Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 961 – 175. mál.

    

Framhaldsnefndarálit



um frv. til vopnalaga.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið milli 2. og 3. umræðu og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dómsmálaráðuneytinu, Jón Bjartmarz frá embætti ríkislögreglustjóra og Einar K. Haraldsson frá SKOTVÍS.
    Nefndin leggur til að frumvarpið, eins og það liggur fyrir eftir 2. umræðu, verði samþykkt með minni háttar breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi er þar um að ræða breytingu á 2. mgr. 3. gr. þar sem lagt er til að bætt verði við reglugerðarheimild dómsmálaráðherra. Í ákvæðinu er kveðið á um tæki og efni sem lögin ná ekki til, en reynslan sýnir að nauðsynlegt getur verið að ráðherra hafi heimild til setningar reglna um þessi atriði. Þá eru lagðar til breytingar á 17. gr. frumvarpsins sem miða að því að skýra orðalag grein arinnar. Loks er lögð til breyting á 35. gr. sem lýtur að því að lögreglustjóri hafi ekki heimild til þess að selja skotvopn við leyfissviptingu, þegar ekki eru fyrir hendi skilyrði eignaupptöku, fyrr en að liðnum sex mánuðum frá leyfissviptingu, en almenna reglan er einn mánuður.
    Einnig þykir nefndinni rétt að skýra frekar nokkur ákvæði frumvarpsins. Í fyrsta lagi er áréttað að það er skilningur nefndarinnar að í skilgreiningu á sprengiefni í 4. mgr. 1. gr. felist einnig hvers konar gasefni sem notuð eru sem sprengiefni.
    Í öðru lagi er áréttað að með 9. gr. er lagt til að lögfest verði að þeir sem versla með, flytja inn eða framleiða skotvopn, skotfæri, sprengiefni og skotelda skuli halda færslubækur yfir keypt og seld vopn. Með ákvæðinu er ætlunin að koma reglu á þessi mál þannig að auðveldara verði að rekja uppruna skotvopns og skotfæra. Þannig ættu alltaf að liggja fyrir upplýsingar um magn seldra vopna, skotfæra, skotelda og sprengiefna annars vegar og hins vegar magn þessara vörutegunda á lager hverrar verslunar.
    Varðandi ákvæði 2. mgr. 14. gr. um undanþágu frá ákvæðum laganna um að skotvopn skuli númerað eintaksnúmeri er rétt að taka fram að um er að ræða undanþáguheimild fyrir bændur og dýralækna vegna fjárbyssna sem lýtur aðeins að eintaksnúmeri framleiðanda en ekki að skráningu vopnanna. Þau skulu skráð eins og önnur skotvopn í skotvopnaskrá.
    Þá er rétt að taka fram varðandi breytingu sem nefndin lagði til við 21. gr. fyrir 2. umræðu, og lýtur að umbúðum sem skotvopn skulu vera í við burð þeirra og flutning milli staða, að ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að menn séu með vopn á almannafæri nema í viðeigandi umbúðum.
    Loks vill nefndin benda á að ákvæði 22. gr., um að ekki megi afhenda öðrum skotfæri en þeim sem skráður er fyrir skotvopni sem þau eru ætluð fyrir, er ætlað að tryggja öryggi í meðferð skotvopna og er ákvæðið í samræmi við framkvæmd víða á undanförnum árum.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. mars 1998.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Valgerður Sverrisdóttir.



Jóhanna Sigurðardóttir.




Jón Kristjánsson.



Árni R. Árnason.



Kristján Pálsson.



Bryndís Hlöðversdóttir.



Hjálmar Jónsson.



Guðný Guðbjörnsdóttir.