Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1001 – 347. mál.


Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Hermann Jónasson frá fjármálaráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Skattstofu Suðurlandsumdæmis, Skattstofu Norðurlandsumdæmis eystra, Skattstofu Norðurlandsumdæmis vestra, Skattstofu Vestur-landsumdæmis, Skattstofu Vestfjarðaumdæmis, Skattstofu Reykjanesumdæmis, Skattstofu Austurlandsumdæmis, ríkisskattstjóra, Skattstofu Reykjavíkur og Samtökum iðnaðarins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum um vörugjald. Í fyrsta lagi er lagt til að álagning og eftirlit með vörugjaldsskilum innan lands verði færð frá einstökum skattstjórum til ríkisskattstjóra. Í öðru lagi er lagt til að í lögunum verði skýrt kveðið á um heimild til sölu eða innflutnings á hráefni eða efnivöru án vörugjalds til innlendrar fram leiðslu, hvort sem um gjaldskylda eða ógjaldskylda framleiðsluvöru er að ræða og í þriðja lagi að uppgjörstímabil vörugjalds verði samræmd uppgjörstímabilum virðisaukaskatts og gjalddagar verði þeir sömu og gjalddagar virðisaukaskatts vegna sölu á vöru og þjónustu hér á landi.
    Nefndin ræddi sérstaklega fyrstnefnda atriðið en í ljós hefur komið að nauðsynlegt er að bæta skil á vörugjaldi og tryggja samræmda framkvæmd. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki skyldi færa álagningu og eftirlit með vörugjaldsskilum innan lands frá einstökum skattstjórum til ríkisskattstjóra eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Hins vegar skuli gera ráð fyrir heimild til fjármálaráðherra til að fela einstökum skattstjórum að annast eftirlit, framkvæmd og álagningu vörugjalds í öðrum skattumdæmum. Þá telur nefndin einnig rétt að breyta gjalddögum uppgjörstímabila frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
     1.      Lagðar eru til breytingar á 1.–7. gr. til samræmis við framangreint. Einnig eru lagðar til orðalagsbreytingar á 6. gr.
     2.      Lagt er til að við 9. gr. bætist ákvæði um að tollskrárnúmer 8517.1901 falli brott. Með þessu er lagt til að vörugjald verði fellt niður af rafmyndasímtækjum sem bera nú 25% vörugjald.
     3.      Loks er lagt til að gildistöku verði breytt og miðað verði við 1. júní 1998. Til samræmis eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða.

Alþingi, 18. mars 1998.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.



Valgerður Sverrisdóttir.



Pétur H. Blöndal.



Sólveig Pétursdóttir.




Einar Oddur Kristjánsson.



Sighvatur Björgvinsson.



Steingrímur J. Sigfússon.