Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 996 – 444. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (tölvubrot).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason, skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu, Davíð Þór Björgvinsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Sigurðsson frá Samtökum íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja. Þá hefur nefndinni borist umsögn um málið frá ríkissaksóknara.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga sem miða að því að mæla refsiverða nánar tiltekna háttsemi sem tengist tölvum og notkun þeirra. Meðal helstu nýmæla frumvarpsins eru ákvæði um skemmdarverk á tölvubúnaði, bæði á tölvuvélbúnaði og gagnaberum og á forritum og gögnum. Þá eru í frumvarpinu lýst refsiverð brot sem framin eru með því að nota tölvu og er þar fyrst og fremst um auðgunarbrot að ræða. Einnig eru í frumvarpinu ákvæði um óheimila notkun á tölvum og innbrot í tölvukerfi og loks er í frumvarpinu tekið á eftirgerð tölvubúnaðar, en núgildandi lagaákvæði veita tak markaða refsivernd gagnvart slíkum brotum.
    Tölvubrot ýmiss konar eru nú sífellt meira til umræðu og fagnar nefndin því að lagt hafi verið fram frumvarp þar sem tekið er á slíkum brotum. Jafnframt telur nefndin rétt að benda á að þróun á sviði tölvutækni er ör og því brýnt að fylgjast grannt með umræðu um refsirétt arleg álitaefni á þessu sviði. Hjá viðmælendum nefndarinnar komu fram ábendingar um að sérstaklega þyrfti að huga að brotum þar sem fjarskiptabúnaður er notaður, en mikið tjón getur hlotist af slíkum brotum. Telur nefndin brýnt að hafin verði nú þegar vinna við það að móta ákvæði þar sem tekið verði á þessum málum.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins.
    Guðný Guðbjörnsdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu máls ins.

Alþingi, 17. mars 1998.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Valgerður Sverrisdóttir.



Jóhanna Sigurðardóttir.




Árni R. Árnason.


Kristján Pálsson.


Jón Kristjánsson.



Hjálmar Jónsson.