Ferill 619. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1353 – 619. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Hermann Jónasson frá fjármálaráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Samtökum iðnaðarins, Tollvarðafélagi Íslands, ríkistollstjóra, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Verslunarráði Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögfestur verði sem viðauki við tollalög listi sem tilgreinir til teknar vörur á sviði upplýsingatækni sem tollur falli niður af og óheimilt verði að leggja tolla á. Þá eru meðal annars lagðar til breytingar sem kveða á um solidariska ábyrgð flutnings miðlana og farmflytjenda á greiðslu aðflutningsgjalda ásamt innflytjendum, breytingar sem snerta geymsluskyldu gagna og breytingar á ákvæðum um skipun tollvarða.
    Nefndin ræddi sérstaklega ákvæði 7. og 9. gr. um skipun tollvarða. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
1.      Lagt er til að bætt verði við frumvarpið nýrri gein, er verði 5. gr., sem feli í sér viðbót við 18. gr. tollalaga. Þar verði kveðið á um heimild fyrir tollyfirvöld, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. greinarinnar, til að taka við pro forma reikningum eða viðskiptareikningum í stað frumrits eða samrits þegar verðmæti vöru er óverulegt eða hún augljóslega ekki ætluð til sölu hér á landi, til dæmis þegar um persónulega muni er að ræða. Þetta er lagt til þar sem það hefur oft valdið erfiðleikum hjá til dæmis hraðflutningsfyrirtækjum að útvega frumreikninga í slíkum tilvikum.
2.      Lagðar er til breytingar á 5. og 7. gr. með hliðsjón af nýsamþykktum breytingum á lögreglulögum.
3.      Loks er lagðar til tvær breytingar á 9. gr. Annars vegar er lagt til að orðið ótímabundið í 1. málsl. 1. efnismgr. falli brott og hins vegar er lagt til að hver sá sem skipaður er til starfa sem tollvörður skuli hafa lokið prófi frá tollskóla eða hlotið sambærilega menntun.

Alþingi, 27. apríl 1998.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Einar Oddur Kristjánsson.



Sólveig Pétursdóttir.



Valgerður Sverrisdóttir.



Sighvatur Björgvinsson.



Ágúst Einarsson.



Steingrímur J. Sigfússon.



Prentað upp.