Ferill 573. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 978 – 573. mál.



Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, fyrir árið 1997.

I. Almennt.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 og hafði það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Umsvif og starfsemi nefndarinnar jukust þegar samningar hófust um Evrópska efnahagssvæðið (EES) árið 1989 og mikilvægi hennar jókst enn þegar EES-samningurinn tók gildi 1. janúar 1994. Fulltrúar úr nefndinni skipa EFTA-hluta hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES. EFTA samanstendur nú af Íslandi, Liechtenstein, Nor egi og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þingmannanefnd EFTA. Þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan EES varð þingmannanefnd EFTA með gildistöku EES-samningsins að formi til tvískipt, þ.e. annars vegar upphaflega nefndin, nú með fjórum fyrrgreindum aðildarríkjum, og hins vegar nefnd ríkjanna þriggja sem mynda EFTA-hluta EES. Nefndirnar funda hins vegar ávallt saman og sitja því Svisslendingar sem áheyrnarfull trúar þegar verið er að taka fyrir málefni sem eingöngu varða EES-hluta nefndarinnar. Sviss á einnig áheyrnaraðild að fundum hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES. Til einföld unar verður hér á eftir talað um fundi þingmannanefndar EFTA þegar við á þótt í raun hafi þá báðar nefndirnar, þ.e. eldri EFTA-nefndin og EES-hluti þingmannanefndar EFTA, setið saman á fundi.
    Þingmannanefnd EFTA heldur fundi nokkrum sinnum á ári. Á milli funda hittist fram kvæmdastjórn þingmannanefndarinnar en hún gerir tillögur að dagskrá og verkefnum nefnd arinnar, auk þess sem hún fjallar um aðkallandi mál. Í framkvæmdastjórn sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-landi, en einungis einn fulltrúi frá hverju ríki hefur atkvæðisrétt á fundum. Í Íslandsdeildinni hefur auk formanns einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmda stjórnarinnar. Þingmannanefnd EFTA hefur einnig samstarf við ríki á Miðjarðarhafssvæðinu og í Mið- og Austur-Evrópu og hefur það aukist á undanförnum árum vegna aukinna við skiptatengsla og samninga EFTA við þessi ríki.
    Í samvinnu við Evrópuþingið vann þingmannanefnd EFTA ötullega að því að í samningn um um EES væri gert ráð fyrir sameiginlegri þingmannanefnd (95. gr. samningsins). Hin sameiginlega þingmannanefnd EES samanstendur nú af 24 þingmönnum, tólf frá Evrópu þinginu og öðrum tólf frá EES-aðildarríkjum EFTA. Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Sameiginleg þingmannanefnd EES á að fylgjast með fram kvæmd og þróun EES-samningsins og gefa álit sitt á EES-málum. Nefndin fundar tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda. Í framkvæmdastjórninni sitja sex full trúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. Formaður Íslands deildarinnar hefur sótt fundi framkvæmdastjórnar sameiginlegu þingmannanefndarinnar. EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um for mennsku í nefndinni milli ára. Þegar í upphafi hafði hin sameiginlega þingmannanefnd EES frumkvæði að því að semja skýrslur um málefni sem hún vill skoða sérstaklega og eru þær skýrslur svo ræddar á fundum nefndarinnar. Fyrir hverja skýrslugerð eru tilnefndir tveir framsögumenn (rapporteurs), einn úr hópi EFTA-þingmanna og annar úr hópi Evrópuþing manna, og leggja þeir jafnframt fram drög að ályktunum. Þær eru bornar undir atkvæði sem og einstakar málsgreinar eða breytingatillögur við þær að því gefnu að a.m.k. fjórðungur bæði þingmanna Evrópuþingsins og fulltrúa EFTA-ríkjanna séu viðstaddir. Einstakar máls greinar eða breytingartillögur eru samþykktar með einföldum meiri hluta en atkvæði tveggja þriðju hluta viðstaddra þarf síðan til að samþykkja ályktunina í heild sinni. Ályktanir sem samþykktar eru á grundvelli þessara skýrslna eru síðan sendar til ráðherraráðs EES sem tek ur þær fyrir á fundum sínum. Með því að taka skipulega fyrir skýrt afmörkuð málefni hefur þingmannanefnd EES þannig möguleika til áhrifa á þróun EES-samningsins.
    
II. Skipan Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.
    Í Íslandsdeildinni áttu sæti á árinu 1997 Vilhjálmur Egilsson, Sjálfstæðisflokki, formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Framsóknarflokki, varaformaður, Árni M. Mathiesen, Sjálf stæðisflokki, Sighvatur Björgvinsson, Alþýðuflokki, og Hjörleifur Guttormsson, Alþýðu bandalagi. Þá átti Kristín Ástgeirsdóttir áheyrn að nefndinni. Guðjón Rúnarsson var ritari Íslandsdeildarinnar fram á mitt ár er Gústaf Adolf Skúlason tók við.
    Fulltrúar Íslandsdeildarinnar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA voru Vil hjálmur Egilsson og Sighvatur Björgvinsson.

III. Starfsemi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 1997.
    Megináherslan í starfi nefndanna beggja undanfarin ár hefur jafnan verið sú að fylgjast sem best með framkvæmd EES-samningsins. Þannig leita nefndirnar upplýsinga frá ráðherra ráði EFTA og EES og embættismönnum stofnana EFTA og Evrópusambandsins (ESB). Nefndirnar fylgdust á árinu grannt með framvindu og niðurstöðum ríkjaráðstefnu ESB, en hið aukna vægi sem niðurstöður hennar fela Evrópuþinginu í lagasetningu innan ESB auka um leið mikilvægi hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES fyrir EES-aðildarríki EFTA, en þar funda þingmenn EFTA-ríkjanna reglulega og fyrst og fremst um EES-samninginn með þingmönnum Evrópuþingsins. Þá fylgdist þingmannanefnd EFTA grannt með framvindu mála í viðræðum um fríverslunarsamninga við þriðju ríki og hélt sérstaka ráðstefnu með samstarfsríkjum EFTA í Bern. Ráðherraráð EFTA lagði ríka áherslu á það á fundum sínum með þingmannanefnd EFTA að nefndin væri virk í slíku samstarfi við þriðju ríki. Þá kom Schengen-vegabréfasamstarfið iðulega til umfjöllunar, sem og áhrif stækkunar ESB á EES, Efnahags- og myntbandalag Evrópu, Alþjóðaviðskiptastofnunin o.fl. Fimm skýrslur voru kynntar á fundum sameiginlegu þingmannanefndarinnar á árinu 1997 og fjölluðu þær um framkvæmd EES-samningsins árið 1996, innri markaðinn í orkumálum, frjálst fjármagns flæði og fjármagnsmarkaði, samræmda evrópska stefnu í samgöngumálum og upplýsinga samfélagið og EES.
    Fulltrúar Íslandsdeildarinnar voru einnig mjög virkir í starfi nefndanna, m.a. átti Íslands deildin tvo framsögumenn af fimm sem EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES tilnefndi út af skýrslum ársins. Þá fór Vilhjálmur Egilsson, formaður Íslandsdeildarinn ar, með formennsku í sameiginlegu þingmannanefndinni á árinu 1997 og var síðla árs kjörinn formaður þingmannanefndar EFTA (beggja nefndanna) fyrir árið 1998. Mun hann því gegna varaformennsku í hinni sameiginlegu þingmannanefnd EES það ár. Loks ber að geta funda sem Íslandsdeildin átti á árinu með fulltrúum þjóðþinga þeirra ríkja sem næst voru í röðinni að taka við forsæti innan ráðherraráðs ESB, en ESB-ríkin skiptast á um formennsku þar til hálfs árs í senn. Íslandsdeildin hefur undanfarin missiri komið á fót þeirri hefð að funda með viðkomandi þingnefndum þeirra ríkja sem næst taka við formennsku í ráðherraráði ESB, verði því við komið í tengslum við fundi þingmannanefndar EFTA. Á slíkum fundum kynnir Íslandsdeildin málefni EFTA og EES og útskýrir hvernig ýmsar ákvarðanir ESB hafa bein og/eða óbein áhrif á EES, jafnframt því að fá upplýsingar um helstu áhersluatriði viðkomandi ríkja í forsæti ráðherraráðs ESB. Þannig fundaði nefndin með Evrópunefnd þings Lúxemborgar í júní og Evrópulaganefnd neðri deildar breska þingsins í desember, en Lúxemborg tók við forsæti í ráðherraráði ESB í júlí og Bretland í ársbyrjun 1998.

     a.      10. fundur framkvæmdastjórnar sameiginlegrar þingmannanefndar EES í Brussel 27. febrúar.
    Fundinn sótti fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, auk Guðjóns Rúnarssonar ritara. Vilhjálmur Egilsson stýrði fundinum, en í varaformennsku sat nýr for maður Evrópuþingsdeildarinnar, Sören Wibe frá Svíþjóð. Rætt var um dagskrá fyrirhugaðs fundar þingmannanefndar EES í Ósló 14. apríl og m.a. ákveðið að hafa kynningu á fram gangi ríkjaráðstefnu ESB á dagskrá fundarins. Einnig var endanleg ákvörðun tekin um skýrsluefni fundarins sem var skýrsla um ársskýrslu EES árið 1996, skýrsla um orkugeirann og skýrsla um frjálst fjármagnsflæði. Einnig var endanlega gengið frá tilnefningu framsögu manna og var m.a. ákveðið að Hjörleifur Guttormsson yrði framsögumaður um orkugeirann fyrir hönd EFTA-ríkjanna. Á fundinum voru einnig gerðar tillögur um fundarefni þarnæsta fundar nefndarinnar 27. og 28. október og var ákveðið til bráðabirgða að þar yrðu ræddar skýrslur um upplýsingasamfélagið annars vegar og hins vegar um samgöngumál.

     b.      9. sameiginlegi fundur framkvæmdastjórna þingmannanefnda EFTA í Brussel 27. febrúar.
    Fundinn sótti fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, auk Guðjóns Rúnarssonar ritara. Fundinum stýrði Peter Vollmer frá Sviss. Rætt var um fund nefndarinnar með ráðherraráðinu í desember 1996 sem menn töldu ekki hafa tekist sem skyldi. Sérstaklega hefði verið slæmt hversu marga ráðherra vantaði. Ákveðið var að ítreka spurningar sem vöknuðu í tengslum við Efnahags- og myntbandalag Evrópu á næsta fundi í Genf í júní. Í umfjöllun um formlega dagskrá þess fundar var ákveðið að taka fyrir tvíhliða fríverslunar samninga EFTA-ríkja við Evrópusambandið annars vegar og þriðju ríki hins vegar og einnig tengslin við Alþjóðaviðskiptastofnunina. Þá var fjallað um dagskrá væntanlegs fundar þing mannanefndar EFTA þann 14. apríl í Ósló. Ákveðið var hafa umfjöllun um Alþjóðavið skiptastofnunina á dagskrá þess fundar. Á fundinum kom fram að fyrirhugaðri heimsókn til Marokkó hefði verið frestað fram til hausts. Upplýst var að viðræður við Kýpur og Möltu um fríverslunarsamninga hefðu algerlega verið lagðar í salt í bili. Þá var ákveðið að hafa kynningu á útkomu ríkjaráðstefnu ESB á dagskrá fundar nefndarinnar í júní. Loks voru rædd fyrstu drög að dagskrá fyrirhugaðrar ráðstefnu í Bern í október með ríkjum sem EFTA hefur gert eða er að vinna að gerð fríverslunarsamninga við.

     c.      8. fundur sameiginlegrar þingmannanefndar EES í Ósló 14. apríl.
    Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson og Hjörleifur Guttormsson, auk Guðjóns Rúnarssonar ritara. Á fundinum var Vilhjálmur Egilsson einróma kjörinn formaður nefndarinnar árið 1997 og Sören Wibe, fulltrúi Evrópuþingsins, varaformaður. N.J. Jonker sendiherra lýsti fyrir hönd EES-ráðsins ánægju með framkvæmd EES-samningsins á árinu 1996 og tók Nikolaus prins af Liechtenstein undir það fyrir hönd EFTA-hluta sameiginlegu EES-nefndar innar. Jonker fór einnig yfir þróun mála á ríkjaráðstefnu ESB. Catherine Day, forseti sam eiginlegu EES-nefndarinnar, lýsti yfir ánægju með að hið nýja kerfi samrunaferlis uppruna reglna í Evrópu, sem tók gildi 1. janúar 1997, hefði verið lögtekið í ESB og EFTA-ríkjunum og flestum þeim löndum Mið- og Austur-Evrópu sem gerðir hafa verið fríverslunarsamningar við. Þá gerði Knut Almestad, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA, grein fyrir ársskýrslu stofnunarinnar. Almennt sagði hann aðildarríkin hafa staðið sig vel í að innleiða EES-reglur í lög gjöf sína og að tveggja stoða kerfi EES-samningsins gengi vel. Á fundinum voru lagðar fram til umfjöllunar þrjár skýrslur, um framkvæmd EES-samningsins 1996, um innri markaðinn í orkumálum, en Hjörleifur Guttormsson var aðalframsögumaður þeirrar skýrslu, og um frjálst fjármagnsflæði og fjármagnsmarkaði. Samþykktar voru ályktanir á grundvelli allra skýrslnanna sem verða sendar til EES-ráðsins og sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í ályktun inni um orkuskýrsluna var m.a. lögð áhersla á umhverfisþáttinn, auknu frjálsræði í orkusölumálum fagnað, EES-ríki hvött til að draga verulega úr orkunotkun sinni og minnka þannig losun óæskilegra lofttegunda út í andrúmsloftið, þrýst á að geymsla og endurvinnsla kjarnaúrgangs valdi sem minnstri hættu fyrir umhverfið og lögð áhersla á að kjarnorka verði ekki viðurkennd sem vistfræðilega forsvaranlegur orkugjafi frekar en og olía og gas.

     d.      11. fundur framkvæmdastjórnar sameiginlegrar þingmannanefndar EES í Ósló 14. apríl.
    Fundinn sat Vilhjálmur Egilsson formaður fyrir hönd Íslandsdeildarinnar, auk Guðjóns Rúnarssonar ritara. Á fundinum var ákveðið að á næsta fundi nefndarinnar í október yrðu lagðar fram skýrslur um upplýsingasamfélagið og stefnumörkun í samgöngumálum. Gunn laugur M. Sigmundsson var tilnefndur annar framsögumanna fyrrnefndu skýrslunnar. Einnig var ákveðið að þar yrði farið yfir útkomu ríkjaráðstefnunnar og áhrif hennar á Evrópska efnahagssvæðið.

     e.      45. fundur þingmannanefndar EFTA og 13. fundur EFTA-hluta þingmannanefndar EES í Ósló 15. apríl.
    Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson og Hjörleifur Guttormsson, auk Guðjóns Rúnarssonar ritara. Á fundinum var rætt um áhrif Efnahags- og myntbandalags Evrópu (EMU) á EFTA-ríkin og þróun mála hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Thorvald Moe og Jan Persson, fulltrúar Noregs í efnahagsnefnd EFTA, gerðu grein fyrir hugsanlegum áhrifum EMU á Noreg. Meginhluti útflutningstekna Noregs, eða um 75%, kemur frá aðildarríkjum ESB. Því væri mikilvægt fyrir hagsmuni Noregs að Evrópumyntin yrði sterk strax í upphafi. Veik Evrópu mynt þýddi meiri sveiflur í atvinnulífinu og skerðingu á samkeppnisstöðu. Lögðu þeir áherslu á mikilvægi þess að ESB tækist að auka frjálsræði á vinnumarkaði ef markmið EMU ættu að nást að fullu, en slíkar aðgerðir mundu setja þrýsting í þessum efnum á Noreg og önnur EFTA-ríki um sambærilegar aðgerðir. Atvinnuleysi í EFTA-ríkjunum væri hins vegar mun minna en í aðildarríkjum ESB.
    Þá fjallaði Atle Leikvoll frá norska utanríkisráðuneytinu um þróun mála hjá Alþjóðavið skiptastofnuninni. Lagði hann áherslu á að svæðisbundnir viðskiptasamningar ættu ekki að standa alþjóðaviðskiptasamningum fyrir þrifum ef rétt væri staðið að málum. EFTA væri dæmi um samtök ríkja sem hefðu náð að tvinna þetta vel saman. Þá kom hann inn á ýmis önnur mál sem tekin hefðu verið fyrir á Singapore-ráðstefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Má þar nefna tengsl viðskipta- og umhverfissjónarmiða, en sérstök nefnd hefur starfað innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar til að fjalla um slík mál, tengsl viðskipta og grundvallar vinnustaðla, sem var eitt viðkvæmasta málið í Singapore og neituðu þróunarríkin að ræða það mál á þeim vettvangi, aðgerðaáætlun til aðstoðar við þriðju ríki, hugsanlega aðild Kín verja og Rússa að stofnuninni á næstu árum o.fl.

     f.      10. sameiginlegi fundur framkvæmdastjórna þingmannanefndar EFTA í Ósló 15. apríl.
    Fundinn sátu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður og Hjörleifur Guttormsson, auk Guðjóns Rúnarssonar ritara. Á fundinum var einkum rætt um undirbúning fundar með ráðherraráði EFTA í júní og erfiðleika samfara því að koma á samskiptum við þingið í Marokkó í tengslum við vinnu að gerð fríverslunarsamnings.

     g.      11. sameiginlegi fundur framkvæmdastjórna þingmannanefndar EFTA í Genf 19. júní.
    Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður og Sighvatur Björgvinsson, auk Guðjóns Rúnarssonar ritara. Á fundinum var m.a. fjallað um undirbúning fundar þingmannanefndar EFTA með ráðherraráðinu sem fram fór síðar sama dag, greint frá því að gengið hefði verið frá fríverslunarsamningi við Marokkó sem yrði undirritaður síðar sama dag og fjallað um dagskrá næsta fundar þingmannanefndarinnar í október.

     h.      16. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA í Genf 19. júní.
    Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson varaformaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson, Hjörleifur Gutt ormsson og Kristín Ástgeirsdóttir, sem sótti fundinn sem áheyrnarfulltrúi, auk Guðjóns Rúnarssonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Fundinn sátu af hálfu ráðherraráðs EFTA Jean- Pascal Delamuraz, utanríkisráðherra Sviss, Andrea Willi, utanríkisráðherra Liechtenstein, Björn Tore Godal, utanríkisráðherra Noregs, og Guðmundur Bjarnason, landbúnaðar- og umhverfisráðherra, fyrir hönd utanríkisráðherra Íslands. Rætt var um niðurstöður nýafstað innar ríkjaráðstefnu ESB og áhrif hennar á EES-samninginn, EFTA-ESB tvíhliða málefni, Alþjóðaviðskiptastofnunina, fyrirhugaða ráðstefnu þingmannanefndar EFTA með þriðju ríkjum og Efnahags- og myntbandalag Evrópu. Ráðherrarnir voru sammála um að minna hefði komið út úr ríkjaráðstefnunni en að var stefnt, en þó hefðu verið gerðar ákveðnar breytingar er skiptu EFTA-ríkin verulegu máli, svo sem tilfærsla á hluta Schengen-sam starfsins undir fyrstu stoð ESB og aukin völd Evrópuþingsins. Andrea Willi tók fram að Hollendingar hefðu í krafti forsætis síns innan ráðherraráðs ESB lagt áherslu á að breytingar á eðli Schengen-vegabréfasamstarfsins hefðu ekki áhrif á aukaaðild Íslands og Noregs að samstarfinu. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að í sambandi við inntöku nýrra aðildarríkja í ESB yrði haft náið samstarf við EFTA-ríkin með tilliti til EES-samningsins og fríverslunarsamninga sem EFTA-ríki hafa gert við tilvonandi meðlimi. Ráðherraráðið mun fylgjast grannt með þróun þessara mála. Guðmundur Bjarnason benti á að ein af mikilvægari niðurstöðum ríkjaráðstefnunnar sé innlimun félagsmálasamningsins frá Maastricht í sáttmála ESB. Björn Tore Godal tók undir þetta og taldi af hinu góða að sam bandið væri farið að líta meira til „mjúku málaflokkanna“, svo sem atvinnu- og umhverfis mála. Í umfjöllun um tvíhliða málefni EFTA og ESB kom fram að ráðherraráðið er mjög ánægt með þá niðurstöðu sem náðist í laxadeilu Norðmanna og ESB, ekki síst með tilliti til fordæmisgildi hennar. Þá gerði Jean-Pascal Delamuraz grein fyrir samningaviðræðum milli Sviss og ESB er tekur á sjö sviðum, en um þetta efni vísast í umfjöllun um fund þingmannanefndar EFTA hér á eftir. Í umfjöllun um Alþjóðaviðskiptastofnunina kom fram að EFTA-ríkin væru mjög virk í því samstarfi og hefðu lagt mikið af mörkum í ýsmum mál um. Björn Tore Godal lagði áherslu á mikilvægi þess að nýta stofnunina til að styðja við bakið á þróunarríkjum.

     i.      46. fundur þingmannanefndar EFTA og 14. fundur EFTA-hluta þingmannanefndar EES í Genf 19. júní.
    Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson varaformaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson, Hjörleifur Gutt ormsson og Kristín Ástgeirsdóttir sem sótti fundinn sem áheyrnarfulltrúi, auk Guðjóns Rúnarssonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Á fundinum var fjallað um tvíhliða viðræður Svisslendinga við Evrópusambandið sem nú hafa staðið yfir með hléum í rúm þrjú ár. Svissneski samningamaðurinn Anton Egger gerði grein fyrir gangi viðræðnanna og svaraði spurningum fundarmanna. Fyrirliggjandi drög gera ráð fyrir samningum á sviði samgangna, landbúnaðar, opinberra innkaupa, rannsókna og á fleiri sviðum. Einna helst hefur strandað á þeim ákvæðum er snúa að umferð flutningabifreiða í gegnum Sviss. Gengið er út frá því að samningarnir komi til framkvæmda í þrepum fram til ársins 2005 er aðlögunartíma ljúki. Þannig er t.d. gert ráð fyrir kvóta á fólksflutninga til Sviss á meðan aðlögunartíminn varir. Fjármagnsmarkaðurinn verður ekki hluti af þessum samingum. Ekki er ljóst hvort þetta verð ur einn samningur í sjö hlutum eða sjö samningar. Líklegt að a.m.k. hluti samninganna fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Upphaflega var stefnt að því að ljúka samningum fyrir mitt ár 1997 en ljóst er að það dregst eitthvað fram á árið 1998 a.m.k. Upplýst var á fundinum að samningarnir mundu ekki sjálfkrafa ná til annarra EFTA-ríkja og því mikilvægt að strax og samkomulag næðist yrði farið í viðræður milli Sviss og annarra EFTA-ríkja til að bæta þar úr. Athyglisvert var að heyra ummæli Peters Vollmer, formanns þingmannanefndar EFTA og svissnesku deildarinnar, um að ef framangreindir samningar tækjust væri búið að ryðja úr vegi helstu tæknilegum hindrunum fyrir aðild Sviss að Evrópusambandinu eða að EES-samningnum. Þá fór Aldo Matteucci, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, yfir samskipti EFTA við þriðju ríki, en þennan sama dag var undirritaður fríverslunarsamningur við Marokkó og samstarfssamningar við Jórdaníu og Líbanon. Í tilefni af undirritun fríverslunarsamnings við Marokkó var prófessor Louis Rey, sérstakur ráðgjafi Marokkóstjórnar í efnahagsmálum, fenginn til að gera grein fyrir efnahags- og stjórnmálalegu ástandi í Marokkó. Kom fram hjá honum að efnahagur Marokkó væri í mikilli sókn og erlendar fjárfestingar hefðu stóraukist á undanförnum árum. Landið er t.d. orðið einn stærsti framleiðandi örtölvukubba í heiminum. Matteucci benti á að fríverslunarsamningar EFTA við þriðju ríki hefðu fram til þessa verið við ríki er búa við vestræna menningu. Ljóst er að vegna ólíkrar menningar og uppruna munu samningar við ríki Afríku og Asíu verða flóknari í sniðum og þróunaraðstoð verða einn af útgangspunktunum í þeim samningum. Vægi samningsins við Marokkó er því mikið sem brautryðjandi frekari slíkra samninga.

     j.      Fundur Íslandsdeildarinnar með Evrópunefnd þings Lúxemborgar í Lúxemborg 20. júní.
    Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA hefur sem fyrr segir undanfarin missiri komið á fót þeirri hefð að funda með viðkomandi þingnefndum þeirra ríkja sem næst taka við formennsku í ráðherraráði ESB, verði því við komið í tengslum við fundi þingmannanefndar EFTA. Föstudaginn 20. júní átti Íslandsdeildin fund með Evrópunefnd þings Lúxemborgar, en Lúxemborg tók við forsæti ráðherraráðs ESB 1. júlí 1997. Fundinn sátu af hálfu Íslands deildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson varaformaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson, Hjörleifur Guttormsson og Kristín Ástgeirs dóttir, auk Guðjóns Rúnarssonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Formaður Íslandsdeildarinnar kynnti greinargerð sem lögð var fram í nafni meiri hluta deildarinnar þar sem fram kom af staða íslenskra stjórnmálaflokka til EES-samningsins, ESB og Atlantshafsbandalagsins og gerð grein fyrir tengslum þeirra málefna sem rædd voru á ríkjaráðstefnu ESB við Evrópska efnahagssvæðið og íslenska hagsmuni almennt. Miklar umræður urðu um þær breytingar sem ákveðið hefur verið að gera á Schengen-vegabréfasamstarfinu. Gestgjafarnir töldu ekki eiga að vera vandamál fyrir Ísland og Noreg að taka þátt í því samstarfi áfram. Þá var talsvert rætt um Efnahags- og myntbandalag Evrópu og fyrirhugaða stækkun ESB. Einnig var rætt um atvinnumál, öryggismál, sjávarútvegsstefnu ESB o.fl. Ljóst er að Lúxemborg leggur mikla áherslu á að halda áhrifum sínum innan framkvæmdastjórnar ESB. Þeir voru því ánægðir með að tillögum um fækkun fulltrúa smærri ríkja í framkvæmdastjórninni var slegið á frest fram yfir aldamót. Fundurinn var í heild sinni vel heppnaður og greinilega mikilvægt fyrir Ísland að minna reglulega á sig á þessum vettvangi.

     k.      12. fundur framkvæmdastjórnar sameiginlegrar þingmannanefndar EES í Strassborg 16. september.
    Gunnlaugur M. Sigmundsson varaformaður sat fundinn fyrir hönd Íslandsdeildarinnar, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar ritara. Í fjarveru Vilhjálms Egilssonar, formanns nefndarinn ar, stýrði Sören Wibe, varaformaður nefndarinnar, fundinum. Meginefni fundarins var undir búningur 9. fundar sameiginlegu þingmannanefndarinnar í Brussel, 27. og 28. október. Stað fest voru nöfn framsögumanna fyrir fundinn í Brussel og dagskrá fundarins rædd. Ákveðið var að fá fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB til að gera grein fyrir niðurstöðum ríkjaráðstefnu ESB á fundinum. Loks voru nefndarmenn hvattir til að íhuga hugsanleg skýrsluefni 10. fundar fyrir 9. fundinn í Brussel þar sem teknar verða ákvarðanir um þau. Í því sambandi nefndi Haakon Blankenborg matvælaeftirlit og Gunnlaugur nefndi viðbrögð við breyttri aldursdreifingu samfélagsins með tilliti til skatttekna og útgjalda til heilbrigðis- og félagsmála. Ákveðið var að stefna að því að unnar yrðu tvær skýrslur fyrir fundinn, auk skýrslu um ársskýrsluna.

     l.      12. sameiginlegi fundur framkvæmdastjórna þingmannanefndar EFTA í Strassborg 16. september.
    Gunnlaugur M. Sigmundsson varaformaður sat fundinn fyrir hönd Íslandsdeildarinnar, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar ritara. Helsta umræðuefni fundarins var undirbúningur ráð stefnu þingmannanefndar EFTA með samstarfsríkjum í Bern 30.–31. október. M.a. var ákveðið að fulltrúar Sviss, Noregs og Íslands skiptust á að stýra umræðunum og kom það í hlut Vilhjálms Egilssonar að stýra umræðunni í þriðja hluta ráðstefnunnar þar sem fjallað yrði um viðskipti með landbúnaðarvörur. Miklar umræður urðu um hvort fela ætti fulltrúum svonefndra samstarfsríkja að hefja umræður að framsögum loknum og varð það sjónarmið ofan á, a.m.k. hvað varðaði stækkun ESB og verslun með landbúnaðarvörur. Heimsókn full trúa þingmannanefndarinnar til Marokkó í tilefni af gerð fríverslunarsamnings EFTA-ríkj anna og Marokkó var rædd sérstaklega, en ekki hafði tekist að fá tímasetningu á hana frá þinginu í Marokkó. Loks gerði Haakon Blankenborg stuttlega grein fyrir úrslitum þingkosn inganna í Noregi sem fram fóru daginn áður. Þá þegar var ljóst að nokkrar breytingar mundu verða á Noregsdeild þingmannanefndarinnar þar sem sumir þeirra er þar sátu gáfu ekki kost á sér til endurkjörs og aðrir náðu ekki kjöri.

     m.      47. fundur þingmannanefndar EFTA og 15. fundur EFTA-hluta þingmannanefndar EES í Brussel 27. október.
    Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson varaformaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson, Hjörleifur Gutt ormsson og Kristín Ástgeirsdóttir sem áheyrnarfulltrúi, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Á fundinum var fjallað um skiptingu formennsku á milli aðildar ríkjanna. Undanfarin ár hafa yfirleitt verið tveir formenn þingmannanefndar EFTA samtímis, þ.e. hinnar upprunalega þingmannanefndar EFTA annars vegar og EES-hlutans hins vegar. Þetta er hins vegar sami hópurinn nema hvað Sviss er með áheyrnaraðild að þeirri síðar nefndu þar sem Sviss er ekki aðili að EES. Samþykkt var á fundinum að taka upp kerfi þar sem alla jafna verður einn og sami formaður fyrir þingmannanefnd EFTA, þeirri upprunalegu jafnt sem EES-hlutanum. Samkvæmt þessu kerfi fer Liechtenstein hins vegar aldrei með for mennsku í hinni upprunalegu þingmannanefnd EFTA, en fer einungis með formennsku í EES- hlutanum þegar Sviss fer með formennsku í upprunalegu nefndinni. Fulltrúar Liechtenstein
féllust á þessa tillögu og hún var sem fyrr segir samþykkt. Vilhjálmur Egilsson var kjörinn formaður þingmannanefndar EFTA (beggja hluta) fyrir árið 1998 en ákveðið að formaður norsku landsdeildarinnar færi með varaformennsku. Þegar fundurinn var haldinn var ekki er búið að tilnefna nýja landsdeild frá Noregi að afloknum þingkosningum þar í landi í september og því var kjöri varaformanns frestað til næsta fundar.
    Aldo Matteucci, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, gerði grein fyrir og svaraði spurning um nefndarmanna um nýundirritaðan fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna við Marokkó. Samningurinn nær einkum til iðnvarnings og sjávarafurða en í honum er gert ráð fyrir verulegum aðlögunartíma, einkum fyrir Marokkó. Samningurinn verður væntanlega lagður fyrir þjóðþing aðildarríkja EFTA til staðfestingar vorið 1998. Þá mætti Frank Belfrage sendiherra, fastafulltrúi Svíþjóðar hjá ESB, á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir og svar aði spurningum nefndarmanna um niðurstöður ríkjaráðstefnu sambandsins. Fram kom m.a. að ekki hefði náðst teljanlegur árangur í aðlögun stofnana ESB að fyrirliggjandi stækkun bandalagsins, en að t.d. félagsmálasamningurinn frá Maastricht hefði verið tekinn í stofnsátt mála sambandsins líkt og grundvallarsjónarmiðið um sjálfbæra þróun og áherslan á atvinnu mál. Ýmsir málaflokkar voru fluttir úr milliríkjasamstarfi þriðju stoðar sambandsins (innan ríkis- og lögreglumál) yfir í hina yfirþjóðlegu fyrstu stoð (efnahagsmál og málefni innri markaðarins), sem og Schengen-vegabréfasamstarfið. Ákvarðanir ráðherraráðsins í þessum málaflokkum verða þó teknar samkvæmt samstöðureglu en ekki með meiri hluta. Belfrage sagði niðurstöðuna mjög flókna hvað varðaði Schengen-samstarfið, bæði vegna undanþágna Danmerkur og vegna aukaaðildar Íslands og Noregs að samstarfi sem nú hefði verið fellt undir stofnanir ESB. Skera yrði úr um framhaldið í viðræðum við þessi ríki og erfitt væri að spá fyrir um úrslit þeirra. Þá hefði sameiginleg utanríkis- og öryggismálastefna ESB verið efld lítillega og loks hefði Evrópuþinginu verið falið aukið hlutverk í lagasetningu innan sambandsins. Samkvæmt því þarf í ýmsum málaflokkum samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðsins til þess að ný lög geti tekið gildi. Þetta felur m.a. í sér að einstakar tillögur geta tekið miklum breytingum í meðförum þessara tveggja aðila, en Ísland, Noregur og Liechtenstein munu ekki hafa neina beina leið til áhrifa í því sambandi, líkt og þau geta nú í sérfræðinganefndum framkvæmdastjórnarinnar. Hins vegar eykst til muna mikilvægi góðra samskipta við Evrópuþingið og var það mál manna að hin sameiginlega þingmanna nefnd EES hefði öðlast aukið mikilvægi fyrir EFTA-aðildarríki EES fyrir vikið.

     n.      13. fundur framkvæmdastjórnar sameiginlegrar þingmannanefndar EES í Brussel 27. október.

    Vilhjálmur Egilsson, formaður þingmannanefndar EES, sat ásamt ritara fund fram kvæmdastjórnarinnar fyrir hönd Íslandsdeildarinnar og stýrði fundinum. Á fundinum var ákveðið að mæla með frelsi í fólksflutningum annars vegar og áhrifum stækkunar ESB á EES hins vegar sem skýrsluefnum næsta fundar sameiginlegrar þingmannanefndar EES. Næsti fundur nefndarinnar fer fram í Liechtenstein dagana 25.–26. maí 1998, en framkvæmda stjórnin mun væntanlega funda í mars 1998.

     o.      9. fundur sameiginlegrar þingmannanefndar EES í Brussel 27.–28. október.
    Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson varaformaður, Árni M. Mathiesen og Sighvatur Björgvinsson, Hjörleifur Gutt ormsson og Kristín Ástgeirsdóttir sem áheyrnarfulltrúar, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Kasel sendiherra ávarpaði fundinn fyrir hönd utanríkisráðherra Lúxemborgar, en Lúxemborg var þá í forsæti ráðherraráðs ESB. Einar Bull, sendiherra Noregs hjá ESB, ávarpaði fundinn sem formaður sameiginlegu EES-nefndarinnar og fyrir hönd utanríkisráðherra Noregs sem þá fór með formennsku í ráðherraráði EES. Í máli hans kom m.a. fram að frá hendi nýskipaðrar ríkisstjórnar væri ekki að vænta áherslubreytinga Noregs í málefnum EES. Þá ávarpaði Eva Gerner frá skrifstofu framkvæmdastjórnar ESB fundinn fyrir hönd ESB-hluta sameiginlegu EES-nefndarinnar og Knut Almestad, fram kvæmdastjóri Eftirlitsstofnunar EFTA, fjallaði um framkvæmd EES-samningsins. Loks fjallaði breski Evrópuþingmaðurinn Richard Corbett um niðurstöður ríkjaráðstefnunnar og Amsterdam-sáttmálann. Hann lagði m.a. áherslu á að ESB yrði að semja við Ísland og Noreg um framkvæmd Schengen-vegabréfasamstarfsins og að standa bæri vörð um réttindi þessara ríkja. Þá fjallaði hann um aukin áhrif Evrópuþingsins á löggjöf ESB og sagði Ísland, Noreg og Liechtenstein verða að bregðast við þessari þróun með aukinni áherslu á að kynna Evrópuþinginu afstöðu sína í einstökum málaflokkum. Árni M. Mathiesen benti á að þessi auknu áhrif Evrópuþingsins gætu reynst EFTA-ríkjum EES hagstæð og minnti á að engin ástæða væri fyrir þessi ríki til að vantreysta Evrópuþinginu umfram ráðherraráðið, sem fremur endurspeglaði þrönga hagsmuni einstakra aðildarríkja ESB, og tók Corbett undir það sjónarmið.
    Þá voru teknar til umfjöllunar tvær skýrslur nefndarinnar. Otto Büchel frá Liechtenstein og sænski Evrópuþingmaðurinn Jonas Sjöstedt höfðu framsögu um samræmda evrópska stefnu í samgöngumálum, og Gunnlaugur M. Sigmundsson og hollenska Evrópuþingkonan Johanna L.A. Boogerd-Quaak höfðu framsögu um upplýsingasamfélagið og EES. Skýrslurn ar voru ræddar og ályktað um bæði efni. Þá var sænski Evrópuþingmaðurinn Sören Wibe kjörinn formaður þingmannanefndar EES fyrir árið 1998 og Vilhjálmur Egilsson kjörinn varaformaður. Loks var lögð fram tillaga framkvæmdastjórnar nefndarinnar um skýrsluefni næsta fundar. Wibe lét þess einnig getið að áhrif Amsterdamsáttmálans á EES hefðu komið til umræðu sem skýrsluefni, m.a. áhrif sáttmálans til eflingar mikilvægis þingmannanefndar EES. Hjörleifur Guttormsson lagði til að fjallað yrði um niðurstöðu alþjóðlegra samninga viðræðna sem fram fóru í Kyoto í desember 1998 um takmarkanir á losun gróðurhúsaloftteg unda og áhrif þeirra á EES. Tillaga Hjörleifs var samþykkt og jafnframt var ákveðið að fjalla um áhrif Amsterdamsáttmálans á EES og um frelsi í fólksflutningum. Loks verður að vanda rædd skýrsla um framkvæmd EES-samningsins.

     p.      13. sameiginlegi fundur framkvæmdastjórna þingmannanefndar EFTA í Brussel 28. október.
    Vilhjálmur Egilsson og Sighvatur Björgvinsson sátu ásamt ritara fundinn fyrir hönd Íslandsdeildarinnar. Á fundinum var m.a. fjallað um dagskrá væntanlegs fundar þingmanna nefndarinnar með ráðherraráði EFTA í desember og framsögumenn valdir fyrir fund þing mannanefndar EES í Liechtenstein í maí 1998. Þar mun Sighvatur Björgvinsson hafa fram sögu fyrir hönd EFTA-ríkjanna um skýrslu um frelsi í fólksflutningum.
    
     q.      Ráðstefna þingmannanefndar EFTA með samstarfsríkjum í Bern 30.–31. október.
    Ráðstefnuna sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson varaformaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson, Hjörleifur Guttormsson og Kristín Ástgeirsdóttir, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara deildarinnar. Ráðstefnan bar yfirskriftina „Efnahagslegur samruni og viðskipti í Evrópu og á Miðjarðar hafssvæðinu“. Hana sátu alls um 85 manns, þar af um 25 þingmenn EFTA-ríkjanna og aðrir 25 frá hinum ýmsu samstarfsríkjum EFTA, en EFTA-ríkin höfðu þá undirritað þrettán frí verslunarsamninga og sjö yfirlýsingar um samstarf við ríki í Mið- og Austur-Evrópu og á Miðjarðarhafssvæðinu. Þeir Peter Vollmer, formaður svissnesku landsdeildar þingmannanefndar EFTA, og Jean-Pascal Delamuraz, efnahagsmálaráðherra Sviss, ávörpuðu ráðstefn una og buðu gesti velkomna. Annars fór ráðstefnan þannig fram að fluttar voru framsögur um einstök málefni og í kjölfarið fylgdu umræður þingmanna. Framsögumenn og umræðuefni voru: Kjartan Jóhannsson, framkvæmdastjóri EFTA, sem gaf yfirlit yfir efnahagslegan samruna og viðskipti í Evrópu og á Miðjarðarhafssvæðinu frá sjónarhóli EFTA; Rudolf Ramsauer, sendiherra og fulltrúi svissnesku ríkisstjórnarinnar á sviði viðskiptasamninga, sem fjallaði um samskipti EFTA-ríkja við ríki Mið- og Austur-Evrópu, Eystrasaltsríkin og Miðjarðarhafssvæðið; Øyvind Nordsletten, sendiherra og sérstakur ráðgjafi á skrifstofu forsætisráðherra Noregs, sem fjallaði um ýmsa aðra svæðisbundna samvinnu í Evrópu; Robert Raymond, framkvæmdastjóri Peningastofnunar Evrópu, sem fjallaði um áhrif evró á umheiminn; Cees Wittebrod úr stjórnardeild Van den Broeks, framkvæmdastjóra hjá ESB, sem fjallaði um stækkun ESB í framtíðinni; Xavier Prats Monné úr stjórnardeild Maríns, framkvæmdastjóra hjá ESB, sem fjallaði um rammaáætlun fyrir Evrópu-Miðjarðarhafs svæðið árið 2010; og Þorvaldur Gylfason prófessor sem fjallaði um horfur á auknu við skiptafrelsi með landbúnaðarvörur. Loks fóru fram pallborðsumræður um hlutverk þing mannasamstarfs í fjölþjóðlegu efnahagssamstarfi.

     r.      Fundur Íslandsdeildarinnar með Evrópulaganefnd neðri deildar breska þingsins í London 2. desember.
    Íslandsdeildin hefur sem fyrr segir undanfarin missiri komið á fót þeirri hefð að funda með viðkomandi þingnefndum þeirra ríkja sem næst taka við formennsku í ráðherraráði ESB, verði því við komið í tengslum við fundi þingmannanefndar EFTA. Bretland tók við for mennsku í ráherraráði ESB í ársbyrjun 1998 og 2. desember 1997 fundaði Íslandsdeild þing mannanefndar EFTA með nefndinni. Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson og Hjörleifur Guttormsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Íslandsdeildin lagði fram greinargerð þar sem gerð er grein fyrir áhrifum Amsterdam-sáttmála ESB-ríkja á EES í einstökum málaflokkum, rætt um sjávarútvegsstefnu ESB, Schengen-vegabréfasamstarfið, áhrif stækkunar ESB á EES o.fl. Evrópulaganefnd neðri deildar breska þingsins fer yfir alla lagasetningu ESB og gefur álit sitt og/eða vísar til umræðu í þingsal, heldur uppi eftirliti með störfum framkvæmdarvaldsins á vettvangi ESB, ályktar fyrir fram þegar við á um meðför atkvæða Bretlands í ráðherraráði ESB o.fl.
    Formaður Íslandsdeildarinnar kynnti fyrrnefnda greinargerð og lagði m.a. áherslu á hugsanleg áhrif stækkunar ESB til austurs á fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við við komandi ríki og hvernig stækkun ESB þýddi um leið stækkun EES. Aðspurður sagði Jimmy Hood, formaður nefndarinnar, málefni stækkunar ESB til austurs, Efnahags- og mynt bandalagsins og stöðugleikasáttmálans sem því tengist mundu verða helstu málefnin á dagskrá ESB árið 1998. Þá urðu miklar umræður um afstöðu íslenskra stjórnvalda til aðildar að ESB, sameiginlega fiskveiðistefnu sambandsins, Schengen-vegabréfasamstarfið, aukið vægi Evrópuþingsins með tilkomu Amsterdam-sáttmálans og hugsanleg áhrif Efnahags- og myntbandalagsins á Ísland og Bretland, en Bretland verður utan bandalagsins fyrst um sinn a.m.k. Hood sagðist sjálfur telja að spurningin væri hvort en ekki hvenær Bretland gerðist aðili að Efnahags- og myntbandalaginu. Það yrði dýrt og hefði alls kyns óstöðugleika í för með sér að verða fyrir utan og spáði Hood því að Bretland gerðist aðili að Efnahags- og myntbandalaginu snemma á næsta kjörtímabili. Aðspurður um svonefnt „kvótahoppsmál“ sagði John Vaux, lögfræðilegur ráðgjafi nefndarinnar, þann vanda hafa verið til staðar í um tvo áratugi og að bresk stjórnvöld hefðu gert árangurslausar tilraunir til að leysa hann einhliða með lagasetningu heima fyrir sem Evrópudómstóllinn hefði dæmt ómerka. Á leiðtogafundi ESB í Amsterdam hefði hins vegar náðst óformlegt samkomulag um að bresk stjórnvöld og framkvæmdastjórn ESB reyndu í sameiningu að finna leið til þess að tryggja að skip sem skráð eru í Bretlandi séu jafnframt í raunverulegum tengslum við breskt efna hagslíf. Almennt heppnaðist fundurinn vel og ekki virtist vanþörf á að minna Breta á tilvist EFTA og EES.

     s.      14. sameiginlegi fundur framkvæmdastjórna þingmannanefndar EFTA í Genf 3. desember.
    Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður og Sighvatur Björgvinsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Rætt var um ráð stefnuna sem haldin var í lok október í Bern með samstarfsríkjum EFTA og þótti hún hafa tekist vel. Ákveðið var að stefna að því að halda slíka ráðstefnu annað hvert ár í framtíðinni. Þá var ákveðið að í tengslum við fund þingmannanefndar EFTA í Brussel 13. mars 1998 yrði sérstök kynning á helstu málum sem þá verða í farvatninu í sameiginlegri ákvarðanatöku Evrópuþingsins og ráðherraráðins. Knut Almestad, framkvæmdastjóri Eftirlitsstofnunar EFTA, kynnti drög að fjárlögum stofnunarinnar fyrir árið 1998 þar sem gert er ráð fyrir um 26 millj. kr. hækkun frá fjárlögum þessa árs, einkum vegna tæknimála. Framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar lýsti stuðningi við drögin en lagði áherslu á mikilvægi þess að stofnunin réði ekki eingöngu til sín opinbera starfsmenn aðildarríkjanna heldur jafnframt fólk af almennum vinnumarkaði til þess að útvíkka þekkingarsvið stofnunarinnar og undirstrika um leið sjálfstæði hennar. Loks tók Vilhjálmur Egilsson upp málefni ýmissa aðila í EFTA-aðildarríkjum EES sem telja að framkvæmdastjórn ESB gangi með óréttmætum hætti fram hjá aðilum utan sambandsins þegar kemur að opinberum útboðum á verkefnum tengdum þróunaraðstoð ESB, eða svonefndum PHARE og TACIS verkefnum. Ákveðið var að taka málið upp á fundinum með ráðherraráði EFTA daginn eftir.

     t.      48. fundur þingmannanefndar EFTA og 16. fundur EES-hluta hennar í Genf 3. desember.
    Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson varaformaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson og Hjörleifur Gutt ormsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Guttorm Vik, aðstoðar framkvæmdastjóri EFTA, kynnti skjal sem unnið hefur verið um helstu málefni sem nú eru í farvatninu innan EES og bíða staðfestingar í aðildarríkjunum. Sighvatur Björgvinsson spurði um fjölda sérfræðinganefnda á vettvangi ESB sem undirbúa löggjöf sem snertir EES, og EFTA hefði aðgang að, og hvort EFTA fylgdist með starfi ESB í samræmingu skattlagningar. Vik sagði sérfræðinganefndirnar vera um 300 og að þeim fjölgaði sífellt. Hjörleifur Guttormsson spurði hvort einhverjir annmarkar væru á aðgengi EFTA-ríkjanna að þessu starfi og sagði Vik það í fæstum tilfellum vera. EFTA tæki á einhvern hátt þátt í starfi flestra nefndanna en hins vegar væri erfitt að manna allt það starf. Varðandi spurningu Sighvats Björgvinssonar um skattamálin sagði Vik EFTA fylgjast með þeim málum eftir því sem við ætti, t.d. varðandi samgöngumál. Hjörleifur Guttormsson spurði einnig um aðgang að innleggi EFTA í störf þessara nefnda og sagði Vik þá ákvörðun hafa verið tekna að opna aðgang að öllum formlegum gögnum í því sambandi. Hins vegar sagðist hann ekki geta lofað skemmtilesningu þar sem um væri að ræða erindi sérfræðinga á milli um sérhæfð málefni.
    Ákveðið var að vinna sameiginlega að skjali um helstu ástæður þess þegar hægt gengur að koma EES-löggjöf í gegnum stjórnkerfi EFTA-ríkjanna og verður skjalið rætt á fundi þingmannanefndarinnar í mars 1998. Svissneski þingmaðurinn Peter Bieri greindi frá gangi mála í tvíhliða samningaviðræðum ESB og Sviss um viðskipti, en þær viðræður hafa staðið yfir með hléum í rúm þrjú ár. Í máli Bieris kom fram að frjáls flutningur vinnuafls og umferð flutningabíla í gegnum Sviss væru einu málefnin sem enn hefði ekki náðst samkomulag um í annars mjög víðfeðmum samingaviðræðum sem dragast mundu a.m.k. eitthvað fram á árið 1998. Loks var norski þingmaðurinn Haakon Blankenborg kjörinn varaformaður þingmannanefndarinnar fyrir árið 1998.

u.      17. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA í Genf 4. desember.
    Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson varaformaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson og Hjörleifur Guttormsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Noregur var með formennsku í ráðherraráði EFTA en Knut Vollebæk utanríkisráðherra var staddur í Ottawa vegna undirritunar alþjóðasamnings um bann við notkun og framleiðslu á jarðsprengjum. Í fjarveru Vollebæks stýrði Hilde Frafjord Johnson, ráðherra þróunar- og mannréttindamála, fundinum af hálfu ráðherraráðsins. Á fundinum greindi Johnson frá síðasta fundi EES-ráðsins sem fram fór 25. nóvember, en í niðurstöðum fundarins er framlag sameiginlegrar þingmannanefndar EES í eflingu EES-samstarfsins sérstaklega lofað. Vilhjálmur Egilsson kynnti fyrrnefnt málefni opinberra útboða á vegum ESB og sagði Johnson að ráðherraráðið mundi láta skoða málið og verða í sambandi vegna þess. Amsterdam-sáttmáli ESB-ríkja var ræddur og m.a. aukið vægi Evrópuþingsins. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði ástæðu til að kanna hvort þjóðþingin gætu með einhverju móti komið að starfi þessara u.þ.b. 300 sérfræðinganefnda ESB sem rætt var um hér að framan. Hjörleifur Guttormsson innti ráðherrana eftir fregnum af stöðu Schengen-málsins og sagði Johnson mikilvægt að finna lausn er ekki fórnaði norræna vegabréfasambandinu, en að beðið væri svars frá ESB um viðræður. Halldór tók undir það en bætti við að Ísland gæti ekki samþykkt einhvers konar aðild án þess að koma að ákvarðanatöku, né að vera sett undir lögsögu Evrópudóm stólsins. Aðspurður um fríverslunarsamninga í deiglunni sagði Halldór Ásgrímsson slíka samninga við Kýpur og Túnis vera í undirbúningi og greindi jafnframt frá óformlegum þreifingum um slíka samningsgerð EFTA-ríkjanna við Kanada, en þar virtist vera gagnkvæmur áhugi. Halldór sagðist enn fremur hafa fundið fyrir slíkum áhuga innan MERCOSUR svæðisins og sagði þessi mál verða skoðuð á komandi ári. Í því sambandi benti Vilhjálmur Egilsson á mikilvægi þess að samræma ýmsa staðla milli Evrópu og Norður-Ameríku og nefndi ólík farsímakerfi sem dæmi. Ráðherraráðið fundar næst í Reykjavík dagana 3.–4. júní 1998.

Alþingi, 10. mars 1998.



Vilhjálmur Egilsson,


form.


Gunnlaugur M. Sigmundsson,


varaform.


Árni M. Mathiesen.




Hjörleifur Guttormsson.



Sighvatur Björgvinsson.