Ferill 464. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1241 – 464. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um dánarvottorð o.fl.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur og Ragnhildi Arnljótsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Harald Briem yfirlækni, Svein Magnússon, héraðslækni Reykjaness, Þorvald Karl Helgason og Ragnhildi Benediktsdóttur frá biskupsstofu, Þorstein A. Jónsson fangelsismálastjóra, Skúla Guðmundsson frá Hagstofu Íslands og Gunnlaug Geirsson prófessor í réttarlæknisfræði.
    Umsagnir bárust nefndinni frá dómsmálaráðuneyti, Hagstofu Íslands, héraðslækninum í Reykjaneshéraði, Heilsugæslustöðinni Sólvangi, héraðslækninum í Reykjavík, héraðslæknin um í Suðurlandshéraði, Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæmis, Líkkistuvinnustofu Ey vindar Árnasonar og Sjúkrahúsi Reykjavíkur, öldrunardeild. Umsagnir voru almennt mjög jákvæðar.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á ákvæðum laga um dánarvottorð. Leitast er við að setja skýrar reglur um hvernig bregðast skuli við þegar andlát ber að. Lagt er til að sameinuð verði löggjöf um dánarvottorð og um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum. Við endurskoðunina var meðal annars horft til löggjafar á þessu sviði annars staðar á Norðurlöndum. Frumvarpið tekur ekki til þeirra einstaklinga sem hafa horfið en um þá gilda lög um horfna menn, nr. 44/1981. Eðli málsins samkvæmt verða ekki gefin út dánar vottorð vegna horfinna manna.
    Nefndin vill taka fram nokkur atriði í tengslum við frumvarpið. Í fyrsta lagi þarf að setja skýrar reglur um það hver sé viðkomandi héraðslæknir skv. 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Þau tilvik geta komið upp að um er að ræða héraðslækni þar sem viðkomandi á lögheimili, t.d. ef andlát á sér stað í heimahúsi. Í öðrum tilfellum getur verið um að ræða héraðslækni þess héraðs þar sem sjúkraflutningi lýkur. Nefna má í því sambandi að sú vinnuregla hefur verið viðhöfð að læknar í neyðarbílnum í Reykjavík kalla til héraðslækninn í Reykjavík til að stað festa andlát, takist lífgunartilraunir ekki, þó að um sé að ræða sjúkling úr öðrum læknis héruðum en Reykjavík. Í öðru lagi er gerð athugasemd við orðalag greinargerðar um sam þykki nánustu venslamanna skv. 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Þegar ekki reynist unnt að ná til venslamanns eða þeir reynast engir segir í greinargerðinni að nægilegt sé að afla sam þykkis þeirra sem annast útför hins látna. Nefndin vill koma á framfæri þeim skilningi sínum að hér geti ekki verið um að ræða ríki eða sveitarfélög þegar þeir aðilar þurfa lögum sam kvæmt eða af öðrum ástæðum að sjá um útför hins látna. Með orðalagi greinargerðarinnar er átt við nána vini eða kunningja sem taka að sér að sjá um útförina hvort sem viðkomandi kostar hana eða ekki. Í þriðja lagi er bent á að með orðunum „eða á öðrum áþekkum stað“ í 4. tölul. 3. gr. frumvarpsins er átt við staði þar sem viðkomandi dvelst á grundvelli vald boðs stjórnvalda. Í fjórða lagi vill nefndin taka fram að sá sem annast útförina í skilningi 10. gr. sé fyrst og fremst sá prestur sem jarðsyngur. Í þeim tilvikum þar sem prestur jarðsyngur ekki er átt við þann aðila sem stjórnar útförinni. Að lokum vill nefndin taka fram að með frumvarpinu sé ekki ætlunin að fækka réttarkrufningum hér á landi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að bætt verði við 1. mgr. 5. gr. tilvísun til laga um brottnám líffæra. Með því er áréttað að ákvæði laga um dánarvottorð gilda ekki þegar um er að ræða líffæragjöf. Þá er lagt til að bætt verði við 5. gr. tveimur nýjum málsgreinum, í stað núverandi 2. mgr. frumvarpsins, sem eru efnislega samhljóða 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 16/1991, um brottnám líffæra og krufningar, en lagt er til samhliða þessu að felldur verði brott úr þeim lögum kaflinn um krufningar. Gert er ráð fyrir að ákvæði málsgreinanna verði túlkuð með sama hætti og verið hefur. Samhliða þessu er lagt til að ákvæði núverandi 2. mgr. falli brott. Nefndin telur ákvæðið ekki þjóna neinum tilgangi.
     2.      Lögð er til breyting á 6. gr. Þar er ekki um að ræða efnislega breytingu heldur breytta uppsetningu á ákvæðinu.
     3.      Á 9. gr. er lögð til sú breyting að í stað orðsins „líkinu“ komi „viðkomandi“ því ef ekki er unnt að staðfesta andlát er vart um lík að ræða. Einnig er lagt til að 2. mgr. greinar innar verði felld brott. Við meðferð málsins var upplýst að oft drægist að gefa út dánar vottorð þrátt fyrir að búið væri að staðfesta dauðaskilmerki. Lík væru því jafnan lögð í kistu áður en dánarvottorð væri gefið út, meðal annars þegar þau væru flutt á milli staða. Nefndin telur nægjanlegt að staðfest séu dauðaskilmerki áður en lík sé lagt í kistu og því þjóni 2. mgr. engum tilgangi.
     4.      Lagt er til að gildistöku laganna verði frestað til 1. janúar 1999 til þess að meiri tími gefist til undirbúnings og kynningar.
     5.      Lagt er til að við 17. gr. bætist nýr töluliður um breytingar á lögum um brottnám líffæra og krufningar. Lagt er til að II. kafli laganna, um krufningar, verði felldur brott og að heiti laganna verði í samræmi við það breytt í lög um brottnám líffæra. Þau lög fjalla einungis um brottnám líffæra ef breytingin nær fram að ganga.
     6.      Þá er lagt til að nafni frumvarpsins verði breytt þannig að heiti laganna gefi til kynna að lögin taki til krufninga nái frumvarpið fram að ganga.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. apríl 1998.



Össur Skarphéðinsson,


form., frsm.


Jón Kristjánsson.



Ásta R. Jóhannesdóttir.



                   

Guðni Ágústsson.


Guðmundur Hallvarðsson.


Svavar Gestsson.



Sólveig Pétursdóttir.



Sigríður A. Þórðardóttir.