Ferill 642. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1335 – 642. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Frá 1. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Það er skoðun 1. minni hluta sjávarútvegsnefndar að frumvarp þetta sé vanhugsað og ótækt til afgreiðslu í óbreyttu formi. Í flestum umsögnum sem bárust nefndinni kemur ýmist fram hörð andstaða við frumvarpið sem slíkt eða lagt er til að því sé breytt verulega. Sama má segja um þau sjónarmið sem komu fram hjá gestum nefndarinnar. Fjölmargir sjómenn, útgerðarmenn og forsvarsmenn vinnslustöðva í landi hafa einnig haft samband við undir ritaðan og án undantekninga lýst harðri andstöðu við frumvarpið í óbreyttri mynd.

1.

    Fyrsta spurningin sem vaknar er sú hvort ástæða sé til að breyta nýlega settum lögum sem gilda um veiðar á úthafinu og um veiðar á íslenskum deilistofnum að svo miklu leyti sem lög um stjórn fiskveiða taka ekki til slíkra veiða. Deilistofnar eru sem kunnugt er þeir stofnar sem eru hluta ársins innan íslensku efnahagslögsögunnar en hluta ársins á úthöfunum eða í lögsögum annarra ríkja. Norsk-íslenski síldarstofninn er óumdeilanlega deilistofn, a.m.k. ef litið er til náttúrlegrar hegðunar hans og göngumynsturs eins og það er í sögulegu ljósi.
    Lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða úthafsveiðilögin eins og þau eru gjarnan nefnd eru frá árinu 1996. Þau eru því nýleg og sterk rök hlýtur að þurfa til að gjörbreyta þeirri stefnu sem þar var mörkuð um veiðistjórn á úthafinu og á deilistofnum. Úthafsveiði lögin voru sett að undangengnu miklu nefndarstarfi þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka áttu aðild að málum. Þótt ekki næðist samstaða um einstök efnisatriði varð að lokum þokka leg samstaða um þann breiða lagaramma sem í frumvarpinu fólst eins og gengið var frá því af hálfu nefndarinnar en það var síðan lagt fram á Alþingi óbreytt.
    Þetta frumvarp sem nú er flutt af ríkisstjórninni boðar í raun kúvendingu í meðferð mála hvað varðar norsk-íslensku síldina enda gengur 1. gr. frumvarpsins út á að færa norsk-íslenska síldarstofninn og veiðistjórn á honum undan ákvæðum úthafsveiðilaganna. Rétt er að fram komi að mikið hringl hefur verið í stjórn veiða á norsk-íslenska síldarstofninum og hefur nánast á hverju ári frá því að veiðar hófust árið 1994 verið breytt um kerfi.
    Veiðar íslenskra skipa á norsk-íslensku síldinni hófust á nýjan leik á árinu 1994 og var fyrstu síldinni landað eftir 27 ára hlé snemmsumars það ár. Veiðar voru þá frjálsar og íslensk skip fóru til veiða og sóttu síldina aðallega í suðvesturhorn síldarsmugunnar svokölluðu á mörkunum milli íslensku efnahagslögsögunnar og úthafssvæðisins norðaustur af íslensku og færeysku lögsögunni. Veiðin var einnig á frjálsum grunni árið 1995 og náðist þá umtalsverð veiði í færeysku og íslensku lögsögunni og á alþjóðahafsvæðinu þar fyrir norðaustan. Íslend ingar og Færeyingar höfðu með sér samstarf um veiðarnar. Árið 1996 næst fjórhliða samn ingur milli Noregs, Rússlands, Íslands og Færeyja um fiskveiðistjórnun og koma þá í Íslands hlut u.þ.b. 18% af veiðinni. Þeir samningar voru harðlega gagnrýndir af fulltrúum stjórnar andstöðunnar á þingi og bent á og varað við því að þetta lága hlutfall í upphafssamningum mundi festast í sessi og valda því að erfitt yrði fyrir Íslendinga að auka sinn hlut.
    Ein rökin sem færð voru fyrir þessari samningagerð af hálfu ríkisstjórnar voru að nauðsynlegt væri að semja um nýtinguna til þess að síðar væri unnt að úthluta veiðiheimildum og auka líkurnar á að einhver hluti af veiðinni nýttist til manneldisvinnslu. Í framhaldi af þessu voru búnar til flóknar formúlur um úthlutun á nótaskip og síðan tekinn frá pottur fyrir togara og vinnsluskip sem vildu spreyta sig á að veiða og eða vinna hluta úr stofninum. Niðurstaðan af því öllu saman varð sú að sáralítið náðist í manneldisvinnslu, fyrst og fremst sökum þess að síldin var ekki og er yfirleitt ekki í vinnsluhæfu ástandi á þessum árstíma, full af átu og að fita sig. Einnig kom á daginn að togarar og minni bátar höfðu mjög litla möguleika til að stunda veiðarnar, náðu hverfandi árangri. Þegar upp var staðið voru það fyrst og fremst stóru, öflugu og sérhæfðu nótaveiðiskipin sem náðu þarna árangri. Á vertíðinni 1997, þ.e. á síðustu vertíð, var enn breytt um kerfi og nú var ákveðið að hafa sóknina frjálsa eða svo nefndar ólympískar veiðar sem síðan var stýrt í lokin á vertíðinni til þess að ekki yrði veitt fram yfir heildarkvótann. Þrátt fyrir þetta tókst nú ekki betur til en svo að nokkuð vantaði upp á að heildarkvóti sem kom í Íslands hlut kláraðist. Svo mikið þurfti til af hálfu stjórn valda til að stýra veiðunum að gefnar voru út þrjár reglugerðir og einni þeirra, þ.e. aðal reglugerðinni, nr. 190/1997, var auk þess breytt fjórum sinnum. Alls þurfti því sjö reglugerð ir eða reglugerðarbreytingar til að stýra veiðum á þessari stuttu vertíð.
    Veiðin byggðist á samkomulagi sömu fjögurra aðila og árið áður um veiðistjórnina auk þess sem Evrópusambandið kom nú sem aðili að samningunum og fékk nokkuð í sinn hlut sem leiddi til þess að hin lága upphafsprósenta Íslands frá samningunum 1996 lækkaði enn.
     Spurningin er því sú, eins og áður sagði, hvort ástæða sé til að breyta þeirri ákvörðun sem tekin var fyrir síðustu vertíð, að láta veiðarnar vera frjálsar og hvort ástæða sé til þess að breyta lögunum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands sem gilda um þessar veiðar.

2.

    Rökin fyrir því að gera þurfi breytingar á úthafsveiðilögunum nú eru í fyrsta lagi þau að nauðsynlegt sé að eyða allri óvissu um að veiðarnar megi vera frjálsar. Það sjónarmið hefur komið fram að þegar liggi fyrir fullnægjandi veiðireynsla til að beita þeim ákvæðum laganna sem kveða á um að sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr deilistofni sem samfelld veiðireynsla sé á skuli úthlutað aflahlutdeild á einstök skip. Nota skuli veiðireynslu þeirra og þá miða við þrjú bestu veiðitímabil á undangengnum sex veiðitímabilum. Í þessu sama ákvæði er veiðireynsla skilgreind þannig að hún teljist samfelld hafi ársafli íslenskra skipa úr viðkomandi stofni a.m.k. þrisvar sinnum á undangengnum sex árum svarað til a.m.k. þriðj ungs þess heildarafla sem er til ráðstöfunar af hálfu íslenskra stjórnvalda. Síðara skilyrðinu er óumdeilanlega fullnægt hvað varðar norsk-íslensku síldina því að öll árin 1995,1996 og 1997 hafa Íslendingar náð meira en þriðjungi af þeim kvóta sem þeir hafa samið um við aðra og/eða einhliða sett sér eins og Íslendingar og Færeyingar gerðu sameiginlega árið 1995. Deila má um hvort fyrra skilyrðinu þ.e. að um sé að ræða veiðireynslu þriggja bestu áranna af undangengnum sex árum, þurfi einnig að vera fullnægt í þeim skilningi að alltaf verði að liggja fyrir sex ára tímabil en ekki er að mínu mati ljóst hvernig túlka bæri ákvæði laganna að þessu leyti. Þá er enn fremur deilt um hvort úthlutun, stýrðar veiðar eins og voru á árinu 1996, geti talist fullnægjandi sem viðmiðun fyrir veiðireynslu. Bent er á að með því að sumir nái sínum veiðiheimildum en aðrir ekki myndist tiltekin veiðireynsla. Það komi á daginn hverjir hafi getuna til að veiða það sem þeim er úthlutað og hverjir ekki. Þar með sé í raun réttlætanlegt að taka einnig viðmiðun af ári eins og árinu 1996.
    Það ríkir því nokkur óvissa um hver áhrifin yrðu af því ef engin breyting yrði gerð á lögunum og þau giltu áfram óbreytt. Með öðrum orðum er spurningin um það hvort útgerðar menn þeirra skipa sem stundað hafa veiðar öll þessi ár og hafa þar af leiðandi fullnægt skil yrðunum um veiðireynslu ættu beinlínis kröfu til þess eða rétt á því að þeim væri úthlutað aflahlutdeild í samræmi við 2. málsgr. 5. gr. laganna.
    Því má nefna sem rök fyrir breytingunum að eytt verði þeirri réttaróvissu sem ríkir að þessu leyti eða skýrð ákvæði laganna á hvern veg sem það er svo gert.
    Einnig eru færð fram þau sjónarmið að ekki sé tímabært að úthluta varanlega veiði heimildum þar sem búast megi við því að göngumynstur síldarinnar breytist á komandi árum. Ef svo fer, sem við Íslendingar bindum auðvitað vonir við, að síldin fari að ganga meira inn í íslensku efnahagslögsöguna, jafnvel upp að landinu eins og hún gerði hér um áratuga bil áður en hún hvarf, gæti stærri hluti flotans komið inn í veiðarnar og minni bátar átt mögu leika á því að verða aftur þátttakendur í veiðunum. Þetta er út af fyrir sig sjónarmið þó að engar viðmiðanir liggi reyndar fyrir um það hvenær mætti telja að náttúrulegt göngumynstur stofnsins væri tilkomið á nýjan leik. Auk þess er síldin dyntótt skepna og hegðun hennar óregluleg og var hún og er sífellt að breytast.
    Enn má segja að það geti verið rök að ástæða sé til þess að viðmiðunartímabilið í frjálsum veiðum sé lengra en orðið er. Ótvírætt sé fullnægt þeim skilyrðum laganna að frjálsar veiðar hafi staðið í sex ár og síðan séu tekin þrjú bestu árin fyrir hvert skip á slíku sex ára tímabili. Yrði þetta niðurstaðan gætu menn komið með rök fyrir því að rétt væri að henda út viðmiðun ársins 1996 en nota mætti þá árin 1995 og síðan 1997, 1998 o.s.frv.
    Að lokum má nefna að ýmis sjónarmið hafa komið fram um það að rétt væri að beita í grundvallaratriðum öðrum aðferðum við úthlutun veiðiréttinda í þennan stofn, þ.e. að bjóða ætti upp veiðiheimildirnar eða selja þær á einhvern hátt og er það að sjálfsögðu pólitískt ákvörðunaratriði hvort menn vilja fara út á þá braut.

3.

    Ef fara á út í að gera breytingar á úthafsveiðilögunum á annað borð er, í ljósi þess sem að framan er sagt um þá óvissu sem kann að fylgja því að láta lögin gilda óbreytt, lang einfaldasta aðgerðin að gera minni háttar breytingu sem taki af allan vafa um að heimilt sé að hafa veiðarnar frjálsar enn um sinn. Ekki beri að nota að svo stöddu ákvæði 2. mgr. 5. gr. um varanlega úthlutun.
    Þingmenn þekkja vel til svonefndra þrátt-fyrir- ákvæða, sem alsiða var að setja t.d. inn í lánsfjárlagafrumvörp undangenginna ára, sem kveða einfaldlega á um að þrátt fyrir tiltekin ákvæði sérlaga skuli þetta eða hitt gilda á næsta ári eða tilteknu tímabili. Þannig mætti ein faldlega segja að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5.gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands skuli veiðar vera frjálsar á næsta ári eða næstu 2–3 árum ef svo ber undir. Síðan mætti setja nánari ákvæði um málsmeðferðina. Fyrsti minni hluti hallast að því að þetta sé skynsam legasta ráðstöfunin í ljósi allra aðstæðna. Rökin eru fyrst og fremst þau að með þessu er með einföldum hætti eytt allri óvissu um það hvernig fiskveiðistjórnunin skuli vera á næstu vertíð og jafnvel næstu 2–3 vertíðum. Færa má fyrir því rök að heppilegra geti verið að láta áfram myndast veiðireynslu um 2–3 ára skeið í frjálsri sókn, sbr. það sem áður var sagt um það mál. En veigamesta röksemdin er þó að mati 1. minni hluta sú að með því að hafa frjálsa sókn, og hvetja til kraftmikillar sóknar með ólympískum veiðum fæst besta tryggingin fyrir því að Íslendingar nýti til fulls sinn kvóta, þá hlutdeild sem þeir hafa samið um. Það tókst ekki eins og áður sagði í fyrra og lítill vafi leikur á að sú úthlutun sem frumvarpið gerir ráð fyrir felur í sér stórfellda hættu á því að umtalsverðar veiðiheimildir falli dauðar.
    Í öðru lagi þarf ekki að fara í grafgötur um hversu fagnandi Norðmenn munu taka því ef Íslendingar ná ár eftir ár ekki að nýta sinn hlut til fulls og augljóst er að það veikir samnings stöðu okkar í samskiptum við þá aðila sem aðallega er við að glíma í samningum um nýtingu á þessum stofni.
    Í þriðja lagi má segja að erfitt sé að finna sanngjarnari aðferð, á fyrstu árum veiða úr nýj um stofni eða stofni sem er að koma inn í veiðar á nýjan leik, en þá að láta reynsluna sýna svart á hvítu hvaða skip hafa veiðigetu og hvaða skip ekki, mynda þannig smátt og smátt reynslugrundvöll til þess að byggja á við framtíðarskipulag veiðanna. Einnig er ljóst að þessi tilhögun er sú sem þegar eru fordæmi fyrir. Öll málsmeðferð varðandi sókn í rækju á Flæmingjagrunni og úthafskarfa á Reykjaneshrygg sem síðar varð grundvöllur úthlutunar veiðiréttinda á þeim slóðum var byggð á slíkum leikreglum. Sókn í þorsk í Smuguna í Barentshafi hefur verið frjáls og enginn vafi á því að það sem ýtt hefur undir sóknina þangað var sú trú manna að þeir væru að skapa sér þar veiðireynslu.

4.

    Verði niðurstaðan að setja sérákvæði um úthlutun veiðiheimilda á afmörkuðu 2–3 ára tímabili má kalla það einhvers konar biðleik í stöðunni. Þá er fráleitt að gera það öðruvísi en þannig að veiðireynsla undangenginna ára vegi a.m.k. mjög þungt í þeirri reiknireglu sem notuð er til slíkrar úthlutunar. Það að hverfa alveg frá því að láta veiðireynslu gilda að ein hverju leyti við skiptingu veiðiréttindanna nú er grundvallarstefnubreyting og fráhvarf frá þeirri stefnu sem hefur verið byggt á við fiskveiðistjórnun bæði innan íslensku efnahagslög sögunnar og utan. Hér er því á ferðinni kúvending frá þeim leikreglum sem hafa verið að mótast og festast í sessi á undangengnum árum, að veiðireynslan myndi grundvöll til upp skiptingar á nýtingarréttinum. Að sjálfsögðu má hugsa sér mismunandi formúlur í þeim efn um, allt frá því að veiðireynsla undangenginna ára gildi að fullu og yfir í að aðrir hlutir vegi þar eitthvað á móti, þættir eins og gerð og búnaður skipanna, og væri þá eðlilegast að miða við burðargetu og búnað til veiða á uppsjávarfiskum.

5.

    Frumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum er eins og áður sagði vanhugsað og einnig í því margir lausir endar. Þar má nefna í fyrsta lagi sjálfa út hlutunarregluna sem gengur út á að 60% sé úthlutað á grundvelli burðargetu skipanna, þeirra skipa sem einhverja veiðireynslu hafa úr norsk-íslenskri síld frá undangengnum árum, en 40% sé úthlutað jafnt. Þessi regla kemur mjög sérkennilega út í mörgum tilvikum. Eins og áður segir er með því allri eiginlegri veiðireynslu drekkt. Hún skiptir eingöngu máli í því samhengi að ákveða hverjir komist inn í hópinn sem úthlutað er á en gert er ráð fyrir að 90% af veiðiheimildunum sé úthlutað með þessum hætti en 10% tekin frá í sérstakan pott fyrir hugsanlega nýja aðila. Þetta leiðir einnig til þess að úthlutað verður umtalsverðum veiði heimildum svo nemur þúsundum tonna á litla báta og togara sem sáralitlum árangri hafa náð við veiðarnar á undanförnum árum. Þannig má finna dæmi um litla báta sem ýmist sukku eða lögðust á hliðina í fyrstu veiðiferðunum og aðra sem engum árangri náðu sjálfir við veiðar en fengu einhverjar síldarpöddur gefnar á miðunum. Togarar sem náðu samtals nokkrum tug um tonna fá úthlutun í krafti burðargetu sinnar og 40% jafnt á við aðra. Með öðrum orðum er úthlutunin í engu samræmi við veiðigetuna eins og reynslan hefur sýnt hana vera á undan gengnum vertíðum. Þetta skapar síðan augljóslega þau vandkvæði eða þá hættu að stór hluti af þessum veiðiheimildum nýtist ekki af þeim aðilum sem fá þeim úthlutað.
    Framsalsmöguleikar samkvæmt frumvarpinu eru mjög takmarkaðir eða bundnir við 50% af raunverulegri veiði skipanna undanfarin ár og fyrir því eru í sjálfu sér góð og gild rök. Af hinum takmörkuðu framsalsmöguleikum leiðir hins vegar að umtalsverðar veiðiheimildir munu falla dauðar nema þeim verði endurúthlutað. Einasta leiðin sem þá virðist sýnileg til þess að tryggja að sem mest af hinum íslensku veiðiheimildum nýtist er þá að endurúthluta og jafnvel endurendurúthluta frá þeim aðilum sem fá úthlutað umtalsverðum veiðiheimildum sem yfirgnæfandi líkur eru á að séu langt umfram þeirra veiðigetu. Einnig er mjög líklegt að einhverjir af þeim sem kunna að sækja um aðild að 10%-pottinum reynist hafa litla veiðigetu og þar með falli einnig þar veiðiheimildir dauðar.
    Frumvarpið felur engar skilgreiningar í sér hvað það varðar að fyrir tilteknar dagsetningar þurfi menn að hafa hafið veiðar eða nýtt tiltekinn hluta veiðiheimilda sinna sem hugsanlega mætti nota til að styðjast við þegar að endurúthlutun kæmi. Vandséð er á hvaða lagastoð sjávarútvegsráðuneytið ætlar því að byggja til að endurúthluta veiðiheimildum sem ekki hafa verið nýttar. Aðilar geta t.d. varið sig með því að þeir hafi hugsað sér að geyma sínar veiði heimildir til að nota þær síðar og reyna að ná síldinni til manneldis og fyrir slíku gætu vissu lega verið rök.
    Enn má benda á það að frumvarpið felur enga skilgreiningu í sér á því hvað átt sé við með orðinu burðargetu. A.m.k. þrjú hugtök koma þar til greina, þ.e. burðargeta skipanna miðað við stærstu löndun eða stærsta farm, það er burðargeta miðað við lestarrúmmál skipanna og burðargeta samkvæmt skilgreiningu Siglingamálastofnunar miðað við fríborð eða rúmmál undir neðra þilfari. Að sjálfsögðu hefði þurft að skilgreina betur og nákvæmar hvað hér er á ferðinni.
    Það er alveg ljóst að verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það verka mjög letjandi í öðrum hliðstæðum tilvikum að hefja sókn í nýja stofna og leggja í þann kostnað og taka þá áhættu sem því er gjarnan samfara. Gott dæmi er veiðar á kolmunna en mjög mikilvægt er að Íslendingar öðlist sem fyrst sem mesta veiðireynslu í kolmunna. Líklegt er að að því dragi á næstu árum að tekin verði upp fiskveiðistjórn á vegum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiði nefndarinnar, NEAFC, á þeim stofni. Þá mun að sjálfsögðu kröfugerð einstakra ríkja sem liggja að veiðislóð kolmunnans byggjast fyrst og fremst á tvennu eins og úthafsveiðisamning ur Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir, annars vegar á rétti strandríkja, þeirra ríkja sem eiga lögsögur sem stofninn gengur um, og hins vegar á veiðireynslu úr stofninum á undangengnum árum. Með þessari ráðstöfun er að sjálfsögðu öllu sem heitir frumherjabónus eða hvati kastað fyrir róða og þeir aðilar, sem fyrstir lögðu upp til veiða á norsk-íslensku síldinni á árunum 1994 og 1995 og síðar og sýndu fram á að Íslendingar gátu veitt úr þessum stofni, mynduðu þannig grunninn að kröfugerð Íslands í samningum við önnur ríki með veiðum sín um, fá það í engu metið. Það er í ósamræmi við almenn ákvæði úthafsveiðilaganna og það er í ósamræmi við fordæmin frá Reykjaneshrygg og Flæmska hattinum.
    Einnig að þessu leyti er því um kúvendingu að ræða og fráhvarf frá þeirri stefnu að lög gjöfin hvetji til þess að nýir nýtingarmöguleikar séu reyndir af hálfu íslenska flotans. Verður ekki séð að stjórnvöld hafi mikið lært frá því að til stóð að banna sókn íslenskra skipa á út hafið í Smugunni forðum daga.
    Loks er svo óhjákvæmilegt að spyrja sig að því hvort brúttóúthlutun af þessu tagi sé rétt lát eða sanngjörn í einhverju tilliti. Staðreyndin er auðvitað sú að veiðar á uppsjávarfiskum í úthafinu eru sérhæfðar og erfiðar veiðar og engar líkur eru á að þar nái umtalsverðum ár angri nema öflug og vel búin skip og sérhæfð til þeirra veiða. Mikil fjárfesting fylgir því að búa sig vel út til slíkra veiða og aðeins sá hluti flotans sem þegar er vel útbúinn til veiða á uppsjávarfiskum hefur lagt í þá fjárfestingu. Mörg nótaskipanna hafa á undanförnum árum fjárfest í síldarnót til að vera betur í stakk búin til að sinna þessum veiðum en áður. Eitt slíkt veiðarfæri kostar 2–3 tugi milljóna króna. Fiskleitartæki sem yfirleitt eru ekki um borð í öðrum skipum en nótaveiðiskipum en eru bráðnauðsynleg tæki til að ná árangri við þessar veiðar (asdic) kosta a.m.k. 10–15 milljónir króna og þannig mætti áfram telja.
    Varðandi þá röksemdafærslu að úthlutun af þessu tagi auki líkurnar á því að meira af síld inni fari til manneldis verður að segjast eins og er að afar lítið stendur á bak við það í raun og veru. Reynslan frá árinu 1996 bendir ekki til þess og staðreyndin er sú að síldin er ekki í vel vinnsluhæfu ástandi eins og hún er á sig komin á þessum árstíma. Það að geyma sér að veiða hana þangað til síðar er áhættusamt og felur í sér verulega hættu á að Íslendingar nái ekki að nýta sínar veiðiheimildir. Auk þess felur gildandi samningur milli Íslands og Noregs í sér afar takmarkaða möguleika fyrir Íslendinga til að fylgja veiðum eftir inn í norsku lög söguna og auka þannig líkur á að hægt sé að taka úr stofninum þar til manneldis á síðari hluta ársins. Væri markmiðið fyrst og fremst að auka líkurnar á manneldisvinnslu væri nær lagi að heimila frystitogurum og vinnsluskipum að fylgja veiðiflotanum á miðin og kaupa hráefni yfir borðstokk til vinnslu á miðunum ef eitthvað af síld væri að veiðast sem væri í vinnsluhæfu ástandi. Það er að sjálfsögðu æskilegt markmið að ná sem hæstu hlutfalli úr þessum stofni til manneldisvinnslu eftir því sem aðstæður leyfa. Lítill vafi er á því að væn legasta aðferðin í þeim efnum er sú að fyrirtækin hafi stöðugt starfsumhverfi til að byggja á sínar ákvarðanir um nýtingu og fjárfestingar í því sambandi. Hringl með veiðistjórnina ár frá ári og tímabundnar ráðstafanir eru vísasta leiðin til þess að gera stjórnendum fyrirtækj anna ókleift að taka skynsamlegar ákvarðanir eða ráðast í nokkrar fjárfestingar yfir höfuð til þess að auka möguleika á manneldisvinnslu.

6.

    Verði eftir sem áður niðurstaðan að hafa veiðar ekki frjálsar enn um skeið heldur grípa til tímabundinnar úthlutunar er óhjákvæmilegt að mati 1. minni hluta að gera umtalsverðar breytingar á frumvarpinu, fyrst og fremst þær að taka veiðireynslu undangenginna ára inn sem veigamikinn þátt við úthlutunina. Hafa ýmsar hugmyndir verið lagðar fyrir sjávar útvegsnefnd í þeim efnum, svo sem að láta veiðireynslu vega 67 / 100en burðargetu skipanna 33/ 100 Einnig mætti hugsa sér að veiðireynslan væri 75%, burðargetan 25% eða veiðireynslan 75% og jafnt 25% eða einhverja samsetningu af öllu þessu. Sjávarútvegsnefnd hefur fengið slík dæmi og slíka útreikninga, m.a. frá Fiskistofu og Farmanna- og fiskimannasambandinu, og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndaráliti þessu ásamt með umsögnum.
    Fyrsti minni hluti telur eðlilegt að gera einfalda breytingu á úthafsveiðilögunum til þess að eyða réttaróvissu og taka af allan vafa um að veiðar megi verða frjálsar innan marka heildarkvótans á næstu árum. Mun hann leggja fram breytingartillögur við frumvarpið í sam ræmi við það. Annars er óhjákvæmilegt að gera umtalsverðar breytingar á þessu frumvarpi verði það þá afgreitt á annað borð og mun þá 1. minni hluti flytja slíkar breytingartillögur við 3. umræðu. Fyrsti minni hluti er andvígur frumvarpi þessu eins og það liggur fyrir, telur það stórgallað og mun leggja til, fáist ekki fram á því umtalsverðar breytingar, að það verði ekki afgreitt eða fellt.

Alþingi, 30. apríl 1998.




Steingrímur J. Sigfússon.






Eftirfarandi fylgiskjölum er útbýtt með nefndarálitinu:

Fiskistofa: Mögulegar úthlutanir á norsk-íslenskri síld 1998.
Umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna.
Umsögn Vinnumálasambandsins.
Umsögn Sjómannasambands Íslands.
Umsögn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.
Umsögn Vélstjórafélags Íslands.
Umsögn Verkamannasambands Íslands.
Umsögn Þjóðhagsstofnunar.
Umsögn Fiskistofu.
Umsögn Festar hf.