Dagskrá fundarins

Miðvikudaginn 06. janúar 1999, kl. 13:38:09 (2918)

1999-01-06 13:38:09# 123. lþ. 50.95 fundur 196#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 123. lþ.

[13:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að kveðja mér hljóðs um störf þingsins vegna þeirrar afar sérstöku stöðu sem uppi er í tengslum við boðun þessa þingfundar og upphaf þingstarfa. Það er kannski einfaldast að rökstyðja tilefni þessarar ræðu með því að lesa dagskrá þessa fundar en hún er svohljóðandi eins og forseta er vafalaust kunnugt:

,,Alþingi, miðvikudaginn 6. janúar 1999, kl. 1.30 miðdegis.

Tilkynning forseta um útbýtingu þingskjala.`` Punktur.

Ég leyfi mér að efast um það, herra forseti, að Alþingi hafi áður verið kvatt saman svo óvenjusnemma í janúarmánuði og fyrir því liggi dagskrá af þessu tagi. Ástæðan er kunn. Þegar til á að taka eru viðbrögð við því máli sem hér átti að taka til afgreiðslu alls ekki tilbúin. Stjórnarliðar í sjútvn. hafa ekki verið tilbúnir til efnislegrar umfjöllunar um frv. ríkisstjórnarinnar og þingið er þar af leiðandi augljóslega kvatt saman allt of snemma miðað við þá vinnu sem þar þarf að fara fram. Sjútvn. hefur að vísu lokið því að ræða við þá sem treystu sér til að koma til nefndarinnar með jafnskömmum fyrirvara og raun bar vitni en ekki aðra. Sjútvn. hefur sem slík án viðveru gesta ekki tekið frv. ríkisstjórnarinnar til efnislegrar umfjöllunar enn.

Herra forseti. Mitt mat er að það sé algert lágmark og það hafi komið enn betur í ljós en áður lá fyrir í vinnu sjútvn. að nefndin og síðan þingið fái rúman tíma til að vinna að þessu stóra máli. Ég tel viku til tíu daga í viðbót lágmark og ég vil því spyrja hæstv. forseta: Hefur forseti ekki hugleitt að fresta fundum þingsins á nýjan leik um tiltekinn tíma sem hæfilegur þykir miðað við stöðu málsins? Hvað er fyrirhugað um fundahaldið á næstunni? Um leið vil ég nota tækifærið og mótmæli þessum vinnubrögðum.