Ferill 604. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1057 – 604. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá utanríkisráðuneyti Jóhann Sigurjónsson, frá sjávarútvegsráðuneyti Árna Kolbeinsson og frá forsætisráðuneyti Ólaf Davíðsson. Hólmgeir Jónsson og Sævar Gunnarsson komu frá Sjómannasambandi Íslands og Benedikt Valsson, Guðjón Ármann Einarsson og Guðjón A. Kristjánsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna kom Kristján Ragnarsson, Þórarinn V. Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Arthur Bogason kom frá Landssambandi smábátaeigenda. Frá Verkamannasambandi Íslands komu Kristján Bragason, Snær Karlsson, Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður fiskvinnsludeildar Verka mannasambands Íslands, og Elínbjörg Magnúsdóttir, varaformaður fiskvinnsludeildar. Einar Svansson, Ágúst Elíasson og Arnar Sigmundsson komu frá Samtökum fiskvinnslustöðva. Óskar Þór Karlsson, Sæmundur Hinriksson, Kristján Guðmundsson, Sturla Erlendsson og Jón Steinn Elíasson komu frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar og Helgi Laxdal frá Vélstjóra félagi Íslands. Þá kom á fundinn Þórir Einarsson ríkissáttasemjari.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í breytingunum felst:
     1.      Lagt er til, sbr. 1. tölul. breytingartillagnanna, að breytt verði ákvæðum um veiðiskyldu þannig að hún verði óbreytt frá því sem er í gildandi lögum um stjórn fiskveiða. Á móti er hins vegar lagt til að sett verði inn ákvæði í lögin sem takmarki framsalsheimild eiganda fiskiskips við það að einungis sé heimilt að flytja af fiskiskipi aflamark, umfram aflamark sem flutt er til skips, sem nemur 50% af samanlögðu aflamarki sem fiskiskipi er úthlutað í upphafi fiskveiðiárs á grundvelli aflahlutdeildar þess. Er það mat meiri hlutans að þannig megi ná fram sömu markmiðum og stefnt var að með þeirri tillögu um veiðiskyldu sem er í frumvarpinu. Meiri hlutinn telur að þessi aðferð geri þeim sem við skerðingarnar þurfa að búa auðveldara fyrir.
     2.      Þá er lagt til að bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða sem geri sjávarútvegsráðherra skylt að leggja fyrir Alþingi skýrslu fyrir árslok 1999 þar sem gerð er grein fyrir áhrifum þeirra breytinga sem frumvarpið felur í sér á íslenskan sjávarútveg, sérstaklega hvað varðar stöðu og möguleika einstaklingsútgerðarinnar. Lagt er til að sambærilegu bráðabirgðaákvæði verði einnig bætt við frumvörpin um Kvótaþing og Verðlagsstofu skiptaverðs.
     3.      Að síðustu er lagt til að bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða sem tryggi aðilum heimild til að flytja aflamark milli skipa innan sömu útgerðar ef um kaupleigu eða leigu er að ræða þrátt fyrir sérstök eignarréttarákvæði þeirrar tegundar samninga án þess að þurfa að fara í gegnum Kvótaþingið. Sams konar breyting er lögð til á frumvarpi til laga um Kvótaþing. Sá fyrirvari er þó á slíku að leigusamningur hafi verið gerður fyrir gildistöku laganna. Meiri hlutinn taldi að ákvæði frumvarpsins væru of þröng gagnvart fjármögnunarformi eins og kaupleigu og ekki væri ástæða til að mismuna aðilum á grundvelli þess hvaða fjármögnunarleið þeir hafa kosið í rekstri sínum. Hins vegar munu leigu- og kaupleigusamningar gerðir eftir gildistöku laganna ekki falla undir þetta ákvæði. Vilhjálmur Egilsson og Einar Oddur Kristjánsson telja eðlilegt að ákvæði um leigu og kaupleigu gildi einnig um samninga sem gerðir eru eftir gildistöku laganna og gera fyrirvara þar um.

Alþingi, 27. mars 1998.



Árni R. Árnason,


varaform., frsm.


Vilhjálmur Egilsson,


með fyrirvara.


Hjálmar Árnason.




Guðmundur Hallvarðsson,


með fyrirvara.


Valgerður Sverrisdóttir.



Einar Oddur Kristjánsson,


með fyrirvara.