Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1225 – 445. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni J. Hafstein, Sigurð Helga son og Hörð Lárusson frá menntamálaráðuneyti, Elnu Katrínu Jónsdóttur frá Hinu íslenska kennarafélagi, Þorstein Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, Sigurð Óla Kolbeinsson og Sigurjón Pétursson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólaf Proppé og Auði Torfa dóttur frá Kennaraháskóla Íslands, Sigrúnu Aðalbjarnardóttur og Jón Torfa Jónasson frá Háskóla Íslands og Ingvar Ásmundsson frá Sambandi iðnmenntaskóla.
    Mál þetta var fyrst flutt á 121. löggjafarþingi og þá bárust nefndinni umsagnir frá Sam bandi iðnmenntaskóla, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Skólastjórafélagi Íslands, Skólameistarafélagi Íslands, Kennara háskóla Íslands, Hinu íslenska kennarafélagi og Kennarasambandi Íslands. Málið er nú endurflutt á 122. löggjafarþingi og barst til viðbótar umsögn frá Félagi íslenskra myndlistar kennara.
    Við gerð frumvarpsins var tekið mið af því að frá hausti 1993 hefur verið hægt að stunda kennaranám við Háskólann á Akureyri. Þá var höfð hliðsjón af ákvæðum laga varðandi flutning grunnskóla til sveitarfélaga sem Alþingi samþykkti vorið 1996, svo og sérstökum samþykktum sem gerðar voru af sama tilefni.
    Með frumvarpinu er lögð áhersla á mikilvægi aukinnar fagmenntunar kennara. Þetta kemur fram í 5. gr. þar sem tekið er fram að kennari sem hefur sérhæft sig til kennslu í til tekinni grein skuli hafa forgang að kennslu í grein sinni í 8.–10. bekk grunnskóla og í 15. gr. er miðað við að framhaldsskólakennari kenni þær greinar sem hann er menntaður í. Einnig er tekið fram í 11. gr. að í leyfisbréfi framhaldsskólakennara skuli tilgreina kennslugrein eða sérsvið þeirra samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
    Í 12. gr. frumvarpsins kemur fram að framhaldsskólakennari sem hefur aflað sér fag menntunar verulega umfram það lágmark sem frumvarpið gerir ráð fyrir þurfi í stað 30 eininga að taka 15 einingar í kennslufræði. Lagt er til að sama gildi um kennara í iðn greinum, að uppfylltum vissum skilyrðum, en margir þeirra koma beint úr atvinnulífinu og búa yfir dýrmætri reynslu sem skólakerfinu er nauðsynleg.
    Þá er próf frá Kennaraskóla Íslands nú metið fullnægjandi undirbúningur í kennslufræði fyrir framhaldsskólakennara en til þessa hefur það próf aðeins gefið 15 einingar af 30 sem krafist hefur verið til kennsluréttinda við framhaldsskóla.
    Í 15. gr. frumvarpsins er síðan kveðið á um að skólameistara sé heimilt að ráða sérfræð ing tímabundið til að kenna sérgrein sína þótt viðkomandi hafi ekki öðlast heimild til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari. Hér er um nýmæli að ræða sem gerir skólameisturum kleift að ráða til starfa sérfræðinga sem ekki hafa kennslu sem aðalstarf en þetta getur skipt miklu máli varðandi tengsl atvinnulífs og framhaldsskóla.
    Í 3. gr. frumvarpsins er ákvæði þess efnis að menntamálaráðherra skuli staðfesta leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari samkvæmt umsókn ríkis borgara frá ríki innan evrópska efnahagssvæðisins. Er þetta í samræmi við tilskipun 89/48/EBE sem felld var inn í íslenskt lagakerfi með lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þrátt fyrir þetta ákvæði megi setja skilyrði um íslenskukunnáttu viðkomandi umsækjenda þegar það á við.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að mikilvægt er að tekið sé sérstakt tillit til stjórnunar menntunar við ráðningu stjórnenda, bæði í grunn- og framhaldsskólum.
    Meiri hluti mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Helstu efnisbreytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að felld verði brott úr 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilvísun til úrskurðar matsnefndar skv. 4. gr. sem telja verður óþarfa því skv. 4. gr. á að leita umsagnar matsnefndarinnar ef vafi leikur á hvort umsækjandi uppfylli skilyrði 2. gr. til þess að mega nota starfsheitið grunnskólakennari.
     2.      Lagðar eru til eftirgreindar breytingar á 9. gr.:
       a.      Lögð er til breyting á orðalagi 1. mgr. í samræmi við 6. gr.
       b.      Lögð er til sú breyting á 1. tölul. 1. mgr. að í stað þess að ráða megi stundakennara ef um er að ræða minna en . hluta starfs sé það heimilt ef um er að ræða minna en hálfa stöðu. Að öðrum kosti hefði verið um að ræða þrengingu á núverandi heimild til slíks því að skv. b-lið 2. mgr. 12. gr. núgildandi laga um sama efni má ráða stundakennara ef um er að ræða minna en hálfa stöðu. Meiri hlutinn telur ekki fyrir hendi rök fyrir þeirri þrengingu enda er hún ekki í samræmi við samkomulagið sem gert var milli ríkis og sveitarfélaga vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaga.
       c.      Lögð er til breyting á 2. tölul. 1. mgr. þannig að hægt verði að ráða stundakennara til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga án þess að sú heimild verði bundin við tvo mánuði. Nauðsynlegt getur verið að ráða stundakennara til lengri tíma en tveggja mánaða því að forföll geta auðveldlega varað lengur en þann tíma, sbr. t.d. barns burðarleyfi.
     3.      Lögð er til sú breyting á 10. gr. að ef hvorki skólastjóri né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mæla með ráðningu grunnskólakennara í kennslustarf geti skólastjóri þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. leitað til undanþágunefndar grunnskóla og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan starfsmann.
     4.      Lögð er til sambærileg breyting á 1. mgr. 12. gr. og segir í 1. tölul. hér að framan en því til viðbótar er lögð til sú breyting á 3. mgr. 12. gr. að ráðherra verði falið að setja nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.
     5.      Lagðar eru til eftirgreindar breytingar á 19. gr.:
       a.      Lögð er til orðalagsbreyting á fyrri málslið 1. mgr. þar sem ekki er lengur talað um fasta kennara heldur þá sem ráðnir hafa verið til starfa bæði tímabundið og ótíma bundið, sbr. 16. gr.
       b.      Lögð er til breyting á 2. tölul. 1. mgr. þannig að hægt sé að ráða stundakennara skemur en eina önn. Eðlilegt þykir að ef kennari forfallast geti sá sem ráðinn er í hans stað verið við störf allt til annarloka.
     6.      Á 20. gr. er lögð til sambærileg breyting og greinir í 3. tölul. hér að framan fyrir utan það að hér er um að ræða framhaldsskólakennara.
     7.      Lögð er til sú breyting á 21. gr. sem fjallar um kennslustörf í listgreinum á framhaldsskólastigi að heimilt sé að víkja frá ákvæðum laganna þegar um er að ræða kennslustörf í sérskólum í listum og í sérstökum listnámsdeildum framhaldsskólanna.

Alþingi, 20. apríl 1998.



Sigríður A. Þórðardóttir,

form., frsm.


Hjálmar Árnason.



Arnbjörg Sveinsdóttir.




Tómas Ingi Olrich.



Ólafur Örn Haraldsson.



Árni Johnsen.