Ferill 359. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1426 – 359. mál.



Framhaldsnefndarálit


um frv. til l. um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.


    Minni hluti iðnaðarnefndar flytur fjölmargar breytingartillögur við 3. umræðu um frum varpið. Flestar tillögurnar lúta að því að tengja rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu við stofnanir umhverfisráðuneytisins. Minni hlutinn telur breytingartillögur meiri hlutans að þessu leyti ófullnægjandi þar sem ekki er gert ráð fyrir samstarfi við stofnanirnar heldur við ráðuneytið sjálft sem er óeðlilegt. Það er þó vissulega betra en ekki. Þó er fráleitt að tengja stofnun eins ráðuneytis við annað ráðuneyti eins og gert er ráð fyrir í breytingartillögum meiri hlutans.
    Mikilvægustu breytingartillögur minni hlutans felast í því að lagt er til að takmarka eignarrétt á auðlindum í jörðu við nýtingu sem þekkt er til þessa. Þannig er í raun farin sama leið og í frumvarpi til laga um þjóðlendur. Þá er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að farið verði yfir málið í sérstakri nefnd í sumar svo að unnt verði að skýra takmörkunarákvæði enn frekar í löggjöf á næsta þingi.
    Rökin fyrir tillögum um takmörkun á eignarrétti í jörðu eru þessi:
     1.      Þeim mun dýpra sem kemur ofan í jörðina er fráleitara að miða auðlindanýtingu við eignarhald á yfirborði lands. Ástæðan er meðal annars sú að þá er komið ofan í sam eiginlegar uppsprettur grunnvatns hvort sem það er heitt eða kalt. Sá sem borar ofan í jörðina gæti þar með verið að ganga á eign granna sinna. Takmörkun á eignarrétti í jörðu er því sjálfsögð tillitsemi við rétt nágrannans.
     2.      Tekin hefur verið ákvörðun um það með lögum frá Alþingi að öll auðæfi undir hafsbotninum inn að netlögum séu eign þjóðarinnar. Það er því óeðlilegt að byrja við netlaga mörk nýja eignarviðmiðun á auðlindum í jörðu.
     3.      Þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar er unnt að takmarka eignarréttinn, enda séu fyrir því almenn og málefnaleg rök. Þetta kom skýrt fram á fundi iðnaðarnefndar þar sem mættir voru Sigurður Líndal prófessor og Allan Vagn Magnússon dómari. Þar með er að mati minni hlutans hafnað þeim sjónarmiðum sem iðnaðarráðherra hefur byggt málflutning sinn á, þ.e. að frumvörp stjórnarandstöðunnar séu andstæð stjórnarskrárákvæðunum um verndun einkaeignarréttarins. Slíkt er fjarri öllu lagi.
    Minni hlutinn lagði til við 2. umræðu að málinu yrði frestað og það unnið betur. Sú tillaga var því miður felld, en það væri eðlilegasta málsmeðferðin. Erfitt er að flytja breytingar tillögur við frumvarp sem er í grundvallarmótsögn við afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna en engu að síður reynt. Minni hlutinn tekur fram að þeir þingflokkar sem standa að minni hlut anum munu freista þess strax og þeir fá tækifæri til að breyta þeim ákvæðum frumvarpsins sem fela í sér mesta eignatilfærslu; þar með væri ekki um varanlegt afsal eigna að ræða frá þjóðinni til einstakra landeigenda.
    Guðný Guðbjörnsdóttir hefur tekið þátt í umfjöllun nefnarinnar um málið sem áheyrnar fulltrúi og er hún samþykk nefndaráliti þessu.

Alþingi, 25. maí 1998.


Svavar Gestsson,

frsm.

Gísli S. Einarsson.

Jóhanna Sigurðardóttir.