvarðanir um innri málefni:

Nr. 1/1997.
NORD-LEX gagnagrunnur (A 1142/p).


    Norðurlandaráð felur forsætisnefndinni:
     að stofna ásamt norrænu ráðherranefndinni sameiginlegan gagnagrunn varðandi það málefni sem fram kemur í þingmannatilllögu A 1142/p.

Nr. 2/1997.
    Þingleg tengsl og samstarf innan Norðurlandaráðs (A 1151/p).

    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til forsætisnefndarinnar:
     að hún fari þess á leit við sendinefndir á fundum ráðsins að þær fylgist vel með framkvæmd ríkisstjórna sinna á tilmælum Norðurlandaráðs,
     að hún haldi áfram að efla þá hefð að bjóða þingmönnum frá hverju ríki og Evrópuþingmönnum til funda ráðsins þegar tilefni gefst til,
     að hún eftir þörfum stofni til umræðuvettvangs í tengslum við hina norrænu heimasíðu á internetinu um norræn pólitísk málefni sem á döfinni eru hverju sinni.

Nr. 3/1997.
    Skýrsla Ríkisendurskoðunar um starfsemi
Norðurlandaráðs 1996     (C 4/k)
.

    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til forsætisnefndarinnar:
     að hún sjái til þess að gripið verði án tafar til aðgerða varðandi þau atriði sem endurskoðendur hafa átalið í starfsemi skrifstofu Norðurlandaráðs.

Nr. 4/1997.
    Aðgerðir í þágu barna á grannsvæðum Norðurlanda (A 1163/när).

    Norðurlandaráð telur:
     að nefndin um málefni grannsvæða eigi að stuðla með viðeigandi hætti að stofnun Ráðs barnanna sem starfi til aldamóta. Ráðið skal hafa góð tengsl við þing ríkjanna, félaga samtök og önnur svið samfélagsins sem varða börn. Markmiðið er að skapa lítinn vettvang þar sem ræða má mál og svæðisbundnar ráðstafanir varðandi aðstæður barna á Norðurlöndum og á grannsvæðum þeirra,
     að nefndin um málefni grannsvæða skuli kanna möguleikana meðal háttsettra stjórnmálamanna, ásamt þingmönnum frá grannsvæðum og fulltrúum Barnahjálparsjóðs Sam einuðu þjóðanna (UNICEF) á að stofna til fundar Eystrasaltsríkja um málefni barna (Baltic Call for Children) í desember 1998 til þess að gera stjórnmálamönnum, fulltrúum stofnana, fulltrúum stjórnvalda og vísindamönnum frá Norðurlöndum og grannsvæðum kleift að hittast í því skyni að koma lífskjörum barna inn á vettvang stjórnmálanna,
     að taka eigi tillit til málefna varðandi réttindi barna í áætlun um styrki handa stjórnmálamönnum.

Nr. 5/1997.
Heimasíða Norðurlandaráðs (A 1158/nord).

    Norðurlandaráð felur forsætisnefndinni:
     að gera ráð fyrir því í starfsemi sinni að hún reki virka heimasíðu.